Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.4. bls. 3-4
  • Sérð þú það sem skrifað stendur á vegginn?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sérð þú það sem skrifað stendur á vegginn?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Af hátindi valds
  • Til algers falls
  • Skjót uppfylling
  • Jafnskyndileg eyðing
  • Fjögur orð sem breyttu heiminum
    Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar
  • Skriftin á veggnum
    Biblíusögubókin mín
  • Hvað segir Biblían um Daníel?
    Biblíuspurningar og svör
  • Treystu á Jehóva — ekki á „samsæri“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.4. bls. 3-4

Sérð þú það sem skrifað stendur á vegginn?

„Orð á veggnum kalla,

. . . að nú sé hann að falla.“

MEÐ þessum orðum lýsti írski rithöfundurinn Jonathan Swift, sem uppi var á 18. öld, bankastjóra. Umsetinn viðskiptavinum, sem heimtuðu peningana sína, skynjaði bankastjórinn að brátt væri úti um hann. Um aldaraðir hefur verið komist svo að orði að eitthvað ‚stæði skrifað á vegginn‘ þegar hætta var yfirvofandi.

Sá atburður, sem orð þessi eru rakin til, átti sér stað fyrir meira en 2500 árum. Skjót uppfylling þess, sem þá ‚stóð skrifað á vegginn,‘ breytti gangi heimssögunnar. Til að skoða nánar uppruna þessa orðatiltækis þurfum við að leita til Daníelsbókar í Biblíunni. Það mun hjálpa okkur að skilja gildi þeirra aðvarana, sem Ritningin geymir, og ætti að koma okkur til að gefa gaum þýðingarmikilli aðvörun sem varðar okkar daga.

Af hátindi valds

Það er komið kvöld þann 5. október árið 539 f.o.t. Babýlonbúar drekka og dansa. Þótt óvinirnir, Medar og Persar, séu við borgarhliðin virðist borgin óhult. Múrarnir eru traustir og ókleifir; því geta allir skemmt sér við glaum og gleði. Kannski segir skarkali veisluhaldanna umsátursmönnunum að borgin geti haldið velli lengi, lengi!

Í stóra salnum í höll sinni virðir Belsasar konungur stoltur fyrir sér öll þau stórmenni sem hann hefur kallað saman. Hann lætur þjóna sína sækja gull- og silfurkerin, sem afi hans, Nebúkadnesar konungur, hafði tekið með sér úr musteri Jehóva áratugum áður. Vera má að Belsassar hafi hrópað: ‚Drekkum vín úr þessum kerjum til heiðurs guðum okkar!‘ — Daníel 5:1-4.

Til algers falls

Skyndilega fölnar Belsasar af ótta. Þarna, gegnt ljósastikunni við vegginn, birtist hönd og skrifar á vegginn fjögur einföld en óskiljanleg orð. Tónlistin og dansinn stöðvast. Konungur er dauðskelkaður og kné hans skjálfa. Hvað boðar þetta tákn? Kallað er á alla spekinga og stjörnuspámenn. Sá sem getur þýtt þessi orð skal komast til mikilla mannvirðinga. — Daníel 5:5-7.

Allir bíða óstyrkir eftir því að vitringarnir segi eitthvað. En þeir eru ráðvilltir. Hvaða torræða merkingu hefur það sem ‚skrifað stendur á vegginn‘? Engin vogar sér að freista þess að skýra þau og skelfing konungs magnast enn. — Daníel 5:8, 9.

Þegar drottning heyrir hvað er að gerast skundar hún í veislusalinn. Hún minnir Belsasar á að í ríki hans sé útlendur spekingur sem hafi áður sannað kunnáttu sína. Daníel er nú sóttur. Hugrakkur minnir hann konung á hvað hent hafi Nebúkadnesar mörgum árum áður. Síðan segir hann konungi hvað eigi að koma fyrir hann:

„Letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin. Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda; tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn; peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum.“ — Daníel 5:10-28.

Skjót uppfylling

Þarf Belsasar að bíða þess lengi að sannreyna orð Daníels? Við skulum sjá hvað gerist þessu næst og hafa í huga að atburðirnir hafa meira en aðeins sögulegt gildi.

Herir Meda og Persa hafa grafið skurði til að veita Efratfljótinu úr farvegi sínum í gegnum Babýlonborg. Kýrus konungur hefur beðið þessa kvölds til að láta til skarar skríða, í von um að Babýlonmenn slaki á árvekni sinni þegar nótt skellur á. Nú eru skurðirnir opnaðir. Strax og sjatnað hefur nógu mikið í ánni ganga hermennirnir í halarófu út í árfarveginn.

Þetta kvöld hafa hliðin niður að ánni verið skilin eftir opin, hugsanlega vegna óhóflegs sjálfstrausts Babýlonmanna. Her Meda og Persa kemst inn í borgina öllum á óvart. Sveit manna tekst að komast inn í konungshöllina og Belsasar er drepinn. Hið máttuga babýlonska heimsveldi er fallið. — Daníel 5:30.

Jafnskyndileg eyðing

Hin nákvæma uppfylling orða Daníels lýsir því vel hve alvarlegar aðvaranir Biblíunnar eru. Páll postuli skrifaði löngu síðar að aðrir skyndilegir og þýðingarmiklir atburðir væru í vændum. Í sínu fyrra innblásna bréfi til kristinna manna í Þessaloníku segir hann: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming [frá Guði] yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:3.

Daníel og Gyðingum var þó þyrmt þegar Babýlon féll; eins er hægt að lifa af þessa væntanlegu eyðingu af hendi Guðs. Hvernig? Með því að halda andlegri vöku sinni og njóta hennar vegna verndar Jehóva. „En þér, bræður,“ sagði Páll, „eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:4.

Páll átti hér við ‚dag Jehóva,‘ þann tíma þegar Guð lætur Messíasarríki sitt grípa inn í málefni mannanna. (1. Þessaloníkubréf 5:2) Hvenær megum við búast við að ‚skrifað verði á vegginn‘ með þessum hætti — að þau tákn birtist sem vara okkur við þessari íhlutun Guðs? Annar spádómur, skráður í 2. kafla Daníelsbókar, svarar þeirri spurningu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila