Trúarlækningar — eru þær frá Guði?
MAÐURINN hafði verið sjúkur í 38 ár. „Viltu verða heill?“ spurði Jesús. Hefðir þú ekki svarað ákafur játandi ef þú hefðir verið í sporum þessa manns? Jesús sagði honum: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Áhrifin voru þessi: „Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.“ — Jóhannes 5:5-9.
Þessi guðlega lækning var ein af mörgum sem Jesús gerði meðan þjónusta hans á jörð stóð yfir. (Matteus 11:4, 5) Trúarlæknar nútímans segja að Guð lækni enn fólk með þessum hætti, og styðja staðhæfingu sína með vitnisburði þúsunda manna sem fullyrða að þeir hafi hlotið slíka lækningu.
Veigamikill munur
Athugun á frásögum Biblíunnar leiðir í ljós margþættan og veigamikinn mun á þeim lækningum, sem Biblían segir frá, og þeim sem trúarlæknar nútímans segjast inna af hendi. Jesús og lærisveinar hans tóku til dæmis aldrei gjald fyrir lækningar sínar. „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té,“ kenndi Jesús. (Matteus 10:8) Þeir fylgdu þar með fordæmi Elísa sem afþakkaði gjöf frá manni að nafni Namaan, en Elísa hafði læknað hann af holdsveiki. (2. Konungabók 5:1, 14-16) Þegar trúarlæknar taka gjald fyrir þjónustu sína eru þeir þar með að brjóta gegn þessu fordæmi Ritningarinnar.
Athyglisvert er einnig að þær lækningar, sem voru framkvæmdar á biblíutímanum, áttu sér annaðhvort stað á augabragði eða mjög skömmum tíma. Þegar Pétur postuli sá mann, sem var „lami frá móðurlífi,“ sagði hann við hann: „Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ Frásagan heldur áfram: „Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, hann spratt upp, stóð á fætur og tók að ganga.“ (Postulasagan 3:1-8) Lestu sjálfur aðrar frásögur í Postulasögunni 15:15, 16 og 14:8-10.
Trúarlækningar nútímans taka aftur á móti oft daga, vikur eða jafnvel mánuði! Það er einnig eftirtektarvert að trúarlæknar virðast einbeita sér að starfrænum sjúkdómum svo sem blindu, lömun eða heyrnarleysi — sjúkdómum sem stundum eiga sér sálfræðilegar orsakir. Skurðlæknir að nafni Paul Brand segir: „Þegar um óumdeilanlega, vefræna kvilla er að ræða — svo sem þegar fótlegg, augu eða hársekki vantar — eru kraftaverk sjaldgæf.“ Jesús læknaði aftur á móti „hvers kyns sjúkdóm og veikindi,“ þeirra á meðal augljósa vefræna kvilla svo sem visnaða hönd. — Matteus 9:35; Markús 3:3-5.
‚Þig skortir trú!‘
Margt alvarlega sjúkt fólk sækir lækninga- og vakningarsamkomur til þess eins að snúa heim jafnveikt sem fyrr. Trúarlæknar afsaka sig með því að slíkt fólk ‚skorti trú!‘ En slíkar afsakanir bera keim af hreinum svikum. Dr. William Nolan segir: „Ólíkt venjulegum lækni þarf trúarlæknirinn aldrei að taka á sig ábyrgðina þegar lækning hans mistekst. Ég verð að játa að ég vildi gjarnan geta borið slíku við þegar ég stend frammi fyrir sjúklingi sem ég get ekki læknað.“
Hvorki spámenn Guðs, Jesús né lærisveinar Jesú þurftu nokkurn tíma að grípa til þeirrar afsökunar að einhver hafi ekki læknast sökum þess að hann hafi skort trú. Að vísu getur skortur á trú hafa sett því takmörk hve margir gengu fram til að hljóta lækningu, en þeir sem gerðu það urðu alltaf alheilbrigðir! — Markús 6:5, 6.
Meira að segja voru stundum læknaðir einstaklingar sem augljóslega skorti trú. Namaan hershöfðingi í Sýrlandsher trúði til dæmis ekki fyllilega að hann gæti læknast af holdsveiki sinni á þann hátt sem Elísa spámaður hafði gefið fyrirmæli um. Það var ekki fyrr en eftir lækningu sína sem hann játaði: „Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael.“ (2. Konungabók 5:11-13, 15) Hinar haldlitlu afsakanir trúarlæknanna eru því ómerkar.
Lækningagáfan leið undir lok
En var ekki undraverð lækningagáfa þekkt meðal frumkristinna manna? (1. Korintubréf 12:9) Jú, en kraftaverkin, sem gerðust þá, áttu sér sérstakt tilefni. Í meira en fimmtán aldir var Ísrael að holdinu hin útvalda þjóð Guðs; en á fyrstu öld okkar tímatals var Ísrael hafnað sökum þess að þjóðina skorti trú, og hinn nýi kristni söfnuður kom í hennar stað. Þessir frumkristnu menn þurftu hjálp umfram það sem venjulegt var til að styrkja trú sína og sanna fyrir umheiminum að Jehóva Guð stæði á bak við þá.
Því voru frumkristna söfnuðinum, meðan hann var á bernskuskeiði, gefnar ýmsar kraftaverkagáfur, þeirra á meðal lækningagáfa. Þær voru „til tákns“ fyrir vantrúaða og áttu einnig sinn þátt í að byggja upp trú kristinna manna. (1. Korintubréf 14:22) En núna, tæplega 2000 árum síðar, er kristnin löngu af bernskuskeiði. (Samanber 1. Korintubréf 13:9-13.) Ritun Biblíunnar er löngu lokið og henni hefur verið dreift í milljónatali. Sannkristnir nútímamenn eiga því auðvelt með að benda þeim sem ekki trúa á það sem stendur á síðum hennar, til stuðnings því sem þeir kenna. Ekki er lengur þörf á kraftaverkum til að staðfesta orð þeirra .
Páll gaf auk þess til kynna að þessar yfirnáttúrlegu gjafir myndu „líða undir lok.“ (1. Korintubréf 13:8) Slíkar náðargáfur veittust öðrum aðeins beint frá lærisveinum Krists Jesú eða í þeirra návist. (Postulasagan 8:18-20; 10:44-46; 19:6) Eftir dauða postulanna liðu þessar kraftaverkagáfur undir lok.
Fræðibókin Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature eftir McClintock og Strong (VI bindi, bls. 320) segir að það sé „óumdeild staðreynd að á fyrstu hundrað árum eftir dauða postulanna fréttist lítið eða ekkert af kraftaverkum frumkristinna manna.“
Ástæða til varúðar
Jesús Kristur varaði við því að sá tími kæmi er menn myndu segja við hann: „Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?“ En Jesús myndi svara þeim: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ (Matteus 7:22, 23) Hvernig er þá hægt að skýra „kraftaverk,“ sem trúarlæknum virðist takast að gera, ef það er ekki andi Guðs sem að baki býr?
Í sumum tilvikum virðist um hrein og bein svik að ræða. Til dæmis segir dagblaðið The Herald í Zimbabwe frá þrem einstaklingum sem frægur trúarlæknir staðhæfði að hann hefði læknað. Dagblaðið afhjúpaði lækninguna sem svik: „Eitt af börnunum er enn þá hvorki heyrandi né talandi; annað var aldrei heyrar- eða mállaust, og konan, sem var heyrnarlaus, er það enn.“
Stundum virðist trúarlækningin hafa eins konar þóknunarhrif á hinn þjáða. Í öðrum tilvikum — einkum þegar langur tími líður áður en lækning fæst — virðist svo sem hinn náttúrlegi lækningamáttur líkamans hafi sjálfur unnið verkið. Í bókinni Science and the Paranormal segir dr. William Nolan að „um 80 af hundraði sjúklinga, sem koma til [venjulegs læknis] eru haldnir tímabundnum sjúkdómum — það er að segja sjúkdómum sem þeir læknast sjálfkrafa af.“ Trúarlæknirinn á þá hægt með að eigna sér heiðurinn af lækningunni.
Loks varar Biblían við því að ‚Satan sjálfur taki á sig ljósengilsmynd‘ í því skyni að blekkja menn. (2. Korintubréf 11:14) Í 2. Þessaloníkubréfi 2:9, 10 segir Páll til frekari skýringar: „Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti [„alls kyns kraftaverkum,“ The Jerusalem Bible], lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast.“ Vertu því á varðbergi! Trúarlækningar eru oft tengdar illum máttarvöldum! „Ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda,“ aðvaraði Páll. „Ekki getið þér drukkið bikar [Jehóva] og bikar illra anda.“ — 1. Korintubréf 10:20, 21.
Þegar kristinn maður er sjúkur
Þegar einhver er sjúkur getur trúarlækning að vísu virst eftirsóknarverður möguleiki. En veittu því athygli að Epafródítus, samverkamaður Páls, virtist einu sinni að dauða kominn vegna sjúkdóms. (Filippíbréfið 2:25-27) Hinn náni félagi Páls, Tímóteus, átti einnig við að stríða ‚tíð veikindi.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:23) Páll læknaði hvorugan þeirra með kraftaverki. Og þegar Páll þarfnaðist læknishjálpar er hugsanlegt að hann hafi leitað til Lúkasar ‚læknisins elskaða,‘ sem var samferðamaður hans. — Kólossubréfið 4:14.
Kristinn nútímamaður, sem veikist, getur á sama hátt leitað til læknis, og varast að koma á nokkurn hátt nærri lækningum fyrir áhrif illra anda eða loddarabrögðum og skottulækningum sem eru algengar víða um heim nú á dögum. Hann getur líka beðið til Guðs, ekki um kraftaverkalækningu heldur visku til að halda út í gegnum veikindi sín. (Jakobsbréfið 1:5) Hann getur einnig beðið Jehóva um að ‚styðja sig á sóttarsænginni.‘ — Sálmur 41:4.
Víst getur það gert menn niðurdregna og dapra þegar læknavísindin kunna ekkert ráð við ákveðnum sjúkdómi. En jafnvel þegar kristinn maður er sjúkur verður hann að kappkosta að ‚meta þá hluti rétt, sem máli skipta,‘ ekki leyfa áhyggjum af heilsu sinni að skyggja með öllu á andleg mál. (Filippíbréfið 1:10) Hann getur leitað uppörvunar í þeirri von að eiga eftir að lifa undir stjórn Guðsríkis þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Jesaja 33:24; 65:17-19.
Þessi von um réttlátan nýjan heim er svo langtum verðmætari en innantóm loforð trúarlækna. Tökum sem dæmi Peter, blindan mann í Akúmadan í Ghana. Í von um að fá lækningu á augnmeini sínu var hann í 26 ár tengdur ýmsum kirkjum er lögðu stund á trúarlækningar. Enginn trúarlæknir gat þó opnað augu hans. Þá, meðan hann enn sótti slíka kirkju, komust vottar Jehóva í samband við hann.
Vottarnir sögðu honum frá loforði Biblíunnar um algera lækningu allra meina undir Guðsríki. Við það opnuðust skilningsaugu Peters. Svo mikið þótti honum til um hin dýrlegu sannindi Biblíunnar að hann tók að boða Guðsríki í fullu starfi og hefur þjónað sem slíkur í meira en 3 ár! Hann hlakkar til þess tíma þegar „augu hinna blindu [munu] upp lúkast og opnast eyru hinna daufu“ bókstaflega. — Jesaja 35:5, 6.
Með hjálp orðs Guðs hafa þúsundir manna losnað með svipuðum hætti úr fjötrum óverðugrar trúar á trúarlækna.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Trúarlæknar lækna sjaldan fólk með vefræna sjúkdóma eða galla.
[Myndir á blaðsíðu 7]
Þegar kristinn maður er veikur biður hann um styrk til að halda út. Hann hlakkar einnig til hins nýja heims þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“