„Þreytist ekki gott að gjöra“
Meginatriði 2. Þessaloníkubréfs
UMHYGGJA Páls fyrir kristnum mönnum í borginni Þessaloníku í Makedóníu kom honum til að skrifa þeim annað bréf sitt um árið 51. Sumir í söfnuðinum héldu því ranglega fram að nærvera Jesú Krists væri yfirvofandi. Hugsanlegt er jafnvel að bréf, sem ranglega var eignað Páli, hafi verið túlkað svo að „dagur Drottins“ væri þegar runninn upp. — 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2.
Sumir í Þessaloníku þurftu því að leiðrétta hugsun sína. Í síðara bréfi sínu hrósaði Páll þeim fyrir vaxandi trú, kærleika og þolgæði, en sýndi líka fram á að fráhvarf myndi verða frá trúnni fyrir nærveru Jesú. Það voru því erfiðir tímar framundan og bréf postulans myndi hjálpa þeim að fylgja áminningarorðum hans: „Þreytist ekki gott að gjöra.“ (2. Þessaloníkubréf 3:13) Orð Páls geta hjálpað okkur á sama hátt.
Opinberun Krists og nærvera
Páll talaði fyrst um létti undan þrengingum. (1:1-12) Hann myndi verða „þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns.“ Eilíf tortíming skyldi þá koma yfir þá sem ekki hlýddu fagnaðarerindinu. Það er hughreystandi að minnast þessa þegar ofsækjendur þrengja að okkur.
Þessu næst vakti Páll athygli á að „lögleysinginn“ myndi opinberast fyrir nærveru Krists. (2:1-17) Þessaloníkumenn áttu ekki að komast í uppnám út af einhverjum boðskap sem gaf í skyn að „dagur Drottins“ væri þegar runninn upp. Fyrst myndi fráhvarfið eiga sér stað og lögleysinginn opinberast. Síðan myndi Jesús gera hann að engu er hann opinberaðist við nærveru sína. Páll bað þess að þangað til mættu Guð og Kristur styrkja hjörtu Þessaloníkumanna og styrkja þá í „sérhverju góðu verki og orði.“
Tekið á óstýrilátum
Í framhaldinu fjallar Páll meðal annars um það hvernig tekið skuli á óstýrilátum einstaklingum. (3:1-18) Hann lét í ljós það traust að Drottinn myndi styrkja Þessaloníkumenn og vernda fyrir hinum vonda, Satan djöflinum. Þeir þyrftu þó að gera eitthvað sjálfir til að styrkja sinn andlega mann. Þeir áttu ekki að umgangast þá sem lifðu óreglulega, þá sem skiptu sér af því sem þeim kom ekki við og neituðu að vinna. „Ef einhver vill ekki vinna,“ sagði Páll, „þá á hann heldur ekki mat að fá.“ Það átti að merkja slíka menn og ekki sýna þeim bróðurlega vinsemd, þótt þeir skyldu áminntir sem bræður. Trúfastir kristnir menn í Þessaloníku áttu ekki að þreytast að gera það sem rétt var og Páll bað þess að óverðskulduð náð Drottins Jesú Krists mætti vera með þeim öllum.
Síðara bréf Páls til Þessaloníkumanna veitir vottum Jehóva tryggingu fyrir lausn úr þrengingu sinni er Kristur og englar hans fullnægja réttlætinu á þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu. Það styrkir líka trúna að vita að „lögleysinginn“ (klerkastétt kristna heimsins) og öll fölsk trúarbrögð muni bráðlega líða undir lok. Uns það gerist skulum við hlýða hvatningarorðum Páls og þreytast ekki gott að gjöra.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]
Orð Jehóva hafi framgang: „Biðjið fyrir oss,“ skrifaði Páll, „að orð [Jehóva] megi hafa framgang [eða „megi hlaupa“] og vegsamast eins og hjá yður.“ (2. Þessaloníkubréf 3:1; Kingdom Interlinear) Sumir fræðimenn hafa slegið því fram að postulinn hafi haft í huga þátttakendur í kapphlaupi er hann sagði þetta. Þótt það sé óvíst bað Páll kristna menn í Þessaloníku að biðja þess að hann og samstarfsmenn hans mættu útbreiða orð sannleikans tálmunarlaust og af krafti. Úr því að Guð svarar slíkum bænum hefur orð hans „framgang“ er fagnaðarerindið er prédikað af krafti á síðustu dögum. Orð Jehóva „vegsamast“ líka, er mikils metið meðal hinna trúuðu sem „kraftur Guðs til hjálpræðis“ eins og það var meðal Þessaloníkumanna sem tóku við því. (Rómverjabréfið 1:16; 1. Þessaloníkubréf 2:13) Við fögnum því mjög að Guð skuli blessa boðbera Guðsríkis og fjölga tilbiðjendum sínum ört! — Jesaja 60:22.