Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brw930515 bls. 26-29
  • Fylgir þú Jehóva af heilum hug?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fylgir þú Jehóva af heilum hug?
  • Varðturninn: Fylgir þú Jehóva af heilum hug?
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Móse sendir út njósnara
  • „Jehóva er með okkur“
  • Enn trúfastir mörgum árum síðar
  • Hann fylgdi Jehóva af heilum hug
  • Fylgdu Jehóva alltaf af heilum hug
  • Njósnararnir tólf
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Það sem Jósúa gleymdi ekki
    Varðturninn: Það sem Jósúa gleymdi ekki
  • Fylgdu Jehóva heils hugar
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2021
  • Gættu þess að gleyma ekki Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
Sjá meira
Varðturninn: Fylgir þú Jehóva af heilum hug?
brw930515 bls. 26-29

Fylgir þú Jehóva af heilum hug?

„HINIR réttlátu eru öruggir eins og ljón.“ (Orðskviðirnir 28:1) Þeir sýna trú í verki, treysta á Biblíuna og þjóna Jehóva áfram af hugrekki andspænis hvaða hættu sem er.

Guð frelsaði Ísraelsmenn úr þrælkun Egypta á 16. öld f.Kr. Síðar, þegar þeir voru í Sínaí, voru það einkum tveir þeirra sem voru öruggir eins og ljón. Þeir treystu Jehóva á mjög erfiðum tímum. Annar þeirra var Jósúa af ættkvísl Efraíms en hann var aðstoðarmaður Móse og tók seinna við af honum sem leiðtogi þjóðarinnar. (2. Mósebók 33:11; 4. Mósebók 13:8, 16; 5. Mósebók 34:9; Jósúabók 1:1, 2) Hinn maðurinn var Kaleb Jefúnneson af ættkvísl Júda. – 4. Mósebók 13:6; 32:12.

Kaleb gerði vilja Jehóva af trúfesti. Eftir að hafa þjónað Jehóva langa ævi gat hann sagt: „Ég fylgdi Jehóva Guði mínum af heilum hug.“ (Jósúabók 14:8) Hvað með þig? Fylgir þú Jehóva af heilum hug?

Móse sendir út njósnara

Ímyndaðu þér að þú sért á meðal Ísraelsmanna stuttu eftir að Jehóva hefur frelsað þá úr þrælkun Egypta. Sjáðu hvernig spámaðurinn Móse fylgir fyrirmælum Guðs dyggilega. Og taktu líka eftir hvernig Kaleb treystir því að Jehóva sé með þjóðinni.

Tvö ár eru liðin frá brottförinni frá Egyptalandi. Ísraelsmenn eru með tjaldbúðir sínar við Kades Barnea í óbyggðum Paran. Þeir eru við landamæri fyrirheitna landsins. Móse er í þann mund að senda 12 njósnara inn í Kanaansland samkvæmt fyrirmælum Guðs. Hann segir: „Farið um Negeb og síðan upp í fjalllendið. Þið skuluð athuga hvers konar land þetta er og hvort fólkið sem býr þar er sterkt eða veikburða, fátt eða margt, og hvort landið er gott eða vont og borgirnar þar sem fólkið býr eru óvarðar eða víggirtar. Og kannið hvort landið er frjósamt eða rýrt og hvort þar vaxa tré eða ekki. Verið hugrakkir og komið með eitthvað af ávöxtum landsins.“ – 4. Mósebók 13:17–20.

Njósnararnir 12 leggja af stað í hættulegan leiðangur sem tekur 40 daga. Í Hebron sjá þeir risavaxna menn. Í Eskoldal er landið frjósamt og þeir ákveða að taka með sér nokkuð af ávexti þess. Einn vínberjaklasi er svo þungur að það þarf tvo menn til að bera hann á burðarstöng á milli sín. – 4. Mósebók 13:21–25.

Þegar njósnararnir snúa aftur til herbúða Ísraelsmanna gera þeir grein fyrir því sem þeir sáu: „Við fórum til landsins sem þú sendir okkur til. Það flýtur svo sannarlega í mjólk og hunangi og þetta eru ávextir þaðan. En fólkið sem býr í landinu er sterkt og borgirnar eru víggirtar og mjög stórar. Við sáum líka Anakíta þar. Amalekítar búa á Negebsvæðinu, Hetítar, Jebúsítar og Amorítar í fjalllendinu og Kanverjar við sjávarsíðuna og meðfram Jórdan.“ (4. Mósebók 13:26–29) Tíu njósnaranna eru ekki tilbúnir að fylgja fyrirmælum Guðs og fara inn í fyrirheitna landið.

„Jehóva er með okkur“

Kaleb hefur hins vegar sterka trú á Jehóva Guð og segir óttalaus: „Förum tafarlaust og leggjum undir okkur landið því að það er öruggt að við getum unnið það.“ En hinir njósnararnir 10 andmæla þessu og segja að íbúar Kanaanslands séu öflugri en Ísraelsmenn. Þeir eru óttaslegnir og þá skortir trú. Þeim finnst þeir vera eins og engisprettur í samanburði við þá. – 4. Mósebók 13:30–33.

Kaleb og Jósúa reyna að stappa stálinu í þá og segja: „Jehóva er með okkur. Óttist ekki.“ En þeir tala fyrir daufum eyrum. Þegar farið er að tala um að grýta Kaleb og Jósúa grípur Guð inn í og kveður upp dóm yfir uppreisnargjörnu fólkinu: „Enginn ykkar fær að ganga inn í landið sem ég sór að þið skylduð búa í nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson. Og börn ykkar … ætla ég að leiða þangað og þau fá að kynnast landinu sem þið hafið hafnað … synir ykkar verða fjárhirðar í óbyggðunum í 40 ár … þar til sá síðasti ykkar hnígur niður dauður í óbyggðunum. Þið könnuðuð landið í 40 daga og eins skuluð þið taka afleiðingum syndar ykkar í 40 ár, eitt ár fyrir hvern dag.“ – 4. Mósebók 14:9, 30–34.

Enn trúfastir mörgum árum síðar

Fjörutíu ára refsingin er á enda og hinir uppreisnargjörnu Ísraelsmenn eru fallnir í óbyggðunum. En Kaleb og Jósúa þjóna Guði enn trúfastlega. Á sléttum Móabs hafa Móse og Eleasar æðstiprestur talið alla menn sem eru tvítugir og eldri og því á herskyldualdri. Guð felur einum manni úr hverri ættkvísl að sjá um að skipta fyrirheitna landinu milli ættkvíslanna. Kaleb, Jósúa og Eleasar eru á meðal þeirra sem verða fyrir valinu. (4. Mósebók 34:17–29) Kaleb er nú orðinn 79 ára gamall en er enn þróttmikill, trúfastur og hugrakkur.

Þegar Móse og Aron töldu fólkið við Sínaí stuttu áður en það neitaði að ganga inn í Kanaansland voru hermenn Ísraels 603.550 talsins. Núna eftir fjóra áratugi í óbyggðunum hefur hermönnum fækkað niður í 601.730. (4. Mósebók 1:44–46; 26:51) En með Jósúa í broddi fylkingar og Kaleb í þeirra röðum héldu Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið og unnu hvern sigurinn á fætur öðrum. Jehóva barðist fyrir fólk sitt eins og Jósúa og Kaleb höfðu alltaf treyst.

Jósúa og Kaleb voru orðnir gamlir þegar þeir fóru yfir Jórdan og inn í fyrirheitna landið en þeir tóku fullan þátt í orrustunum sem þurfti að heyja. Eftir sex ára langt stríð var þó enn mikið af landinu óunnið. Jehóva ætlar að hrekja burt íbúa landsins en fyrirskipar núna að landinu sé skipt milli ættkvísla Ísraels. – Jósúabók 13:1–7.

Hann fylgdi Jehóva af heilum hug

Eftir að hafa tekið þátt í mörgum bardögum stendur Kaleb nú frammi fyrir Jósúa og segir: „Ég var fertugur þegar Móse þjónn Jehóva sendi mig frá Kades Barnea til að kanna landið og þegar ég sneri aftur sagði ég satt og rétt frá því sem ég hafði séð. Bræður mínir sem fóru með mér drógu kjarkinn úr fólkinu en ég fylgdi Jehóva Guði mínum af heilum hug.“ (Jósúabók 14:6–8) Já, Kaleb hefur fylgt Jehóva af heilum hug og gert vilja hans trúfastlega.

Kaleb bætir við: „Þann dag sór Móse: ‚Landið sem þú steigst fæti á skal verða erfðaland þitt og sona þinna til frambúðar því að þú hefur fylgt Jehóva Guði mínum af heilum hug.‘ Og eins og Jehóva lofaði hefur hann látið mig lifa. Nú eru liðin 45 ár síðan Jehóva gaf Móse þetta loforð þegar Ísraelsmenn voru á ferð um óbyggðirnar. Ég er hér enn, 85 ára að aldri. Ég er enn jafn kraftmikill og daginn sem Móse sendi mig. Ég er jafn öflugur og ég var þá til að berjast og til annarra verka. Gefðu mér þess vegna fjalllendið sem Jehóva lofaði mér á þeim degi. Þú heyrðir þann dag að þar væru Anakítar og miklar og víggirtar borgir en Jehóva verður með mér og ég mun hrekja þá burt eins og Jehóva lofaði.“ Í kjölfarið fær Kaleb Hebron að erfðalandi. – Jósúabók 14:9–15.

Hinn aldraði Kaleb hefur fengið eitt erfiðasta landsvæðið að vinna en það var byggt óvenju stórvöxnum mönnum. En þetta verkefni er ekki of erfitt fyrir þennan 85 ára gamla hermann. Þegar fram líða stundir sigrar Kaleb illskeytta íbúa Hebron. Otníel, sonur yngri bróður hans og dómari í Ísrael, vinnur borgina Debír. Báðar þessar borgir eru seinna gefnar Levítum og Hebron verður griðaborg fyrir þá sem verða manni óviljandi að bana. – Jósúabók 15:13–19; 21:3, 11–16; Dómarabókin 1:9–15, 20.

Fylgdu Jehóva alltaf af heilum hug

Kaleb og Jósúa voru ófullkomnir menn en þjónuðu samt Jehóva trúfastlega. Þótt þeir þyrftu að ganga í gegnum 40 erfið ár í óbyggðunum vegna óhlýðni Ísraelsmanna dvínaði trú þeirra ekki. Nú á dögum láta þjónar Jehóva heldur ekkert koma í veg fyrir að þeir þjóni Guði og heiðri hann. Þeir vita að Satan Djöfullinn berst gegn Jehóva og eru því staðfastir og leitast stöðugt við að gleðja föður sinn á himnum í öllu sem þeir gera.

Margir þjónar Jehóva hafa til dæmis haldið kvöldmáltíð Drottins, það er minningarhátíðina um dauða Jesú, þótt þeir gætu átt von á misþyrmingum eða jafnvel lífláti. (1. Korintubréf 11:23–26) Systir okkar sem var í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni sagði þar að lútandi:

„Við áttum allar að vera komnar í þvottahúsið klukkan 11 um kvöldið. Við vorum allar 105 mættar á slaginu. Við stóðum þétt saman í kringum lítinn dúklagaðan stólkoll þar sem brauðið og vínið stóðu. Kertaljós lýsti upp herbergið. Okkur leið eins og frumkristnum mönnum í katakombunum. Þetta var hátíðleg stund. Við endurnýjuðum heit okkar við föður okkar og hétum því að nota alla krafta okkar til að upphefja heilagt nafn hans og taka einarða afstöðu með stjórn Guðs.“

Þótt við þurfum að þola ofsóknir sem þjónar Jehóva getum við treyst á styrk hans. Hann hjálpar okkur að vera hugrökk og heiðra heilagt nafn sitt. (Filippíbréfið 4:13) Fordæmi Kalebs hjálpar okkur líka að halda áfram að gera það sem gleður Jehóva. Heils hugar þjónusta Kalebs hafði mikil áhrif á ungan mann sem gerðist brautryðjandi um árið 1921. Hann skrifaði:

„Ég hætti í góðri vinnu í prentsmiðju á Englandi til að gerast brautryðjandi. En ég sá ekki eftir neinu. Ég hafði vígt líf mitt Jehóva svo að ég vissi að þetta var rétt ákvörðun. Ég hugsaði um fordæmi Kalebs sem fór inn í fyrirheitna landið með Jósúa og ‚fylgdi Jehóva af heilum hug‘. (Jósúabók 14:8) Það vildi ég líka gera. Ég vissi að það að fylgja Jehóva af heilum hug myndi gera líf mitt sem ég hafði vígt honum innihaldsríkara. Það myndi gefa mér tækifæri til að bera þann ávöxt sem einkennir kristna menn.“

Kaleb hlaut ríkulega blessun fyrir að fylgja Jehóva af heilum hug og leitaðist alltaf við að gera vilja hans. Margir aðrir hafa líka notið gleði og blessunar í þjónustu Guðs. Megi það einnig vera hlutskipti þitt þegar þú fylgir honum af heilum hug.

[Mynd á bls. 26]

Kaleb og Jósúa voru Jehóva trúfastir þegar á reyndi. Hvað um þig?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila