Sú þýðing sem Guðsríki hefur fyrir marga
JESÚS KRISTUR talaði oft um ríki Guðs. Sagnfræðingurinn H. G. Wells skrifaði um það: „Það er athyglisvert hve gríðarlega áherslu Jesús leggur á kenninguna um það sem hann kallaði himnaríki og, í samanburði við það, hve litla áherslu flestar kristnar kirkjur leggja á það í starfi sínu og kenningu. Þessi kennisetning um himnaríkið, sem var aðalkenning Jesú og gegnir svo litlu hlutverki í kristinni trúarjátninu, er tvímælalaust einhver byltingarkenndasta kenning sem hefur nokkru sinni örvað og breytt mannlegri hugsun.“
Hvers vegna segja kirkjufélögin svona lítið um ríki Guðs? Ein ástæðan kann að vera sú óvissa sem ríkir um það hvað Guðsríki sé. Hvaða viðhorf hafa verið á lofti um það?
Hvernig litið hefur verið á Guðsríki
Sumir hafa lagt Guðsríki að jöfnu við kaþólsku kirkjuna. Eftir að biskuparnir viðurkenndu Konstantínus keisara sem yfirboðara sinn á Níkeuþinginu árið 325 tóku kirkjufélögin að skipta sér af stjórnmálum og fólki var sagt að Guðsríki væri nú þegar komið. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir að samkvæmt guðfræði Ágústínusar (354-430) hafi „ríki Guðs þegar hafist í þessum heimi með stofnsetningu kirkjunnar“ og það sé „nú þegar til staðar í sakramenti kirkjunnar.“
Aðrir líta á ríki Guðs sem mannanna verk. Sama alfræðibók segir: „Siðbótarkirkjurnar . . . urðu fljótlega svæðisbundnar kirkjustofnanir sem síðan drógu úr eftirvæntingu endalokatímans“ varðandi komu Guðsríkis. H. G. Wells skrifaði: „Menn færðu viðmið lífsins frá Guðsríki og bræðralagi mannkyns til þess sem virtist öllu virkari veruleiki, Frakkland og England, Hið heilaga Rússland, Spánn, Prússland . . . Það voru hinir raunverulegu og lifandi guðir Evrópu.“
Guðsríki hefur líka verið fært í veraldlegan búning á okkar tímum. Encyclopædia Britannica segir: „Það er einkennandi grundvallarviðhorf að maðurinn verði sjálfur að leggja grunn að hinu fullkomna þjóðfélagi framtíðarinnar með því að móta það og skipuleggja og að mannlegt frumkvæði komi í stað þess að ‚vona‘ og ‚bíða.‘“ Um hið „félagslega guðspjall“ segir sama alfræðibók: „Þessi hreyfing leit á boðskap Krists um ríki Guðs einungis sem hvöt til að endurskipuleggja hinar veraldlegu aðstæður þjóðfélagsins samkvæmt siðfræði Guðsríkis.“
Margir Gyðingar hafa einnig litið á Guðsríki sem árangur mannlegs framtaks. Árið 1937 sagði í ályktun þings siðbótarrabbína í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum: „Við lítum á það sem hlutverk okkar í sögunni að vinna með öllum mönnum að því að koma á ríki Guðs, allsherjarbræðralagi, réttvísi, sannleika og friði á jörð. Það er messíasarmarkið okkar.“
Önnur algeng hugmynd er á þá lund að ríki Guðs sé ákveðið ástand í hjarta mannsins. Til dæmis lýsti ein trúardeild baptista í Bandaríkjunum yfir árið 1925: „Guðsríki er yfirráð Guðs yfir hjarta og lífi einstaklingsins í öllum mannlegum samskiptum og í sérhverri mynd og stofnun skipulegs þjóðfélags. . . . ríki Guðs verður algert þegar sérhver hugsun og vilji mannsins verður fjötruð vilja Krists.“
Er þá kirkjan ríki Guðs? Verður Guðsríki komið á með veraldlegum aðferðum? Er það ástand í hjarta mannsins? Og hvað getur Guðsríki þýtt fyrir þig?