Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 31 bls. 190-bls. 193 gr. 1
  • Að sýna öðrum virðingu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að sýna öðrum virðingu
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Líkingar sóttar í þekktar aðstæður
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Nýsitækni
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Sýnum öðrum virðingu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Leggðu þig fram um að sýna virðingu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 31 bls. 190-bls. 193 gr. 1

Námskafli 31

Að sýna öðrum virðingu

Hvað þarftu að gera?

Vertu tillitssamur og sýndu öðrum virðingu.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Kristnir menn eiga að sýna öðrum virðingu. Það skapar ákveðið andrúmsloft sem stuðlar að því að fólk meðtaki þau biblíusannindi sem þú hefur fram að færa.

BIBLÍAN segir okkur að ‚virða alla menn‘ og „lastmæla engum.“ (1. Pét. 2:17; Tít. 3:2) Hver einasti maður, sem við hittum, er ‚skapaður í líkingu Guðs.‘ (Jak. 3:9) Kristur dó fyrir þá alla. (Jóh. 3:16) Allir verðskulda að heyra fagnaðarerindið til að geta tekið við því og bjargast. (2. Pét. 3:9) Og sumum ber sérstök virðing vegna stöðu sinnar eða eiginleika.

Hvers vegna gæti sumum fundist afsakanlegt að sýna ekki þá virðingu sem Biblían hvetur til? Stétt, hörundslitur, kyn, heilsa, aldur, efnahagur eða þjóðfélagsstaða getur haft áhrif á það hver er talinn virðingarverður og hver ekki í ákveðnu menningarsamfélagi. Víðtæk spilling meðal opinberra starfsmanna hefur sums staðar dregið úr virðingu fyrir yfirvöldum. Í sumum löndum þarf almenningur að vinna langan vinnudag til að hafa brýnustu nauðsynjar og er lítill sómi sýndur. Þar eru margir afar óánægðir með hlutskipti sitt. Unglingar sæta þrýstingi frá jafnöldrunum til að gera uppreisn gegn óvinsælum kennurum og öðrum yfirboðurum. Margir eru undir áhrifum sjónvarpsþátta þar sem klárir krakkar ráðskast með foreldra sína. Við megum ekki láta þessi veraldlegu viðhorf draga úr virðingu okkar fyrir öðrum. Þegar við virðum fólk skapar það ákveðið andrúmsloft sem greiðir fyrir gagnkvæmum skoðanaskiptum.

Framkoma. Fólk ætlast til þess að sá sem sinnir trúarlegu starfi sýni virðingu með viðeigandi klæðaburði og framkomu. Það er auðvitað breytilegt frá einum stað til annars hvað talið er viðeigandi. Sums staðar er það talið ókurteisi að taka mann tali með hönd í vasa eða hatt á höfði. Annars staðar er það talið fyllilega við hæfi. Taktu tillit til skoðana fólks þannig að þú hneykslir engan. Þá spillir þú ekki fyrir áhrifum fagnaðarerindisins sem þú boðar.

Svipaða sögu er að segja um það hvernig við ávörpum aðra, einkum roskið fólk. Víða um lönd er það talið ósvífni að börn ávarpi fullorðna með skírnarnafni, nema þau hafi fengið sérstakt leyfi til þess. Sums staðar er líka ætlast til þess að fullorðnir ávarpi ókunnuga með ættarnafni. Og í mörgum tungumálum er gert ráð fyrir því að fólk þéri þá sem eru eldri eða þá sem gegna virðingarstöðum, eða beiti annarri viðurkenndri aðferð til að sýna virðingu.

Kveðjur. Í fámennum samfélögum er þess vænst að maður viðurkenni nærveru annarra sem maður hittir úti á götu eða eru fyrir í sal eða herbergi þegar maður gengur inn. Þá er til siðs að kasta fram kveðju, brosa, kinka kolli eða jafnvel lyfta augnabrúnum. Það er talið ókurteisi að látast ekki sjá aðra.

En sumum finnst þeir hunsaðir jafnvel þótt kveðju sé kastað á þá. Hvernig stendur á því? Þeim finnst ekki horft á sig sem einstaklinga. Það er ekki óalgengt að fólk sé dregið í dilka eftir líkamlegum einkennum. Fatlaðir og sjúklingar eru oft sniðgengnir. En orð Guðs kennir okkur að sýna slíku fólki kærleika og virðingu. (Matt. 8:2, 3) Öll erum við undir einhverjum áhrifum af erfðasyndinni frá Adam. Myndi þér finnast að þér væri sýnd virðing ef þú værir alltaf kenndur við galla þína? Myndirðu ekki frekar vilja láta viðurkenna þig fyrir mannkosti þína?

Virðing er einnig fólgin í því að viðurkenna forystu og forræði annarra. Sums staðar í heiminum þarf að tala við höfuð heimilisins áður en vitnað er fyrir öðrum í fjölskyldunni. Þó að það sé Jehóva sem hefur falið okkur að prédika og kenna viðurkennum við að hann hefur veitt foreldrunum umboð til að ala upp börnin, aga þau og leiðbeina þeim. (Ef. 6:1-4) Þess vegna er yfirleitt viðeigandi að tala við foreldrana áður en farið er út í langar umræður við börnin.

Aldrinum fylgir lífsreynsla sem virða ber. (Job. 32:6, 7) Ung brautryðjandasystir á Srí Lanka hafði það í huga þegar hún bankaði upp á hjá rosknum manni. Hann tók það óstinnt upp í fyrstu og spurði: „Hvernig getur ung stúlka eins og þú frætt mig um Biblíuna?“ Hún svaraði: „Ég kom reyndar ekki til að kenna þér heldur langar mig til að segja þér frá svolitlu sem ég hef lært og mér finnst það svo gleðilegt að ég verð að segja öðrum frá því.“ Hæverskt svar brautryðjandans vakti áhuga mannsins. „Segðu mér þá hvað þú hefur lært,“ sagði hann. „Ég hef lært hvernig hægt er að lifa að eilífu,“ svaraði hún. Roskni maðurinn fór þá að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Roskið fólk kann yfirleitt að meta slíka virðingu þó að það fari ekki alltaf fram á hana.

En virðingin getur farið út í öfgar. Á Kyrrahafseyjum og víðar geta boðberar fengið áheyrn þorps- og ættarhöfðingja og tækifæri til að tala við þegna þeirra ef þeir virða hefðbundna siði og nota þau ávörp sem tíðkast þar. En smjaður er hvorki nauðsynlegt né viðeigandi. (Orðskv. 29:5) Í mörgum tungumálum er boðið upp á beygingaratriði sem sýna virðingu við viðmælanda, en kristinn maður þarf ekki að nota þau í óhófi.

Flutningur. Biblían hvetur okkur til að sýna „hógværð og virðingu“ þegar við færum rök fyrir von okkar. (1. Pét. 3:15, 16) Við gætum kannski afhjúpað snarlega veilurnar í rökfærslu viðmælandans en er viturlegt að gera það þannig að við niðurlægjum hann? Væri ekki betra að hlusta þolinmóð á hann, spyrja ef til vill hvers vegna hann hugsi þannig og taka síðan tillit til skoðana hans þegar við rökræðum við hann út af Ritningunni?

Við ættum að sýna sömu virðingu þegar við ávörpum söfnuðinn af ræðupallinum og við sýnum einum viðmælanda. Fyrirlesari, sem virðir áheyrendur, gagnrýnir þá ekki harkalega eða gefur í skyn með fasi sínu og orðum: „Þið gætuð gert þetta ef þið vilduð.“ Slíkur talsmáti er einungis letjandi fyrir fólk. Það er miklu betra að líta á áheyrendur sem hóp fólks er elskar Jehóva og vill þjóna honum. Við ættum að líkja eftir Jesú og vera skilningsrík í samskiptum við fólk sem kann að vera veikburða í trúnni, óreynt eða gengur hægt að tileinka sér ráðleggingar Biblíunnar.

Áheyrendur skynja virðingu ræðumanns ef hann telur sjálfan sig með þegar hann bendir á að það þurfi að fylgja orði Guðs betur í einhverju máli. Það er því skynsamlegt að nota ekki sífellt fornöfnin „þú“ og „þið“ þegar verið er að skýra ritningarstað. Sjáðu til dæmis muninn á því að spyrja: „Gerið þið allt sem þið getið?“ eða: „Við ættum öll að spyrja okkur: ‚Geri ég allt sem ég get?‘“ Inntak spurninganna er hið sama en sú fyrri gefur í skyn að ræðumaðurinn telji sig vera á öðru plani en áheyrendur. Síðari spurningin hvetur alla, þeirra á meðal ræðumanninn sjálfan, til að líta í eigin barm og rannsaka hvatir sínar.

Forðastu freistinguna að slá um þig með fyndni í þeim eina tilgangi að fá áheyrendur til að hlæja. Það dregur úr reisn hins biblíulega boðskapar. Við eigum vissulega að hafa yndi af þjónustu okkar við Guð. Efnið, sem okkur er úthlutað, gæti jafnvel haft einhverjar spaugilegar hliðar. En að rýra alvarlegt efni með spaugi ber vott um ónóga virðingu fyrir áheyrendum og Guði.

Sýnum alltaf í kveðjum, framkomu og máli að við lítum aðra sömu augum og Jehóva hefur kennt okkur.

GERÐU EFTIRFARANDI

  • Gerðu þér grein fyrir hvernig Jehóva lítur á fólk.

  • Viðurkenndu forystu, aldur og yfirráð.

  • Leyfðu fólki að hafa sínar skoðanir.

  • Skildu áheyrendur þína.

ÆFING: Hugsaðu þér einhvern sem er annaðhvort miklu eldri eða yngri en þú. Veltu fyrir þér hvernig þú myndir taka hann tali, hvað þú gætir sagt til að brydda upp á samræðum og hvernig þú myndir sýna honum og skoðunum hans einlæga virðingu. Reyndu síðan að framfylgja því.

Hvað get ég gert til að sýna meiri virðingu?

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila