Hið bætta hlutskipti konunnar — blandin blessun?
„Í STUTTU máli eru konur 9. áratugarins betur menntaðar, og eiga lengri og auðugari ævi.“ Með þessum orðum lauk tímaritsgrein sem hét: „Þannig vorum við; þannig erum við.“ En getur hugsast að hið bætta hlutskipti konunnar sé blandin blessun sökum óæskilegra aukaáhrifa sinna?
Áhrif á hjónaband og fjölskyldulíf
Yfirleitt er erfitt að samræma heilbrigt fjölskyldulíf og starfsframa. Í frétt segir: „Samanburður á körlum og konum í stjórnunarstörfum leiðir í ljós að konurnar sinna heimilislífinu mun minna en karlarnir, og tvöfalt meiri líkur eru á hjónaskilnaði hjá þeim en körlum.“ Hver skyldi ástæðan vera? Prófessor í stjórnunarfræðum við California State University segir: „Karlar líta á heimili sitt sem skjól og stoð en konur meira sem byrði. Þegar karlinn kemur heim slakar hann á; það er það sem hann hefur verið að vinna fyrir. En þegar konan kemur heim bíður hennar bara meiri vinna.“
Það á auðvitað ekki aðeins við um konur í stjórnunarstörfum. Sovéskar konur hafa verið hluti vinnuaflsins heilli kynslóð lengur en konur víðast hvar á Vesturlöndum. Þær líta enn á það sem byrði að þurfa bæði að vinna úti og annast fjölskyldu. Sovéskur ritstjóri tímaritsins Working Women segir: „Konur eru hjarta fjölskyldunnar og verða að vera hlýjar og umhyggjusamar til að geta skapað andrúmsloft hlýju og kærleika.“ Þær bera því tvöfalda byrði, því að karlar taka margir hverjir ekki þátt í heimilisstörfunum.
Ein þeirra kvenna, sem hvað lengst hafa náð í fjármálaheiminum í Wall Street í New York, er glöggt dæmi um aðra orsök þess að árekstrar verða. Hún segir með nokkru stærilæti: „Vinnan er hrein upplyfting fyrir mig,“ og bætir svo við: „Ég hef ánægju af því sem ég er að gera og hliðra sjaldan til fyrir nokkru eða nokkrum“ — ekki einu sinni fjölskyldunni. Velferð fjölskyldunnar er undir eiginmanninum komin. Þótt hann gegni starfi í viðskiptaheiminum annast hann um börnin þeirra tvö. Samstarfsmenn konunnar segja að þessi brennandi áhugi hennar hafi „greinilega ekki góð áhrif á fjölskyldulífið.“
Hið sama er að segja um eina þeirra kvenna sem farið hafa með forsætisráðherraembætti. Pólitísk metnaðargirni hennar olli því að hún gaf fjölskyldu sinni fremur lítinn gaum. Meðan börnin voru að alast upp voru þau tíðir gestir á heimili frænda síns, því að „eitt af því skemmtilegasta, sem þau gátu hugsað sér, var að setjast að matarborði sem fjölskylda, en því var sjaldan hægt að koma við“ heima hjá þeim.
Í nýlegu viðtali við fjórar af fremstu konum í evrópsku atvinnulífi sagði ein þeirra frá því að maðurinn hennar sæi nánast einn um uppeldi tólf ára dóttur þeirra. Önnur sagðist aðeins geta sinnt börnunum um helgar. Samkvæmt fréttum fjölmiðla vakti það athygli fólks að þrjár þessara kvenna virtust eiga erfitt með að umgangast aðra.
Að sjálfsögðu er sumum konum nauðugur einn kostur að vinna úti, ef til vill vegna þess að eiginmaðurinn er látinn eða hefur yfirgefið fjölskylduna. Fyrir slíkar konur er það nokkur blessun að geta fengið vinnu, en hvort sem þeim líkar betur eða verr þurfa þær að horfast í augu við hinar neikvæðu hliðar.
Neikvæð áhrif
Ljóst er af þeim áhrifum sem það yfirleitt hefur þegar konan vinnur fyrir hærri tekjum eða gegnir virðulegra starfi en maðurinn að hið breytta hlutskipti konunnar er blandin blessun. Hjúskaparráðgjafar segja að þessi þróun „skapi í vaxandi mæli hættuástand í æ fleiri hjónaböndum.“ Kvartanir eins eiginmanns eru dæmigerðar: „Í huga mér fagna ég velgengni hennar, en mér líður samt illa. Mér finnst ég yfirgefinn. Og svo hef ég samviskubit út af því að láta þetta koma mér í uppnám.“ Ef kristin hjón þurfa bæði að vinna úti má draga úr slíkum neikvæðum tilfinningum með því að ræða málið opinskátt í kærleiksanda og sýna hvoru öðru tillitssemi. — 1. Pétursbréf 4:8.
Annað sem sýnir að breytt hlutskipti konunnar er blandin blessun er sú áhersla sem margir baráttumenn fyrir réttindum kvenna leggja á eiginhagsmunasjónarmið. Bókin The Coming Matriarchy talar um þann tíma þegar heiminum verður stjórnað af konum sem eru eigingjarnar og spyrja í sífellu: „Hvað get ég fengið út úr því?“ Svo grátbroslegt sem það kann að virðast lét fjármálakonan, sem áður er lýst, einmitt þetta í ljós; hún hafði ekki áhuga á að hjálpa öðrum að klífa starfsframastigann nema hún hagnaðist sjálf á því. Hún viðurkenndi: „Ég hugsa of mikið um hagnað.“ En er það hyggilegt í ljósi þess sem Jesús ráðlagði? Hann sagði í fjallræðunni: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ (Matteus 7:12; 6:34) Kristnar konur ættu að kappkosta að hafa sömu viðhorf og Jesús.
Má siðferði Biblíunnar missa sig?
Neikvæðasta hlið hins breytta hlutskiptis konunnar er tvímælalaust það að lítið er lagt upp úr siðferðisverðmætum. Það er sjaldgæft að baráttumenn fyrir kvenréttindum tali um Guð og trúarbrögð, og þegar þeir gera það er það yfirleitt í gagnrýnistón. Konur, sem bíða með að ganga í hjónaband sökum starfsframa síns, eru oft þeirrar skoðunar að kynlíf fyrir hjónaband sé í stakasta lagi.
Stuðningur kvenréttindahreyfingarinnar við kynvillu kvenna hlýtur að teljast mjög neikvæður. Á ársfundi bandarísku kvennasamtakanna NOW (National Organization of Women) árið 1971 var samþykkt eftirfarandi ályktun: „Að NOW viðurkennir hina tvíþættu kúgun samkynhneigðra kvenna, að réttur konunnar yfir líkama sínum er jafnframt réttur til að ákveða kynhneigð sína og láta hana í ljós og að velja sér lífsstíl; að NOW viðurkennir að kúgun samkynhneigðra kvenna sé lögmætt baráttumál kvenréttindahreyfingarinnar.“ Berðu þetta saman við dóm Guðs í Rómverjabréfinu 1:26, 27. Viðhorf baráttumanna fyrir kvenréttindum til kynvillu helst að jafnaði í hendur við kröfur þeirra um frjálsar fóstureyðingar. Lagaprófessorinn Billups Percy við Tulane University komst vel að orði þegar hann sagði: „Að líta á eyðingu fósturs sem eðlilega skurðaðgerð jafngildir því að virða að vettugi afbrotafræði, guðfræði og siðferðisheimspeki margra alda.“
Í frétt einni kemur fram að alvarleg afbrot af hálfu kvenna hafi á síðasta áratug aukist mun hraðar en afbrot karla. Á árabilinu 1974 til 1979 fjölgaði um helming konum sem handteknar voru í Bandaríkjunum fyrir fjársvik en körlum aðeins um 13 af hundraði. Konum, sekum um fjárdrátt, fjölgaði á sama tímabili um 50 af hundraði en körlum aðeins um 1,5 af hundraði. Konum handteknum fyrir skjalafals fjölgaði um 27,7 af hundraði en körlum innan við 10 af hundraði. Ljóst er að hið breytta hlutskipti konunnar hefur ekki veitt henni lífsfyllingu.
Tóbaksnotkun hefur einnig aukist meðal kvenna. Brjóstkrabbamein er að víkja fyrir lungnakrabba sem algengasta dánarorsök af völdum krabbameins meðal kvenna. Ekki alls fyrir löngu stafaði fjórðungur dauðsfalla kvenna af völdum krabbameins af lungnakrabba og tíðnin vex sem nemur 7 af hundraði á ári.
Hamingjurík framtíð — hvernig?
Sífellt fleiri konur verða að viðurkenna að atvinna eða starfsframi getur ekki veitt fullkomna lífsfyllingu. Hilary Cosell, höfundur bókarinnar Woman On A Seesaw: The Ups and Downs of Making It, ræddi um þetta vandamál í grein sem hún skrifaði, og spurði meðal annars: „Ef konur hafa áður farið villar vegar í sambandi við hjónaband, móðurhlutverkið og húsmóðurstarfið, er þá ekki hugsanlegt að þær séu aftur á villigötum í sambandi við atvinnu og starfsframa?“ Hún spurði einnig: „Getum við í alvöru gert allt sem mæður okkar gerðu, og líka það sem feður okkar gerðu?“
Í bókinni The Cost of Loving vekur Megan Marshall athygli á að „brautargengi í atvinnulífinu sé aðeins þunn skýla sem getur illa hulið hin leyndu sár: ástarsorgir, áráttukennt lauslæti, tilraunir með kynvillusambönd, fóstureyðingar, hjónaskilnaði og hreinan og beinan einmanaleika.“ Hún getur þess hvernig kvennahreyfingin fæddi af sér „sjálfstæðisgoðsögnina“ sem virkar sjaldan í reynd.
Marshall segir að lokum: „Við verðum að trúa á þann trausta kærleika sem gott hjónaband verndar,“ að „manneskjan þrífist ekki ein saman“ og að „við verðum að finna aðra sem við getum sýnt umhyggju og endurgjalda hana.“ Þetta minnir okkur á orð mesta kennara sem verið hefur á jörð, Jesú Krists: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
Menn hafa tilhneigingu til að fara úr einum öfgunum í aðrar. Það að hið bætta hlutskipti konunnar skuli ekki vera óblandin blessun undirstrikar orð spámannsins Jeremía: „[Það er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) En kristnar konur, sem gera sér ljóst hvaða breytingar hafa orðið (og hvaða blessun og bölvun fylgir þeim), skynja hversu verðmætt er að fylgja boðum Guðs. Reynslan hefur sýnt að þau boð eru eftirsóknarverðari og „dýrmætari heldur en gull.“ ‚Það hefur mikil laun í för með sér að halda þau.‘ — Sálmur 19:8-12.