Verið reiðubúnir fyrir dag Jehóva!
Meginatriði 1. Þessaloníkubréfs
DAGUR Jehóva! Kristnir menn í Þessaloníku til forna héldu að hann væri yfirvofandi. Höfðu þeir rétt fyrir sér? Hvenær myndi hann koma? Það var eitt mikilvægt atriði sem Páll postuli fjallaði um í fyrra bréfi sínu til Þessaloníkumanna sem hann sendi þeim frá Korintu um árið 50 að okkar tímatali.
Páll og Sílas stofnsettu söfnuðinn í Þessaloníku sem var stjórnarsetur rómverska skatthéraðsins Makedóníu. (Postulasagan 17:1-4) Er Páll síðar meir sendi söfnuðinum fyrra bréf sitt hrósaði hann þeim, áminnti og ræddi um dag Jehóva. Við getum líka haft gagn af þessu bréfi, einkum í ljósi þess hve nálægur dagur Jehóva er núna.
Hrós og uppörvun
Páll byrjaði á því að hrósa Þessaloníkumönnum. (1Þe 1:1-10) Þeir áttu hrós skilið fyrir trú sína og þolgæði. Það var líka hrósunarvert að þeir skyldu hafa ‚tekið á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.‘ Hrósar þú öðrum eins og Páll gerði?
Postulinn hafði gefið gott fordæmi. (2:1-12) Þrátt fyrir hrottalega meðferð í Filippí hafði ‚Guð gefið honum djörfung til að tala fagnaðarerindið‘ til Þessaloníkumanna. Hann hafði forðast smjaður, ásælni og upphefð. Páll hafði ekki orðið til þyngsla fjárhagslega heldur verið mildur við þá eins og móðir við brjóstabarn. Þetta er öldungum nú á tímum gott fordæmi!
Þessu næst hvatti Páll Þessaloníkumenn til að vera staðfastir er þeir yrðu ofsóttir. (2:13-3:13) Þeir höfðu þolað ofsóknir af hendi samlanda sinna og Tímóteus hafði flutt Páli góðar fréttir af andlegu ástandi þeirra. Postulinn bað þess að þeir mættu vera auðugir að kærleika og staðfastir í hjörtum sér. Á sama hátt biðja vottar Jehóva nú á tímum fyrir ofsóttum trúbræðrum sínum, uppörva þá ef þeir geta og gleðjast er þeir fregna af trúfesti þeirra.
Haldið andlegri vöku ykkar!
Þessu næst fengu Þessaloníkumenn leiðbeiningar. (4:1-18) Þeir áttu að gæta þess enn betur að ganga þá braut sem Guði þóknast, sýna meiri bróðurást og vinna með höndum sínum til að sjá fyrir sér. Enn fremur áttu þeir að hughreysta hver annan með þeirri von að andagetnir, smurðir kristnir menn, sem dánir voru, yrðu reistir upp fyrst og sameinaðir Jesú við nærveru hans. Þeir sem eftir væru á lífi við nærveru Krists myndu, við dauða sinn og upprisu, sameinast Kristi og þeim sem þegar hefðu verið reistir upp til lífs á himnum.
Nú tók Páll að ræða um dag Jehóva og gaf frekari leiðbeiningar. (5:1-28) Dagur Jehóva myndi koma sem þjófur og skyndileg tortíming ríða yfir eftir að hrópað hefði verið: „Friður og engin hætta!“ Þessaloníkumenn áttu því að halda andlegri vöku sinni, klæddir brynju trúar og kærleika og með von hjálpræðisins að hjálmi. Þeir áttu að bera djúpa virðingu fyrir þeim sem veittu söfnuðinum forstöðu og forðast illt, líkt og við verðum einnig að gera.
Fyrra bréf Páls til Þessaloníkumanna ætti að hvetja okkur til að uppörva trúbræður okkar og hrósa þeim. Það ætti líka að koma okkur til að vera til fyrirmyndar í viðhorfum og hegðun. Og tvímælalaust geta heilræði þess hjálpað okkur að vera reiðubúin að mæta degi Jehóva.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 30]
Brynja og hjálmur: Páll hvatti Þessaloníkumenn til að halda sér andlega vakandi og skrifaði: „Vér . . . skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.“ (1. Þessaloníkubréf 5:8) Brynja verndaði brjóst hermannsins, en hún var gerð úr plötum, keðjum eða gagnheilum málmi. Eins verndar brynja trúarinnar okkur andlega. Og hvað um hjálminn til forna? Hjálmurinn var oft úr málmi og verndaði hermanninn í bardaga. Vonin um hjálpræði verndar huga kristins manns, líkt og hjálmur höfuð hermannsins, og gerir honum fært að varðveita ráðvendni. Sannarlega er mikilvægt að þjónar Jehóva klæðist andlegum herklæðum! — Efesusbréfið 6:11-17.