Hvað merkja netið og fiskurinn fyrir þig?
„Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis.“ — MATTEUS 13:11.
1, 2. Hvers vegna gætum við haft áhuga á dæmisögum Jesú?
HEFUR þú gaman af að vita leyndarmál eða leysa þraut? Hvað nú ef það myndi hjálpa þér að sjá skýrar stöðu þína í tilgangi Guðs? Til allrar hamingju getur þú hlotið þau sérréttindi að fá slíkt innsæi gegnum dæmisögu sem Jesús sagði. Hún ruglaði marga sem heyrðu hana í ríminu og hefur verið óteljandi mönnum ráðgáta allar götur síðan, en þú getur skilið hana.
2 Taktu eftir því sem Jesús sagði í Matteusi 13. kafla um notkun sína á dæmisögum. Lærisveinar hans spurðu: „Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?“ (Matteus 13:10) Já, hvers vegna notaði Jesús dæmisögur sem fæstir skildu? Hann svarar í versi 11 til 13: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið. . . . Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.“
3. Hvernig getur skilningur á dæmisögum Jesú verið okkur til gagns?
3 Síðan vitnaði Jesús í Jesaja 6:9, 10 sem lýsti fólki er var andlega blint og heyrnarlaust. Við þurfum þó ekki að vera þannig. Ef við skiljum og hegðum okkur í samræmi við dæmisögur Jesú getum við verið afar hamingjusöm — núna og um eilífa framtíð. Jesús fullvissar okkur hlýlega: „Sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“ (Matteus 13:16) Þessi fullvissun nær yfir allar dæmisögur Jesú, en við skulum núna einbeita okkur að einni stuttri dæmisögu, dæmisögunni um fiskinetið sem skráð er í Matteusi 13:47-50.
Dæmisaga með djúptæka merkingu
4. Hvað sagði Jesús í dæmisögu eins og skýrt er frá í Matteusi 13:47-50?
4 „Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“
5. Hvers konar spurningar koma upp varðandi merkingu dæmisögunnar um netið?
5 Þú hefur sennilega séð menn veiða í net, að minnsta kosti í kvikmynd eða sjónvarpi, þannig að það er alls ekki erfitt að sjá fyrir sér dæmisögu Jesú. En hvað um smáatriðin og merkinguna? Til dæmis sagði Jesús að þessi dæmisaga sé um „himnaríki.“ En hann átti örugglega ekki við að „alls kyns“ menn, bæði góðir og óhæfir eða vondir, yrðu í himnaríki. Og hverjir eru fiskimennirnir? Áttu þessar veiðar og flokkun sér stað á dögum Jesú eða takmarkast hún kannski við okkar tíma, ‚endalokatíma heimskerfisins‘? Sérð þú sjálfan þig í þessari dæmisögu? Hvernig getur þú forðast að lenda í hópi þeirra sem gráta og gnísta tönnum?
6. (a) Hvers vegna ættum við að hafa brennandi áhuga á því að skilja dæmisöguna um netið? (b) Hver er lykillinn að skilningi á henni?
6 Slíkar spurningar sýna að þessi dæmisaga er alls ekkert svo einföld. En gleymdu ekki þessu: „Sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“ Við skulum sjá hvort við getum brotið hana til mergjar þannig að eyru okkar verði ekki dauf og augu okkar lokuð fyrir þýðingu hennar. Í rauninni höfum við nú þegar í höndum mikilvægan lykil að merkingu hennar. Greinin á undan sagði okkur frá því hvernig Jesús bauð fiskimönnum í Galíleu að snúa baki við því starfi og taka upp andlegt starf sem ‚mannaveiðarar.‘ (Markús 1:17) Hann sagði þeim: „Héðan í frá skalt þú menn veiða.“ — Lúkas 5:10.
7. Hverju var Jesús að lýsa þegar hann talaði um fisk?
7 Í samræmi við það táknar fiskurinn í þessari dæmisögu menn. Þess vegna, þegar 49. versið talar um að vondir verði skildir frá réttlátum, þá er ekki átt við réttlát eða vond sjávardýr heldur réttláta eða vonda menn. Fimmtugasta versið ætti ekki heldur að koma okkur til að hugsa um sjávardýr sem gráta eða gnísta tönnum. Alls ekki. Þessi dæmisaga fjallar um samansöfnun manna og síðan flokkun þeirra sem er háalvarlegt mál eins og málalokin sýna.
8. (a) Hvaða lærdóm getum við dregið af örlögum ónothæfa fiskjarins? (b) Hvað má álykta varðandi Guðsríki í ljósi þess sem sagt var um ónothæfa fiskinn?
8 Taktu eftir að óæta fiskinum, það er að segja hinum vondu, verður kastað í eldsofninn þar sem þeir munu gráta og gnísta tönnum. Annars staðar tengdi Jesús það að gráta og gnísta tönnum því að standa utan Guðsríkis. (Matteus 8:12; 13:41, 42) Í Matteusi 5:22 og 18:9 minntist hann jafnvel á „Gehenna eldsins“ og átti þá við varanlega tortímingu. (Bi. 1912, neðanmáls; NW) Sýnir það ekki hve mikilvægt það er að skilja merkingu þessarar dæmisögu og breyta í samræmi við hana? Öll vitum við að hvorki eru né munu verða vondir menn í ríki Guðs. Þegar því Jesús sagði að ‚himnaríki væri líkt neti‘ hlýtur hann að hafa átt við að í tengslum við Guðsríki sé eitthvað sem líkist neti sem lagt er í sjó til að safna alls konar fiski.
9. Hver er aðild engla að dæmisögunni um netið?
9 Eftir að netið var lagt og fiskinum safnað yrði hann flokkaður. Hverjir áttu að vinna að því, að sögn Jesú? Matteus 13:49 segir að fiski- og flokkunarmennirnir séu englar. Jesús var því að segja okkur frá umsjón engla með jarðnesku verkfæri sem er notað til að auðkenna menn — suma sem góða og hæfa til himnaríkis, aðra sem óhæfa til þeirrar köllunar.
Hvenær áttu veiðarnar að fara fram?
10. Með hvaða rökfærslu getum við komist að þeirri niðurstöðu að veiðarnar hafi náð yfir býsna langt tímabil?
10 Samhengið hjálpar okkur að komast að raun um hvenær þetta á sér stað. Rétt áður hafði Jesús sagt dæmisöguna um sáningu góða sæðisins en síðan var sáð illgresi yfir akurinn sem táknar heiminn. Hann útskýrði í Matteusi 13:38 að góða sæðið táknaði „börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.“ Þau uxu hlið við hlið um aldaraðir uns kom að uppskerutímanum við endalokatíma veraldar. Þá var illgresinu safnað og því síðan brennt. Ef við berum þetta saman við dæmisöguna um netið sjáum við að söfnun fiskjar í netið átti að ná yfir langt tímabil. — Matteus 13:36-43.
11. Hvernig komst alþjóðlegt veiðistarf af stað á fyrstu öldinni?
11 Samkvæmt dæmisögu Jesú yrði fiskinum safnað án greinarmunar, það er að segja að bæði góður og óætur fiskur safnaðist í netið. Meðan postularnir voru á lífi notuðu englarnir, sem stýrðu fiskveiðunum, hið kristna skipulag Guðs til að veiða „fiska“ sem urðu smurðir kristnir menn. Það mætti segja að fyrir hvítasunnuna árið 33 hafi mannaveiðar Jesú skilað inn um 120 lærisveinum. (Postulasagan 1:15) En eftir að söfnuður smurðra kristinna manna hafði verið stofnsettur hófust veiðarnar með netinu og þúsundir góðra fiska veiddust. Frá árinu 36 teygðu veiðarnar sig út á heimshöfin er menn af þjóðunum tóku kristni og urðu meðlimir hins smurða safnaðar Krists. — Postulasagan 10:1, 2, 23-48.
12. Hvaða þróun varð eftir dauða postulanna?
12 Á öldunum eftir að postularnir hurfu af sjónarsviðinu voru áfram til einhverjir trúfastir kristnir menn sem lögðu sig fram um að finna sannleika Guðs og halda fast í hann. Að minnsta kosti sumir þeirra höfðu velþóknun Guðs og hann smurði þá með heilögum anda. Eigi að síður hvarf ákveðið mótstöðuafl með dauða postulanna, þannig að útbreitt fráhvarf frá trúnni gat blómgast. (2. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Skipulag óx upp sem óverðuglega játaði sig vera söfnuð Guðs. Það fullyrti ranglega að það væri heilög þjóð smurð anda Guðs til að ríkja með Jesú.
13. Hvers vegna má segja að kristni heimurinn hafi gegnt hlutverki í veiðistarfinu?
13 Heldur þú að hinir ótrúu menn, sem játuðu kristni, hafi átt einhvern þátt í dæmisögunni um netið? Það er ástæða til að svara því játandi. Hið táknræna net fól í sér kristna heiminn. Að vísu reyndi kaþólska kirkjan um aldaraðir að halda Biblíunni frá almenningi, en eigi að síður gegndu meðlimir kristna heimsins stóru hlutverki í aldanna rás í því að þýða, afrita og dreifa orði Guðs. Kirkjufélög stofnuðu síðar og studdu biblíufélög sem þýddu Biblíuna á þjóðtungur fjarlægra landa. Kirkjurnar sendu líka út af örkinni læknatrúboða og kennara sem bjuggu til hrísgrjónakristna menn. Með þessum hætti var safnað gríðarlega miklu magni af ónothæfum fiski sem hafði ekki velþóknun Guðs. Eigi að síður kom það milljónum manna, sem ekki voru kristnir, í tengsl við Biblíuna og einhvers konar kristni, þótt spillt væri.
14. Hvernig stuðlaði sumt af starfi kirkna kristna heimsins að því að veiða góðan fisk?
14 Allan þennan tíma lögðu hinir tvístruðu og trúföstu, sem héldu sér við orð Guðs, sig fram sem best þeir gátu. Á hverjum tíma mynduðu þeir hinn sanna smurða söfnuð Guðs á jörðinni. Og við getum verið viss um að þeir voru líka að veiða fisk eða menn sem Guð myndi líta á, marga hverja, sem góða og smyrja anda sínum. (Rómverjabréfið 8:14-17) Þessir góðu játendur kristinnar trúar gátu fært sannleika Biblíunnar hinum mörgu sem gerst höfðu hrísgrjónakristnir menn eða höfðu fengið takmarkaða biblíuþekkingu af Ritningunni sem biblíufélög kristna heimsins höfðu þýtt á þjóðtungur þeirra. Sannarlega var haldið áfram að safna góða fiskinum, jafnvel þótt flestir þeir sem kristni heimurinn safnaði væru ónohæfir frá sjónarhóli Guðs.
15. Hvað, nákvæmlega, táknar netið í dæmisögunni?
15 Netið táknar því jarðneskt verkfæri sem játar sig vera söfnuð Guðs og safnar inn fiski. Það hefur bæði falið í sér kristna heiminn og söfnuð smurðra kristinna manna, en sá síðarnefndi hefur haldið áfram að safna góðum fiski undir ósýnilegri handleiðslu englanna í samræmi við Matteus 13:49.
Okkar tímar eru sérstakir
16, 17. Hvers vegna er tíminn sem við lifum svona þýðingarmikill í uppfyllingu dæmisögu Jesú um netið?
16 Leiðum nú hugann að tímanum. Um aldaraðir safnaði netið góðum fiski og miklu af ónothæfum eða vondum. Þá kom sá tími er englarnir tóku að vinna mikilvægt flokkunarstarf. Hvenær? Nú, vers 49 segir greinilega að það sé „þegar veröld endar.“ Það kemur heim og saman við það sem Jesús sagði í dæmisögunni um sauðina og hafrana: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ — Matteus 25:31, 32.
17 Samkvæmt Matteusi 13:47-50 hefur því átt sér stað þýðingarmikið aðgreiningarstarf undir umsjón engla síðan ‚endalokatími veraldar‘ hófst árið 1914. Það kom sérstaklega vel í ljós eftir 1919 er leifar hinna smurðu voru frelsaðar úr tímabundnum fjötrum og urðu enn áhrifaríkara verkfæri til að vinna að veiðistarfinu.
18. Hvernig hefur góða fiskinum verið safnað í ker?
18 Hvað átti að verða um góða fiskinn sem aðgreindur var? Vers 48 segir að fiski- og flokkunarmennirnir, það er að segja englarnir, ‚hafi safnað góðu fiskunum í ker en kastað þeim óætu burt.‘ Kerin eru verndarílát sem góði fiskurinn er látinn í. Hefur þetta gerst á okkar tímum? Tvímælalaust. Er hinn táknræni góði fiskur hefur verið veiddur lifandi hefur honum verið safnað inn í söfnuði sannkristinna manna. Ert þú ekki sammála því að þessir söfnuðir, sem líkja má við ker, hafi stuðlað að því að vernda og varðveita þá fyrir þjónustu við Guð? En einhver gæti hugsað: ‚Þetta er nú allt gott og blessað, en hvernig snertir það mig og mína framtíð?‘
19, 20. (a) Hvers vegna er áríðandi fyrir okkur núna að skilja þessa dæmisögu? (b) Hvaða þýðingarmikið veiðistarf hefur farið fram frá 1919?
19 Framvinda þess sem hér var lýst takmarkaðist ekki við aldirnar frá postulatímanum fram til 1914. Á því tímabili safnaði netið, verkfærið, bæði þeim sem játuðu sig ranglega og réttilega kristna menn. Já, það safnaði bæði ónothæfum fiski og góðum. Aðgreiningarstarfi englanna lauk ekki heldur um árið 1919. Alls ekki. Að sumu leyti nær þessi dæmisaga um netið allt til okkar tíma. Við eigum hlut að henni og hún á einnig við um allra nánustu framtíð okkar. Það er mikilvægt fyrir okkur að skilja hvernig og hvers vegna svo er ef við viljum að orðin: „Sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra“ með skilningi, eigi við okkur. — Matteus 13:16.
20 Þú veist líklega að eftir 1919 tóku leifarnar til óspilltra málanna við prédikunarstarfið í samvinnu við englana sem héldu áfram að nota hið táknræna net til að draga fisk á land, til að aðgreina góða fiskinn frá hinum ónothæfa. Talnaskýrslur frá þeim tíma sýna að haldið var áfram að veiða góðan fisk til smurningar með anda Guðs er hið táknræna net safnaði inn hinum síðustu af þeim 144.000. (Opinberunarbókin 7:1-4) Um miðbik fjórða áratugar aldarinnar var hins vegar í meginatriðum lokið samansöfnun góða fiskjarins til smurningar með heilögum anda. Átti söfnuður hinna smurðu leifa þá að henda netinu, ef svo má segja, og sitja bara iðjulaus og bíða himneskrar umbunar sinnar? Fjarri því!
Aðild þín að veiðunum
21. Hvaða aðrar veiðar hafa átt sér stað á okkar dögum? (Lúkas 23:43)
21 Þungamiðja dæmisögu Jesú um netið var góði fiskurinn sem yrði umbunað með stað í himnaríki. En auk þess sem dæmisagan lýsir eiga sér stað aðrar, víðtækar, táknrænar veiðar eins og fram kom í greininni á undan. Þar er ekki verið að veiða hinn góða smurða fisk, sem Jesús gat um í dæmisögu sinni, heldur táknrænan fisk sem er veiddur lifandi og gefin hin stórkostlega von um líf á jörð sem verður paradís. — Opinberunarbókin 7:9, 10; samanber Matteus 25:31-46.
22. Hvaða ánægjulegra málaloka getum við notið og hvað annað er um að velja?
22 Ef þú hefur þá von getur þú fagnað því að Jehóva skuli hafa leyft veiðistarfinu, sem er mönnum til bjargar, að halda áfram til þessa dags. Með þeim hætti hefur þú getað öðlast undursamlegar framtíðarhorfur. Framtíðarhorfur? Já, það er viðeigandi orð hér vegna þess að niðurstaðan ræðst af áframhaldandi trúfesti okkar við hann sem stýrir hinum samfelldu fiskveiðum. (Sefanía 2:3) Mundu að í dæmisögunni hlutu ekki allir fiskarnir, sem netið dró, jákvæð endalok. Jesús sagði að hinir óhæfu eða vondu yrðu aðgreindir frá hinum réttlátu. Í hvaða tilgangi? Í Matteusi 13:50 lýsti Jesús hinum alvarlegu afleiðingum fyrir hina ónothæfu eða vondu fiska. Þeim verður kastað í eldsofn sem táknar eilífa eyðingu. — Opinberunarbókin 21:8.
23. Hvað gerir veiðistarf nútímans svona þýðingarmikið?
23 Bæði hinir góðu smurðu fiskar og eins hinir táknrænu fiskar, sem geta lifað eilíflega á jörðinni, eiga sér dýrlega framtíð. Það er því góð og gild ástæða fyrir því að englarnir skuli sjá til þess að núna á þessari stundu eigi sér stað árangursríkar fiskveiðar um allan hnöttinn. Og aflinn er ekkert smáræði! Þú gætir réttilega sagt að á sinn hátt sé hann jafnmikið kraftaverk og hinn bókstaflegi afli sem postularnir fengu er þeir köstuðu netum sínum að tilsögn Jesú.
24. Hvað ættum við að vilja gera í sambandi við hinar andlegu veiðar?
24 Átt þú jafnríkan þátt og þér er frekast unnt í þessu andlega veiðistarfi, þessu björgunarstarfi? Óháð því hve mikil þátttaka okkar sem einstaklinga hefur verið fram til þessa er gott fyrir hvert og eitt okkar að líta á það sem er áorkað á alþjóðavettvangi í hinu andlega veiði- og björgunarstarfi sem er í gangi núna. Það ætti að örva okkur til enn meiri kostgæfni í því að leggja netin til veiða á þeim dögum sem eru rétt framundan! — Samanber Matteus 13:23; 1. Þessaloníkubréf 4:1.
Manst þú þessi atriði?
◻ Hvað tákna fisktegundirnar tvær í dæmisögu Jesú um netið?
◻ Í hvaða skilningi hafa kirkjur kristna heimsins átt þátt í veiðunum með netið?
◻ Hvers vegna eru veiðarnar á okkar tímum svona þýðingarmiklar?
◻ Hvers konar sjálfsrannsókn ætti dæmisagan um netið að koma okkur öllum til að gera?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Fiskveiðar hafa verið stundaðar um aldaraðir á Galíleuvatni.
[Rétthafi]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.