Er samkeppni lykillinn að velgengni?
„ÞAÐ er ekki aðalmálið að vinna, það er eina málið.“ Nú á tímum lifa margir samkvæmt þessum orðum sem oft eru eignuð Vince Lombardi, þjálfara í amerískum fótbolta. Núna hafa fyrrverandi kommúnistaríki slegist í hóp þeirra sem dásama kennisetninguna um samkeppni. Samkeppni á mörkuðum þeirra er sögð vera aðgöngumiði að allsnægtum. Í Austurlöndum etja foreldrar börnum sínum gegn öðrum börnum með því að senda þau í hraðnámsskóla þar sem þeim er kennd kúnstin við að standast inntökupróf. Hinir áköfu foreldrar eru sannfærðir um að aðgangur að virtum skóla sé lykillinn að farsæld í framtíðinni.
Margir trúa því eindregið að samkeppni sé lykillinn að velgengni. Að þeirra áliti hafa menn tekið framförum með því að keppa hver við annan. „Þrótturinn í japönskum fyrirtækjum er sprottinn af samkeppni starfsmanna um stöðuhækkun,“ sögðu 65,9 prósent manna í stjórnunarstöðum stórfyrirtækja í könnun sem samtök japanskra fjármálastofnana stóð fyrir. Svo virðist líka sem japönsk fyrirtæki hafi átt velgengni að fagna um nokkurt skeið. En er samkeppni í raun og veru lykillinn að velgengni?
Er það sönn velgengni?
Menn, sem keppa við aðra, sýna eigingjarnt viðhorf og hugsa fyrst um sjálfa sig. Þeir gleðjast yfir óförum annarra, ímynda sér að það styrki aftur á móti þeirra eigin stöðu. Í eiginhagsmunaskyni kunna þeir að beita aðferðum sem skaða aðra. Til hvers leiðir það að sækjast þannig eftir velgengni með samkeppni við aðra? Yasuo, sem hellti sér út í kapphlaupið að verða maður með mönnum í fyrirtækinu sem hann vann hjá, rifjar upp fyrri feril og segir: „Ég bar mig saman við aðra, fullur samkeppnisanda og einblínandi á stöðuhækkun, og fannst ég vera öðrum fremri. Þegar þeim var veitt staða fyrir ofan mig varð ég gramur og nöldraði á hverjum degi yfir starfsmannahaldi fyrirtækisins. Ég átti enga vini í raun.“
Samkeppnisandi getur einnig dregið menn til dauða fyrir tímann. Hvernig? Dagblaðið Mainichi Daily News í Japan tengir karoshi, eða dauða vegna of mikillar vinnu, við A-hegðun. A-hegðun lýsir því hegðunarmynstri að bregðast við streitu með því að keppast við að nota hverja mínútu til hins ítrasta, keppa við aðra og sýna þeim fjandskap. Bandarísku hjartasérfræðingarnir Friedman og Rosenman tengja A-hegðun við kransæðasjúkdóma. Já, samkeppnisandi getur reynst banvænn.
Samkeppni á vinnustað getur líka leitt til annarra líkamlegra og geðrænna kvilla. Dæmi um það er Keinosuke sem var besti sölumaðurinn hjá einu stærsta bílasölufyrirtæki Japans. Hann setti met með því að selja alls 1250 bíla. Innrömmuð mynd af honum var hengd upp í stjórnarherberginu í aðalstöðvum fyrirtækisins. Þótt hann hafi haft andstyggð á að nota starfsbræður sína sem stökkpall til stöðuhækkunar ýtti fyrirtækið honum út í samkeppni við þá. Afleiðingin varð sú að á einu ári fékk hann bæði maga- og skeifugarnarsár. Sama ár voru 15 menn í stjórnunarstöðum í fyrirtækinu lagðir inn á sjúkrahús og einn svipti sig lífi.
Heima við fær það viðhorf að dragast ekki aftur úr nágrönnunum í lífsgæðakapphlaupinu fólk til að flíka fjárráðum sínum í endalausum metingi. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Það er viðskiptaheimurinn einn sem hefur gagn af því, þar sem peningarnir streyma í hendur kaupmanna jarðarinnar. — Samanber Opinberunarbókina 18:11.
Þrátt fyrir að metingur og samkeppnisandi geti gert menn færari í starfi er engin furða að Salómon konungur skuli hafa sagt: „Ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:4) Hvernig getum við þá varðveitt hugarfrið þó að við búum í þjóðfélagi samkeppninnar? Til að komast að raun um það skulum við fyrst skoða hvar samkeppnishugmyndin kom í upphafi fram.