Trúarlækningar — í hverju liggur aðdráttarafl þeirra?
„Kirkjan endurómar af tónlist sem leikin er á gítar, trompet, trommur, bjöllutrommur og málmgjöll. Karlar, konur og börn dansa og syngja í æsilegu algleymi. Hugarástand kirkjugesta er slíkt að lækningarnar geta byrjað.
Trúarlæknirinn, klæddur hvítri fellingaskikkju, byrjar lækningarnar með því að leggja hendurnar yfir bæklaðan mann sem skríður um á fjórum fótum. Því næst á blindan mann sem felur augun á bak við dökk gleraugu. „Þetta er kraftaverk!“ hrópa áhorfendur þegar hinn bæklaði byrjar að ganga og hinn blindi að sjá . . .
SJÓNARSPIL af þessu tagi eru algeng í mörgum afrískum kirkjum þar sem trúarlækningar eru iðkaðar. Trúarlæknar eiga miklu fylgi að fagna í Afríkulöndum og víðar, sökum þess að þeir segjast geta leyst alls kyns vandamál með bæn og trú á Guð. Sumir leggja jafnvel peningavandræði sín fyrir trúarlæknana. Í Afríkulöndum er oft litið á barnleysi sem skammarblett og sumir leita því til trúarlækna í von um lækningu á ófrjósemi sinni.
Það eru þó veikindi og sjúkdómar af ýmsu tagi sem trúarlæknarnir beina fyrst og fremst athygli sinni að. Þótt nóg sé til af lyfjum á heimsmarkaðinum og viðleitni lækna til að lina þjáningar sjúkra sé lofsverð er enn langur vegur að lausninni á öllum meinum manna. Sumir hafa eytt stórum fjárhæðum í leit að lækningu á meinum sínum án þess að fá nokkra bót. Það er því ekkert undarlegt að margir skuli í örvæntingu sinni leita á náðir trúarlækna!
Sumum finnst sem trúarlækningar hafi hjálpað sér og sjá ekki að þær brjóti á nokkurn hátt í bága við kristna trú. Trúarlæknar segjast margir lækna í Jesú nafni og er því ekki óvenjulegt að fylgjendur þeirra tilheyri bæði einhverri af hinum stóru kirkjudeildum og söfnuði sem stundar trúarlækningar. En er rétt af sönnum tilbiðjenda Guðs að leita til trúarlækna? (Jóhannes 4:23) Og eru þær „lækningar,“ sem þeir koma til vegar, í raun og sannleika frá Guði?