Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.3. bls. 5-7
  • Kristniboð til ystu endimarka jarðar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kristniboð til ystu endimarka jarðar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Mexíkó
  • Indland
  • Belgía
  • Portúgal
  • Thaíland
  • Kenýa
  • Segðu þeim að þú elskir þau
    Reynslusögur af vottum Jehóva
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.3. bls. 5-7

Kristniboð til ystu endimarka jarðar

„Eftir því sem líður á niðurtalninguna að Harmagedón færast vottar Jehóva í aukana til að bjarga eins mörgum okkar og mögulegt er frá hinni óttalegu eyðileggingu.“ — Ritstjórnargrein eftir Ian Boyne þann 15. mars 1987 í „The Sunday Gleaner“ í Kingston á Jamaíka.

LEIÐARAHÖFUNDURINN, sem hér er vitnað í, fer með rétt mál. Vottar Jehóva trúa að Harmagedón, þegar Guð mun tortíma hinum óguðlegu, sé í nánd og að nú standi yfir dómstími mannkynsins. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Því er þýðingarmikið fyrir fólk að hlýða boðskap fagnaðarerindisins. Jesús Kristur, mesti kristniboði sem lifað hefur, kom af stað skipulagi manna sem boðuðu fagnaðarerindið „til endimarka jarðarinnar“ á fyrstu öld. (Postulasagan 1:8; Kólossubréfið 1:23) Hann sagði fyrir áþekkt kristniboðsstarf á okkar dögum. (Matteus 24:14) Nú á dögum mynda vottar Jehóva þetta skipulag en þeir prédika fagnaðarerindið um Guðsríki af kappi í 210 löndum og landsvæðum.

En vottar Jehóva gera meira en aðeins að prédika. Þeir standa líka fyrir kennslu. Jesús bauð fylgjendum sínum að ‚gera menn allra þjóða að lærisveinum og kenna þeim að halda allt það sem hann hefði boðið þeim.‘ (Matteus 28:19, 20) Við viljum gjarnan kynna þig fyrir nokkrum einstaklingum sem hafa notið góðs af prédikun þeirra og kennslu.

Mexíkó

Við skulum fyrst heilsa upp á Virginíu. Hún er 110 ára gömul og vill gjarnan undirstrika að „það sé aldrei of seint að kynnast Jehóva og læra að þjóna honum.“ Á yngri árum var hún svo guðrækin að í fjögur ár gekk hún í sérstökum klæðum til tákns um guðhræðslu sína. „En það vantaði eitthvað,“ segir hún. Hún gat hvergi fengið viðunandi svör við spurningum sínum um Biblíuna. Þegar hún til dæmis spurði kennarana í kirkju sinni hvert væri nafn Guðs svöruðu þeir bara: „Guð heitir Guð.“

Árið 1983 varð breyting þar á þegar dótturdóttir hennar fór að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Hún svaraði spurningu Virginíu með því að nafn Guðs væri Jehóva. (Sálmur 83:19, Ísl. bi. 1908) Það varð til þess að Virginía fór sjálf að nema Biblíuna með vottunum. Tveim árum síðar, þann 2. júní 1985, lét hun skírast 108 ára að aldri.

„Ég minnist þess dags með djúpri gleði,“ segir hún, „því þann dag byrjaði ég að lifa. Þrátt fyrir aldurinn tekst mér að prédika fimm til sex stundir á mánuði en ég þarf að styðjast við staf á göngunni. Ég vil frekar ganga en fara í bíl. Þannig held ég líkamanum í góðri æfingu.“

Indland

„Ég var áflogaseggur hverfisins og algjör ónytjungur,“ segir maður sem sat í fangelsi fyrir alls kyns afbrot. „Ég smyglaði eiturlyfjum, spilaði mútka (fjárhættuspil) og reykti ókeypis sígarettur frá leynilegum viðskiptavinum mínum. Þar að auki drakk ég mikið — þrátt fyrir að ég væri virkur meðlimur kirkjunnar.“ En þegar einn votta Jehóva knúði dyra hjá honum og hann fór að nema Biblíuna og fara eftir því sem hann lærði tók líf hans breytingum. (Orðskviðirnir 2:1-22; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Núna vinnur hann, ásamt konu sinni og tveim dætrum, að því að hjálpa öðrum að losa sig við slíka lesti.

Belgía

Ung hjón urðu mjög beisk í garð Guðs. Fyrsta barnið þeirra dó tíu dögum eftir fæðingu. Annað barnið fæddist bæklað. Og þriðja barnið, sem virtist hraust og heilbrigt, dó óvænt fimm mánaða að aldri. Móðirin gat ekki trúað því að ástríkur Guð skyldi leyfa slíkt, þegar á það væri litið að margt siðspilltra manna ætti hraust og heilbrigð börn.

Skömmu síðar heimsótti hana einn votta Jehóva sem var að prédika hús úr húsi þar í hverfinu. Þegar votturinn fór að tala um loforð Guðs um hamingjuríka framtíð handa mannkyninu brást konan ókvæða við hugmyndinni um Guð sem elskuríkan, himneskan föður. (Sálmur 37:10, 11) Þó féllst hún á að taka við nokkrum biblíuritum. Eftir að votturinn hafði heimsótt hana nokkrum sinnum aftur náði boðskapur Biblíunnar smám saman að mýkja hjarta hennar og byggja upp traust til Guðs. Núna bera bæði hún og maðurinn hennar í brjósti sterka von um að bæði muni Jehóva lækna bæklaða drenginn þeirra í paradís framtíðarinnar og reisa hin börnin tvö upp frá dauðum. — Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 21:1-4.

Portúgal

Á sunnudagsmorgni var kona á heimleið með fullan poka af matvörum. Hún staðnæmdist til að ræða við hjón sem urðu á vegi hennar. Þetta var í fyrsta en ekki síðasta sinn sem þau hittust. Hjónin, sem voru vottar Jehóva, voru að boða trú sína. Þau hrósuðu konunni fyrir að sinna vel efnislegum þörfum fjölskyldu sinnar. Síðan spurðu þau hver gæti fullnægt þörfum mannkynsins. Þau svöruðu spurningunni sjálf á þann veg að Guð gæti það. (Sálmur 107:8, 9; Jesaja 33:24) „Hefur hann lausn á vandamáli mínu?“ spurði konan. Vottarnir svöruðu játandi og hún bauð þeim heim til sín. Biblíunám var hafið með henni. Þegar maðurinn tók eftir að viðhorf konunnar hans höfðu breyst til hins betra byrjaði hann líka að taka þátt í náminu og gerði fljótlega ýmsar breytingar á lífsháttum sínum.

Síðar sagði konan vottunum að áður en hún talaði við þá þennan sunnudagsmorgun hefði hún tvívegis reynt að svipta sig lífi. Mikið rót hefði verið á tilfinningum hennar þar eð þau hjónin höfðu ákveðið að skilja. Núna eru hún, maðurinn hennar og börnin sameinuð í að halda áfram að kynnast fagnaðarerindinu og taka framförum í því.

Thaíland

Kona, sem bjó í norðurhluta landsins, mátti mestan hluta ævi sinnar þola ásókn illra anda. Þegar einn af vottum Jehóva hitti hana fékk hún hjá honum biblíurit og þáði boð um heimabiblíunám. Eftir tveggja mánaða nám gerði hún sér grein fyrir hinum biblíulegu ástæðum fyrir því að hreinsa hús sitt af öllu sem tengdist falskri guðsdýrkun, svo sem skurðgoðum, og eyðileggja sitt hjartfólgna ‚andahús‘ sem hún hafði látið gera til að vernda fjölskyldu sína fyrir illum öndum. (Postulasagan 19:19; 1. Korintubréf 10:21; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Hún er ekki lengur ásótt af illum öndum og getur nú einbeitt sér að því að hjálpa öðrum að kynnast hinum sanna Guði, Jehóva.

Kenýa

Þegar foringja bófaflokks var sagt að hann væri álitinn svo hættulegur að lögreglan hefði fyrirmæli um að skjóta hann hvar sem til hans sæist, yppti hann öxlum og hló. En skömmu síðar mistókst bófaflokknum ránsför. Skyndilega var hann umkringdur æstum múgi sem virtist ráðinn í að fullnægja réttlætinu án dóms og laga. Á því augnabliki kom lögreglan honum til bjargar, hafði hann á brott með sér og varpaði í fangelsi þar til mál hans yrði tekið fyrir dóm.

Lögfræðingur hans benti honum á ýmsar leiðir til að neita öllum sakargiftum. En meðan hann sat í fangelsinu minntist hann heimsókna eins af vottum Jehóva mörgum árum áður. Hann fór að iðrast síns löglausa lífernis og bað til Guðs um hjálp. Meira að segja nefndi hann Jehóva með nafni í bænum sínum. (Samanber Postulasöguna 10:12.) Dómaranum til undrunar játaði þessi glæpamaður sig sekan þegar hann var leiddur fyrir rétt. Hann fékk tiltölulega vægan dóm; tíu ára vist í öryggisfangelsi í stað dauðadóms.

Meðan hann sat inni las hann biblíurit með ákafa og bað Guð þess að fangavist hans yrði stytt, ef mögulegt væri, til að hann gæti þjónað honum. Óvænt var honum tilkynnt að dómur hans hefði verið styttur um helming. Eftir fimm ára fangelsisvist var honum því sleppt og hann fór þegar í stað að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Skömmu síðar lét hann skírast og núna hefur hann það markmið að verða boðberi fagnaðarerindisins í fullu starfi.

Þetta eru aðeins fáein dæmi um það hvernig vottar Jehóva rækja þá skyldu sína að boða fagnaðarerindið „til endimarka jarðarinnar.“ Hægt væri að segja þúsundir frásagna af líku tagi. Efast þú nú um að vottar Jehóva séu hinir sönnu kristniboðar okkar tíma?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila