SAGA 64
Daníel í ljónagryfjunni
Annar konungur í Babýlon var Daríus frá Medíu. Daríus tók eftir að Daníel var einstakur. Hann lét Daníel ráða yfir valdamestu mönnunum í landinu. Mennirnir voru öfundsjúkir út í Daníel og vildu losa sig við hann. Þeir vissu að Daníel bað til Jehóva þrisvar sinnum á dag. Þess vegna sögðu þeir við Daríus: ‚Það ætti að gefa út lög um að enginn eigi að biðja til neins nema þín, konungur. Ef einhver óhlýðnast lögunum ætti að henda honum í ljónagryfju.‘ Daríusi leist vel á hugmyndina og skrifaði undir lögin.
Um leið og Daníel heyrði um þessi nýju lög fór hann heim til sín. Hann kraup niður og bað til Jehóva fyrir framan opinn glugga. Öfundsjúku mennirnir ruddust inn í húsið hans á meðan hann var að biðja. Þeir hlupu til Daríusar og sögðu: ‚Daníel er að óhlýðnast þér. Hann biður til Guðs síns þrisvar sinnum á dag.‘ Daríusi líkaði vel við Daníel og vildi ekki að hann myndi deyja. Hann hugsaði allan daginn um hvernig hann gæti bjargað Daníel. En enginn gat breytt lögum sem konungurinn hafði skrifað undir, ekki einu sinni konungurinn sjálfur. Hann neyddist til þess að segja mönnunum sínum að henda Daníel í gryfjuna til grimmu ljónanna.
Daríus hafði svo miklar áhyggjur af Daníel að hann gat ekkert sofið um nóttina. Um morguninn hljóp hann að gryfjunni og kallaði: ‚Daníel! Er Guð þinn búinn að bjarga þér?‘
Daríus heyrði rödd úr gryfjunni. Það var Daníel! Hann kallaði til Daríusar: ‚Engill Jehóva lokaði gini ljónanna. Þau gerðu mér ekkert illt.‘ Daríus var himinlifandi! Hann skipaði mönnum að draga Daníel upp úr gryfjunni. Það var ekki einu sinni skráma á honum. Síðan sagði konungurinn: ‚Hendið mönnunum sem klöguðu Daníel ofan í gryfjuna.‘ Þegar þeim var hent ofan í gryfjuna gleyptu ljónin þá í sig.
Daríus sendi út þessa skipun: ‚Allir eiga að óttast Guð Daníels. Hann bjargaði Daníel frá ljónunum.‘
Biður þú til Jehóva á hverjum degi eins og Daníel?
„Jehóva veit hvernig hann á að bjarga hinum guðræknu úr prófraunum.“ – 2. Pétursbréf 2:9.