Heimur án styrjalda í augsýn!
ÞANN 24. desember árið 1914 gekk ungur, breskur hermaður, Jim Prince að nafni, þvert yfir einskismannsland til að tala við þýskan fótgönguliða. „Ég er saxneskur. Þú ert engilsaxneskur. Af hverju berjumst við?“ spurði Þjóðverjinn. Mörgum árum síðar viðurkenndi Prince: „Ég veit ekki enn svarið við þeirri spurningu.“
Í eina óvenjulega viku árið 1914 vinguðust breskir og þýskir hermenn hver við annan, léku fótbolta og skiptust jafnvel á jólagjöfum. Vopnahléið var auðvitað óopinbert. Hershöfðingjarnir vildu ekki að herlið þeirra uppgötvaði að „óvinurinn“ var ekki það illskeytta skrímsli sem hernaðaráróðurinn vildi vera láta. Breski hermaðurinn Albert Moren sagði síðar: „Ef vopnahléið hefði staðið í eina viku enn hefði reynst mjög erfitt að koma stríðinu í gang á ný.“
Þetta vopnahlé, sem komst á af sjálfsdáðum, bendir til að jafnvel margir þjálfaðir hermenn þrái frið frekar en stríð. Flestir hermenn, sem hafa kynnst hryllingi vígvallarins, myndu fallast á spænska máltækið: „Fari sá í stríð sem þekkir ekki stríð.“ Vafalaust myndi skoðanakönnun meðal almennings um heim allan leiða í ljós að yfirgnæfandi meirihluti kysi frið frekar en stríð. En hvernig er hægt að umbreyta þessari útbreiddu friðarþrá í heim án styrjalda?
Áður en hægt er að útrýma styrjöldum verða viðhorf manna að breytast. Í stjórnlögum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna segir: „Þar eð styrjaldir hefjast í hugum manna er það í hugum manna sem reisa þarf varnarvirki um friðinn.“ Nútímaþjóðfélag, með hömlulausu vantrausti og hatri, verður hins vegar æ ofbeldisfyllra, ekki friðsamara.
Engu að síður hefur Guð sjálfur lofað að einn góðan veðurdag verði friður greyptur í hugi þeirra manna sem hneigjast til réttlætis. Fyrir munn spámannsins Jesaja sagði hann: „Hann [Guð] mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:4.
Stuðlað að friði í huganum
Getur orðið svona óvenjuleg breyting á hugsun manna? Læra menn nokkurn tíma að varðveita frið í stað þess að lofsyngja stríð? Tökum Wolfgang Kusserow sem dæmi. Árið 1942 hálshjuggu nasistar þennan tvítuga Þjóðverja af því að hann ‚vildi ekki temja sér hernað.‘ Hvers vegna kaus hann að deyja? Í skriflegri yfirlýsingu vitnaði hann í meginreglur Biblíunnar svo sem: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ og „allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 22:39; 26:52) Síðan spurði hann beinskeyttur: „Lét skapari okkar skrifa allt þetta handa trjánum?“
Orð Guðs, sem er skráð í Biblíunni, er „kröftugt“ og knúði þennan unga vott Jehóva til að ástunda frið óháð afleiðingunum. (Hebreabréfið 4:12; 1. Pétursbréf 3:11) En Wolfgang Kusserow var ekki sá eini sem ástundaði þannig frið. Í bókinni The Nazi Persecution of the Churches 1933-45 vitnar J. S. Conway í opinber skjöl nasista sem bera því vitni að vottar Jehóva sem hópur neituðu að grípa til vopna. Eins og Conway bendir á jafngilti þessi hugrakka afstaða nánast því að undirrita sinn eigin dauðadóm.
Vottar Jehóva halda áfram að ástunda frið nú á tímum, óháð kynþætti sínum eða þjóðerni. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hafa lært af Biblíunni að sannir þjónar Guðs verða að smíða plógjárn úr sverðum sínum. Alejandro, ungur Argentínumaður sem fluttist til Ísraels árið 1987, getur borið persónulega vitni um það.
Í þrjú ár bjó Alejandro á samyrkjubúi samhliða háskólanámi og vinnu á ýmsum hótelum og veitingahúsum. Á þessu tímabili byrjaði hann að lesa Biblíuna og var að leita að tilgangi í lífinu. Umfram allt þráði hann að sjá heim þar sem fólk gæti notið friðar og réttvísi. Alejandro — sem er Gyðingur — vann við hlið Gyðinga og Araba en kaus að halda með hvorugum.
Árið 1990 bauð vinur Alejandros, sem var að nema Biblíuna með vottum Jehóva, honum á eins dags mót í Haifa. Alejandro var furðu lostinn að sjá 600 Gyðinga og Araba blanda geði saman á mótinu glaðir í bragði og hugsaði með sjálfum sér: ‚Þannig á fólk að lifa.‘ Innan sex mánaða var hann orðinn vottur sjálfur og notar nú stærstan hluta tíma síns til að prédika friðarboðskap Biblíunnar.
Hvernig Guð kemur á friði
Þótt þessi dæmi séu hjartnæm eru þau undantekning frekar en regla í heimi nútímans. Enda þótt núverandi heimskerfi þjóni friði með vörunum vökvar það stríðsfræin. Vildir þú búa við götu þar sem íbúar eyddu á bilinu 7 til 16 af hundraði tekna sinna til byssukaupa og varnarbúnaðar fyrir heimili sín? Það er í reynd það sem þjóðirnar hafa gert með hernaðarútgjöldum sínum á síðustu árum. Það er engin furða að spádómur Jesaja leiðir í ljós að mannkynið í heild mun aldrei smíða plógjárn úr sverðum sínum fyrr en Guð ‚sker úr málefnum margra þjóða.‘ Hvernig gerir hann það?
Meginleiðin til að koma hlutunum í rétt horf er ríki Jehóva Guðs. Spámaðurinn Daníel sagði fyrir að ‚Guð himnanna myndi hefja ríki sem aldrei skyldi á grunn ganga.‘ Þetta ríki, bætti hann við, „mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [veraldlegar stjórnir], en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Þessi orð leiða í ljós að ríki Guðs mun ná öruggum og fullum yfirráðum yfir allri jörðinni. Guðsríki mun afnema landamæri milli þjóðlanda og þar með verður togstreita þjóða í milli úr sögunni. Enn fremur munu þegnar þess „njóta mikils friðar“ af því að þeir eru „lærisveinar [Jehóva].“ (Jesaja 54:13) Engin furða er að Jesús skyldi segja okkur að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki“! — Matteus 6:10.
Trúarlegum hindrunum rutt úr vegi
Guð mun líka ryðja burt trúarlegum hindrunum í vegi friðar. Trúarbrögðin stóðu að baki lengstu, vopnuðu átökum sögunnar — krossferðunum eða „stríðunum helgu“ sem Úrbanus páfi annar kom af stað árið 1095.a Á okkar öld hafa klerkar gegnt áberandi hlutverki í því að vekja upp stuðning almennings við stríð, jafnvel þau sem hafa verið algerlega veraldlegs eðlis.
Sagnfræðingurinn Paul Johnson skrifaði um hlutverk svonefndra kristinna kirkna á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar: „Klerkar voru ófærir og að mestu leyti ófúsir til að taka kristna trú fram yfir þjóðerni. Flestir fóru auðveldustu leiðina og lögðu kristni að jöfnu við ættjarðarást. Kristnir hermenn allra kirkjudeilda voru hvattir til að drepa hver annan í nafni frelsara síns.“
Trúarbrögðin hafa gert meira til að kynda undir stríði en til að hlúa að friði. Reyndar lýsir Biblían fölskum trúarbrögðum sem ‚skækju‘ er falbýður sig veraldlegum valdhöfum. (Opinberunarbókin 17:1, 2) Guð lýsir hana þann sökudólg sem beri aðalábyrgðina á því að úthella blóði allra þeirra sem hafa verið drepnir á jörðinni. (Opinberunarbókin 18:4) Þar af leiðandi útrýmir Jehóva Guð í eitt skipti fyrir öll þessari hindrun í vegi friðarins. — Opinberunarbókin 18:4, 5, 8.
Jafnvel þótt slík sundrungaröfl sem stjórnmál og fölsk trúarbrögð hverfi yrði friður aldrei tryggur nema almesta stríðsæsingaraflinu — Satan djöflinum — yrði rutt úr vegi. Það er lokaverkið sem ríki Guðs mun vinna samkvæmt áætlun sinni um að koma á allsherjarfriði á jörðinni. Opinberunarbók Biblíunnar útskýrir að Satan verði ‚tekinn,‘ ‚bundinn‘ og ‚kastað í undirdjúpið‘ þannig að hann ‚leiði ekki framar þjóðirnar afvega.‘ Eftir það verður honum gereytt. — Opinberunarbókin 20:2, 3, 10.
Loforð Biblíunnar um að stríð taki enda eru engin óraunhæf draumsýn. Jehóva Guð hefur nú þegar komið friðarráðstöfun sinni á laggirnar. Ríki hans er stofnsett á himnum og reiðubúið að grípa til frekari aðgerða til að tryggja frið um heim allan. Á meðan þessu hefur farið fram hafa milljónir votta Jehóva, sem styðja þessa himnesku stjórn, lært að lifa í friði.
Ljóst er því að við höfum skynsamlegar ástæður til að trúa því að stríð séu ekki óumflýjanleg. Og enn betra er að við getum hlakkað til þess dags, sem er nálægur, þegar Jehóva stöðvar styrjaldir endanlega. (Sálmur 46:10) Hann mun sjá til þess að heimur án styrjalda verði brátt að veruleika.
[Neðanmáls]
a Stundum gerðust trúarleiðtogar hermenn. Í orrustunni við Hastings (1066) réttlætti kaþólski biskupinn Odo virka þátttöku sína með því að beita kylfu í stað sverðs. Hann fullyrti að væri blóði ekki úthellt væri lögmætt fyrir guðsmann að drepa. Fimm öldum síðar stýrði Ximenes kardínáli persónulega innrás Spánverja í Norður-Afríku.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Þú getur lifað í nýjum heimi án styrjalda.