Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.6. bls. 13-18
  • Sælir eru lítillátir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sælir eru lítillátir
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Trú á Jehóva hjálpar okkur að vera lítillát
  • Lítillæti — leið viskunnar
  • Lítillæti stuðlar að góðum samskiptum við aðra
  • Kærleikur hjálpar okkur að vera lítillát
  • Verum lítillát
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Jehóva opinberar auðmjúkum dýrð sína
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Jehóva metur auðmjúka þjóna sína mikils
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Fordæmi í lítillæti til eftirbreytni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.6. bls. 13-18

Sælir eru lítillátir

„Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. — 1. PÉTURSBRÉF 5:5.

1, 2. Hvernig tengdi Jesús hamingju og lítillæti í fjallræðunni?

ERU einhver tengsl á milli þess að vera hamingjusamur og að vera lítillátur? Í frægustu ræðu sinni lýsti Jesús Kristur, mesta mikilmenni sem lifað hefur, níu atriðum sem gera menn hamingjusama eða sæla. (Matteus 5:1-12) Tengdi Jesús það saman að vera hamingjusamur og að vera lítillátur? Já, það gerði hann því að í mörgum þeim tilvikum, sem hann nefndi að menn væru sælir, kemur auðmýkt við sögu. Til dæmis þarf maður að vera lítillátur til þess að vera fátækur í anda eða skynja andlega þörf sína. Aðeins hina auðmjúku hungrar og þyrstir eftir réttlætinu. Og hrokafullir menn eru ekki hógværir og ekki miskunnsamir, né heldur friðflytjendur.

2 Hinir lítillátu eru hamingjusamir vegna þess að það er rétt og heiðarlegt að vera lítillátur. Auk þess eru lítillátir hamingjusamir vegna þess að það er viturlegt að vera auðmjúkur. Það stuðlar að góðu sambandi við Jehóva Guð og kristna menn. Enn fremur er lítillátt fólk hamingjusamt af því að það sýnir kærleika af þess hálfu að vera lítillátt.

3. Hvers vegna leggur heiðarleiki þá skyldu á okkur að vera lítillát?

3 Hvers vegna krefst heiðarleiki þess að við séum lítillát? Ein ástæðan er sú að við erum öll ófullkomin og höldum áfram að gera mistök. Páll postuli sagði um sjálfan sig: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.“ (Rómverjabréfið 7:18) Já, við höfum öll syndgað og skortir dýrð Guðs. (Rómverjabréfið 3:23) Hreinskilni aftrar okkur að vera hrokafull. Það þarf auðmýkt til að viðurkenna mistök og heiðarleiki hjálpar okkur að viðurkenna sökina hvenær sem okkur verður á. Okkur mistekst aftur og aftur að gera það sem við keppum að og það er góð ástæða fyrir okkur til að vera lítillát.

4. Hvaða knýjandi ástæða er gefin í 1. Korintubréfi 4:7 fyrir því að vera lítillátur?

4 Páll postuli gefur okkur aðra ástæðu fyrir því að heiðarleiki ætti að gera okkur lítillát. Hann segir: „Hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?“ (1. Korintubréf 4:7) Það er ekkert vafamál að það er ekki heiðarlegt af okkur að taka til okkar heiðurinn, vera montin af eignum okkar, hæfileikum eða afrekum. Heiðarleiki stuðlar að því að við höfum góða samvisku frammi fyrir Guði svo að við megum „í öllum greinum breyta vel [„heiðarlega,“ NW]. — Hebreabréfið 13:18.

5. Hvernig hjálpar heiðarleiki okkur einnig þegar við höfum gert mistök?

5 Heiðarleiki hjálpar okkur að vera auðmjúk þegar við gerum mistök. Hann gerir okkur fúsari til að viðurkenna sökina í stað þess að reyna að réttlæta okkur eða koma sökinni á aðra. Þó að Adam hafi kennt Evu um skellti Davíð ekki skuldinni á Batsebu með því að segja: ‚Hún hefði ekki átt að baða sig þar sem sást til hennar. Ég gat ekki annað en látið freistast.‘ (1. Mósebók 3:12; 1. Samúelsbók 11:2-4) Í raun og veru mætti segja að í annan stað hjálpi heiðarleiki okkur að vera lítillát en í hinn stað hjálpi lítillæti okkur að vera heiðarleg.

Trú á Jehóva hjálpar okkur að vera lítillát

6, 7. Hvernig hjálpar trú á Guð okkur að vera lítillát?

6 Trú á Jehóva hjálpar okkur líka að vera auðmjúk. Ef við kunnum að meta hversu mikill skaparinn, drottinvaldur alheimsins, í sannleika er kemur það í veg fyrir að við tökum sjálf okkur of alvarlega. Jesaja spámaður minnir okkur vissulega vel á það. Í Jesaja 40:15, 22 lesum við: „Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni. . . . Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur.“

7 Trú á Jehóva hjálpa okkur einnig þegar okkur finnst við hafa orðið fyrir óréttlæti. Í stað þess að gera okkur áhyggjur af málinu munum við í lítillæti bíða eftir Jehóva, eins og sálmaritarinn minnir okkur á í Sálmi 37:1-3, 8, 9. Páll postuli bendir á það sama: „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir [Jehóva].‘“ — Rómverjabréfið 12:19.

Lítillæti — leið viskunnar

8. Hvernig stuðlar lítillæti að góðu sambandi við Jehóva?

8 Það eru margar ástæður fyrir því að það er viturlegt að vera lítillátur. Ein er sú, eins og þegar hefur verið bent á, að það stuðlar að góðu sambandi við skapara okkar. Orð Guðs segir beint út í Orðskviðunum 16:5: „Sérhver hrokafullur maður er [Jehóva] andstyggð.“ Við lesum einnig í Orðskviðunum 16:18: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ Fyrr eða síðar lenda drambsamir menn í ógöngum. Það hlýtur einfaldlega svo að vera vegna þess sem við lesum í 1. Pétursbréfi 5:5: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.‘“ Sömu hugmynd má finna í dæmisögunni sem Jesús gaf um faríseann og tollheimtumanninn sem voru báðir að biðjast fyrir. Það var hinn auðmjúki tollheimtumaður sem reyndist réttlátari. — Lúkas 18:9-14.

9. Hvaða hjálp er í lítillæti þegar okkur mætir andstreymi?

9 Lítillæti er viturlegt vegna þess að það gerir okkur auðveldara að fara eftir ráðleggingunum sem er að finna í Jakobsbréfinu 4:7: „Gefið yður því Guði á vald.“ Ef við erum lítillát fyllumst við ekki mótþróa þegar Jehóva leyfir að við lendum í andstreymi. Lítillæti gerir okkur kleift að vera ánægð með aðstæður okkar og sýna þolgæði. Hrokafullur maður er óánægður, vill alltaf meira og fyllist mótþróa ef kringumstæðurnar verða illbærilegar. Á hinn bóginn sýnir hinn lítilláti þolgæði í þrengingum og raunum eins og Job gerði. Job missti allar eigur sínar og var sleginn kvalafullum sjúkdómi og þá ráðlagði jafnvel konan hans honum að vera hrokafullur er hún sagði: „Formæltu Guði og farðu að deyja!“ Hvernig brást hann við? Frásaga Biblíunnar segir okkur: „Hann sagði við hana: ‚Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?‘ Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.“ (Jobsbók 2:9,10) Vegna þess að Job var auðmjúkur fylltist hann ekki mótþróa heldur beygði sig viturlega fyrir hverju því sem Jehóva leyfði að kæmi yfir hann. Um síðir fékk hann ríkulega umbun. — Jobsbók 42:10-16; Jakobsbréfið 5:11.

Lítillæti stuðlar að góðum samskiptum við aðra

10. Hvernig bætir lítillæti samskipti okkar við trúbræður okkar?

10 Lítillæti er viturlegt vegna þess að það stuðlar að góðum samskiptum við trúbræður okkar. Páll postuli gefur okkur gott ráð: „Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.“ (Filippíbréfið 2:3, 4) Lítillæti mun, eins og viturlegt er, aftra okkur að metast við aðra eða reyna að láta þá falla í skuggann af okkur. Slíkt hugarfar skapar vandræði fyrir okkur og trúbræður okkar.

11. Hvers vegna getur lítillæti hjálpað okkur að forðast mistök?

11 Aftur og aftur mun lítillæti hjálpa okkur að forðast mistök. Hvernig þá? Á þann veg að lítillæti aftrar okkur að vera of sjálfsörugg. Þess í stað munum við kunna að meta ráð Páls í 1. Korintubréfi 10:12: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ Hrokafullur maður er of sjálfsöruggur og því hættir honum til að gera mistök vegna utanaðkomandi áhrifa eða sinna eigin veikleika.

12. Hvað kröfu Ritningarinnar hjálpar lítillæti okkur að mæta?

12 Lítillæti hjálpar okkur að mæta þeirri kröfu að vera undirgefin. Í Efesusbréfinu 5:21 fáum við þetta ráð: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists.“ Í rauninni þurfum við öll að vera undirgefin. Börn þurfa að vera undirgefin foreldrum sínum, eiginkonur eiginmönnum sínum og eiginmenn Kristi. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:22; 6:1) Í kristna söfnuðinum verða allir, safnaðarþjónarnir meðtaldir, að sýna öldungunum undirgefni. Öldungarnir eru síðan undirgefnir hinum trúa og hyggna þjóni, sem birtist einkum gagnvart fulltrúa hans, farandhirðinum. Farandhirðirinn þarf síðan að vera umdæmishirðinum undirgefinn og umdæmishirðirinn deildarnefnd þess lands þar sem hann þjónar. Hvað um meðlimi deildarnefndarinnar? Þeir verða að vera „hver öðrum undirgefnir“ og einnig hinu stjórnandi ráði sem er fulltrúi hins trúa og hyggna þjónshóps sem aftur á móti er ábyrgur gagnvart Jesú, hinum krýnda konungi. (Matteus 24:45-47) Meðlimir hins stjórnandi ráðs verða, eins og í öllum öldungaráðum, að virða skoðanir hinna. Til dæmis kann einum að finnast hann vera með góða hugmynd. En ef ekki nægilega margir hinna meðlimanna fallast á tillögur hans verður hann einfaldlega að leggja málið til hliðar. Sannarlega þurfum við öll að vera auðmjúk því að öll erum við undir aðra sett.

13, 14. (a) Við hvaða sérstakar kringumstæður hjálpar lítillæti okkur? (b) Hvaða fordæmi gaf Pétur í því að þiggja ráð?

13 Einkum má sjá að lítillæti er viturleg af því að lítillæti auðveldar okkur að taka við leiðbeiningum og aga. Sérhvert okkar þarf af og til á ögun að halda og við gerum rétt í að fylgja ráðleggingunum í Orðskviðunum 19:20: „Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.“ Eins og sagt hefur verið með réttu þá tekur lítillæti sviðann úr ávítum eða aga. Í Hebreabréfinu 12:4-11 gefur Páll postuli okkur þar að auki ráðleggingar um viskuna í því að taka lítillát við aga. Einungis á þann hátt getum við vonast til að beina lífi okkar framvegis eftir viturlegri braut og öðlast á móti eilíft líf að launum. Hvílíkt fagnaðarefni verða ekki þau leiðarlok!

14 Í þessu sambandi gætum við bent á fordæmi Péturs postula. Páll postuli veitti honum alvarlegt ráð eins og við sjáum af frásögninni í Galatabréfinu 2:14: „Þegar ég sá, að þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins, sagði ég við Kefas í allra áheyrn: ‚Úr því að þú, sem ert Gyðingur, lifir að heiðingja siðum, en eigi Gyðinga, hvernig ferst þér þá að neyða heiðingja til að lifa að Gyðinga siðum?‘“ Móðgaðist Pétur við þessi orð? Ekki til langframa, ef þá nokkuð, eins og sjá má af því að hann skuli síðar minnast á ‚hinn elskaða bróður vorn, Pál‘ í 2. Pétursbréfi 3:15, 16.

15. Hver eru tengslin milli þess að vera lítillátur og hamingjusamur?

15 Þá er einnig um það að ræða að vera sjálfum sér nógur, gera sig ánægðan með hlutina. Við getum einfaldlega ekki verið hamingjusöm nema við séum sátt við hlutskipti okkar, sérréttindi okkar, blessanir okkar. Viðhorf hins lítilláta kristna manns er þetta: „Ef Guð leyfir það get ég tekið því.“ Þetta er í raun það sem Páll postuli segir, eins og við lesum í 1. Korintubréfi 10:13: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ Við sjáum því enn aftur hvernig lítillæti er viturlegt af því að það hjálpar okkur að vera ánægð hvert svo sem hlutskipti okkar kann að vera.

Kærleikur hjálpar okkur að vera lítillát

16, 17. (a) Hvaða dæmi frá Biblíunni dregur skýrt fram helsta eiginleikann sem hjálpar okkur að vera lítillát? (b) Hvaða veraldlegt dæmi skýrir einnig þetta atriði?

16 Óeigingjarn kærleikur, agape, hjálpar okkur meira en nokkuð annað að vera lítillát. Hvers vegna gat Jesús þolað raunina á kvalastaurnum af slíkri auðmýkt sem Páll lýsir fyrir Filippímönnum? (Filippíbréfið 2:5-8) Hvers vegna hvarflaði ekki að honum að vera jafn Guði? Vegna þess, eins og hann sagði sjálfur: „Ég elska föðurinn.“ (Jóhannes 14:31) Það er þess vegna sem hann lét dýrðina og heiðurinn ávallt ganga til föður síns á himnum, Jehóva. Þar af leiðandi undirstrikaði hann við annað tækifæri að einungis faðir hans himneskur væri góður. — Lúkas 18:18, 19.

17 Atburður í lífi eins af fyrstu ljóðskáldum Bandaríkjanna, John Greenleaf Whittier, er dæmi um þetta. Þessi maður átti æskuunnustu sem í stafsetningarkeppni stafaði einu sinni rétt orð sem hann hins vegar stafaði rangt. Hún tók það mjög nærri sér. Hvers vegna? Skáldið minntist þess að hún hafi sagt: „Ég er leið yfir að hafa getað stafað þetta orð. Mér er illa við að skara fram úr þér . . . vegna þess að ég elska þig.“ Já, ef við elskum einhvern viljum við að hann standi okkur framar, ekki að baki, vegna þess að kærleikur er lítillátur.

18. Hvaða ráði Ritningarinnar hjálpar lítillæti okkur til að hlýða?

18 Þetta er góð lexía fyrir alla kristna menn, einkum bræður. Fögnum við því þegar bróðir okkar fær sérstök þjónustusérréttindi frekar en við, eða finnum við votta fyrir afbrýðisemi eða öfund hjá okkur? Ef við elskum bróður okkar í sannleika gleðjumst við yfir því að hann hafi fengið þetta sérstaka verkefni eða viðurkenningu eða þjónustusérréttindi. Já, lítillæti auðveldar okkur að taka til okkar ráðlegginguna: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Önnur biblíuþýðing segir: „Heiðrið hver annan meira en sjálfa yður.“ (New International Version) Annars staðar ráðleggur Páll postuli: „Þjónið hver öðrum í kærleika.“ (Galatabréfið 5:13) Já, ef kærleikur býr í okkur gleður það okkur að geta orðið bræðrum okkar að liði, þjónað þeim, tekið hagsmuni þeirra og velferð fram fyrir okkar eigin, en það krefst auðmýktar. Lítillæti aftrar okkur líka frá því að gorta og þannig forðumst við að vekja upp hjá öðrum afbrýðisemi og öfund. Páll skrifaði að ‚kærleikurinn væri ekki raupsamur og hreykti sér ekki upp.‘ Hvers vegna ekki? Vegna þess að hvötin að baki raupi og að hreykja sér upp er eigingjörn, sjálfselsk, en kærleikur aftur á móti er sjálfur kjarninn í óeigingirninni. — 1. Korintubréf 13:4.

19. Hvaða dæmi frá Biblíunni sýna að lítillæti og kærleikur haldast í hendur á sama hátt og hroki og síngirni fara saman?

19 Samband Davíðs við Sál konung og son hans, Jónatan, er áberandi dæmi um hvernig kærleikur og lítillæti geta haldist í hendur og hvernig hroki og síngirni á sama hátt fara saman. Vegna sigursældar Davíðs í orrustum sungu konurnar í Ísrael: „Sál felldi sín þúsund, en Davíð sín tíu þúsund.“ (1. Samúelsbók 18:7) Upp frá því bar Sál í brjósti manndrápshatur til Davíðs og sýndi þannig alls ekkert lítillæti en var öllu heldur altekinn hroka. Hversu ólíkt var þetta ekki hugarfari sonar hans, Jónatans! Við lesum að Jónatan hafi unnað Davíð sem lífi sínu. (1. Samúelsbók 18:1) Hvernig brást Jónatan þá við þegar ljóst varð af atburðarásinni að Jehóva blessaði Davíð og að hann, ekki Jónatan, tæki við af Sál sem konungur Ísraels? Var Jónatan afbrýðisamur og öfundsjúkur? Alls ekki! Vegna þess hve heitt hann unni Davíð gat hann sagt eins og við lesum í 1. Samúelsbók 23:17: „Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta.“ Hin mikla ást Jónatans til Davíðs fékk hann til að taka í auðmýkt við því sem hann skynjaði að væri vilji Guðs með það hver yrði arftaki föður hans sem konungur Ísraels.

20. Hvernig sýndi Jesús hið nána samband milli kærleika og lítillætis?

20 Annað sem undirstrikar enn frekar sambandið milli kærleika og lítillætis er það sem gerðist síðustu nóttina sem Jesús var með postulum sínum áður en hann dó. Í Jóhannesi 13:1 lesum við: „[Jesús] hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.“ Þar á eftir lesum við að Jesús hafi þvegið fætur lærisveina sinna, hegðað sér eins og lítilmótlegur þjónn. En hvað þetta var kröftug lexía í lítillæti! — Jóhannes 13:1-11.

21. Hvers vegna ættum við að vera lítillát þegar allt er skoðað?

21 Sannarlega eru margar ástæður til að vera lítillátur. Það er rétt og heiðarlegt að vera lítillátur. Það er leið trúarinnar. Það stuðlar að góðu sambandi við Jehóva Guð og trúbræður okkar. Það er leið viskunnar. Framar öllu öðru er það leið kærleikans og veitir sanna hamingju.

Hvernig svarar þú?

◻ Hvernig hjálpar heiðarleiki okkur að vera lítillát?

◻ Hvers vegna getur trú á Jehóva hjálpa okkur að vera lítillát?

◻ Hvað sýnir að það er leið viskunnar að vera lítillátur?

◻ Hvers vegna hjálpar sér í lagi kærleikur okkur að vera lítillát?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Job beygði sig auðmjúkur fyrir Jehóva. Hann ‚formælti ekki Guði og fór að deyja.‘

[Mynd á blaðsíðu 17]

Pétur tók lítillátur við ávítum Páls í heyranda hljóði.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila