Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.1. bls. 27-32
  • Treystu á Jehóva — ekki á „samsæri“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Treystu á Jehóva — ekki á „samsæri“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Skrifað á vegginn
  • Kýrus, sem spáð hafði verið um, tekur völdin
  • Hinn meiri Kýrus sigrar ‚Babýlon hina miklu‘
  • Varðveitum gott samband við Jehóva
  • Fjögur orð sem breyttu heiminum
    Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar
  • Jehóva — ‚réttlátur Guð og hjálpari‘
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2. bindi
  • Bók sem þú getur treyst — 4. hluti
    Vaknið! – 2011
  • Sérð þú það sem skrifað stendur á vegginn?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.1. bls. 27-32

Treystu á Jehóva — ekki á „samsæri“

1. Hvernig var ástatt í sýnilegu skipulagi Jehóva á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar?

FRÁHVARF frá trúnni hafði á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar höggvið stór skörð í raðir þjóna Jehóva. Þeir máttu líka þola ofsóknir af hendi trúarlegra óvina sinna. Aðalstöðvum þeirra í Brooklyn í New York var lokað. Auk þess urðu þeir að bjarga sér án aðstoðar forseta Félagsins, ritara og féhirðis, skrifstofustjóra, ritara á ritstjórnarskrifstofunum og fjögurra annarra fulltrúa Félagsins. Þeir afplánuðu fangelsisdóm í ríkisfangelsinu í Atlanta í Georgíu. Allt benti til að endirinn væri kominn yfir hina andgetnu biblíunemendur og að þeir yrðu innan tíðar gerðir dýrlegir á himnum. En svo fór þó ekki.

2. Hvaða spádómur Jesaja rættist árið 1919?

2 Vorið 1919 fengu spurningar spámannsins Jesaja í Jesaja 66:6-8 nýja þýðingu: „Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, [Jehóva] geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra! Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina. Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land [dýrleg, andleg velmegun] í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.“

3. Hvað bar því vitni að Síon hefði árið 1919 eignast syni og að ný „þjóð“ hefði fæðst „allt í einu“?

3 Það var eins og Alþjóðlegir biblíunemendur hefðu risið upp frá dauðum þegar þeir héldu sitt fyrsta mót eftir fyrri heimsstyrjöldina í Cedar Point í Ohio dagana 1.-8. september árið 1919. Forseti Félagsins, ritari og féhirðir, skrifstofustjóri og aðrir, sem setið höfðu í fangelsi, höfðu fengið algera uppreisn æru og voru viðstaddir þetta gleðilega mót. Mótsgestum til mikils fagnaðar tilkynnti Rutherford forseti að nýtt tímarit myndi hefja göngu sína, Gullöldin — nú þekkt sem Vaknið! Yfir 200 manns létu skírast til tákns um vígslu sína. Guðveldisskipulag Jehóva ‚fæddi‘ syni til lífs og starfa eftir stríðið. Það kallaði á nýjar og djarfar starfsaðferðir og margs kyns brautryðjandastarf af hálfu þeirrar ‚þjóðar‘ sem fædd var eins og allt í einu og hafði sest að í ‚landi‘ sem varð til á augabragði.

4. (a) Hvaða áhrif átti allt þetta að hafa á ‚Babýlon hina miklu‘? (b) Undanfari hvers var það að afhjúpa skyldi hver var staða ‚Babýlonar hinnar miklu‘ gagnvart ofurmannlegum máttarvöldum?

4 Þessar aðstæður voru mikil ögrun við ‚Babýlon hina miklu‘ heimsveldi falskra trúarbragða, sem kom þessi þróun mála í opna skjöldu. Meðlimum hennar, einkum kristna heiminum, var illa brugðið. Þeim fannst sem verið væri að ógna friði sínum. Einveldi Babýlonar hinnar miklu á vettvangi trúmálanna var nú ógnað. Nú yrði afhjúpað hvert væri raunverulegt samband hennar við ofurmannleg, himnesk öfl, ekki við Guð heilagrar Biblíu heldur við „guð þessarar aldar“ — Satan, sem stendur að baki andkristi er spádómar Biblíunnar greina frá. (2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:18) Þessi afhjúpun var einungis upphafið að dauðateygjum ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ Síðar mun hinn mikli dómari alheimsins sjálfur leggja hendur á hana og taka hana af lífi og enga undankomu veita henni frá sínum fyrri, pólitísku friðlum sem nú hafa snúist gegn henni í mikilli bræði.

5. (a) Hvers vegna verður kristna heiminum komið í opna skjöldu og hvernig lítur Guð Biblíunnar á hann? (b) Hvað sér „Babýlon hin mikla“ ekki?

5 Jafnvel kristna heiminum verður komið í opna skjöldu þótt hann hafi undir höndum Biblíuna sem segir allt þetta fyrir. Hann mun reiða sig á yfirlýsinguna um ‚frið og öryggi‘ að hætti þjóðanna, en meðal þeirra hefur hann viðhaft sínar trúarlegu helgiathafnir. Við þessar helgiathafnir hafa kirkjufélögin auðgað sig í gegnum samskot og fjársafnanir. Í augum Guðs heilagrar Biblíu er kristni heimurinn samt sem áður „fátækur og blindur og nakinn.“ Hann treystir ekki á Jehóva og færir sér ekki í nyt þá sönnu, andlegu fjársjóði sem hann veitir. (Opinberunarbókin 3:17, 18) Hann sér ekki hvað skrifað stendur á veggnum. Hvað er átt við með því?

Skrifað á vegginn

6. Hvaða fornt heimsveldi kemur upp í hugann og hvernig farnaðist þjóð Jehóva þá?

6 Til að skilja hvað í þessum orðum felst þurfum við að rifja upp síðustu stundir þriðja heimsveldisins í sögu Biblíunnar, Babýlonar, er stóð á bökkum Evfratfljótsins. Belsasar var síðasti konungur Babýlonar, en þar höfðu menn reynt að reisa Babelturninn og alvaldur Guð ruglað tungumál þeirra og tvístrað þeim. (1. Mósebók 11:1-9) Þegar síðustu dagar Babýlonar runnu upp var þjóð Jehóva, Gyðingarnir, fangar í þessu heiðna landi. En 70 ára útlegð þeirra var í þann mund að ljúka.

7. (a) Hvers vegna var Belsasar konungur mjög sjálfsöruggur þegar hann hélt stórmennum sínum veislu? (b) Hvað átti sér stað meðan veisluhöldin fóru fram og hvaða áhrif hafði það á konung?

7 Sameinaður her Meda og Persa, sem áttu að verða fjórða heimsveldið í biblíusögunni, kom gegn Babýlon sem var umkringd öflugum múrum og virtist ósigrandi. Í borgarmúrnum voru hlið með vængjahurðum úr eiri er lágu að hafnaraðstöðu á fljótsbökkum. Belsasar konungur var öruggur um að borgin væri ósigrandi og hélt „veislu mikla þúsund stórmennum sínum“ — veislu sem reyndist vera hans síðasta. Skyndilega birtist fyrir augum Belsasars hönd sem skrifaði á vegginn hin örlagaríku orð: ‚MENE, MENE, TEKEL og UFARSIN.‘ (Daníel 5:1, 5, 25) Þetta gerðist nóttina 5. október árið 539 f.o.t. Orðin höfðu mikil áhrif. Belsasar konungur skalf af ótta. Hann lét kalla á vitringana — töframenn sína og stjörnuspámenn sem höfðu orð á sér fyrir að geta ráðið tákn og fyrirboða. En þessi undraverðu orð voru óræð fyrir þá, þeir gátu ekki einu sinni lesið þau. Hvað var nú til ráða?

8, 9. (a) Hvaða neyðarúrræði var konungi bent á? (b) Hvernig túlkaði Daníel það sem skrifað stóð á veggnum? (c) Hvers vegna lauk veisluhöldum Belsasars konungs með svona uggvænlegum spádómi?

8 Belsasar ákvað að senda eftir Gyðingi. Gyðingi? Já, einum af þeim höfðingjum og aðalsmönnum sem Nebúkadnesar konungur hafði flutt frá Jerúsalem til Babýlonar og þjálfað til embættisstarfa. Þetta var neyðarúrræði en þó það besta sem hægt var að gera. Drottingarmóðir kvað Daníel vera speking er gæti ráðið gátur og túlkað þær. (Daníel 5:10-12) Þú getur vafalaust ímyndað þér grafarþögnina í veislusalnum þegar Daníel byrjar að útleggja hin torráðnu orð að beiðni Belsasars konungs, yfirhöfðingja þriðja heimsveldisins í sögu Biblíunnar, og stórmenna hans.

9 Daníel segir: „Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað. En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin. Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda; tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn; peres,a ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum.“ (Daníel 5:24-28) Belsasar konungur, stórmenni hans og konurnar, sem eru í slagtogi með þeim, höfðu sýnt grófa fyrirlitningu á tilbeiðslunni á Guði Daníels. Hvernig? Með því að drekka vín af gullkerjunum sem tekin höfðu verið frá musteri Jehóva í Jerúsalem þegar borgin helga var lögð í rúst árið 607 f.o.t. Það var frekleg móðgun sem bætti gráu ofan á svart. — Daníel 5:3, 4, 23.

Kýrus, sem spáð hafði verið um, tekur völdin

10, 11. (a) Hver átti, samkvæmt spádómi Jehóva, að sigra Babýlon og hvernig lýsti Jesaja þeim sigri sem í vændum var? (b) Hvernig uppfyllti Jehóva þennan spádóm og veitti Belsasar konungi og stórmennum hans verðskuldaða refsingu?

10 Í Jesaja 45:1-3 hafði hinn hæsti Guð sagt fyrir: „Svo segir [Jehóva] við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð: Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar. Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, [Jehóva], sem kalla þig með nafni þínu.“

11 Til að uppfylla þennan spádóm kom Jehóva þeirri hugmynd inn hjá Kýrusi Persakonungi að veita Evfratfljótinu úr farvegi sínum út í nærliggjandi vatn. Eftir að árfarvegurinn var tæmdur gekk her Kýrusar í skjóli náttmyrkurs eftir þurrum farveginum inn í miðja borgina. Þeir klifu upp árbakkann og gengu inn um hliðin, sem höfðu verið skilin eftir opin, rakleiðis inn í veislusalinn og yfirbuguðu verðina. Veisla Belsasars fékk þar óvæntan endi en jafnframt hlaut hann og höfðingjar hans verðskuldaða refsingu — refsingu fyrir að hafa spottað og smánað ‚herra himinsins‘ með því að misnota kerin sem stolið hafði verið úr hinu heilaga musteri Jehóva í Jerúsalem.

12. (a) Hvers vegna eignar Daníel Daríusi Medakonungi sigurinn, úr því að Jesaja hafði sagt fyrir að Kýrus myndi sigra Babýlon? (b) Hverja táknuðu Daríus og meðkonungur hans, Kýrus Persakonungur?

12 Fyrsta vers 6. kafla Daníelsbókar segir að Daríus Medakonungur hafi, eftir að hann drap Belsasar konung, ‚tekið við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt.‘ Með því að Daríus var eldri en Kýrus Persakonungur eignaði Daníel Medakonungi töku Babýlonar. Daríus ríkti frá 539 til 537 f.o.t. sem konungur medískt-persneska heimsveldisins. Hann er hæfandi táknmynd Jehóva Guðs og meðstjórnandi hans, Kýrus Persakonungur, táknmynd Jesú Krists sem Jehóva mun nota öðrum fremur til að sigra og eyðileggja ‚Babýlon hina miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða.

13, 14. Hvað benti Daníel Kýrusi Persakonungi vafalaust á og með hvaða orðum hefst Esrabók?

13 Þegar Kýrus tók við sem höfuð medísk-persneska heimsveldisins árið 537 f.o.t. hefur Daníel spámaður vafalaust vakið athygli hans á spádóminum um hann í Jesaja 45. kafla. Esrabók, skrifuð eftir útlegðina, hefst með þessum orðum:

14 „Á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés [Jehóva] honum því í brjóst — til þess að orð [Jehóva] fyrir munn Jeremía [um það að útlegðarárin yrðu 70 talsins (Jeremía 25:12; 29:10, 14)] rættust — að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, á þessa leið: ‚Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir [Jehóva], Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sá meðal yðar, er tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri [Jehóva], Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.‘“ — Esra 1:1-3.

Hinn meiri Kýrus sigrar ‚Babýlon hina miklu‘

15. (a) Hvenær tók hinn fyrirmyndaði Kýrus að ríkja? (b) Hvaða óhagganlega afstöðu taka vottar Jehóva gagnvart samsæri Sameinuðu þjóðanna og hvers vegna?

15 Hinn fyrirmyndaði Kýrus mikli tók að ríkja árið 1914 við lok ‚heiðingjatímanna,‘ eins og Jesús hafði sjálfur sagt fyrir í Lúkasi 21:24. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skeyta því engu og komu sér saman um að lýsa árið 1986 „Alþjóðlegt friðarár.“ En vottar Jehóva láta ekki koma sér á óvart í þessu efni. Þegar hin væntanlega yfirlýsing um ‚frið og öryggi‘ verður gefin út munu þeir ekki ganga í lið með pólitískum fylgismönnum og vinum ‚Babýlonar hinnar miklu‘ og fagna þessu merkilega afreki þjóðanna. Þeir vilja ekki vera aðilar að samsæri Sameinuðu þjóðanna eða annarra friðarstofnana. (Jesaja 8:12) Þeir segja með orðum Jesaja 8:20: „‚Til kenningarinnar og vitnisburðarins!‘ Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða.“ Og ástæðuna fyrir þessari óhagganlegu afstöðu sinni segja þeir vera: „Því að Guð er með oss!“ (Jesaja 8:10) Berum orðum sagt þýðir það að Jehóva tekur engan þátt í pólitískum meðulum þjóðanna í þágu ‚friðar og öryggis,‘ heldur er hann afdráttarlaus andstæðingur þeirra.

16. Hvernig munu spádómsorð Opinberunarbókarinnar 17:16, 17 rætast til fullnustu og hvaða áhrif mun það hafa á þjóna Jehóva?

16 Með slyngum kænskubrögðum mun Jehóva, fyrir milligöngu hins meiri Kýrusar, leggja stjórnmálaleiðtogum heims í brjóst að snúast gegn ‚Babýlon hinni miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða. Þeir munu reka hana í gegn eins og væru þeir hvasshyrnd villidýr. Spádómsorðin í Opinberunarbókinni 17. kafla munu rætast til fullnustu og vottar Jehóva á jörðinni fagna því stórlega. — Opinberunarbókin 17:16, 17; 19:1-3.

Varðveitum gott samband við Jehóva

17. Hvað munu valdhafar heimsins gera þótt vottar Jehóva tilheyri ekki ‚Babýlon hinni miklu‘?

17 Þótt vottar Jehóva séu ekki hluti ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heldur hafi afhjúpað hana miskunnarlaust, og þótt þeir hafi ekki tekið þátt í stjórnmálum þessa heims munu stjórnmálaöflin eigi að síður snúast gegn vottunum. Þau eru staðráðin í að fara með alræðisvald yfir mannfélaginu öllu og munu gera allsherjarárás á ráðvanda votta hins hæsta Guðs sem er uppspretta einu réttmætu stjórnarinnar yfir jörðinni.

18. Hvaða ógnþrungið afrek mun Jehóva vinna sem verður enn stórfenglegra en flóðið á dögum Nóa?

18 Það er á því augnabliki að drottinvaldur himins og jarðar mun skerast í leikinn og láta eyðendur ‚Babýlonar hinnar miklu‘ vita og skilja að sá Guð, sem hefur átt sér votta nú á 20. öldinni, er sannur Guð og alvaldur — Guð sem getur krafist óskiptrar hollustu og tilbeiðslu sköpunarvera sinna á jörðinni sem er skör fóta hans. Hann mun gera það með svo ógnþrungnum hætti að vottar hans, sem á horfa, munu gapa af undrun. Hann mun leiða þetta stríð til lykta með algerum sigri sínum. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:19-21) Þá líður undir lok þessi óguðlegi heimur, undir drottinvaldi djöfulsins, með langtum magnþrungnara sjónarspili en flóðið á dögum Nóa.

19. Hverjir verða vottar að því er Jehóva upphefur drottinvald sitt yfir alheimi, og hverju mun það bera vitni ef við verðum í þeirra hópi?

19 Jehóva átti sér votta að heimsflóðinu sem var öllum utan arkarinnar að bana. Hann mun eiga sér margfalt fleiri votta að því þegar hann í eitt skipti fyrir öll upphefur sig sem drottinvald alheimsins. (2. Pétursbréf 3:6, 7, 13, 14) Það eru þeir menn í þessum dauðadæmda heimi sem treysta á hann til að koma á friði og öryggi. Það verður uppspretta mikillar hamingju fyrir þig að vera í hópi þessara votta sem Guð mun bjarga. Þá mun það sýna sig að friður þinn og öryggi kemur frá Jehóva Guði, ekki samsæri, samblæstri eða stjórnmálamætti þessa heims undir yfirráðum djöfulsins.

20. Hvernig mun Jehóva ganga fram og hver er ásetningur okkar?

20 Jehóva Guð mun ganga dýrlegur fram sem hinn hæsti, sem sá Guð er okkur ber að tilbiðja og þjóna — Guð guðanna, hann einn sem innblásin orð sálmaritarans beindust til: „Frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ (Sálmur 90:2) Við skulum því efla traust okkar á Jehóva Guð og samfélag okkar við hann fyrir milligöngu hins meiri Kýrusar, Jesú Krists.

[Neðanmáls]

a „Ufarsin“ (parsin) er fleirtala af orðinu „peres“ og merkir „skipting“ eða „sundurhlutun.“

Manst þú?

◻ Hvað sér „Babýlon hin mikla“ ekki?

◻ Hvað tákna hin hörmulegu endalok á veislu Belsasars?

◻ Hver mun sigra ‚Babýlon hina miklu‘?

◻ Hvaða afstöðu taka vottar Jehóva til samsæris með Sameinuðu þjóðunum?

◻ Hvers vegna munu allir, sem setja traust sitt á Jehóva til að koma á friði og öryggi, hljóta hamingju?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Daníel túlkar hin torræðu orð á veggnum sem dómsboðskap yfir babýlonska heimsveldinu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila