15. KAFLI
Kennsla í góðvild
VEISTU hvað fordómar eru? — Það eru fordómar að líka ekki við einhvern af því að hann lítur öðruvísi út en maður sjálfur eða talar annað tungumál. Að vera fordómafullur merkir því að hafa andúð á einhverjum eða vera illa við hann án þess að þekkja hann í raun og veru.
Heldurðu að það sé rétt að líka illa við einhvern bara af því að hann er öðruvísi en maður sjálfur, áður en maður veit hvers konar mann hann hefur að geyma? — Nei, það er rangt og óvingjarnlegt að hafa fordóma. Við ættum ekki að vera óvingjarnleg við aðra aðeins vegna þess að þeir eru öðruvísi en við.
Þekkirðu einhvern sem hefur annan hörundslit en þú eða talar annað tungumál? — Kannski þekkirðu fólk sem lítur öðruvísi út en þú af því að það hefur meitt sig eða er með sjúkdóm. Kemurðu vel og hlýlega fram við þá sem eru ekki eins og þú? —
Hvernig eigum við að koma fram við þá sem eru öðruvísi en við?
Við erum góð við alla ef við hlustum á kennarann mikla og hlýðum honum. Það ætti ekki að breyta neinu frá hvaða landi aðrir eru eða hvernig þeir eru á litinn. Við ættum að vera góð við alla. Sumum finnst þetta ekki rétt, en þetta er það sem Jesús kenndi. Við skulum ræða svolítið um þetta.
Fordómafullur Gyðingur kom til Jesú og spurði: ,Hvað á ég að gera til þess að fá eilíft líf?‘ Jesús vissi að maðurinn var að reyna að fá hann til að segja að við ættum bara að vera góð við fólk af sama kynþætti eða þjóðerni og við. Jesús svaraði manninum ekki beint heldur spurði hann: ,Hvað segir lögmál Guðs að við eigum að gera?‘
Maðurinn svaraði: ,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta og náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Jesús sagði: ,Þú svaraðir rétt. Gerðu þetta og þá muntu lifa að eilífu.‘
En maðurinn vildi ekki vera góður og ástúðlegur við fólk sem var öðruvísi en hann. Hann reyndi þess vegna að finna afsökun. Hann spurði Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Kannski vonaði hann að Jesús segði: „Það eru vinir þínir,“ eða „fólk sem lítur út eins og þú“. Jesús svaraði spurningunni með því að segja sögu af Gyðingi og Samverja. Sagan var á þessa leið:
Maður nokkur var að fara frá Jerúsalem niður til Jeríkó. Hann var Gyðingur. Á leiðinni réðust ræningjar á hann. Þeir slógu hann niður og tóku peninga hans og föt. Þeir börðu hann og skildu hann eftir dauðvona rétt við veginn.
Stuttu síðar kom prestur þessa sömu leið og sá særða manninn. Hvað hefðir þú gert í hans sporum? — Presturinn færði sig bara yfir á hinn vegarhelminginn og hélt áfram. Hann stoppaði ekki einu sinni. Hann gerði ekkert til að hjálpa manninum.
Síðan kom annar mjög trúaður maður eftir veginum. Hann var levíti og þjónaði í musterinu í Jerúsalem. Ætli hann hafi stoppað til að hjálpa særða manninum? — Nei, hann gerði nákvæmlega það sama og presturinn.
Loks kom Samverji. Sérðu hann koma þarna í beygjunni? — Hann sá Gyðinginn liggja illa særðan rétt við veginn. Flestum Samverjum og Gyðingum var mjög illa hverjum við aðra. (Jóhannes 4:9) En hvað gerir þessi Samverji? Ætlar hann að skilja manninn eftir án þess að hjálpa honum? Segir hann við sjálfan sig: ,Hvers vegna ætti ég að hjálpa þessum Gyðingi? Hann myndi ekki hjálpa mér ef ég væri meiddur?‘
Hvernig sýndi Samverjinn að hann var náungi slasaða mannsins?
Samverjinn horfði á manninn sem lá við veginn og fann til með honum. Hann gat ekki bara látið hann liggja þarna og deyja. Hann steig þess vegna af baki asna sínum, gekk til mannsins og hlúði að sárum hans. Hann hellti olíu og víni í þau til að þau greru fyrr. Svo batt hann um sárin.
Samverjinn lyfti manninum gætilega upp á asnann. Síðan fóru þeir hægt og rólega eftir veginum þar til þeir komu að gistihúsi. Þar leigði Samverjinn herbergi fyrir manninn og hugsaði vel um hann.
Nú spurði Jesús manninn sem hann var að tala við: ,Hver af þessum þrem mönnum finnst þér hafa verið náungi mannsins?‘ Hvað myndir þú segja? Var það presturinn, levítinn eða Samverjinn? —
Maðurinn svaraði: ,Sá sem stoppaði og annaðist særða manninn var náungi hans.‘ Jesús sagði: ,Það er rétt hjá þér. Farðu og gerðu það sama.‘ — Lúkas 10:25-37.
Var þetta ekki góð saga? Hún sýnir okkur hver náungi okkar er. Það er ekki bara náinn vinur. Og það er ekki bara fólk sem hefur sama hörundslit og við eða talar sama tungumálið. Jesús kenndi okkur að vera góð við fólk hvaðan sem það er, hvernig sem það lítur út og hvaða tungumál sem það talar.
Þannig er Jehóva Guð. Hann er ekki fordómafullur. Jesús sagði: ,Faðir ykkar á himnum lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða. Og hann lætur rigna yfir réttláta sem rangláta.‘ Við ættum þess vegna að vera góð við alla eins og Guð er. — Matteus 5:44-48.
Hvernig getum við verið góð við aðra?
Hvað myndirðu gera ef þú sæir að einhver hefði meitt sig? — En ef hann væri frá öðru landi en þú eða hefði annan hörundslit? Hann er samt náungi þinn og þú ættir að hjálpa honum. Ef þér finnst þú ekki vera nógu stór til að hjálpa geturðu beðið einhvern eldri um aðstoð eða kallað á lögregluþjón eða kennara í skólanum. Þannig geturðu verið góður við aðra eins og Samverjinn.
Kennarinn mikli vill að við séum góð við aðra. Hann vill að við hjálpum öðrum, hverjir sem það eru. Þess vegna sagði hann söguna af Samverjanum sem var góður við aðra.
Við getum lært meira um það að vera góð við alla menn, óháð kynþætti eða þjóðerni, með því að lesa Orðskviðina 19:22; Postulasöguna 10:34, 35 og 17:26.