SAGA 9
Loksins eignuðust þau son!
Abraham og Sara voru búin að vera gift í mörg ár. Þau höfðu farið frá þægilegu heimili sínu í Úr og bjuggu í tjaldi. En Sara kvartaði ekki af því að hún treysti Jehóva.
Söru langaði svo mikið að eignast barn að hún sagði við Abraham: ‚Ef Hagar þjónustustúlka mín eignast barn getur það orðið eins og það sé barnið mitt.‘ Og Hagar eignaðist son. Hann hét Ísmael.
Mörgum árum seinna, þegar Abraham var 99 ára og Sara 89 ára, fengu þau þrjá gesti. Abraham bauð þeim að hvíla sig undir tré og gaf þeim að borða. Veistu hverjir þessir gestir voru? Þeir voru englar. Einn engillinn sagði við Abraham: ‚Eftir eitt ár muntu hafa eignast son með konunni þinni.‘ Sara var inni í tjaldinu og hlustaði. Hún hló með sjálfri sér og hugsaði: ‚Get ég í alvörunni eignast barn þó að ég sé orðin svona gömul?‘
Á næsta ári eignaðist Sara son, alveg eins og engill Jehóva hafði lofað. Abraham lét hann heita Ísak, sem þýðir ‚hlátur‘.
Þegar Ísak var um fimm ára sá Sara Ísmael oft gera grín að honum. Hún vildi vernda son sinn þannig að hún bað Abraham um að senda Hagar og Ísmael í burtu. Til að byrja með vildi Abraham ekki gera það. En Jehóva sagði við Abraham: ‚Hlustaðu á Söru. Ég skal passa Ísmael. En það er í gegnum Ísak sem ég ætla að uppfylla loforðin mín.‘
„Vegna trúar fékk Sara mátt til að verða barnshafandi og eignast afkomanda … því að hún var viss um að sá sem gaf loforðið væri trúr.“ – Hebreabréfið 11:11.