Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.1. bls. 3-4
  • Hvaða Guð á að tilbiðja?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvaða Guð á að tilbiðja?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Uppgangur falsguða
  • Alheimsréttarhöldin sem þú átt hlut að
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Ætlar þú að vera vottur hins sanna Guðs?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Guð – hver er hann?
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Losnað úr ánauð falskra trúarbragða
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.1. bls. 3-4

Hvaða Guð á að tilbiðja?

ÓLÍKT dýrunum höfum við mennirnir hæfni til að tilbiðja. Við erum þannig úr garði gerðir allt frá fæðingu. Við höfum líka siðferðisvitund, samvisku til að leiðbeina okkur um rétt og rangt. Á ýmsa vegu hlýðum við öll rödd þessarar samvisku og jafnhliða því leita margir leiðsagnar einhvers guðs eða guða.

Undanfarnar eina eða tvær aldir hafa sumir af menntamönnum heimsins véfengt að til sé alvaldur Guð og skapari. Árið 1844 lýsti Karl Marx því yfir að trúarbrögðin væru „ópíum fólksins.“ Síðar kom Charles Darwin fram með þróunarkenningu sína. Þá kom bylting bolsévíka. Í Austur-Evrópu varð guðleysi opinber stefna stjórnvalda, og því var haldið fram að trúarbrögðin myndu deyja út með kynslóðinni frá 1917. En þessir guðleysingjar gátu ekki breytt mannlegu eðli. Það er ljóst af endurvakningu trúarbragðanna í Austur-Evrópu nú á tímum.

En eins og Biblían segir eru til margir „svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, — enda eru margir guðir og margir herrar.“ (1. Korintubréf 8:5) Í aldanna rás hefur fólk tilbeðið ógrynni guða. Það hefur tilbeðið frjósemisguði, ástarguði, stríðsguði og guði víns og drykkjuskapar. Í hindúatrúnni einni teljast guðirnir í milljónum.

Guðaþrenningar hafa blómgast í Babýlon, Assýríu og Egyptalandi, svo og í búddhatrúarlöndum. Kristni heimurinn hefur líka sína „heilögu“ þrenningu. Islam, sem hafnar þrenningunni, hefur „engan guð nema Allah.“ Og jafnvel þeir sem hæðast að hugmyndinni um ósýnilegan, alvaldan Guð hafa sína eigin guði. Til dæmis segir Biblían í Filippíbréfinu 3:19 um menn sem sitja fastir í snöru efnishyggjunnar: „Guð þeirra er maginn.“

Flestir tilbiðja guð eða guði þess lands eða þjóðfélags sem þeir fæðast inn í. Það vekur ýmsar spurningar. Eru öll tilbeiðsluform leiðir að sama marki — líkt og vegir upp á fjallstind, eða liggja margir af hinum dulúðlegu vegum trúarbragðanna út í ógæfu — líkt og vegir sem enda í hengiflugi? Eru margar réttar leiðir til að tilbiðja eða er aðeins ein rétt? Eru til margir tilbeiðsluverðir guðir eða er aðeins til einn alvaldur Guð sem er verðugur algerrar hollustu okkar og tilbeiðslu?

Uppgangur falsguða

Spurningarnar hér á undan verðskulda nákvæma athugun okkar. Hvers vegna? Vegna þess að elsta heimildarrit veraldar í trúmálum, Biblían, lýsir því hvernig falsguð notaði sér höggorm til að lokka fyrstu forfeður okkar út á ógæfubraut. Við erum að taka út kvalafullar afleiðingar kænskubragða hans enn þann dag í dag. (1. Mósebók 3:1-13, 16-19; Sálmur 51:7) Jesús, „sonur Guðs,“ talaði um þennan uppreisnarguð sem „höfðingja þessa heims.“ Einn af postulum Jesú kallaði hann „guð þessarar aldar.“ (Jóhannes 1:34; 12:31; 16:11; 2. Korintubréf 4:4) Í Opinberunarbókinni 12. kafla, 9. versi er honum lýst sem „hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ Heilt heimsveldi falskra trúarbragða er á valdi Satans.

Satan er erkiblekkjarinn. (1. Tímóteusarbréf 2:14) Hann spilar á meðfædda tilbeiðsluþörf mannsins með því að tefla fram alls konar guðdómum — svo sem forfeðraöndum, skurðgoðum, helgimyndum og Maríumyndum. Hann beitir sér jafnvel fyrir tilbeiðslu á guðum í mannsmynd, svo sem voldugum valdhöfum, sigursælum hershöfðingjum og stjörnum úr heimi kvikmynda og íþrótta. (Postulasagan 12:21-23) Það er hyggilegt af okkur að vera vel á verði, ákveðin í að leita uppi og tilbiðja aðeins hinn sanna Guð sem er ‚eigi langt frá neinum af oss.‘ — Postulasagan 17:27.

Hver er þá þessi einstaki Guð sem við ættum að tilbiðja? Fyrir um það bil 3000 árum kallaði hinn innblásni sálmaritari hann ‚Hinn hæsta . . . Hinn almáttka, . . . Guð sinn er hann trúði á,‘ og nefndi hann sínu fræga nafni — Jehóva. (Sálmur 91:1, 2) Áður hafði Móse sagt um hann: „[Jehóva] er vor Guð; hann einn er [Jehóva]!“ (5. Mósebók 6:4) Og spámaðurinn Jesaja hafði eftir Guði sjálfum: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.“ — Jesaja 42:8.

Sá er tilgangur Jehóva Guðs að hreinsa nafn sitt af allri þeirri smán sem falsguðinn Satan hefur hrúgað á það. Hann sýndi með dæmi árið 1513 f.o.t. hvernig hann myndi gera það, er hann notaði spámann sinn Móse til að frelsa Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi. Í það sinn tengdi Guð nafn sitt, Jehóva, orðunum: „Ég er sá, sem ég er.“ (2. Mósebók 3:14, 15) Hann myndi upphefja sjálfan sig gegn Faraó Egyptalands, en fyrst sagði hann þessum óguðlega drottnara: „Þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ — 2. Mósebók 9:16.

Ástandið er áþekkt nú á dögum. Líkt og Faraó fortíðarinnar býður guð þessa heims, Satan, Jehóva Guði birginn og heyr slóttuga baráttu gegn þeim mönnum sem elska réttlæti og sannleika. (Efesusbréfið 6:11, 12, 18) Enn á ný hefur Guð í hyggju að mikla nafn sitt þrátt fyrir andstöðu Satans. En áður en Jehóva sýnir mátt sinn með því að tortíma Satan og öllum verkum hans sendir hann dýrkendur sína út til að kunngera nafn sitt um alla jörðina. Sá vitnisburður um nafn hans er þýðingarmikill þáttur sannrar guðsdýrkunar.

Það átti því vel við að Guð skyldi segja að þessir tilbiðjendur skyldu vera vottar hans, vottar Jehóva, og segja um þá: „Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.“ (Jesaja 43:10-12, 21) Hvernig víðfrægja þeir lof Jehóva? Þeir prédika og kenna opinberlega og hús úr húsi og boða þau fagnaðartíðindi að ríki Jehóva í höndum sonar hans, Jesú Krists, muni veita hlýðnu mannkyni hér á jörð eilífa blessun. Þannig tilbiðja þeir Guð án afláts eins og frumkristnir menn gerðu á fyrstu öld. (Postulasagan 5:42; 20:20, 21) Hafa þeir notið blessunar Guðs í þeirri þjónustu? Því verður svarað á næstu blaðsíðum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila