‚Umsjónarmanni ber að hafa stjórn á sjálfum sér‘
‚Umsjónarmanni ber að . . . hafa stjórn á sjálfum sér.‘ — TÍTUSARBRÉFIÐ 1:7, 8, NW.
1, 2. Hvernig sýndi Vilhjálmur af Óraníu mikla sjálfstjórn og hvernig var það öðrum til góðs?
MANNKYNSSAGAN segir frá athyglisverðu dæmi frá miðri 16. öld um mann sem kunni að stjórna tilfinningum sínum. Þetta var hinn ungi hollenski prins, Vilhjálmur af Óraníu. Einu sinni var hann í veiðiferð með Hinriki 2. Frakkakonungi er sá síðarnefndi trúði honum fyrir því áformi sínu og Spánarkonungs að útrýma öllum mótmælendum í Frakklandi og Hollandi — eiginlega í öllum kristna heiminum. Hinrik konungur hélt að hinn ungi Vilhjálmur væri dyggur kaþólikki eins og hann sjálfur og gerði honum grein fyrir ráðagerðinni í smáatriðum. Vilhjálmur var skelfingu lostinn yfir því sem hann heyrði, því að margir nánustu vina hans voru mótmælendur, en hann leyndi tilfinningum sínum og sýndi mikinn áhuga öllu sem konungur sagði.
2 Jafnskjótt og Vilhjálmur hafði ráðrúm til lagði hann hins vegar á ráðin um ónýta þessa ráðagerð og það leiddi til þess að lokum að Holland losnaði undan yfirráðum kaþólskra á Spáni. Sökum þeirrar sjálfstjórnar, sem Vilhjálmur sýndi er konungur sagði honum frá samsærinu, fékk hann viðurnefnið „hinn þögli.“ Farsæld hans var slík að sagt er um hann: „Sjálfstæði og veldi hollenska lýðveldisins var honum að þakka.“
3. Hverjir njóta góðs af því að kristnir öldungar iðki sjálfstjórn?
3 Sjálfstjórn Vilhjálms þögla var bæði sjálfum honum og þjóð hans mjög til góðs. Á sambærilegan hátt ættu kristnir öldungar eða umsjónarmenn nútímans að sýna þann ávöxt andans sem sjálfstjórn er. (Galatabréfið 5:22, 23) Með því að iðka sjálfstjórn gera þeir bæði sjálfum sér og söfnuðum sínum gott. Á hinn bóginn geta þeir unnið óbætanlegt tjón ef þeir iðka ekki sjálfstjórn.
Sjálfstjórn — krafa til öldunga
4. Hvaða heilræði Páls postula leggur áherslu á nauðsyn þess að öldungar sýni sjálfstjórn?
4 Páll, sem sjálfur var öldungur, gerði sér ljósa grein fyrir því hve sjálfstjórn er mikilvæg. Er hann leiðbeindi öldungunum sem höfðu komið til hans frá Efesus sagði hann: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni.“ Það að hafa gát á sjálfum sér fól meðal annars í sér að iðka sjálfstjórn, að hafa gát á breytni sinni. Í bréfi til Tímóteusar minntist Páll á þetta sama og sagði: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni.“ Þessi ráð sýna að Páll gerði sér grein fyrir því að menn hefðu sumir hverjir ríkari tilhneigingu til að segja öðrum hvað þeir ættu að gera en gera það sjálfir. Þess vegna lagði hann fyrst áherslu á nauðsyn þess að þeir hefðu gát á sjálfum sér. — Postulasagan 20:28; 1. Tímóteusarbréf 4:16.
5. Hvernig eru kristnir öldungar útnefndir og hvar eru kröfurnar til þeirra tíundaðar í Ritningunni?
5 Með árunum hefur skilningur okkar á hlutverki öldunganna smám saman aukist. Núna vitum við að menn eru skipaðir til að gegna starfi öldungs. Öldungar eru skipaðir af hinu stjórnandi ráði votta Jehóva eða beinum fulltrúum þess. Hið stjórnandi ráð er svo fulltrúi ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Kröfurnar til kristinna umsjónarmanna eða öldunga koma fyrst og fremst fram hjá Páli postula í 1. Tímóteusarbréfi 3:1-7 og Títusarbréfinu 1:5-9.
6, 7. Hvaða sérstakar kröfur til öldunga kalla á sjálfstjórn?
6 Páll segir í 1. Tímóteusarbréfi 3:2, 3 að umsjónarmaður verði að vera hófsamur í venjum. Það, og eins hitt að öldungar hafi góða reglu á hlutunum, krefst sjálfstjórnar. Til að vera hæfur sem öldungur má maður ekki vera ofbeldismaður og ekki deilugjarn. Þessir eiginleikar krefjast líka sjálfstjórnar af hálfu öldungs. Og til að öldungur sé ekki drykkfelldur verður hann að iðka sjálfstjórn. — Sjá neðanmálsathugasemir við 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3 í New World Translation.
7 Í Títusarbréfinu 1:7, 8 tók Páll sérstaklega fram að öldungur yrði að hafa stjórn á sjálfum sér. Tökum þó eftir hve margar aðrar kröfur, sem eru taldar upp í þessum versum, eru tengdar sjálfstjórn. Til dæmis verður umsjónarmaður að vera ámælislaus, já, óaðfinnanlegur. Öldungur getur ekki uppfyllt þessa kröfu nema hann iðki sjálfstjórn.
Í samskiptum við aðra
8. Hvaða tengsl eru milli sjálfstjórnar og þeirra eiginleika sem öldungar þurfa að hafa til að geta leiðbeint öðrum?
8 Umsjónarmaður verður líka að vera þolinmóður og langlyndur í samskiptum við trúsystkini sín og það útheimtir sjálfstjórn. Til dæmis lesum við í Galatabréfinu 6:1: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð [einkanlega öldungarnir], þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ Það kostar sjálfstjórn að sýna hógværð. Reyndar kostar það líka sjálfstjórn að hafa gát á sjálfum sér. Eins er sjálfstjórn afar mikilvæg þegar öldungur er kallaður til að hjálpa einstaklingi í erfiðleikum. Óháð því hvað öldungnum kann að finnast um einstaklinginn verður hann að vera vingjarnlegur, þolinmóður og skilningsríkur. Hann má ekki vera fljótur á sér að gefa ráð heldur verður hann að hlusta og draga fram hvert hið raunverulega vandamál er.
9. Hvaða ráð ættu öldungar að hafa í huga þegar þeir reyna að hjálpa örvilnuðum einstaklingi?
9 Heilræði Jakobsbréfsins 1:19 eiga við einkum þegar hjálpa þarf örvilnuðum einstaklingi: „Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ Já, einkum þegar reiði eða annars konar uppnám mætir öldungi verður hann að gæta þess að gjalda ekki líku líkt. Það krefst sjálfstjórnar að svara ekki tilfinningaþrungnum orðum í sömu mynt, að ‚gjalda engum illt fyrir illt.‘ (Rómverjabréfið 12:17) Það myndi einungis gera illt verra að gjalda í sömu mynt. Aftur gefur orð Guðs öldungum gott ráð og minnir þá á að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ — Orðskviðirnir 15:1.
Sjálfstjórn á öldungafundum og dómnefndarfundum
10, 11. Hvað hefur átt sér stað á fundum öldunga sem sýnir að sjálfstjórn er nauðsynleg þar?
10 Á öldungafundum þurfa kristnir umsjónarmenn einnig að gæta þess að iðka sjálfstjórn. Það kostar stundum mikla sjálfstjórn að tala stillilega í þágu sannleika og réttlætis. Það kostar líka sjálfstjórn að forðast það að reyna að ráða samræðunum. Ef öldungur hefur tilhneigingu til þess væri það vinargreiði af öðrum öldungi að ráða honum heilt. — Samanber 3. Jóhannesarbréf 9.
11 Eins gæti öldungur, sem er ákveðinn og einbeittur úr hófi fram, freistast til að hækka róminn á öldungafundum. Slík framkoma ber vissulega vitni um skort á sjálfstjórn! Í rauninni er slíkur öldungur að vinna gegn sjálfum sér á tvo vegu. Í fyrsta lagi er hann, í sama mæli og hann missir stjórn á sjálfum sér, að veikja rökfærslu sína með því að leyfa tilfinningum að skyggja á rök sín. Í öðru lagi er hætta á að hann komi samöldungum sínum í uppnám og geri þá sér mótsnúna að sama marki og hann kemst í geðshræringu. Enn fremur getur eindreginn skoðanamunur öldunga valdið sundrungu þeirra á meðal ef þeir gæta sín ekki. Það væri þeim sjálfum og söfnuðinum til tjóns. — Samanber Postulasöguna 15:36-40.
12. Við hvaða aðstæður þurfa öldungar sérstaklega að iðka sjálfstjórn?
12 Sjálfstjórn er auk þess sérlega mikilvæg til að öldungar séu ekki hlutdrægir eða misbeiti valdi sínu. Það er ósköp auðvelt að láta undan freistingu, að láta hugleiðingar ófullkominna manna hafa áhrif á það sem við segjum eða gerum. Aftur og aftur hafa öldungar ekki tekið einarðlega á málum þegar börn þeirra eða einhver annar ættingi reyndist sekur um ranga breytni. Það kostar sjálfstjórn að láta ekki blóðbönd tálma réttum aðgerðum undir slíkum kringumstæðum. — 5. Mósebók 10:17.
13. Hvers vegna þurfa öldungar sérstaklega að sýna sjálfstjórn þegar þeir sitja í dómnefnd?
13 Sjálfstjórn er líka afar þýðingarmikil þegar dómnefnd yfirheyrir brotlegan einstakling. Öldungar verða að sýna mikla sjálfstjórn til að láta ekki tilfinningar ráða of miklu. Þeir ættu ekki heldur að láta tár hafa of mikil áhrif á sig. Öldungur má ekki heldur glata stillingu sinni þegar ásakanir ganga á víxl og borinn er út rógur um hann, eins og getur gerst þegar taka þarf á fráhvarfsmönnum. Hér eiga orð Páls vel við: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ Sjálfstjórn er nauðsynleg til að vera ljúfur og mildur undir álagi. Páll heldur áfram og segir að „þjónn Drottins“ verði að vera „þolinn í þrautum, hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti.“ Að sýna sjálfstjórn og halda sér í skefjum þegar andstaða er annars vegar kostar mikla sjálfstjórn. — 2. Tímóteusarbréf 2:24, 25.
Sjálfstjórn gagnvart hinu kyninu
14. Hvaða góðum leiðbeiningum ættu öldungar að fara eftir í samskiptum við hitt kynið?
14 Öldungar verða að vera mjög vel vakandi fyrir því að iðka sjálfstjórn í samskiptum sínum við hitt kynið. Það er óráðlegt fyrir öldung að fara einn í hirðisheimsókn til systur. Öldungurinn ætti að hafa annan öldung eða safnaðarþjón í för með sér. Páll gerði sér líklega grein fyrir þessu vandamáli og ráðlagði öldungnum Tímóteusi: „Áminn . . . aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Sumir öldungar hafa sést leggja hendur sínar á systur eins af föðurlegu tilefni. En þeir gætu verið að blekkja sjálfa sig því að hvötin að baki slíkri snertingu gæti verið rómantísk skyndihvöt en ekki hrein bróðurást. — Samanber 1. Korintubréf 7:1.
15. Hvaða atvik sýnir þá miklu skömm sem það getur haft í för með sér fyrir nafn Jehóva ef öldungur iðkar ekki sjálfstjórn?
15 Það yrði til mikils tjóns fyrir sannleikann ef sumir öldungar sýndu ekki sjálfstjórn í samskiptum við systur sínar í söfnuðinum. Fyrir fáeinum árum var öldungur gerður rækur úr söfnuðinum vegna þess að hann hafði framið hjúskaparbrot með kristinni systur, en eiginmaður hennar var ekki vottur. Sama kvöld og brottreksturinn var tilkynntur stormaði eiginmaður systurinnar inn í ríkissalinn með riffil í hendinni og skaut á hina seku einstaklinga. Hvorugt þeirra lést og maðurinn var afvopnaður þegar í stað, en næsta dag birti útbreitt dagblað forsíðufrétt um ‚skotárás í kirkju.‘ Taumleysi öldungsins kallaði sannarlega skömm yfir söfnuðinn og nafn Jehóva!
Sjálfstjórn á öðrum sviðum
16. Hvers vegna verða öldungar að gæta þess að iðka sjálfstjórn þegar þeir flytja opinbera fyrirlestra?
16 Sjálfstjórn er líka mjög mikilvæg fyrir öldung þegar hann flytur opinbera ræðu. Opinber ræðumaður þarf að vera til fyrirmyndar í öryggi og persónulegri framkomu. Sumir reyna að skemmta áheyrendum sínum með mörgum fyndnum athugasemdum, í þeim tilgangi einum að koma þeim til að hlægja. Það getur verið merki þess að þeir hafi látið undan þeirri freistingu að þóknast áheyrendum sínum. Að sjálfsögðu er það alltaf merki taumleysis að láta undan freistingu. Það mætti jafnvel segja að það beri vott um að sjálfstjórn skorti þegar ræðumaður fer fram yfir úthlutaðan tíma, svo og um ónógan undirbúning.
17, 18. Hvaða þýðingu hefur sjálfstjórn fyrir öldung í því að gæta jafnvægis í sambandi við hinar ýmsu skyldur sínar?
17 Sérhver iðjusamur öldungur verður að ná tökum á þeirri erfiðu jafnvægislist að deila tíma sínum og kröftum rétt milli hinna ýmsu skyldna sem á honum hvíla. Það útheimtir sjálfstjórn að fara ekki úr einum öfgunum í aðrar. Sumir öldungar hafa verið svo uppteknir af því að sinna kröfum safnaðarins að þeir hafa vanrækt fjölskyldur sínar. Þannig svaraði eiginkona öldungs þegar systir sagði henni frá ánægjulegri hirðisheimsókn hans til hennar: „Ég vildi óska að hann kæmi einhvern tíma í hirðisheimsókn til mín!“ — 1. Tímóteusarbréf 3:2, 4, 5.
18 Öldungur þarf líka að sýna sjálfstjórn til að halda jafnvægi milli þess tíma sem hann ver til einkanáms og til þjónustunnar á akrinum og hirðisheimsókna. Með tilliti til þess hve svikult mannshjartað er á öldungur mjög auðvelt með að eyða meiri tíma en hann ætti að gera í það sem honum finnst ánægjulegast. Ef hann er hrifinn af bókum gæti hann hæglega eytt meiri tíma í einkanám en hann ætti að gera. Ef honum finnst starfið hús úr húsi frekar erfitt gæti hann fundið sér afsökun fyrir því að vanrækja það til að sinna hirðastarfinu í staðinn.
19. Hvaða skylda hvílir á öldungum sem undirstrikar þörfina á sjálfstjórn?
19 Öldungar verða líka að iðka sjálfstjórn til að þegja yfir trúnaðarmálum. Hér á eftirfarandi ráðlegging við: „Ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns.“ (Orðskviðirnir 25:9) Reynslan bendir til að þetta sé sú krafa til öldunga sem hvað oftast er brotið gegn. Ef öldungur á skynsama og elskuríka konu og á góð tjáskipti við hana getur honum hætt til að ræða eða minnast stuttlega á ýmis trúnaðarmál við hana. En það er bæði rangt og mjög óhyggilegt. Í fyrsta lagi bregst hann trúnaði með því. Andlegir bræður og systur leita til öldunga og trúa þeim fyrir ýmsu vegna þess að þau treysta því að gætt sé fullkominnar þagmælsku. Það er rangt, óhyggilegt og ókærleiksríkt af öldungi að gefa eiginkonu sinni upplýsingar um trúnaðarmál, vegna þess líka að það leggur þarflausa byrði á hana. — Orðskviðirnir 10:19; 11:13.
20. Hvers vegna er svona þýðingarmikið fyrir öldunga að iðka sjálfstjórn?
20 Enginn vafi leikur á að það er afar þýðingarmikið að iðka sjálfstjórn, sér í lagi fyrir öldunga! Þeim hefur verið trúað fyrir þeim sérréttindum að taka forystuna meðal þjóna Jehóva og því er ábyrgð þeirra mikil. Þar sem þeim hefur verið mikið í hendur selt er mikils krafist af þeim. (Lúkas 12:48; 16:10; samanber Jakobsbréfið 3:1.) Það eru sérréttindi og skylda öldunga að setja öðrum gott fordæmi. Enn fremur eru öldungarnir í aðstöðu til að vinna meira gagn eða tjón en aðrir og það ræðst oft af því hvort þeir iðka sjálfstjórn eða ekki. Það er engin furða að Páll skyldi segja: ‚Umsjónarmanni ber að . . . hafa stjórn á sjálfum sér.‘
Manst þú?
◻ Hvaða kröfur Biblíunnar til öldunga sýna að þeir verða að iðka sjálfstjórn?
◻ Hvers vegna þurfa öldungar að sýna sjálfstjórn í samskiptum við trúbræður sína?
◻ Hvernig ættu öldungar að iðka sjálfstjórn á fundum sínum?
◻ Hvers þurfa öldungar að gæta í sambandi við trúnaðarmál?
[Mynd á blaðsíðu 30]
Það er mikilvægt fyrir öldunga að sýna sjálfstjórn á fundum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Kristnir öldungar verða að iðka sjálfstjórn og þegja yfir trúnaðarmálum.