Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.4. bls. 4-7
  • Hugarfriður í þjóðfélagi samkeppninnar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hugarfriður í þjóðfélagi samkeppninnar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Upphaf samkeppnisandans
  • Velgengni án samkeppni
  • Hvernig viðhalda má hugarfriði
  • Er samkeppni lykillinn að velgengni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Hólpin af náð en ekki aðeins verkum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • „Lifið í andanum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Forðumst samkeppnisanda – stuðlum að friði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.4. bls. 4-7

Hugarfriður í þjóðfélagi samkeppninnar

„HVER sem vill vera fremstur,“ sagði Jesús Kristur við postula sína, „sé síðastur allra og þjónn allra.“ Postularnir voru að deila um hver þeirra væri mestur. Þeir vissu að Jesús hafði óbeit á þess konar anda. Aldrei atti hann lærisveinum sínum hverjum gegn öðrum í þeim tilgangi að stuðla að andlegum framförum. — Markús 9:33-37.

Áður en Jesús Kristur kom til jarðar tók hann þátt í að skapa fyrstu mannhjónin og vissi hvernig þau voru gerð. (Kólossubréfið 1:15, 16) Fyrstu mannverurnar voru skapaðar með þá hæfni að geta tekið framförum án þess að keppa vægðarlaust við aðra. Menn höfðu enga þörf á að berjast innbyrðis til að ganga úr skugga um hver væri leiðtogi þeirra, og ekki kepptu þeir heldur við dýrin í baráttu fyrir lífinu. — 1. Mósebók 1:26; 2:20-24; 1. Korintubréf 11:3.

Upphaf samkeppnisandans

Hvernig atvikaðist það þá að harðsvíraður samkeppnisandi varð svona ríkjandi afl í samfélagi manna? Fyrsta morðið í mannkynssögunni gefur vísbendingu um það. Samkeppnisandi, sem Kain, elsti sonur fyrstu mannhjónanna, sýndi, leiddi til þessa harmleiks. Kain myrti bróður sinn Abel vegna þess að fórn Abels var Guði þóknanleg en fórn Kains ekki. Og Biblían segir að Kain hafi ‚heyrt hinum vonda til og myrt bróður sinn.‘ — 1. Jóhannesarbréf 3:12; 1. Mósebók 4:4-8.

Já, það er hinn vondi, Satan djöfullinn, sem átti upphafið að samkeppnisandanum og stuðlar að honum. Þótt hann væri englasonur Guðs með mikil sérréttindi vildi hann meira. (Samanber Esekíel 28:14, 15.) Þegar hann tældi Evu afhjúpaði hann eigin fýsn. Hann sagði að hún myndi „verða eins og Guð“ ef hún æti af forboðna ávextinum. (1. Mósebók 3:4, 5) Í rauninni var það Satan sem vildi vera eins og Guð, vera keppinautur Jehóva. Samkeppnisandi gagnvart Guði eggjaði hann til að gera uppreisn. — Jakobsbréfið 1:14, 15.

Þessi andi er smitandi. Vegna áhrifa Satans glataðist friðurinn sem Guð hafði gefið þessari fyrstu fjölskyldu. (1. Mósebók 3:6, 16) Allar götur síðan Satan djöfullinn reis upp gegn Guði hefur hann stjórnað mannkyninu, kynt undir samkeppnisanda og jafnvel blekkt karla og konur til að trúa því að harðsvíruð samkeppni sé lykillinn að velgengni. Biblían segir hins vegar: „Hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.“ (Jakobsbréfið 3:14-16) Satan hefur þannig rænt manninn hamingju hans og hugarfriði.

Velgengni án samkeppni

Þrátt fyrir fullyrðingu Satans gefur Biblían dæmi um velgengni án samkeppni. Skýrasta dæmið er Jesús Kristur. Þó að hann væri í Guðs mynd hugsaði hann aldrei um að vera jafn Guði heldur tók á sig þjónsmynd og kom til jarðarinnar. Þar að auki lítillækkaði hann sig og hlýðni hans náði svo langt að hann gekk í dauðann á kvalastaur. Þetta hlýðna viðhorf, gersneytt nokkrum keppnisanda, ávann honum velþóknun Guðs. „Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra.“ (Filippíbréfið 2:5-9) Hvaða meiri velgengni gæti nokkur sköpunarvera öðlast? Hann þóknaðist föður sínum í meiri mæli en nokkur önnur sköpunarvera gat gert, og gerði það án nokkurs metings eða samkeppnisanda. — Orðskviðirnir 27:11.

Hinir fjölmörgu trúföstu englar á himni sýna þetta sama viðhorf. Þó að Jesús, sem var foringi englanna, hafi orðið lítið eitt lægri en þeir þegar hann kom til jarðarinnar, þjónuðu þeir fúslega þörfum hans. Greinilega gældu þeir ekki við neina þá hugmynd að notfæra sér aðstæðurnar og reyna að bola honum burt sem erkiengli. — Matteus 4:11; 1. Þessaloníkubréf 4:16; Hebreabréfið 2:7.

Andúð þeirra á samkeppnisanda er jafnvel enn augljósari þegar við athugum hvernig þeir hafa brugðist við þeim tilgangi Guðs að upphefja nokkra ófullkomna menn til ódauðleika sem andaverur og láta þá sem slíka „dæma engla.“ (1. Korintubréf 6:3) Englar búa yfir ríkulegri reynslu í að þjóna Jehóva og eru miklu hæfari til að koma góðu til leiðar en ófullkomnir menn. Engu að síður þjóna englarnir hinum smurðu á jörðinni með gleði, og eru aldrei afbrýðisamir yfir því sem þessum mönnum mun hlotnast. (Hebreabréfið 1:14) Hið góða viðhorf þeirra, sem er laust við samkeppnisanda, gerir þeim kleift að halda áfram að þjóna frammi fyrir hásæti hins mikla Drottins Jehóva.

Leiddu því næst hugann að trúföstum þjónum Guðs til forna sem verða reistir upp til lífs á jörðinni. Abraham var einstök fyrirmynd í trú og var kallaður „faðir allra þeirra, sem trúa.“ (Rómverjabréfið 4:9, 11) Job gaf skínandi fordæmi um þolgæði. (Jakobsbréfið 5:11) Móse, sem „var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu,“ leiddi Ísraelsþjóðina til frelsis. (4. Mósebók 12:3) Hvaða ófullkomnir menn hafa gefið betra fordæmi um trú, þolgæði og hógværð en þessir menn? Þeirra bíður hins vegar að erfa þann vettvang Guðsríkis sem er hér á jörðinni. (Matteus 25:34; Hebreabréfið 11:13-16) Þeir munu, eins og Jóhannes skírari, verða settir skör lægra þeim sem er „hinn minnsti í himnaríki.“ (Matteus 11:11) Munu þeir svo mikið sem láta sér detta í hug að kvarta, standa fast á því að trú þeirra, þolgæði eða hógværð hafi verið jafnmikil eða í sumum tilvikum meiri en þeirra sem fengu líf á himni? Örugglega ekki! Þeir verða ánægðir, jarðneskir þegnar Guðsríkis.

Eins er það nú á dögum að þægilegt er að umgangast fólk sem ekki hefur samkeppnisanda. Yasuo, sem nefndur er í greininni hér að framan, sökk í skuldir vegna gullbrasks og tapaði aleigunni. „Vinir“ hans fóru frá honum. Þar sem konan hans hafði byrjað að nema Biblíuna með vottum Jehóva fór hann á samkomur þeirra vegna samviskubits yfir þeim raunum sem hann hafði valdið fjölskyldu sinni. Um síðir losaði hann sig við samkeppnisandann og varð einn af vottum Jehóva. Nú er hann glaður að vera umkringdur kristnum vinum, þess konar vinum sem eru fúsir til að hjálpa honum þegar á bjátar.

Hvernig viðhalda má hugarfriði

Það er ekki alltaf auðvelt að viðhalda hugarfriði í miskunnarlausu samkeppnisþjóðfélagi. Það er rétt af okkur að taka eftir því að Biblían fordæmir ‚fjandskap, deilur, meting, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadrátt, og öfund‘ sem „holdsins verk“ er koma í veg fyrir að fólk erfi Guðsríki. Öll þessi verk fara saman við samkeppnisanda. Það er því engin furða að Páll postuli skuli hvetja Galatamenn: „Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.“ — Galatabréfið 5:19-21, 26.

Í þessu samhengi sýnir bréf Páls hver sé lykillinn að því að ráða við hégómagjarnan samkeppnisanda. Hann segir: „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi [„sjálfstjórn,“ NW]. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Galatabréfið 5:22, 23) Ávöxtur andans hjálpar okkur að ryðja metingi úr huga okkar. Lítum til dæmis á kærleikann: „Kærleikurinn öfundar ekki,“ útskýrir Páll. „Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki.“ (1. Korintubréf 13:4-7) Með því að rækta með okkur kærleika getum við upprætt öfund sem samkeppnisandinn þrífst á. Aðrir ávextir andans hjálpa okkur einnig að hreinsa úr hjarta okkar og huga hvern þann vott af harðsvíruðum samkeppnisanda sem kann að sitja þar eftir. Með sjálfstjórn má fljótlega bæla niður hverja löngun sem upp kann að koma til að keppa við aðra til sigurs hvað sem það kostar. — Orðskviðirnir 17:27.

En til að þroska þessa eiginleika verðum við að láta anda Guðs verka á okkur. Við getum ýtt undir þessi heilsusamlegu áhrif heilags anda með því að vera staðföst í að biðja Guð um að hjálpa okkur með anda sínum. (Lúkas 11:13) Hvað mun Guð veita okkur sem svar við bænum okkar? Biblían svarar: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

Þetta kom skýrt fram hjá postulum Jesú. Jafnvel eftir að Jesús hafði hafið kvöldmáltíð Drottins síðasta kvöldið með postulum sínum, voru þeir enn að þræta um hver þeirra virtist mestur. (Lúkas 22:24-27) Jesús hafði við önnur tækifæri reynt að hjálpa þeim að leiðrétta hugsun sína en þessi samkeppnisandi var orðinn rótfastur í þeim. (Markús 9:34-37; 10:35-45; Jóhannes 13:12-17) Þegar þeir hins vegar fengu heilagan anda, um 50 dögum eftir þessa deilu, breyttist viðhorf þeirra. Ekki kom upp nokkur deila um hver myndi tala sem fulltrúi þeirra við hóp forvitinna manna sem safnaðist saman á þessum hvítasunnudegi. — Postulasagan 2:14-21.

Engum manni var leyft að drottna yfir kristna söfnuðinum. Þegar leysa þurfti ágreining varðandi umskurn fór Jakob, sem var ekki einu sinni orðinn lærisveinn þegar Jesús dó, með fundarstjórn á þeim mikilvæga fundi sem þá var haldinn. Þess sjást engin merki að deilt hafi verið um hver skyldi fara með stjórn þessa fundar hins stjórnandi ráðs kristna safnaðarins. Hvílík umskipti frá þeim tíma þegar samkeppnisandi var ljóður á ráði postulanna! Með hjálp heilags anda rifjuðu þeir upp það sem Jesús hafði kennt og fóru að skilja þær lexíur sem hann hafði gefið þeim. — Jóhannes 14:26.

Það sama getur gerst hjá okkur. Með hjálp heilags anda getum við sigrast á sérhverri löngun, sem enn býr með okkur, til að keppa við aðra til þess að komast áfram á þeirra kostnað. Í stað þess getum við öðlast þann hugarfrið sem er æðri öllum skilningi. Biblían fullvissar okkur um að frumkvöðli harðsvíraðrar samkeppni, Satan djöflinum, verði brátt varpað í undirdjúpið, tekinn úr umferð. (Opinberunarbókin 20:1-3) Metingur milli nágranna mun ekki lengur eiga sér stað. Mun þjóðfélagið þá staðna? Alls ekki. Menn verða fullkomnir, ekki með samkeppni sín á milli heldur með því að lausnarfórn Jesú verður notuð í þeirra þágu. — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Keinosuke, sem áður er nefndur og hafði fyrrum fengið að reyna þá upphefð sem fylgir veraldlegri velgengni með því að slá met í bílasölu, sleit sér út bæði andlega og líkamlega. Að lokum sagði hann þó upp vinnu sinni. „Núna er ég fullur af sannri lífsgleði,“ segir hann. Honum varð ljóst hvers vegna ósvikin velgengni einkenndi líf Jesú. Hvað sem hann getur núna gert í heimssöfnuði Guðs er upplífgandi fyrir hann. Þannig er verið að búa hann undir nýja heiminn þar sem engin samkeppni verður. Þú getur einnig fengið forsmekk af þessu samfélagi nýja heimsins með því að heimsækja einn af ríkissölunum í þínu byggðarlagi og eiga félagsskap við votta Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Friður og samvinna mun ríkja í samfélagi manna í hinum nýja heimi Guðs.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila