Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.1. bls. 19-24
  • Alheimsréttarhöldin sem þú átt hlut að

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Alheimsréttarhöldin sem þú átt hlut að
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Prófmál
  • Spádómar fyrir okkar tíma
  • Ætlar þú að vera vottur hins sanna Guðs?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Hvaða Guð á að tilbiðja?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • „Þér eruð mínir vottar!“
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2. bindi
  • Snúið aftur og tilbiðjið Jehóva
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2. bindi
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.1. bls. 19-24

Alheimsréttarhöldin sem þú átt hlut að

„Berið nú fram málefni yðar, segir [Jehóva]. Færið fram varnir yðar.“ — JESAJA 41:21.

1, 2. (a) Hver á hlut að örlagaríkustu réttarhöldum sem nokkurn tíma fara fram? (b) Um hvað er deilt?

ÚT í gegnum sögu mannkynsins hafa verið haldin ótal réttarhöld. Við þau hafa verið leidd fram vitni og lögð fram sönnunargögn til stuðnings öðrum aðila málsins eða hinum. Mörg þessara réttarhalda hafa snúist um einstaklinga en önnur snert fjölda fólks. En öll slík dómsmál hverfa í skuggann af þeim alheimsréttarhöldum sem núna eru í gangi. Þetta eru langsamlega örlagaríkustu réttarhöld mannkynssögunnar. Niðurstaða þeirra mun hafa áhrif á sérhvern jarðarbúa, hvort sem hann vill láta þau snerta sig eða ekki.

2 Aðalpersónan í þessu dómsmáli er æðsta tignarpersóna alheimsins, Jehóva Guð, „sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni.“ (Jesaja 42:5) Um hvað er deilt? Um guðdóm hans — um réttlæti stjórnar hans yfir öllum alheiminum, þar á meðal jörðinni og byggjendum hennar. Þetta mál má kalla deiluna um drottinvaldið yfir alheiminum.

3. Hvaða spurningar lýsa kjarna deilunnar um drottinvaldið yfir alheiminum?

3 Kjarni málsins birtist í þessum þrem spurningum: Hver af öllum guðum, sem tilbeðnir eru, hefur reynst svo áreiðanlegur að þú gætir lagt líf þitt og framtíð í hendur honum? Hvaða guðir hafa í raun verið til og hverjir eru aðeins tilbúningur manna? Er til sannur, lifandi Guð sem er yfir öllu og getur frelsað mannkynið úr sinni vonlausu stöðu og komið á fót réttri stjórn sem getur tryggt ósvikinn frið, öryggi, farsæld og heilsu?

4. Hvað má segja um þá sem finnst ekki vera um neitt að deila þar eð þeir segjast nú þegar trúa á Guð?

4 Mörgum finnst þetta ekki vera neitt deiluefni fyrir sig, því að þeir segjast nú þegar trúa á Guð. En geta þeir lagt fram sönnunargögn fyrir því að sá guðdómur, sem þeir dýrka, sé í raun hinn sanni Guð, að loforð hans séu áreiðanleg og að tilgangur hans og lög ráði lífi þeirra? Ef þeir svara því játandi, þá ættu þeir líka að geta svarað þessum spurningum: Nákvæmlega hvaða sönnunargögn eru fyrir því að til sé sannur Guð sem hægt er að treysta til að standa við loforð sín? Hver er tilgangur Guðs með mannkynið og jörðina? Hvar stöndum við gagnvart tímaáætlun Guðs og hvað ber nánasta framtíð í skauti sér? Til hvers ætlast hann af okkur sem einstaklingum ef við ætlum okkur að styðja hann?

5. Við hvað má líkja þeim mönnum sem ekki geta lagt fram sönnunargögn til stuðnings trú sinni á Guð?

5 Fæstir sem segjast trúa á Guð geta gefið svör, byggð á traustri þekkingu, við þessum spurningum. Þeim má líkja við menn á fyrstu öld sem játuðu trú á Guð en verkin sögðu annað. Orð Guðs segir um þá: „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ Já, ‚trúin er dauð án verka.‘ (Títusarbréfið 1:16; Jakobsbréfið 2:26) Þeir sem segjast trúa á Guð en geta ekki lagt fram traust sönnunargögn því til stuðnings eru í engu frábrugðnir þeim mönnum fyrr á öldum er trúðu á falsguði sem eru löngu horfnir af sjónarsviðinu sem tilbeiðslugripir.

Prófmál

6, 7. (a) Lýstu trú Forn-Egypta. (b) Hvernig áttu Ísraelsmenn hlut að deilunni milli Jehóva og guða Egypta?

6 Eitt dæmi um þetta er það mál sem höfðað var gegn guðum Egyptalands til forna um 1500 árum fyrir okkar tímatal. Egyptar dýrkuðu mikinn sæg guða, þeirra á meðal dýr svo sem nautið, köttinn, kúna, krókódílinn, fálkann, froskinn, sjakalann, ljónið, höggorminn, gamminn og úlfinn. Mörg þessara dýra voru álitin guðir eða gyðjur holdi klædd og dauðarefsing lá við því að drepa þau af ásettu ráði. Heilög dýr voru smurð sem múmíur og veitt íburðarmikil greftrun.

7 Sá Guð, sem Ísraelsmenn dýrkuðu, Jehóva, stóð gegn öllum þessum guðum. Fulltrúi hans, Móse, var sendur til að biðja Faraó að sleppa þjóð Jehóva, sem var þá í þrælkun, því að Jehóva hafði heitið henni frelsi. (2. Mósebók 3:6-10) En Faraó lýsti yfir: „Hver er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki [Jehóva], og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara.“ (2. Mósebók 5:2) Faraó var sannfærður um að guðir Egypta væru Jehóva meiri.

8, 9. (a) Hvernig reyndist Jehóva guðum Egypta meiri? (b) Hvað verður að segja um guði Egypta í ljósi þess hvernig fór?

8 Hver myndi reynast vera hinn sanni Guð er gæti staðið við loforð sín og væri fær um að vernda þjóð sína? Þeirri spurningu var svarað fljótlega. Jehóva sagði fyrir: „Refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands.“ (2. Mósebók 12:12) Uppfyllti hann þennan spádóm? Já! Jehóva sendi tíu plágur, til þess ætlaðar að auðmýkja guði Egypta, sem höfðu skelfilega eyðingu í för með sér. Enginn þessara guða gat verndað Egypta. Og tíunda plágan var sérlega þýðingarmikil, því að í henni dóu frumburðir Egyptanna, þeirra á meðal Faraós. Hún var bein niðurlæging fyrir fremsta Guð þeirra, Ra (Amon-Ra), því að valdhafar Egyptalands litu á sig sem guði, syni Ra. Dauði frumburðar Faraós var í hugum Egypta dauði guðs.

9 Enginn af frumburðum Ísraelsmanna dó þó því að þeir nutu verndar Jehóva. Þar að auki gaf Guð þjóð sinni það frelsi sem hann hafði heitið henni. Og síðasta auðmýkingin fyrir falsguði Egypta var sú að Faraó og her hans var eytt — til hinsta manns — í Rauðahafinu. Þannig reyndist Jehóva vera hinn sanni Guð. Það voru hans loforð sem rættust og hans tilbiðjendur sem nutu verndar. (2. Mósebók 14:21-31) Guðir Egypta voru á hinn bóginn máttlausir og ófærir um að hjálpa dýrkendum sínum. Þessir guðir voru í rauninni ekki til því að þeir voru aðeins tilbúningur manna.

10. Hvaða deilumáli stóðu dýrkendur Jehóva og Assýringar frammi fyrir?

10 Annað dómsmál varðandi guðdóm var til lykta leitt um átta öldum síðar, á tímum Hiskía konungs.a Hið grimma Assýríuveldi, sem hafði sigrað allar þjóðir er urðu á vegi þess, ógnaði nú dýrkendum Jehóva. Það krafðist uppgjafar Jerúsalem, borgarinnar sem geymdi ‚hásæti Jehóva‘ er táknaði tilbeiðsluna á honum á jörðinni. (1. Kroníkubók 29:23) Hiskía Júdakonungur viðurkenndi að Assýringar ‚hefðu gjöreytt öllum þessum þjóðum og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir heldur handaverk manna.‘ — Jesaja 37:18, 19.

11. Hvernig bjargaði Jehóva dýrkendum sínum og hvað sýnir það?

11 Trúfastur bað Hiskía þá Jehóva um vernd hans. Jehóva hét því að engu vopni Assýringa yrði beitt gegn Jerúsalem. (Jesaja 37:33) Sá spádómur stóðst. Um nótt „fór engill [Jehóva] og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa.“ Eftir þennan hrikalega ósigur hörfaði Sanherib Assýríukonungur. Síðar, þegar hann var að dýrka guð sinn Nísrok, réðu synir hans hann af dögum. (Jesaja 37:36-38) Þannig reyndist Jehóva enn á ný vera Guð sannra spádóma sem getur frelsað dýrkendur sína. Guðir Assýringa og þjóðanna umhverfis reyndust vera falsguðir, þeir voru ekki til, þeir voru ófærir um að vernda fylgjendur sína.

12. Á hvaða hátt svívirti Belsasar Jehóva?

12 Um tveim öldum síðar leyfði Guð næsta heimsveldi, Babýlon, að hertaka þjóð sína sem verið hafði ótrú. Hin mikla mergð guða, gyðja og mustera var mjög áberandi í Babýlon. En í miklu sjálfsánægjukasti gerði Belsasar, konungur Babýlonar, gys að Jehóva. Í mikilli veislu fyrirskipaði hann að komið skyldi með hin heilögu ker sem tekin höfðu verið herfangi frá Jerúsalem. „Konungurinn, stórmenn hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim. Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.“ — Daníel 5:1-4.

13. Hvað lét Jehóva Daníel segja Belsasar?

13 Þetta var bein lítilsvirðing við Jehóva, ögrun við hann í nafni guða Babýlonar. Jehóva lét þá spámann sinn, Daníel, bera djarflega vitni fyrir Belsasar konungi og öllum veislugestum. Daníel hélt á lofti guðdómi Jehóva og sagði Belsasar konungi: „Þú . . . hefir ekki lítillætt hjarta þitt . . . heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna . . . og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, er hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað.“ — Daníel 5:22, 23.

14. Hvernig sýndi Jehóva að hann væri hinn sanni Guð?

14 Þá flutti Daníel boðskap Jehóva. Hann var þessi: Medar og Persar myndu kollvarpa Babýlon og hinum rembiláta Belsasar konungi þessa sömu nótt! (Daníel 5:24-27) Rættist þessi spádómur? Já. „Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn. Daríus frá Medalandi tók við ríkinu.“ (Daníel 5:30-6:1) Eins og þegar Egyptaland og Assýría áttu í hlut reyndist Jehóva vera hinn sanni Guð, sá Guð sem uppfyllir loforð sín. Þjónar Guðs nutu góðs af því að þeim var sleppt úr haldi og leyft að snúa aftur heim í land sitt. Ógæfa kom yfir þá sem fylgdu falsguðum í þrákelkni sinni.

Spádómar fyrir okkar tíma

15. (a) Hvað einkennir marga af spádómum Biblíunnar? (b) Hvað eigum við einnig við með orðinu „guð“?

15 Spámanninum Jesaja var blásið í brjóst að skrá spádóma sem áttu sér uppfyllingu endur fyrir löngu. En oft er það svo að spádómar Biblíunnar eiga sér aðra og meiri uppfyllingu á okkar tímum. Svo var um margt af því sem Jesaja skrifaði. Hluti af boðskap hans hafði að geyma spádóma varðandi áskorun Jehóva til allra þjóða og guða þeirra nú á tímum. Og með orðinu „guð“ eigum við ekki aðeins við guði sem fá beina dýrkun frá fólki í öllum heimshornum, þeirra á meðal hinum svonefndu heiðnu nútímaþjóðum, heldur líka við þá hluti eða fyrirbæri sem merkingarsvið þess orðs nær yfir. Ein orðabókarskilgreining orðsins „guð“ er þessi: „Átrúnaðargoð; hvaðeina sem dýrkað er og tignað umfram allt.“

16. Hvaða guði dýrka þjóðirnar nú á dögum, þeirra á meðal kristni heimurinn?

16 Af guðum nútímans má nefna þær milljónir guða sem hindúar dýrka, svo og guði búddhatrúarmanna, shintótrúarmanna, sálna- eða andatrúarmanna og annarra trúarbragða. Þá má líka nefna guð efnishyggjunnar, það sem mest gildi hefur fyrir flesta jarðarbúa, það sem öðru fremur er mótandi afl í lífi þeirra. Þá má einnig nefna guði hernaðarmáttar og vísinda sem þjóðirnar reiða sig á til að veita sér öryggi og frelsi. Jafnvel í kristna heiminum, þar sem flestir segjast trúa á Guð, bera fæstir í raun traust til hans eða þjóna honum af hollustu, heldur treysta menn á og þjóna fólki eða hlutum sem framar öllu öðru eiga tryggð þeirra.

17. Til hvers bendir hin meiri uppfylling boðskapar Jesaja?

17 Hin meiri uppfylling boðskapar Jesaja snýr að öllum slíkum guðum á okkar tímum. Jehóva segir þjóðunum að safnast saman og ‚tala máli sínu.‘ Hann skorar á þær: „Vér skulum eigast lög við.“ (Jesaja 41:1) Við lifum núna þá tíma þegar þessi heimur hlýtur ‚dóm.‘ Heimurinn er á sínum „síðustu dögum“ eins og sagt er fyrir í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 og Matteus 25:1-14. Núna skorar Jehóva á guði þjóðanna að segja fyrir framtíðina með öruggri nákvæmni til að sanna að þeir séu guðir. Hann skorar líka á þá að vernda áhangendur sína ef þeir geta. „Berið nú fram málefni yðar,“ segir hann. „Færið fram varnir yðar, . . . látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni.“ — Jesaja 41:21, 22.

18. Hvernig segir alvaldur Guð deili á sér og hverju lofar hann dýrkendum sínum?

18 Hinn alvaldi Guð segir deili á sér: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.“ (Jesaja 42:8) Hann segir líka við þá sem styðja hann: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ Hann heitir þeim: „Allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast.“ „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg . . . þetta er hlutskipti þjóna [Jehóva].“ — Jesaja 41:10, 11; 54:17.

19, 20. (a) Hvernig sýnir Jesaja fram á að Jehóva hefur ákveðinn tíma til að útkljá málin? (b) Hverja leiðir Jehóva fram núna á „síðustu dögum“ og hvernig ganga þeir fram sem fulltrúar hans?

19 Um langan tíma, um aldaraðir, hefur Jehóva leyft þjóðunum að fara sínu fram. En núna er runninn upp hinn ákveðni tími hans til að útkljá málin á jörðinni. Hann lýsir því yfir: „Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig.“ En núna „leggur [Jehóva] af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum.“ (Jesaja 42:13, 14) Í spádómum Jesaja og annarra biblíuritara, svo og spádómum Jesú, segir Jehóva fyrir að hann muni vekja upp á „síðustu dögum“ menn er skuli bera kostgæfilega vitni um hann, líkt og væru þeir vitni hans við réttarhöld.

20 Þeir sem Jehóva leiðir fram til að þjóna sér leggja fram sannanir fyrir því að hann sé hinn sanni Guð, sá sem bjargar dýrkendum sínum og tortímir falsguðum og áhangendum þeirra. Þjónar Jehóva nú á tímum ‚syngja honum lof til endimarka jarðar, frá fjarlægum landsálfum og fjallatindum.‘ (Jesaja 42:10-12) Þar með uppfyllist enn einn spádómur Jesaja sem hljóðar svo: „Á hinum síðustu dögum [á okkar tímum] . . . [mun] fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, [sönn tilbeiðsla á honum], . . . grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar [yfir hverja aðra tegund guðsdýrkunar], og þangað munu allir lýðirnir streyma.“ Og hvað hvetja þeir aðra til að gera? Þeir segja við hjartahreina menn: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ — Jesaja 2:2-4.

21. Hvaða spurningar vekur áskorun Jehóva til guða þjóðanna?

21 Því segir Jehóva eins og sé hann að ávarpa dómstól: „Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. . . . Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: ‚Það er satt!‘“ (Jesaja 43:9) Þetta er bein áskorun á guði þjóðanna. Getur einhver þeirra sagt framtíðina fyrir? Gat einhver þeirra gert það í fortíðinni? Geta þeir fundið einhvern til að bera vitni með óhrekjandi sönnunargögnum um að slíkir guðir hafi reynst vera sannir og verðugir hollustu? Hvaða orð hafa guðir þjóðanna og fylgjendur þeirra getið sér á okkar tímum? Hefur það verið eitthvað betra en guðir Egypta, Assýringa og Babýloníumanna til forna gátu sér? Geta þeir sem bera vitni um Jehóva lagt fram óhrekjandi sönnunargögn fyrir því að Jehóva sé hinn sanni Guð, sá eini sem er verðugur tilbeiðslu okkar? Greinin á eftir mun fjalla um þessi mál.

[Neðamáls]

a Varðturninn, tölublaðið 1. júní 1988, ræddi um það hvernig Jehóva umbunaði Hiskía traust hans. Þessir mikilfenglegu atburðir tengdust einnig guðdómi.

Upprifjun

◻ Hver er deilan um drottinvaldið yfir alheiminum?

◻ Hvaða guðir þjóðanna eiga hlut að þessari deilu núna?

◻ Hvaða úrslit þriggja prófmála sýna að Jehóva er falsguðunum æðri?

◻ Hvernig sýnir Jesaja fram á að Jehóva muni útkljá málin á okkar dögum?

◻ Hvaða spurningum þarf að svara viðvíkjandi stuðningsmönnum allra trúarbragða nútímans?

[Mynd á blaðsíðu 20]

Guðir Egypta voru máttvana gagnvart hinum sanna Guði, Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hinn sanni Guð greiddi guðum Assýríu og áhangendum þeirra mikið högg.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Daníel flutti dýrkendum falskra guða í Babýlon boðskap Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila