Hamingja í löglausum, kærleikslausum heimi
„Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í löngmáli [Jehóva].“ — Sálmur 119:1
1, 2. (a) Frá hverjum kemur sönn hamingja og hversu lengi er hægt að njóta hennar? (b) Hvað kalla menn inngangsorð fjallræðunnar og hvers vegna á það vel við?
HAMINGJA kemur frá skapara mannsins. Hann er ‚hinn sæli Guð‘ sem færir okkur gleðitíðindi. (1. Tímóteusarbréf 1:11) Hann hefur fyrirbúið mennskum sköpunarverum sínum eilífa hamingju hér á jörð. Nú þegar geta þeir höndlað þá hamingju með því að aðlaga sig kröfum hans og reglum. — Sálmur 119:16, 33.
2 Fyrir nítján öldum flutti Jesús Kristur, sonur „hins sæla Guðs,“ það sem síðar var kallað fjallræðan. Samkvæmt Matteusi 5:1-12 hófst þessi ræða með því sem kallað er „sæluboðin.“ Þessi nafngift kemur heim og saman við gríska þýðingu frásagnar lærisveinsins Matteusar af jarðvistardögum Jesú Krists. Í frásögu Matteusar á hebresku er einnig notað orð sem merkir ‚hamingjusamur.‘
3. (a) Var ritari 119. Sálmsins hæfur til að njóta þeirrar sérstöku hamingju sem Kristur Jesús lýsti? Rökstyddu svarið. (b) Lýstu tilfinningum sálmaritarans til lagasáttmálans sem Móse miðlaði.
3 Maður, sem til forna var hæfur til að njóta slíkrar hamingju, eins og Messías Jesús Kristur lýsir henni, var innblásinn ritari 119. sálmsins sem er lengstur sálmur í Biblíunni. Hann var Gyðingur eins og Jesús. Sálmaritarinn var sér meðvitandi um andlega þörf sína sem Jesús Kristur sagði vera ein af ástæðunum til að vera hamingjusamur. Hann var líka raunamæddur, hann var hógvær, hann hungraði og þyrsti eftir réttlæti, hann var miskunnsamur, atyrtur og ofsóttur, og hann mátti þola að logið væri og talað illa um hann. Hann skráði sálminn mörgum öldum fyrir okkar tímatal. Þá var Ísraelsþjóðin enn undir lagasáttmálanum sem spámaðurinn Móse hafði milligönguu m milli Jehóva Guðs og þjóðarinnar árið 1513 f.o.t. við Sínaífjall. Sálmaritarinn hafði ekkert út á lög þessa sáttmála að setja því þau voru af Guði gefin. Hann vissi vel að heiðnu þjóðirnar umhverfis Ísraelsland höfðu ekkert sem jafnaðist á við þetta lögmál frá Guði. Hann leit á það sem upplýsandi og sagði í versi 105 og 130: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.“
4. (a) Hvernig er Sálmur 119 uppbyggður og hvaða hjálp er í því? (b) Hverjum gáfu Jesús og lærisveinar hans fyrirmynd með því að vísa í ‚sálmanna,‘ og í hvaða tilgangi gerðu þeir það?
4 Sem minnishjálp byggði sálmaritarinn sálminn þannig upp að allar hinar átta ljóðlinur í hverju erindi, sem eru alls 22, byrja á sama bókstaf á hebresku. Þannig byrja allar ljóðlínur fyrsta erindisins, með hebreska bókstafinn alef sem yfirskrift, á þeim sama bókstaf alef. Allar ljóðlínur annars erindisins byrja á öðrum bókstaf hebreska stafrófsins, beth. Þannig gengur það koll af kolli í gegnum hin 22 erindi sálmsins, samsvarandi hinum 22 stöfum hebreska stafrófsins. Þar eð átta ljóðlínur eru í hverju erindi er sálmurinn alls 176 vers. Í kennslu sinni vísaði Jesús Kristur til ‚sálmanna.‘ (Lúkas 20:42; 24:44) Með því gaf hann lærisveininum sínum fyrirmynd. — Postulasagan 1:20; 13:33; 1. Korintubréf 14:26; Efesusbréfið 5:19; Kólossubréfið 3:16; Hebreabréfið 4:7; Jakobsbréfið 5:13.
5. Reynslu hvers hafði sálmaritarinn líklega í huga þegar hann skrifaði inngangsorð 119. Sálmsins?
5 Sálmaritarinn talaði vafalaust af eigin reynslu þegar hann hóf Sálm 119 með þessum orðum: „Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli [Jehóva]. Sælir eru þeir er halda reglur hans, . . . ganga á vegum hans. Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega. Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín. Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum. Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði [dóma, NW]. Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.“ — Sálmur 119:1-8.
6. (a) Hvernig eru lykilorðin í þessum sálmi undirstrikuð? (b) Hvað nam sálmaritarinn og á hverju sést það?
6 Í þessu fyrsta erindi sálmsins tökum við eftir lykilorðunum lögmál, reglur, skipanir, lög, boð og dómar. Út í gegnum hin 176 vers leggur sálmaritarinn áherslu á þessi orð. Orðin lögmál, reglur, skipanir (fyrirmæli), lög, boð og ákvæði (dómar) koma hvert um sig um og yfir 20 sinnum fyrir í sálminum. Þótt tíð notkun þessara orða virðist bera keim af lagamála bendir ekkert til að sálmaritarinn hafi verið lögmaður, lögspekingur eða einu sinni dómari. Hann var fyrst og fremst nemandi í skráðu orði Jehóva sem staðfestist af því að hann notar 15 sinnum orðalagið ‚orð þitt.‘ Hafi hann verið konungur Ísraels átti hann samkvæmt boði Guðs að gera sér einkaafrit af lagasáttmála Jehóva við Ísraelsþjóðina til náms og eigin nota. (5. Mósebók 17:14-18) Sálmaritaranum þótti ekki ítarlegt nám í ‚orði‘ Jehóva leiðigjarnt eða þreytandi. Hann þráði það sem gæti hjálpað honum að vera löghlýðinn. (Sálmur 119:40, 131, 174) Líkjumst við honum?
7. (a) Hvernig er það okkur til góðs að þekkja og ganga í lögmáli Guðs? (b) Hvað er átt við með nafninu „Tóra“ en undir hvaða skipan eru kristnir menn?
7 Þegar við berum lög þjóðanna, sem eru undir ósýnilegri stjórn ‚föður lyginnar,‘ Satans djöfulsins, saman við lög Jehóva getum við tekið undir með sálmaritaranum: „Lögmál þitt [er] trúfesti [sannleikur, NW]. Þú ert nálægur, [Jehóva], og öll boð þín eru trúfesti [sannleikur, NW].“ (Jóhannes 8:44; Sálmur 119:142, 151) Með því að ‚ganga fram í lögmáli Jehóva‘ munum við, eins og sálmaritarinn, vera vernduð fyrir því að ganga í villu heimsins sjálfum okkur til bæði líkamlegs og andlegs tjóns. Það stuðlar að hamingju okkar. (Sálmur 119:1) Það stuðlar að því að við njótum blessunar og velþóknunar Guðs. Það hefur áhrif á hjörtu okkar eins og Sálmur 119:97, 126 og 127 gefur til kynna. Sálmaritarinn var undir lagasáttmála Móse sem innihélt „Tóra,“ safn laga Guðs sem í voru mörg hundruð einstök ákvæði. Smurðir vottar Jehóva nú á tímum eru undir nýja sáttmálanum (sem Jesús Kristur er meðalgangari um) með „lögmál“ ritað „á hjörtu þeirra“ eins og komist er á orði. (Jeremía 31:31-34) Með því að nema kristnu Grísku ritningarnar kynnast þeir ‚lögum‘ og boðum nýja sáttmálans.
8. (a) Á þessi löglausi heimur bjarta framtíð í vændum? (b) Hvernig lýsti sálmaritarinn harmi sínum yfir að Gyðingar héldu ekki lögmál Guðs? (c) Hvernig uppfyllist spádómur Jesú um hina ótrúu Jerúsalem og hvað boðar það fyrir kristna heiminn?
8 Sá tími nálgast nú að hinn réttmæti löggjafi, Jehóva, láti til skarar skríða gegn þessum löglausa heimi. Framtíðarhorfur heimsins eru grátlegar. Sálmaritarinn, sem elskaði lögmál Guðs, grét yfir ástandinu í fortíðinni. (Sálmur 119:136) Fáeinum dögum áður en Jesús Kristur dó kvalafullum píslarvættisdauða grét hann yfir Jerúsalem sem hélt erfðasiðina en braut lögmálið. (Lúkas 19:41) Þrjátíu og sjö árum eftir að Gyðingar höfðu kórónað lögleysi sitt með því að láta lífláta hinn saklausa Messías, Jesú Krist, með höndum heiðingja, lét Jehóva til skarar skríða. (Sálmur 119:126) Þeir sorglegu atburðir, sem Jesús Kristur sá fyrir, komu yfir borgina árið 70. Það sem Jerúsalem og Gyðingaþjóðin, sem hún réði yfir, táknaði er núna í sömu aðstöðu, aðeins í margfalt stærri mæli. Hinn löglausi kristni heimur, sem núna samsvarar Jerúsalem, er margfalt stærri en Jerúsalem og Ísraelsþjóðin til forna. Jehóva mun á sinn eigin hátt koma því inn í hjörtu pólitískra afla þessa heims að snúast gegn öllum kerfisbundnum trúarbrögðum heimsins, þerra á meðal kristna heiminum sem er hin falska útgáfa af ríki Krists. — Opinberunarbókin 17. kafli.
9. (a) Berið saman blóðsúthellingar kristna heimsins og hugarfar og hegðun votta Jehóva. (b) Hvaða fyrirmynd samræmist breytni okkar? (c) Af hvaða orsökum hefur Jesús Kristur hafnað hinum kristna heimi nútímans?
9 Brutust ekki tvær heimsstyrjaldir út í kristna heiminum og studdi ekki klerkastétt hans þær báðar og allar blóðsúthellingarnar sem þær ollu? Gerólíkt þessum lögbrjótum hins nýja sáttmála Guðs, sem fyrirskipar bróðurást, gaf sálmaritarinn vottum Jehóva nútímans þessa fyrirmynd: „Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.“ (Sálmur 119:163) Hann þráði að halda lögmál hans af hreinu hjarta. Hann lét í ljós vanþóknun sína á hálfvelgju og áhugaleysi og sagði: „Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.“ (Sálmur 119:113) Þannig er Jesú Kristi innbrjósts gagnvart kristna heiminum því að hann líkist söfnuðinum í Laódíkeu til forna. Hann getur með réttu sagt við kristna heiminn: „Af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.“ (Opinberunarbókin 3:16) Við getum ekki elskað hinn löglausa, kærleikslausa heim og samtímis elskað Krist. Við getum ekki tvístigið og verið á báðum áttum. Sterkur kærleikur verður að búa að baki hlýðni okkar við Guð. Jehóva gæti aldrei innblásið einlægum þjóni sínum að segja nokkuð minna en þetta: „Ég skal hafa unaðsemd af þínum boðorðum, sem ég elska.“ — Sálmur 119:47, Ísl. bi. 1859.
10. (a) Af hverju verðum við að hafa unun eins og sálmaritarinn? (b) Hvaða eymd mátti sálmaritarinn þola en hvaða stefnu hélt hann? Hvaða áhrif hefur það á okkur?
10 Að þykja vænt um lögmál Jehóva er okkur hjálpræði. Sálmaritarinn játaði það hreinskilnislega þegar hann sagði: „Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.“ (Sálmur 119:92) „Eymd“ sálmaritarans var ekki einhver banvænn sjúkdómur heldur stafaði af þeim drambsfullu mönnum sem hötuðu hann og ofsóttu. Hefði hann ekki elskað lögmál Guðs svo heitt hefði hann bugast undir álaginu, látið að vilja slíkra Ísraelsmanna og brotið gegn vilja Jehóva. Sálmaritarinn er okkur nútímamönnum mjög gott fordæmi, því að við erum líka undir álagi frá heimi þar sem lögleysi er slíkt að kærleiki þorra manna hefur kólnað! — Matteus 24:3, 12.
11. Hvaðan kemur hjálpræði okkar og hvernig lítum við því á áform mannanna?
11 Aðeins með því að halda lögmál Guðs höfum við grundvöll til að vonast eftir eilífu hjálpræði. Við þráum að bjargast inn í nýja skipan Guðs þar sem verður nýr himinn og ný jörð. Undir lok 119. sálmsins, í 174. versi, er löngun okkar túlkuð svo: „Ég þrái hjálpræði þitt, [Jehóva], og lögmál þitt er unun mín.“ Við höfnum því áformum manna um björgun þessa löglausa, kærleikslausa heims.
Löghlýðnir í ofsóknum
12. (a) Hver er á bak við það að „konan“ og „afkomendur hennar“ eru ofsóttir og hver er tilgangurinn? (b) Hvernig hafa ofsækjendurnir verið ávítaðir?
12 Sagt var fyrir um að vottar Jehóva yrðu ofsóttir á heimsmælikvarða á síðustu dögum þessara deyjandi gamla heimskerfis undir ægivaldi drekans táknræna, Satans djöfulsins. Opinberunarbókin 12:17 segir hver skyldi verða skotspónn hans: „Þá reiddist drekinn konunni [skipulagi Jehóva, líkt við eiginkonu] og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar [auk hins nýfædda ríkis], þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ Ofsóknirnar koma einkanlega frá þeim sem snúa drambsamir baki við boðum Guðs nú á síðustu dögum hins sýnilega kerfis drekans á jörðinni. Með boðskapnum um Guðsríki, sem vottar Jehóva boða um allan heiminn, hefur Jehóva ávítað þessa menn eins og Sálmur 119:21 segir: „Þú hefur ávítað hina dramblátu, þá bölvuðu sem víkja frá boðorðum þínum.“ (NW) Hinir trúföstu, sem drambsamir ofsækjendur spotta og hæða, hafa allt önnur viðhorf til laga Jehóva eins og líka sálmaritarinn: „Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.“ — Sálmur 119:51.
13. (a) Hvaða árangur hefur það að halda lög Guðs, þrátt fyrir ill áform ofsækjendanna? (b) Hvernig hefur það sýnt sig á okkar tímum?
13 Hinir stærilátu ofsækjendur sjá að vottar Jehóva ganga fram í samræmi við lög Jehóva um okkar tíma og reyna að bregða fæti fyrir þá, alveg eins og sálmaritarinn mátti þola. Hann sagði: „Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.“ (Sálmur 119:85) Að láta hina drembilátu ofsækjendur verða til skammar er ekki aðeins fólgið í því að afhjúpa villu þeirra heldur einkanlega að upphefja Jehóva sem hinn sanna Guð. Sálmaritarinn gat því sagt án nokkurrar illgirni: „Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.“ (Sálmur 119:78) Jehóva sér svo um að jafnvel ofsóknirnar verði til góðs og að ofsækjendurnir ávinni í rauninni ekkert með svikum sínum og undirferli. Hann svarar bæninni í Sálmi 119:122: „Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.“ Fjöldamorð ógnuðu vottum Jehóva undir einræði Benitos Mussolinis og Adolfs Hitlers, en með því að þeir gleymdu ekki lögum og boðorðum Guðs síns voru þeir staðfastir og margir lifðu af. Með orðum Sálms 119:60, 61 geta þeir sem af lifðu sagt: „Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín. Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.“ Alvaldur Guð getur höggvið á eða slitið snörur og fjötra takmarkana og hafta sem óvinir votta hans binda um þá, og þannig frelsað þjóna sína þegar það hentar til að vinna það verk sem hann hefur falið þeim nú við endalok heimskerfisins.
14. (a) Hvað hafa vottar Jehóva fengið að reyna, svipað og sálmaritarinn, og hver hefur verið árangurinn af tilraunum óvinanna? (b) Hverjir geta glaðst yfir þjáningum sínum og hvers vegna?
14 Eftir orðunum í Sálmi 119:84, 86 og 161 að dæma var sálmaritarinn ofsóttur mjög, jafnvel af samlöndum sínum. Vottar Jehóva hafa verið ofsóttir í löndum bæði innan kristna heimsins og utan þar sem starf þeirra er núna bannað. Óvininum hefur samt sem áður mistekist það sem hann ætlaði sér með sínum illu og óréttmætu ofsóknum! Óvininum til undrunar fagna vottarnir, sem ‚ganga fram í lögmáli Jehóva‘ og „halda reglur hans,“ þjáningum sínum fyrir Jehóva Guð og Krist. Þeir eru minntir á það sem Jesús Kristur sagði í sæluboðunum: „Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.“ „Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út áhróður um yður vegna Mannssonarins. Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því að laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina [þeirra á meðal sálmaritarinn].“ (Sálmur 119:1, 2; Lúkas 6:20, 22, 23) Ofsóttir vottar Jehóva eiga hlutdeild í gleði hans og halda áfram að „gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.“ — Jesaja 42:21.
Það sem læra má af Sálmi 119
◻ Hvernig er Sálmur 119 uppbyggður og hvers vegna?
◻ Hvaða sérstök orð endurtók sálmaritarinn margsinnis?
◻ Hvernig hugsum við um lög Guðs, ólíkt kristna heiminum?
◻ Hvað ættum við, kristnir menn, að elska þrátt fyrir ofsóknir?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Sálmaritarinn skildi fullkomlega að hægt er að höndla hamingjuna með því að þekkja orð Guðs og fara eftir því.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Margir vottar Jehóva voru staðfastir og lifðu af ofsóknir nasista. Þeir gátu sagt fagnandi: „Lögmál þínu hefi ég eigi gleymt.“