Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.8. bls. 23-28
  • Fólk sem fetar í fótspor Jesú

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fólk sem fetar í fótspor Jesú
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Heilagleiki blóðsins
  • Gott siðferði
  • Hlutleysi
  • Á heimilinu
  • Hlýðnin stafar af kærleika
  • Áskorunin að feta í hans fótspor
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • ,Fetum náið í fótspor Krists‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Guðrækileg virðing fyrir blóði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Að ganga með Guði — fyrstu skrefin
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.8. bls. 23-28

Fólk sem fetar í fótspor Jesú

„Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?“ — 2. KORINTUBRÉF 12:18.

1. Hvers vegna er oft ekki erfitt að bera kennsl á votta Jehóva?

„SEM hópur eru þeir kurteisir, hafa ábyrgðartilfinningu og gengur vel í skóla. Hið sama verður ekki sagt um aðra hópa.“ Svo mælti skólastjóri grunnskóla eins í Bandaríkjunum. Um hverja var hann að tala? Um börn votta Jehóva sem voru nemendur í skóla hans. Margir hafa veitt því athygli að vottar Jehóva, einnig börnin, líkjast gjarnan öðrum vottum á ákveðna vegu. Með árunum hefur það orðið æ augljósara að þeir eru sameinaðir í trú og breytni svo að undrun sætir. Því er yfirleitt ekki erfitt að bera kennsl á vottana.

2. Hver var einkennandi eiginleiki frumkristna safnaðarins og hvað sagði Páll um það?

2 Eining votta Jehóva er óvenjulegt fyrirbæri í þessum sundraða heimi. Hún er þó ekki vandskilin ef við höfum hugfast að þeir eru allir að reyna að feta í fótspor Jesú. (1. Pétursbréf 2:21) Slík eining var einnig einkennandi fyrir kristna menn á fyrstu öld. Einhverju sinni áminnti Páll söfnuðinn í Korintu og sagði: „En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors, Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ (1. Korintubréf 1:10) Páll gaf líka innblásin heilræði um það hvernig taka skyldi á einstaklingum er ekki væru fúsir til að varðveita kristna einingu. — Sjá Rómverjabréfið 16:17; 2. Þessaloníkubréf 3:6.

3, 4. Hvernig lýsti Páll einingu sinni og Títusar og á hverju byggðist sú eining?

3 Um árið 55 sendi Páll Títus til Korintu til að leggja lið við samskot handa þurfandi bræðrum í Júdeu og hugsanlega til að athuga hvernig söfnuðurinn hefði brugðist við leiðbeiningum Páls. Þegar hann skrifaði Korintumönnum síðar minntist hann á nýlega afstaðna heimsókn Títusar og spurði: „Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?“ (2. Korintubréf 12:18) Hvað átti Páll við með því að þeir hefðu ‚komið fram í einum og sama anda‘ og fetað „í sömu fótsporin“?

4 Hann var að lýsa þeirri einingu sem ríkti milli hans og Títusar. Títus var ferðafélagi Páls af og til og hafði vafalítið lært margt af Páli á þeim ferðum. En eining þeirra tveggja byggðist á öðru og sterkara afli. Hún byggðist á hinu góða sambandi þeirra við Jehóva og þeirri staðreynd að báðir fetuðu þeir í fótspor Krists. Títus líkti eftir Páli á sama hátt og Páll líkti eftir Kristi. (Lúkas 6:40; 1. Korintubréf 11:1) Þeir gengu því fram í anda Jesú og fetuðu í fótspor hans.

5. Hvers má vænta af nútímamönnum sem líkja eftir Páli og Títusi og framganga „í sama anda“ og feta „í sömu fótsporin“?

5 Það er því ekki undarlegt að kristnir menn nú á 20. öld, sem koma fram „í einum og sama anda“ og feta „í sömu fótsporin“ og Páll og Títus, skuli njóta einingar sem á sér engan samjöfnuð. Óeining þeirra sem eru kristnir að nafninu til kemur meira að segja upp um þá að þeir eru falskristnir og feta ekki í fótspor leiðtogans sem þeir segjast fylgja. (Lúkas 11:17) Þessi mikli munur á sannkristnum mönnum og nafnkristnum birtist á ýmsa vegu. Við skulum nefna fjögur dæmi.

Heilagleiki blóðsins

6, 7. (a) Hvaða rétt viðhorf til blóðs er fólgið í því að feta í fótspor Jesú? (b) Hver er munurinn á vottum Jehóva og öðrum sem afþakka blóðgjafir?

6 Um árið 49 sendi hið stjórnandi ráð kristna safnaðarins á fyrstu öld frá sér bréf sem svaraði spurningunni: Ættu kristnir menn, sem ekki eru Gyðingar, að hlýða lögmáli Móse? Bréfið hafði þetta að segja: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:28, 29) Taktu eftir því að það að halda sér frá blóði var eitt af því sem ‚nauðsynlegt var.‘ Það að feta í fótspor Jesú fól í sér að taka ekki blóð inn í líkamann, hvorki um munninn né með nokkrum öðrum hætti.

7 Með blóðgjöfum sínum í lækningaskyni hefur kristni heimurinn brotið þetta bann gróflega. Að vísu hafa margir á síðustu árum gert sér ljósar hætturnar samfara blóðgjöfum og afþakkað þær af læknisfræðilegum ástæðum. Þetta hefur gerst einkum eftir að ljóst varð að margir hafa fengið eyðni með blóði. En hvaða hópur manna heldur á lofti heilagleika blóðsins vegna virðingar fyrir lögum Guðs? Þegar sjúklingur lætur í ljós að hann vilji ekki láta gefa sér blóð, í hvaða flokk setja læknar hann sjálfkrafa? Segir læknirinn ekki oftast: ‚Þú hlýtur að vera einn votta Jehóva‘?

8. Hvernig hlaut vottur á Ítalíu blessun fyrir ásetning sinn að halda lög Guðs í þessu efni?

8 Antonietta býr á Ítalíu. Fyrir um það bil 8 árum veiktist hún alvarlega og varð svo blóðlítil að læknar fullyrtu að blóðgjafir væru nauðsynlegar til að bjarga lífi hennar. Hún neitaði að láta gefa sér blóð og mátti glíma við andstöðu bæði lækna og ættingja sinna. Jafnvel litlu drengirnir hennar tveir sárbændu hana: „Mamma, ef þú elskar okkur láttu gefa þér blóð.“ En Antonietta var staðráðin í að vera trúföst og til allrar hamingju lifði hún veikindin af. Hún var þó svo langt leidd að læknir sagði: „Við höfum enga skýringu á því hvers vegna hún lifir enn.“ En strax og meðferð var hafin, sem ekki braut í bága við boðorð Biblíunnar, var bati hennar svo skjótur að annar læknir sagði: „Ég trúi þessu ekki — þú átt ekki að hafa getað náð þér á svona skömmum tíma, jafnvel þótt við hefðum dælt í þig blóði allan daginn.“ Núna er hún reglulegur brautryðjandi og synir hennar tveir, nú 12 og 14 ára, taka góðum framförum í sannleikanum. Hugrökk hélt Antonietta sér við það sem „nauðsynlegt er“ í sambandi við heilagleika blóðsins. Allir vottar Jehóva hafa sama viðhorf þegar þeir feta í fótspor Jesú.

Gott siðferði

9. Hvað annað er „nauðsynlegt“ til að feta í fótspor Jesú og hvað verður um þá sem ekki gera það?

9 Annað „nauðsynlegt“ atriði, sem fram kom í bréfi hins stjórnandi ráðs á fyrstu öld, var að ‚halda sér frá . . . saurlifnaði.‘ Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna skýrði Páll þetta nánar og sagði: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Kristnir menn hjálpa fólki, sem vill þjóna Jehóva, að losa sig við þessar óhreinu iðkanir. Jafnvel safnaðarmeðlimum, sem falla í snöru þeirra, er hjálpað að hreinsa sig ef þeir snúa við og iðrast. (Jakobsbréfið 5:13-15) En ef einhver kristinn maður fer að leggja stund á slíkar saurugar iðkanir og neitar að iðrast setur Biblían skýrar reglur um hvað gera skuli. Páli var innblásið af Guði að segja: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður . . . útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.“ — 1. Korintubréf 5:11, 13.

10, 11. (a) Hverjir bera ábyrgðina á hinu lága siðgæði í kristna heiminum og hvers vegna? (b) Hvernig sýnir reynsla manns á Filippseyjum að sem hópur fylgja vottar Jehóva háleitu siðgæði?

10 Þrátt fyrir þessa skýru kenningu er kristni heimurinn gagnsýrður siðleysi. Klerkar, sem útvatna staðla Guðs, bera sök á þessu ástandi, svo og þeir sem þjóna stöðlum Biblíunnar með vörunum en hafa ekki kjark til að fylgja þeim hugrakkir í söfnuðum sínum. Einnig í þessu efni eru vottar Jehóva fólk sem fetar í fótspor Jesú.

11 Við skulum líta á Jose á Filippseyjum sem dæmi. Sautján ára gamall var hann orðinn þekktur sem vandræðaseggur og fjáhættuspilari. Hann var oft drukkinn, lifði siðlausu lífi og lenti oft í fangelsi fyrir hnupl og þjófnað. Þá komst hann í samband við votta Jehóva. „Námið í Biblíunni gerbreytti lífi mínu,“ segir hann. „Ég er hættur að drekka og reykja og hef lært að stjórna skapi mínu. Núna hef ég hreina samvisku og á aðeins eina konu. Ég hef líka áunnið mér virðingu nágranna minna sem voru vanir að kalla mig „Jose hinn illræmda“ og ‚Jose vofu.‘ Núna kalla þeir mig ‚Jose, vott Jehóva.‘ Sonur minn og frændi eru safnaðarþjónar í söfnuðinum þar sem ég gegni núna þjónustu sem öldungur og reglulegur brautryðjandi.“ Jose og milljónir annarra kristinna votta Jehóva feta í fótspor Jesú sem siðferðilega hreinir kristnir menn.

Hlutleysi

12. Hvaða viðhorf sannkristinna manna lét Jesús í ljós í bæn sem skráð er í Jóhannesi 17. kafla?

12 Í hinni löngu bæn, sem Jesús bar fram síðasta kvöldið sem hann var með lærisveinum sínum, minntist hann á aðra leið sem fylgjendur hans hefðu til að ‚feta í hans fótspor.‘ Hann sagði um lærisveina sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Þetta merkir að kristnir menn eru hlutlausir. Í stað þess að taka þátt í stjórnmálum eða deilum þjóða segja þeir öðrum frá ríki Guðs, einustu lausninni á vandamálum þessa heims. — Matteus 6:9, 10; Jóhannes 18:36.

13, 14. (a) Hvaða munur er á kristna heiminum og vottum Jehóva í sambandi við hlutleysi? (b) Hvernig varð pólitískt hlutleysi votts í Japan öllu bræðrafélaginu til góðs?

13 Flestir meðlimir kristna heimsins hafa gleymt þessari meginreglu um hlutleysi. Fyrir þá er þjóðlegur uppruni venjulega þýðingarmeiri en trú. Dálkahöfundurinn Mike Royko bendir á að „kristnir menn“ hafi aldrei „séð neitt athugavert við að heyja stríð við aðra kristna menn.“ Hann bætir við: „Ef svo hefði verið hefðu fæstar af líflegustu styrjöldum Evrópu verið háðar.“ Það er alkunn staðreynd að vottar Jehóva fylgja ströngu, kristnu hlutleysi á stríðstímum. Sem fylgjendur Jesú eru þeir líka hlutlausir gagnvart þjóðfélagslegum og stjórnmálalegum deilum. Því fær ekkert raskað hinni undraverðu einingu þeirra um víða veröld. — 1. Pétursbréf 2:17.

14 Hlutleysi þeirra hefur stundum óvæntar afleiðingar. Í Tsugaru-héraði í norðurhluta Japans eru kosningar til dæmis teknar mjög alvarlega. En Toshio, aðstoðarframkvæmdastjóri í fjármáladeild stjórnarskrifstofu þar á staðnum, neitaði samvisku sinnar vegna að láta blanda sér í baráttu borgarstjóra fyrir endurkjöri. Það leiddi til þess að hann var lækkaður í tign og settur í lága stöðu við skolphreinsunarstöð borgarinnar. En ári síðar var borgarstjórinn handtekinn og neyddist til að segja af sér vegna spillingar. Nýr borgarstjóri var kjörinn. Þegar hann frétti af stöðulækkun Toshios flutti hann hann í háa stjórnarstöðu sem varð kristnum bræðrum Toshios til blessunar. Hvernig? Toshio segir frá því að það sé mjög erfitt að fá leyfi til að nota íþróttasali fyrir annað en íþróttamót af einhverju tagi. En í núverandi stöðu „hefur Jehóva getað notað mig“ — svo vitnað sé í orð Toshios — „til að fá afnot af slíkum íþróttasölum fyrir þrjú umdæmismót og fjögur svæðismót.“ Hann segir að lokum: „Svo framarlega sem við erum trúföst mun Jehóva opna leiðir til að nota okkur sem við getum ekki ímyndað okkur.“

Á heimilinu

15. Hvaða fyrirmynd gaf Jesús fylgjendum sínum varðandi samskipti innan fjölskyldunnar?

15 Heimilið er annar vettvangur þar sem kristnir menn ‚feta í fótspor Jesú.‘ Biblían tiltekur fordæmi Jesú sem fyrirmynd að samskiptum á heimilinu þegar hún segir: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar [safnaðarins], . . . en eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ — Efesubréfið 5:21-25.

16, 17. (a) Hvernig er ástatt með samskipti innan fjölskyldunnar í kristna heiminum? (b) Hver er eina leiðin til að bæta samskiptin á heimilinu samanber reynslu brasilískra hjóna?

16 Að stærstum hluta hefur kristni heimurinn þessi ráð að engu og er enda fullur af sundruðum fjölskyldum. Hjónaskilnaðir eru daglegir viðburðir og árekstrar og deilur foreldra og barna oft mjög djúpstæðar. „Fjölskyldulífið er í upplausn,“ sagði sálfræðiprófessor fyrir nokkrum árum. Barnasálfræðingar, hjúskaparráðgjafar og geðlæknar hafa náð einungis takmörkuðum árangri í að halda saman fjölskyldum sem eru í hættu staddar. En vottar Jehóva gera allt sem þeir geta til að fylgja meginreglum Biblíunnar og eru kunnir fyrir betra fjölskyldulíf en almennt gerist í heiminum.

17 Aldemar var yfirmaður í brasilísku herlögreglunni og átti við erfiðleika að glíma í fjölskyldulífinu. Konan yfirgaf hann og sótti um skilnað að borði og sæng. Hann fór að drekka mikið og reyndi jafnvel að svipta sig lífi. Síðar töluðu ættingjar hans, sem eru vottar Jehóva, við hann um Biblíuna. Honum geðjaðist vel það sem hann heyrði og fór að nema Biblíuna. Nú vildi hann samlaga líf sitt því hlutleysi sem vottar Jehóva eru kunnir fyrir og sótti um lausn úr hernum. Aldemar og konan hans leystu hjúskaparvandamál sín með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar sem Aldemar var að læra. Núna feta þau í fótspor Jesú og þjóna Jehóva saman sem reglulegir brautryðjendur.

Hlýðnin stafar af kærleika

18. (a) Hvers vegna njóta vottar Jehóva andlegrar blessunar nú á dögum? (b) Hvernig er Jesaja 2:2-4 nú að uppfyllast?

18 Ljóst er að vottar Jehóva framganga sameinaðir í anda Krists Jesú og feta í hans fótspor. Bæði sem einstaklingar og hópur njóta þeir andlegar blessunar fyrir að gera það. (Sálmur 133:1-3) Hin augljósu merki um blessun Guðs hafa komið þúsundum hjartahreinna manna til að breyta í samræmi við spádóminn í Jesaja 2:2-4. Á aðeins fimm síðustu árum hafa 987.828 stigið hin nauðsynlegu skref til vígslu og síðan boðið sig fram til vatnsskírnar. Í kærleika sínum hefur Jehóva engin takmörk sett á þann fjölda sem getur gert það áður en ‚þrengingin mikla‘ skellur á. — Opinberunarbókin 7:9, 14.

19. (a) Hvaða áþreifanlegt gagn getur hlotist af því að þjóna Jehóva og hvernig ber að líta á það? (b) Hver er meginástæða okkar fyrir að hlýða boðum Jehóva?

19 Eins og frásagnirnar hér á undan gefa til kynna er áþreifanlegur hagnaður oft samfara hinni andlegu blessun sem þjónar Guðs njóta. Til dæmis með því að nota ekki tóbak, vera siðferðilega hreinlífir og virða heilagleika blóðsins geta þeir umflúið það að verða fórnarlömb vissra sjúkdóma. Það að lifa í samræmi við sannleikann getur gagnað þeim fjárhagslega og félagslega, svo og í heimilislífinu. Slíkir áþreifanlegir kostir eru skoðaðir sem blessun frá Jehóva og þeir sanna hversu hagnýt lög Jehóva eru. En möguleikinn á slíkum hagsbótum er ekki aðalástæðan fyrir því að hlýða lögum Guðs. Sannkristnir menn hlýða Jehóva vegna þess að þeir elska hann, vegna þess að hann verðskuldar tilbeiðslu þeirra og vegna þess að það er hið eina rétta að gera vilja hans. (1. Jóhannesarbréf 5:2, 3; Opinberunarbókin 4:11) Það er Satan sem heldur því fram að fólk þjóni Jehóva einungis í von um eigingjarnan ávinning. — Sjá Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5.

20. Hvernig framganga nútímavottar Jehóva í sama anda og hebresku vottarnir þrír til forna?

20 Nútímavottar Jehóva ganga fram í sama anda og hinir þrír trúföstu ungu hebresku vottar á dögum Daníels. Þegar þeim var hótað því að vera kastað í brennandi eldsofn sögðu þeir: „Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. En þótt hann gjöri það ekki [það er að segja ef hann léti þá deyja], þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ (Daníel 3:17, 18) Óháð hinni áþreifanlegu blessun eða afleiðingum munu vottar Jehóva halda áfram að feta nákvæmlega í fótspor Jesú, vitandi að þeim er tryggt eilíft líf í nýjum heimi Guðs! Sem sameinuð þjóð munu þeir halda áfram að framganga „í einum og sama anda“ og feta „í sömu fótsporin,“ hvað sem gerast kann!

Getur þú svarað?

◻ Hvers vegna eru vottar Jehóva sameinaðir?

◻ Í hverju eru vottar Jehóva ólíkir öðrum sem kalla sig kristna?

◻ Hver er meginástæðan fyrir því að sannkristnir menn þjóna Jehóva?

◻ Hvernig líta þjónar Guðs á gagnið sem hlýst af því að hlýða Jehóva?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Þegar sjúklingur afþakkar blóðgjöf er venjulega gengið að því vísu að hann sé einn votta Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Margir, sem kalla sig kristna, hafa ekki séð neitt athugavert við að heyja stríð hver gegn öðrum — með blessun presta sinna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila