Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.1. bls. 8-13
  • Unglingar — hvernig ætlið þið að verja lífi ykkar?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Unglingar — hvernig ætlið þið að verja lífi ykkar?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Vinsælar fyrirmyndir
  • Hvaða ráðum ber að fylgja?
  • Góðar fyrirmyndir
  • Lifðu fyrir nýjan heim Guðs
  • Unglingar — setjið ykkur markmið Guði til heiðurs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • „Elskað og trútt barn mitt í samfélagi við Drottin“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2016
  • Tímóteus langaði til að hjálpa fólki
    Kenndu börnunum
  • Hver ætti að vera fyrirmynd mín?
    Vaknið! – 1998
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.1. bls. 8-13

Unglingar — hvernig ætlið þið að verja lífi ykkar?

„Til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn.“ — 2. KORINTUBRÉF 5:15.

1. Hvernig láta menn stundum í ljós þakklæti sitt og hvers vegna?

‚ÞAKKA þér fyrir! Ég á þér líf mitt að launa!‘ Þetta hafa sumir sagt við þá sem hafa bjargað þeim úr brennandi húsi eða frá drukknun. Og þakklátir kristnir unglingar hafa sagt eitthvað þessu líkt við foreldra sína. Þá höfðu þeir ekki aðeins í huga lífið í líkamanum sem þeir fengu frá foreldrum sínum heldur sér í lagi þá ástríku umhyggju og fræðslu foreldranna sem gaf þeim tækifæri til að hljóta „fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:25.

2. Hvers vegna ættir þú að íhuga alvarlega hvernig þú ætlir að verja lífi þínu?

2 Það var kærleikur sem fékk Jehóva Guð til að gefa okkur öllum möguleika á að hljóta eilíft líf, „hið sanna líf.“ „Hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ (1. Tímóteusarbréf 6:19; 1. Jóhannesarbréf 4:10) Hugsaðu þér líka hvílíkan kærleika Jesús, sonur hans, sýndi með því að deyja kvalafullum dauða til að við gætum hlotið eilíft líf! (Jóhannes 15:13) Í ljósi þessa er eðlilegt að spyrja: Hvernig ætlar þú að verja lífi þínu?

3. Hvað ræður oft úrslitum um hvaða lífsstefnu fólk tekur?

3 Námsráðgjafar í skóla eða aðrir, sem láta sér annt um framtíð unglinga, spyrja þá oft þessarar spurningar í einni mynd eða annarri. Af hverju mun svar þitt ráðast? Mun svar þitt ráðast eingöngu af eigin hugðarefnum og löngunum? Munu ráð þeirra sem vilja að þú tryggir þér gott og vel launað starf ráða úrslitum? Munu önnur markmið og æðri ráða því hvaða stefnu þú markar lífi þínu? Í innblásnu orði Guðs erum við minnt á þetta: „Hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:15) Ber okkur ekki að verja lífi okkar þannig að það endurspegli þakklæti fyrir það sem Jesús Kristur og himneskur faðir hans hafa gert fyrir okkur?

Vinsælar fyrirmyndir

4. Hverjar eru vinsælustu fyrirmyndirnar nú á dögum?

4 En hverjir eru það sem ungt fólk í heiminum tekur sér oftast til fyrirmyndar? Eru það ekki hinir ríku og frægu, óháð siðferði þeirra? Myndir af hverjum skreyta veggi hjá fjölmörgu ungu fólki? Oft eru það frægir tónlistarmenn, kvikmyndastjörnur og íþróttamenn. Algengt er að unglinga dreymi um að ná einhvern tíma sams konar frama í heiminum, eða þá að giftast einhverjum sem líkist einhverju af þessu fólki í útliti. Hvað um þig? Hvað vilt þú að lífið veiti þér?

5, 6. (a) Hvers vegna er hægt að segja að frami í heiminum sé ekki lykillinn að sannri lífsfyllingu? (b) Hvernig er hægt að njóta lífsfyllingar?

5 Myndir þú hljóta sanna hamingju og lífsfyllingu ef þú næðir þeim frama í heiminum sem hinar dáðu stjörnur hafa náð? Ein af þekktustu leikkonum Hollywood sagði: „Ég hef fengið peninga og öll hin efnislegu gæði. Þau eru einskis virði. Í þessu bæjarfélagi fylgir sálfræðingur hverri sundlaug, að ekki sé nú minnst á hjónaskilnaði og börn sem hata foreldra sína.“ — Prédikarinn 5:10; 1. Tímóteusarbréf 6:10.

6 Framúrskarandi íþróttakona, sem árið 1981 sigraði í tíu kílómetra hlaupi í kvennadeild í New York, var svo vonsvikin með allt saman að hún reyndi að svipta sig lífi. „Ég hef lært mörg lífssannindi síðustu mánuði,“ sagði hún síðar. „Ein eru þau að sönn lífsfylling fæst ekki með því að keppa eftir fullkomnun og árangri á þá ýmsu vegu sem svo margir reyna. Það veitti mér ekki lífsfyllingu að ná fyrsta flokks námsárangri, vinna fylkismeistaratitil í hlaupi eða hafa aðlaðandi sköpulag.“ Já, fólki þarf að lærast að sönn lífsfylling fæst aðeins í gegnum persónulegt samband við Guð, því að hann einn getur veitt mönnum ósvikinn frið og hamingju. — Sálmur 23:1, 6; 16:11.

7. Hve stóru hlutverki gegna háskólamenntun og velgengni í heiminum í því að njóta lífsfyllingar?

7 Ljóst er því að þig ætti ekki að langa til að líkja eftir þeim sem leggja allt kapp á að öðlast fé, frægð og frama. Jafnvel veraldlegir rithöfundar hafa veitt því athygli að velgengni í heiminum er ekki lykillinn að sannri lífshamingju. Dálkahöfundurinn Billy Reel skrifaði: „Menn eiga sér háleita framtíðardrauma þegar þeir útskrifast úr háskóla. Því miður verða þeir flestir að engu. Ég vil ekki lama hugrekki og siðferðisþrek þitt, en það er eins gott að þú vitir sannleikann: Þegar þú kemst yfir eignirnar, sem þú girnist, ef þú kemst yfir þær, og þegar þú nærð þeim árangri sem þú keppir eftir, ef þú nærð honum, þá mun hann ekki veita lífi þínu fyllingu. Á því augnabliki sem þú reiknaðir með að vera í sigurvímu finnur þú til tómleika en ekki fullnægju, depurðar en ekki gleði, óróleika en ekki friðar.“ — New York Daily News þann 26. maí 1983.

8. Hvaða ástæða er til þess að keppa ekki eftir frama í heiminum?

8 Við sem fylgjumst af athygli með þýðingu heimsviðburðanna í ljósi spádóma Biblíunnar höfum margfalt sterkara tilefni til að láta ekki starfsframa í heiminum sitja í fyrirrúmi. (Matteus 24:3-14) Við gætum líkt okkur við mann sem kemur að skilti á húsvegg þar sem stendur: „Fyrirtækið hættir.“ Myndir þú sækja um atvinnu þar? Auðvitað ekki! Ef við ynnum hjá slíku fyrirtæki væri hyggilegt af okkur að leita að atvinnu annars staðar. Þetta skilti blasir í raun við á öllum stofnunum þessa heims: „Fyrirtækið hættir — endirinn er í nánd“! Biblían fullvissar okkur um að ‚heimurinn fyrirfarist.‘ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Því er skynsamlegt að taka sér ekki til fyrirmyndar þá sem eru á kafi í málefnum heimsins.

Hvaða ráðum ber að fylgja?

9. Hvaða ráð kannt þú að fá frá þeim sem virðast vilja þér vel?

9 Líf þitt og lífsstefna mótast ekki aðeins af þeim sem þú metur mikils, heldur líka oft af ættingjum og vinum sem ‚vilja þér vel,‘ eins og þeir orða það. ‚Þú þarft að vinna fyrir þér,‘ segja þeir kannski. Vera má að þeir hvetji þig til að fara í háskóla til að þú getir síðar fengið vel launað starf. ‚Biblíuritarinn Lúkas var læknir,‘ segja þeir ef til vill ‚og Páll postuli lærði hjá lögmálskennaranum Gamalíel.‘ (Kólossubréfið 4:14; Postulasagan 5:34; 22:3) En skoðaðu þessi ráð með gagnrýnu auga.

10. Hvað ráðlögðu Lúkas og Páll og hvað má segja um starf þeirra áður en þeir tóku trú?

10 Læknirinn Lúkas hvatti kristna menn aldrei til að læra læknisfræði eins og hann hafði gert áður. Þess í stað réð hann öðrum að líkja eftir Jesú og postulum hans. Bersýnilega hafði Lúkas fengið læknismenntun áður en hann kynntist Kristi, en eftir það lét hann hina kristnu þjónustu hafa forgang í lífinu. Hið sama má segja um Pál. Hann hvatti ekki aðra til að líkja eftir sér eins og hann hafði líkt eftir Gamalíel heldur skrifaði: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ Svo mikils mat Páll þekkinguna á Kristi að hann leit á sína fyrri menntun og stöðu „sem sorp“ í samanburði. — 1. Korintubréf 11:1; Filippíbréfið 3:8.

11. (a) Hvað sagði Pétur við Jesú og hvers vegna? (b) Hvernig brást Jesús við?

11 Mundu að þeir sem elska þig geta stundum látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og þar af leiðandi gefið þér slæm ráð. Þegar Jesús talaði um það sem biði hans í Jerúsalem sagði Pétur postuli: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Pétri þótti vænt um Jesú og vildi ekki að hann myndi þjást. En Jesús ávítaði Pétur því að honum var ljóst að hann yrði bæði að þjást og deyja fyrir hendi andstæðinganna til að gera vilja Guðs. — Matteus 16:21-23.

12. Hvaða ráð eru kristnum ungmennum stundum gefin og hvers vegna?

12 Á líkan hátt gæti það gerst að foreldrar þínir eða vinir letji þig þess að láta fórnfýsi ráða lífsstefnu þinni. Þar eð þeir láta tilfinningarnar verða skynseminni yfirsterkari eru þeir kannski hikandi við að hvetja þig til að verða brautryðjandi, þjóna sem trúboði eða sem sjálfboðaliði á einhverjum af skrifstofum votta Jehóva. Þeir segja kannski: ‚Viltu ekki heldur gifta þig og setjast að einhvers staðar í grennd við okkur?‘ eða þá: ‚Þú veist að vinnan á Betel er erfið. Væri ekki betra fyrir þig að búa hjá okkur?‘ Eins og Pétur hvetja þeir þig til að ‚vera góður við sjálfan þig.‘

13. (a) Hvaða viðhorf lét Pétur síðar í ljós? (b) Hvað er fólgið í því að vera sannkristinn maður?

13 Jafnvel þjónar Jehóva þurfa stundum að leiðrétta hugsun sína. Pétur þurfti þess og skrifaði síðar meir: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Að vera sannkristinn maður felur í sér fórnfýsi, jafnvel þjáningar. Það er ekki auðveld lífsstefna en það er sú sem við, kristnir menn, erum kallaðir til. Ef við veljum þá lífsbraut‚ lifum við ekki lengur fyrir sjálfa okkur heldur fyrir hann sem dó fyrir okkur.‘ (2. Korintubréf 5:15) Ef við veljum okkur góðar fyrirmyndir til eftirbreytni munum við láta fórnfýsi stjórna lífi okkar.

Góðar fyrirmyndir

14. Hvaða fordæmi gaf Jesús?

14 Jesús er sú fyrirmynd sem þú þarft fyrst og fremst að velja þér. Hann var fullkominn og hefði getað orðið fremsti íþróttamaður, tónlistarmaður, læknir eða lögmaður veraldar. En athygli hans beindist að því að þóknast himneskum föður sínum, jafnvel meðan hann var barn og unglingur. (Lúkas 2:42-49) Hann sagði síðar: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Sumarið 1986 birtist bréf í kirkjutímaritinu Ministry þar sem sagði meðal annars: „Frelsari okkar vildi ekkert frekar en að komast burt frá fjöldanum, og þá fór hann hús úr húsi í sálnaleit. Helst vildi hann tala við einn mann í einu. Þá gat hann miðlað sannleikanum — kærleika Guðs.“ — Lúkas 10:1-16.

15. (a) Hvers vegna er prédikun hús úr húsi krefjandi verkefni? (b) Hvað sýnir að prédikun ungs fólks hús úr húsi ber góðan ávöxt?

15 Prédikun hús úr húsi er vitanlega ekki auðveld. Hún kallar á rækilegt nám til að skilja fagnaðarerindið um Guðsríki og mikla vinnu við undirbúning á kynningarorðum sem segja fólki eitthvað. Þessi þjónusta kallar auk þess á hugrekki, því að fæstir húsráðendur hafa áhuga og sumir eru beinlínis fjandsamlegir. En þjónusta ykkar unga fólksins hús úr húsi hefur stórkostleg áhrif eins og fram kom í ítalska sóknarblaðinu La Voce. Sá sem þar skrifaði sagði: „Mér geðjast vel að vottum Jehóva“ sem, eins og hann sagði, „koma og tala við fólk heima hjá því.“ Hann sagði: „Þeir vottar Jehóva, sem ég þekki, eru ólastanlegir í hegðun, mildir í máli, fallegt fólk og flest ungt. Fegurð og æska búa yfir miklum sannfæringarkrafti.“

16. (a) Fyrir hvað á ungt fólk hrós skilið? (b) Hvernig er skipulag votta Jehóva í samanburði við kirkjufélögin, að því er varðar að vinna mikilvægasta starfið á jörðinni?

16 Þið unga fólkið, sem takið ykkur Krist til fyrirmyndar, eigið mikið hrós skilið! Í Bandaríkjunum eru yfir 12.000 ungmenni undir 25 ára aldri í brautryðjandastarfi, og tugþúsundir annars staðar í heiminum. (Sálmur 110:3) Hafið alltaf hugfast að ekkert annað starf getur verið þýðingarmeira! Jafnvel sá sem skrifaði í áðurnefnt kirkjurit sagði: „Guð segir að þýðingarmesta starfið sé heimsóknir hús úr húsi — sálnaveiðar.“ En svo sagði hann: „Hvað segir þú um þetta? Hve margar heimsóknir höfum þú og ég farið í? Ég hef ekki séð mikið talað um þess konar starf í [tímaritinu] Ministry.“ Megum við ekki vera þakklát fyrir að heyra til skipulagi sem leggur áherslu á nauðsyn þess að líkja eftir fordæmi Jesú í að prédika?

17. Hvað hafði Tímóteus gert meðan hann enn var undir tvítugu og hvað sýnir að hann var trúlega það ungur?

17 Það sem þú gerir í lífinu ræðst að miklu leyti af þeim sem þú dáist að. Því skalt þú veita athygli þeirri fyrirmynd sem hinn ungi Tímóteus gaf. Tímóteus fæddist skömmu eftir dauða Jesú og var enn ungur maður þegar hann yfirgaf fjölskyldu sína og slóst í för með Páli á annarri trúboðsferð hans. Nokkrum mánuðum síðar neyddu skrílslæti þá Pál og Sílas til að flýja Þessaloníku, þó ekki fyrr en þeir höfðu gert nokkra menn að lærisveinum. (Postulasagan 16:1-3; 17:1-10, 13-15) Skömmu síðar sendi Páll Tímóteus til þessa hættulega svæðis til að hughreysta lærisveinana í þrengingum þeirra. (1. Þessaloníkubréf 3:1-3) Tímóteus hafði sennilega ekki náð tvítugsaldri þegar þetta gerðist, því að um 12 til 14 árum síðar talaði Páll enn um „æsku“ hans. (1. Tímóteusarbréf 4:12) Er ekki ástæða til að dást að ungum manni sem hafði til að bera slíkt hugrekki og fórnfýsi?

18. Hvers vegna ætlaði Páll að senda Tímóteus til Korintumanna?

18 Fimm árum eftir að Tímóteusi var falið að styrkja bræðurna í Þessaloníku sendi Páll Korintumönnum bréf frá Efesus: „Verið eftirbreytendur mínir. Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, . . . hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.“ (1. Korintubréf 4:16, 17) Hinn ungi Tímóteus hafði þá starfað um fimm ára skeið með Páli og var gagnkunnugur kennsluaðferðum hans. Hann vissi hvernig Páll hafði flutt Efesusmönnum boðskapinn og kennt þeim „opinberlega og í heimahúsum.“ (Postulasagan 20:20, 21) Með því að Tímóteus hafði fengið góða kennslu í slíkum prédikunaraðferðum hlýtur hann að hafa verið söfnuðinum til mikillar hjálpar.

19. Hvað segir Páll um Tímóteus liðlega áratug eftir að þeir byrjuðu að þjóna saman?

19 Enn líða fimm eða sex ár og Páll er nú í fangelsi í Róm. Tímóteus, sem sjálfur var nýlega laus úr fangelsi, er hjá honum. (Hebreabréfið 13:23) Reyndu að sjá þetta fyrir þér: Páll les fyrir bréf til Filippímanna og Tímóteus er ef til vill ritari hans. Rólega og yfirvegað les Páll: „Ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar . . . Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. . . . Þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.“ — Filippíbréfið 1:1; 2:19-22.

20. Á hvaða sviðum gaf Tímóteus unglingum frábært fordæmi?

20 Svo sannarlega er hinn ungi Tímóteus fordæmi sem vert er að líkja eftir! Hann var trúfastur og trygglyndur félagi Páls, fylgdi honum í gegnum þykkt og þunnt, studdi hann í prédikunarstarfinu og var fús til að þjóna hvar sem hann var sendur. Hann fórnaði svokölluðu eðlilegu heimilislífi, en þjónusta hans við Guð veitti honum sannarlega mikla lífsfyllingu! Víst er að Tímóteus ‚lifði ekki framar fyrir sjálfan sig heldur fyrir Krist sem var dáinn fyrir hann.‘ (2. Korintubréf 5:15) Finnur þú hjá þér hvöt til að líkja eftir fordæmi hans?

Lifðu fyrir nýjan heim Guðs

21. Hvað sýnir að Tímóteus var andlega sinnaður?

21 Tímóteus lifði í reynd fyrir nýjan heim Guðs. Hann hugsaði ekki bara um líðandi stund heldur notaði líf sitt til að safna sér óforgengilegum auði. (Matteus 6:19-21) Faðir Tímóteusar var grískur og eftir öllu að dæma ekki í trúnni og hann kann að hafa hvatt Tímóteus til að mennta sig og komast áfram í heiminum. En móðir hans og amma höfðu alið hann upp í guðrækni og hann var upptekinn af þjónustu við kristna söfnuðinn. Hann lét andleg mál sitja í fyrirrúmi og virðist hafa verið einhleypur, að minnsta kosti um skeið, og vel hæfur til að þjóna með Páli postula. — 2. Tímóteusarbréf 1:5.

22. Hvaða stefnu, líkt og Tímóteus tók, leggur „Skólabæklingurinn“ áherslu á fyrir kristin ungmenni?

22 Hvað um þig? Munt þú nota unglingsár þín á sama veg og Tímóteus? Bæklingurinn Skólinn og vottar Jehóva ræðir um slíka lífsstefnu þegar hann segir um unga votta Jehóva: „Meginmarkmið þeirra í lífinu er að vera góðir þjónar Guðs og þeir líta á skólagöngu sem hjálp til að ná því marki. Þeir velja sér því yfirleitt námsgreinar sem geta hjálpað þeim að sjá fyrir sér í nútímaþjóðfélagi. Margir læra því iðn af einhverju tagi. Þegar skólagöngu lýkur vilja þeir fá sér atvinnu sem gefur þeim frjálsræði til að einbeita sér að meginstarfi sínu, hinni kristnu þjónustu.“

23. Hvers vegna ætti ekki að vera erfitt fyrir kristið æskufólk að svara spurningunni: ‚Hvernig ætla ég að verja lífi mínu?“

23 Ef þú metur fullkomlega að verðleikum það sem Jehóva Guð og sonur hans hafa gert fyrir þig, þá ættir þú ekki að eiga í erfiðleikum með að svara spurningunni: Hvernig ætla ég að verja lífi mínu? Í stað þess að lifa fyrir sjálfan þig og eigin unað og ánægju munt þú nota líf þitt til að gera vilja Guðs. Þú munt vera andlegur maður eins og Tímóteus.

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvers vegna ættu sannkristnir menn ekki að leggja megináherslu á starfsframa?

◻ Hvaða óhyggileg ráð hafa sumir gefið en hvað má læra af svari Jesú við Pétur?

◻ Á hvaða vegu eru Jesús og Tímóteus ungu fólki góð fordæmi til eftirbreytni?

◻ Hvað felst í því að vera andlega sinnaður?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Þótt Lúkas væri læknismenntaður lét hann andleg mál sitja í fyrirrúmi í lífi sínu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila