SAGA 48
Sonur ekkju lifnaði við
Á meðan þurrkurinn var sagði Jehóva við Elía: ‚Farðu til Sarefta. Ekkja sem býr þar mun gefa þér að borða.‘ Nálægt borgarhliðinu sá Elía fátæka ekkju sem var að safna eldiviði. Hann bað hana um að gefa sér vatnssopa. Þegar hún fór að sækja vatnið kallaði Elía á eftir henni: ‚Viltu líka koma með brauðbita handa mér?‘ En ekkjan sagði: ‚Ég á ekkert brauð til að gefa þér. Ég á bara pínulítið af hveiti og olíu til að gera smá mat fyrir mig og son minn.‘ Elía sagði við hana: ‚Jehóva er búinn að lofa að ef þú býrð til smá brauð fyrir mig muni hveitið og olían þín ekki klárast fyrr en það kemur rigning aftur.‘
Ekkjan fór þá heim og bakaði brauð handa spámanni Jehóva. Ekkjan og sonur hennar áttu alltaf nóg að borða á meðan þurrkurinn var, alveg eins og Jehóva hafði lofað. Það var alltaf nóg af hveiti og olíu í krukkunum.
En svo gerðist dálítið hræðilegt. Litli strákur ekkjunnar varð svo veikur að hann dó. Hún sárbað Elía um að hjálpa sér. Elía tók strákinn úr fanginu á henni og bar hann upp á loft í herbergi þar. Hann lagði hann í rúm og bað: ‚Jehóva, viltu gefa þessu barni lífið aftur?‘ Elía var að biðja Jehóva um mjög sértakt kraftaverk. Við vitum ekki til þess að Jehóva hafi reist neinn upp frá dauðum áður. Og ekkjan og sonur hennar voru ekki einu sinni Ísraelsmenn.
Strákurinn byrjaði að anda. Hann var lifnaður við! Elía sagði við ekkjuna: „Sjáðu! Sonur þinn er lifandi.“ Hún varð himinlifandi og sagði við Elía: ‚Þú ert sannarlega guðsmaður. Ég veit það af því að þú segir bara það sem að Jehóva segir þér, og það rætist alltaf.‘
„Hugsið til hrafnanna: Þeir sá hvorki né uppskera og hafa hvorki forðabúr né hlöður en Guð fóðrar þá samt. Eruð þið ekki miklu meira virði en fuglar?“ – Lúkas 12:24.