Breyting á heimsstjórninni
HVERS konar stjórnarform myndir þú velja þér ef þú ættir þess kost? Flestir myndu sennilega kjósa sér stöðuga stjórn er veitti þegnum sínum sanngjarnt persónufrelsi. Við myndum vilja stjórn sem gæti haldið afbrotum í skefjum, stuðlað að friði, tryggt félagslegt réttlæti og aukið hagsæld. Við myndum tvímælalaust vilja að stjórnin væri hvorki spillt né kúgaði þegna sína.
Því miður hefur tæpast nokkurri stjórn tekist að fullnægja þessum skilyrðum. Hvað sjáum við þegar við virðum fyrir okkur heiminn nú á síðari helmingi 20. aldar? Fátækt, spillingu, dugleysi, kúgun, misrétti, glæpi og spennu á alþjóðavettvangi. Þetta er árangurinn af stjórn manna um þúsundir ára.
Að sjálfsögðu verður að láta einstaka stjórnendur, sem hafa verið réttsýnir og dugandi, njóta sannmælis. Og sum stjórnkerfi hafa verið tiltölulega stöðug og dugmikil um skeið. En dugleysi mannlegra stjórna í heild til að gera það sem okkur finnst af eðlishvöt að þær ættu að gera fyrir mannkynið sýnir fram á sannleiksgildi orða Biblíunnar: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Maðurinn var með öðrum orðum ekki skapaður til að stjórna sjálfum sér án utanaðkomandi hjálpar.
Af þessum orsökum er það gleðilegt að vita að í nánd skuli vera breyting á stjórn heimsmálanna. Hvað er átt við með þeim orðum? Átt er við það að dagleg stjórn alls mannkynsins muni brátt verða í höndum algerlega nýs stjórnarforms sem mun vera vandanum fullkomlega vaxið. Guð var búinn að segja fyrir þessa róttæku stjórnarfarsbreytingu. Hún er raunar kjarninn í boðskap Biblíunnar.
Áhugi Guðs á stjórninni yfir mannkyninu
Guð hefur alltaf látið sér umhugað um stjórnina yfir mannkyninu. Hann fylgist grannt með því hvernig mannanna stjórnir rækja skyldur sínar og lætur þær stundum standa sér reikningsskil. Meira að segja er saga sumra af helstu stjórnkerfum síðastliðinna 2500 ára sögð fyrirfram í Biblíunni. Í Daníelsbók, sem var skrifuð meira en 500 árum fyrir fæðingu Jesú, voru settir á blað spádómar sem sögðu fyrir fall Babýlonar til forna, auk uppgangs og falls Medíu-Persíu, Grikklands og Rómar. Spádómarnir sögðu jafnvel fyrir vöxt og viðgang ensk-ameríska heimveldisins á okkar dögum. Stutt athugun á sumum þessara spádóma mun hjálpa okkur að skilja hvað er átt við með þeim orðum að breyting á heimsstjórninni sé í vændum.
Sá fyrsti þessara undraverðu spádóma var innblásinn draumur þar sem heimsveldunum allt frá dögum Daníels fram til okkar tíma var lýst með stóru líkneski. Skyndilega losnaði steinn, þó ekki af mannavöldum, úr fjalli, lenti á líkneskinu og braut það. Steinninn braut það síðan í mél svo að það varð „eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað.“ — Daníel 2:31-43.
Í þessum sama kafla Daníelsbókar er útskýrt hvað þetta merkir. Þar er sagt að hinar duglausu mannastjórnir verði látnar víkja fyrir því sem er óendanlega betra. Okkur er sagt: „En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi [mannlegu] ríki, en sjálft mun það standa að eilífu. . . . Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg.“ — Daníel 2:44, 45.
En það var fleira um þetta mál að segja. Í annarri sýn birtast heimsveldin hvert á fætur öðru í mynd stórra dýra sem hvert um sig hafði samsvarandi einkenni og heimsveldið sem það táknaði. Daníel var síðan leyft að sjá allt til hins ógnþrungna hásætis ‚hins aldraða‘ á himnum. Það sem hann sá átti ekki að gerast á hans dögum heldur okkar meðan ensk-ameríska heimsveldið væri við völd. Hann sá himneskan dómstól Jehóva fella dóm yfir þessum heimsveldum. (Daníel 7:2-12) Eins og versin á eftir sýna var gefin út guðleg tilskipun um breytingu á heimsstjórninni. Hverjum yrði falin stjórn?
Einhver líkur mannsyni
Daníel gefur þetta hrífandi svar:
Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann. Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga. — Daníel 7:13, 14.
Daníel var þannig notaður til að segja fyrir að „hinn aldraði,“ Jehóva Guð sjálfur, muni binda enda á hinar óhæfu stjórnir mannanna sem hafa kúgað almenning. Í staðinn lætur hann koma stjórn sem er betri en mannkynið getur nokkurn tíma ímyndað sér — ósýnilegt ríki sem fer með völd af himni ofan. En hver er þessi ‚einhver sem mannssyni líktist‘ er fær ríkið í hendur?
Við þurfum ekki að vera í vafa um það. Jesús kallaði sjálfan sig ‚Mannssoninn.‘ Hann lýsti nærveru sinni þannig að ‚Mannssonurinn kæmi í dýrð sinni og allir englar með honum.‘ (Matteus 25:31) Þegar æðsti prestur Gyðinga krafðist þess að Jesús segði dómstólnum hvort hann væri „Kristur, sonur Guðs,“ svaraði Jesús: „Þú sagðir það. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins.“a — Matteus 26:63, 64.
Síðasta heimsveldi manna
Um 600 árum eftir daga Daníels skrifaði Jóhannes postuli Opinberunarbók sína undir innblæstri Guðs. Sú bók minnist á þessi heimsveldi sem volduga ‚konunga‘ og segir: „Það eru líka sjö konungar. Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn, og er hann kemur á hann að vera stutt.“ — Opinberunarbókin 17:9, 10.
Þeir fimm, sem voru fallnir þegar Jóhannes skrifaði þetta, voru Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía og Grikkland. Rómaveldi ‚var uppi‘ á þeim tíma. Og hið ensk-ameríska heimsveldi okkar tíma, sjöundi ‚konungurinn,‘ var auðvitað enn ókominn. Samkvæmt Opinberunarbókinni lifir ekkert heimsveldi eftir hið sjöunda — það sem núna er uppi. Það er hið síðasta. Þau verða ekki fleiri.
Þetta ætti þó ekki að skjóta mönnum skelk í bringu. Það er hrífandi tilhugsun að ranglátar og stríðandi mannastjórnir skuli bráðlega vera á enda. Spádómarnir segja einum rómi frá stórmikilvægri breytingu á stjórnarfari jarðarinnar — breytingu frá eigingjörnum mannastjórnum til réttlátrar, himneskrar stjórnar, Guðsríkis.
Guðsríki
En hvað er þetta Guðsríki? Það er langtum meira en aðeins einhver góð áhrif í hjörtum og lífi manna. Það er miklu meira en hið svonefnda ‚æviskeið kristinnar kirkju.‘ Guðsríki er raunveruleg stjórn. Það á sér konung, meðstjórnendur, yfirráðasvæði og þegna. Auk þess mun það miðla mönnum þeim stórfenglegu blessunum sem nefndar hafa verið.
Jesús er konungur þessa ríkis. Hann líkti sjálfum sér við ættgöfugan mann sem „fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.“ Um þann tíma sagði hann: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.“ — Lúkas 19:12; Matteus 25:31.
Hvenær ætti „Mannssonurinn“ að koma? Við þurfum ekki að geta okkur til um svarið. Þessi orð Jesú voru hluti af svari hans við spurningunni: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3, 30) Eins og oft hefur verið sýnt fram á í þessu tímariti hófst ósýnileg nærvera hans á himnum við lok ‚heiðingjatímanna‘ árið 1914.b — Lúkas 21:24.
Alveg eins og 12. kafli Opinberunarbókarinnar sagði fyrir tók Jesús þá völd og varpaði Satan út af himnum og niður í nágrenni jarðarinnar. Rödd á himnum kunngerði: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra.“ Það skýrir hið versnandi heimsástand upp frá því. Röddin á himnum heldur áfram: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:9-12.
Þessi naumi tími er brátt á enda. Fáeinum köflum síðar sést hinn dýrlegi Jesús á hvítum hesti. Hann er nefndur „Orðið Guðs“ og hann mun „slá þjóðirnar“ og ‚stjórna þeim með járnsprota‘ — alveg eins og Daníel hafði lýst að Guðsríki, líkt steini, myndi knosa þjóðirnar og síðan vaxa og fylla alla jörðina. — Opinberunarbókin 19:11-16; Daníel 2:34, 35, 44, 45.
Aldrei aftur munu dýrslegar stjórnir manna fá að kúga mannkynið!
Meðstjórnendur
En sagan er ekki öll sögð. Daníel var blásið í brjóst að segja fyrir að Guðsríki yrði fengið í hendur ekki aðeins ‚einhverjum sem mannssyni líktist‘ heldur einnig „heilögum lýð Hins hæsta.“ — Daníel 7:27.
Hverjir eru það? Opinberunarbókin segir um lambið, Krist Jesú: „Þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðinni.“ Þar segir einnig að þeir verði „prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ Fjöldi þeirra er sagður vera 144.000. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1; 20:6.
Þetta eru þeir sem hinn hæsti Guð velur til að eiga hlut í heimsstjórn sinni með syni sínum, Jesú Kristi. Gæti framtíð okkar verið öruggari í höndum einhverra annarra en þeirra sem Guð velur? Nei, þetta ríki verður besta stjórnin sem hugsast getur — langtum æðri nokkru því sem menn hafa nokkurn tíma þekkt. Undir stjórn þess verður allri jörðinni breytt í þá paradís sem Guð ætlaði í upphafi.
Íhugaðu með hjálp greinarinnar á eftir hvort þetta sé ekki þess konar stjórn sem þú myndir vilja lifa undir.
[Neðanmáls]
a Í uppsláttarritinu New Catholic Encyclopedia segir um sýn Daníels: „Lítill vafi getur leikið á að Daníel er hér að tala um atburð sem hefur eilífa þýðingu og á sér stað á endalokatímanum.“ Áfram segir: „Játning Jesú frammi fyrir æðstaráðinu er óvéfengjanlegur vitnisburður þess að hann sé Mannssonurinn og skýr tilvísun til þess að hann komi í mætti.“
b Sjá Varðturninn þann 1. nóvember 1982 og enska útgáfu blaðsins 1. apríl 1984.
[Rammi á blaðsíðu 4]
„Aðalstefið í kennslu Jesú“
„Guðsríki er aðalatriðið í prédikun Jesú.“ — New Catholic Encyclopedia.
„[Guðsríki] er yfirleitt álitið vera aðalstefið í kennslu Jesú.“ — Encyclopædia Britannica.
En hvenær heyrðir þú síðast þetta ‚aðalstef í kennslu Jesú‘ rætt í kirkju?
[Rammi á blaðsíðu 5]
Ringulreið varðandi Guðsríki
Sumir hafa haldið að „kirkjan á jörðinni“ sé ríki Guðs en aðrir trúað að núverandi heimur „muni þróast undir kristnum áhrifum þangað til hann verður Guðsríki.“ Enn aðrir segja að Guðsríki sé „yfirráð Guðs í hjarta og lífi einstaklingsins.“
En er Guðsríki einungis þetta — trúarkerfi, hægfara pólitísk breyting eða eitthvert andlegt ástand í hjörtum fólks?