Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brw950901 bls. 9-15
  • Afbrýði vegna sannrar tilbeiðslu á Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Afbrýði vegna sannrar tilbeiðslu á Jehóva
  • Námsgreinar úr Varðturninum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Gullkálfurinn
  • Baal Peór
  • Víti til varnaðar
  • Síðari tíma dæmi um guðrækilega afbrýði
  • Afbrýði Guðs er fólki hans til góðs
  • Afbrýðisverk Guðs í framtíðinni
  • Kærleikur sigrar óviðeigandi afbrýði
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Jósef verður fórnarlamb afbrýðisemi
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2020
  • Hvernig má forðast afbrýðisemi í hjónabandi?
    Góð ráð handa fjölskyldunni
  • Varastu hvers konar skurðgoðadýrkun
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
Sjá meira
Námsgreinar úr Varðturninum
brw950901 bls. 9-15

Afbrýði vegna sannrar tilbeiðslu á Jehóva

„Jehóva, sem heitir Afbrýðisamur, hann er afbrýðisamur Guð.“ — 2. MÓSEBÓK 34:14, NW.

1. Hver er höfuðeiginleiki Guðs og hvernig tengist hann afbrýði hans?

JEHÓVA kallar sjálfan sig ‚afbrýðisaman Guð.‘ Þér er kannski spurn hvers vegna hann geri það því að orðin „afbrýði“ og „afbrýðisemi“ hafa neikvæðan merkingarblæ. Kærleikur er auðvitað höfuðeiginleiki Guðs. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hver sú afbrýði, sem hann sýnir, hlýtur því að vera mannkyninu til góðs. Eins og við munum reyndar sjá er afbrýði Guðs nauðsynleg til að viðhalda friði og samlyndi í alheiminum.

2. Hvernig er meðal annars hægt að þýða hebresku orðin sem notuð eru um „afbrýði“?

2 „Afbrýði“ og skyld orð koma meira en 80 sinnum fyrir í Hebresku ritningunum á frummálinu. Næstum helmingur þeirra er notaður um Jehóva Guð. „Þegar hugtakið afbrýði er notað í sambandi við Guð er ekki átt við brenglaða kennd heldur kröfu um óskipta tilbeiðslu á Jehóva.“ (G. H. Livingston: The Pentateuch in Its Cultural Environment) Þess vegna þýðir Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar hebreska nafnorðið stundum sem „kröfu um óskipta hollustu.“ (Esekíel 5:13, NW) Aðrar viðeigandi þýðingar eru „vandlæti,“ „ákafi“ eða „kostgæfni.“ — Sálmur 79:5; Jesaja 9:7, Bi. 1981; NW.

3. Á hvaða vegu getur afbrýði stundum þjónað góðum tilgangi?

3 Manninum var áskapað að geta fundið til afbrýði en syndafall mannkynsins hafði í för með sér brenglaða afbrýði. Engu að síður getur afbrýði manna þjónað góðum tilgangi. Hún getur komið þeim til að vernda ástvini gegn slæmum áhrifum. Og menn geta réttilega verið afbrýðisamir eða vandlætingarsamir vegna Jehóva og tilbeiðslunnar á honum. (1. Konungabók 19:10) Til að koma á framfæri réttum skilningi á slíkri afbrýði vegna Jehóva má þýða þetta hebreska nafnorð ‚að umbera enga samkeppni‘ við hann. — 2. Konungabók 10:16, NW.

Gullkálfurinn

4. Hvaða fyrirmæli tengd réttlátri afbrýði voru áberandi í lögmáli Guðs til Ísraels?

4 Sem dæmi um réttláta afbrýði má nefna atburði er áttu sér stað rétt eftir að Ísraelsmenn tóku við lögmálinu við Sínaífjall. Þeir höfðu verið varaðir æ ofan í æ við því að tilbiðja guði gerða af mönnum. Jehóva sagði þeim: „Ég, Jehóva Guð þinn er Guð sem krefst óskiptrar hollustu [eða „Guð sem er afbrýðisamur (kostgæfinn); Guð sem umber ekki samkeppni“].“ (2. Mósebók 20:5, NW Ref. Bi., neðanmáls; samanber 2. Mósebók 20:22, 23; 22:20; 23:13, 24, 32, 33.) Jehóva gerði sáttmála við Ísraelsmenn og hét að blessa þá og leiða inn í fyrirheitna landið. (2. Mósebók 23:22, 31) Og fólkið sagði: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] hefir boðið, og hlýðnast því.“ — 2. Mósebók 24:7.

5, 6. (a) Hvernig syndguðu Ísraelsmenn alvarlega er þeir voru í tjaldbúðum við Sínaífjall? (b) Hvernig sýndu Jehóva og drottinhollir dýrkendur hans réttláta afbrýði við Sínaífjall?

5 En ekki leið á löngu áður en Ísraelsmenn syndguðu gegn Guði. Þeir voru enn í tjaldbúðum við rætur Sínaífjalls. Móse hafði verið á fjallinu dögum saman að taka við frekari fyrirmælum frá Guði, og fólkið þrýsti á Aron, bróður Móse, að búa til guð handa sér. Aron lét undan og bjó til kálf úr gulli sem fólkið færði honum. Því var haldið fram að þetta skurðgoð táknaði Jehóva. (Sálmur 106:20) Næsta dag færðu Ísraelsmenn gullkálfinum fórnir og ‚féllu fram fyrir honum.‘ Síðan „stóðu þeir upp til leika“ eða til að skemmta sér. — 2. Mósebók 32:1, 4, 6, 8, 17-19.

6 Móse kom ofan af fjallinu meðan Ísraelsmenn voru að skemmta sér. Er hann sá svívirðilega hegðun þeirra hrópaði hann: „Hver sem heyrir [Jehóva] til, komi hingað til mín!“ (2. Mósebók 32:25, 26) Synir Leví söfnuðust til Móse og hann fyrirskipaði þeim að taka sér sverð í hönd og lífláta hina svallsömu skurðgoðadýrkendur. Levítarnir sýndu afbrýði sína vegna hreinnar tilbeiðslu á Guði með því að drepa 3000 seka bræður sína. Jehóva studdi þessa aðgerð með því að senda plágu yfir þá sem eftir voru. (2. Mósebók 32:28, 35) Síðan endurtók hann fyrirmælin: „Þú mátt ekki falla fram fyrir öðrum guði því að Jehóva, sem heitir Afbrýðisamur, hann er afbrýðisamur Guð.“ — 2. Mósebók 34:14, NW.

Baal Peór

7, 8. (b) Hvernig gerðust margir Ísraelsmenn sekir um svæsna skurðgoðadýrkun í sambandi við Baal Peór? (b) Hvernig stöðvaðist plágan frá Jehóva?

7 Fjörutíu árum síðar, þegar Ísraelsþjóðin var í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið, lokkuðu aðlaðandi móabískar og midíanskar konur marga Ísraelsmenn til að njóta gestrisni sinnar. Þessir karlmenn hefðu átt að hafna nánum félagsskap við falsguðadýrkendur. (2. Mósebók 34:12, 15) En þeir hlupu eins og ‚naut fram á blóðvöllinn,‘ drýgðu hór með konunum og féllu fram fyrir Baal Peór með þeim. — Orðskviðirnir 7:21, 22; 4. Mósebók 25:1-3.

8 Jehóva sendi plágu til að drepa þá sem tóku þátt í þessari svívirðilegu kynlífsdýrkun. Hann fyrirskipaði einnig saklausum Ísraelsmönnum að drepa seka bræður sína. Ísraelskur höfðingi er Simrí hét sýndi þá óskammfeilni að fara með midíanska prinsessu í tjald sitt til að eiga kynmök við hana. Er guðhræddi presturinn Pínehas sá það líflét hann siðlausa parið. Þá stöðvaðist plágan og Guð lýsti yfir: „Pínehas . . . hefur bægt reiði minni frá Ísraelsmönnum; hann sýndi meðal þeirra sömu afbrýðisreiðina og knúði mig, og þess vegna útrýmdi ég ekki Ísraelsmönnum í afbrýði minni.“ (4. Mósebók 25:11, The New English Bible) Þó svo að þjóðinni hafi verið hlíft við eyðingu dóu að minnsta kosti 23.000 Ísraelsmenn. (1. Korintubréf 10:8) Þeir misstu af því sem þeir höfðu hlakkað til svo lengi, að komast inn í fyrirheitna landið.

Víti til varnaðar

9. Hvernig fór fyrir Ísraels- og Júdamönnum af því að þeir voru ekki afbrýðisamir vegna hreinnar tilbeiðslu á Jehóva?

9 Því miður gleymdu Ísraelsmenn fljótt þessum varnaðardæmum. Þeir reyndust ekki afbrýðisamir vegna hreinnar tilbeiðslu á Jehóva. „Þeir . . . vöktu vandlæti [„afbrýði,“ NW] hans með skurðgoðum sínum.“ (Sálmur 78:58) Af því leiddi að Jehóva leyfði Assýringum að hernema tíu ættkvíslir Ísraels árið 740 f.o.t. Tveggjaættkvíslaríkið Júda, sem eftir stóð, hlaut samsvarandi refsingu er höfuðborg þess, Jerúsalem, var eytt árið 607 f.o.t. Margir voru drepnir og þeir sem eftir lifðu voru fluttir í ánauð til Babýlonar. Þvílíkt fordæmi til viðvörunar fyrir alla kristna menn nú á tímum! — 1. Korintubréf 10:6, 11.

10. Hvert verður hlutskipti iðrunarlausra skurðgoðadýrkenda?

10 Þriðjungur jarðarbúa — hér um bil 1900 milljónir manna — segjast vera kristnir. (1994 Britannica Book of the Year) Flestir þeirra tilheyra kirkjum sem nota helgimyndir, líkneski og krossa í tilbeiðslu sinni. Jehóva hlífði ekki sinni eigin þjóð þegar hún vakti afbrýði hans með skurðgoðadýrkun sinni. Hann mun ekki heldur hlífa þeim sem segjast vera kristnir en nota efnislega hluti við tilbeiðslu sína. „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika,“ sagði Jesús Kristur. (Jóhannes 4:24) Biblían áminnir kristna menn enn fremur um að vera á varðbergi gagnvart skurðgoðadýrkun. (1. Jóhannesarbréf 5:21) Meðal þeirra sem ekki munu erfa Guðsríki eru iðrunarlausir skurðgoðadýrkendur. — Galatabréfið 5:20, 21.

11. Hvernig gæti kristinn maður gerst sekur um skurðgoðadýrkun án þess að lúta skurðgoði, og hvernig má forðast slíka skurðgoðadýrkun? (Efesusbréfið 5:5)

11 Sannkristinn maður myndi vissulega aldrei lúta skurðgoði, en hann verður líka að forðast hvaðeina sem Guð álítur óhreint og syndugt eða jaðrar við skurðgoðadýrkun. Til dæmis varar Biblían við: „Deyðið . . . hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs.“ (Kólossubréfið 3:5, 6) Að hlýða þessum orðum útheimtir að hafna siðlausri hegðun, meðal annars að forðast skemmtiefni sem er til þess gert að vekja óhreinar kynferðislanganir. Í stað þess að fullnægja slíkum löngunum eru sannkristnir menn vandlátir eða afbrýðisamir vegna hreinnar tilbeiðslu á Guði.

Síðari tíma dæmi um guðrækilega afbrýði

12, 13. Hvernig gaf Jesús afbragðsfordæmi með afbrýði sinni vegna hreinnar tilbeiðslu á Guði?

12 Jesús Kristur er langbesta dæmið um mann sem var afbrýðisamur vegna hreinnar tilbeiðslu á Guði. Á fyrsta þjónustuári sínu sá hann ágjarna kaupmenn stunda viðskipti í forgörðum musterisins. Gyðingar, sem heimsóttu Jerúsalem, þurftu kannski að skipta erlendum gjaldmiðli í mynt sem var gjaldgeng til að greiða musterisskattinn. Þeir þurftu líka að kaupa dýr og fugla til að færa þær fórnir sem lögmál Guðs krafðist. Slík viðskipti hefðu átt að fara fram utan forgarða musterisins. Það sem verra var, kaupmennirnir misnotuðu sér greinilega þarfir bræðra sinna í sambandi við tilbeiðsluna með óhóflegri verðlagningu. Fullur afbrýði vegna hreinnar tilbeiðslu á Guði rak Jesús sauðina og nautin út með svipu í hönd. Hann hratt líka um borðum víxlaranna og sagði: „Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.“ (Jóhannes 2:14-16) Þannig uppfyllti Jesús orðin í Sálmi 69:10: „Vandlæting [„afbrýði,“ Byington] vegna húss þíns hefir uppetið mig.“

13 Þrem árum síðar sá Jesús ágjarna kaupmenn aftur stunda viðskipti í musteri Jehóva. Hreinsaði hann það á ný? Afbrýði hans vegna hreinnar tilbeiðslu á Guði var jafnsterk þá og hún var í upphafi þjónustu hans. Hann rak út bæði þá sem seldu og keyptu. Og hann kom með enn sterkari rök fyrir gerðum sínum er hann sagði: „Er ekki ritað: ‚Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?‘ En þér hafið gjört það að ræningjabæli.“ (Markús 11:17) Hann var frábært dæmi um stöðuga og guðrækilega afbrýði.

14. Hvaða áhrif ætti afbrýði Jesú vegna hreinnar tilbeiðslu að hafa á okkur?

14 Persónuleiki Drottins Jesú Krists, sem er nú dýrlegur á himni, hefur ekkert breyst. (Hebreabréfið 13:8) Hann er alveg jafn-afbrýðisamur vegna hreinnar tilbeiðslu á föður sínum núna á 20. öldinni og hann var þegar hann var á jörðinni. Það má sjá af boðskap hans til safnaðanna sjö sem er að finna í Opinberunarbókinni. Aðaluppfylling þeirra á sér stað núna, á „Drottins degi.“ (Opinberunarbókin 1:10; 2:1–3:22) Í sýn sá Jóhannes postuli hinn dýrlega gerða Jesú Krist með ‚augu eins og eldsloga.‘ (Opinberunarbókin 1:14) Það gefur til kynna að ekkert fari fram hjá Kristi þegar hann rannsakar söfnuðina til að tryggja að þeir haldist hreinir og hæfir fyrir þjónustu Jehóva. Kristnir menn nú á tímum þurfa að hafa hugfasta viðvörun Jesú um að reyna ekki að þjóna tveim herrum — Guði og mammón. (Matteus 6:24) Jesús sagði söfnuðinum í Laódíkeu þar sem margir hneigðust til efnishyggju: „Af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum. . . . Ver því heilhuga og gjör iðrun.“ (Opinberunarbókin 3:14-19) Í orði sem á borði ættu útnefndir safnaðaröldungar að hjálpa trúbræðrum sínum að forðast gildru efnishyggjunnar. Öldungarnir verða líka að vernda hjörðina fyrir siðspillingu þessa kynóða heims. Og fólk Guðs vogar sér ekki að umbera nokkur Jessabelaráhrif í söfnuðinum. — Hebreabréfið 12:14, 15; Opinberunarbókin 2:20.

15. Hvernig líkti Páll postuli eftir Jesú í afbrýði sinni vegna tilbeiðslunnar á Jehóva?

15 Páll postuli var eftirbreytandi Krists. Til að vernda nýskírða kristna menn fyrir andlega óheilnæmum áhrifum sagði hann: „Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs.“ (2. Korintubréf 11:2) Áður hafði afbrýði Páls vegna hreinnar tilbeiðslu knúið hann til að fyrirskipa þessum sama söfnuði að gera rækan iðrunarlausan saurlífismann sem hafði spillandi áhrif. Hin innblásnu fyrirmæli, sem þá voru gefin, hafa verið öldungum nú á tímum til mikillar hjálpar við að halda yfir 78.600 söfnuðum votta Jehóva hreinum. — 1. Korintubréf 5:1, 9-13.

Afbrýði Guðs er fólki hans til góðs

16, 17. (a) Hvaða viðhorf sýndu þjóðirnar þegar Guð refsaði Júda til forna? (b) Hvernig sýndi Jehóva afbrýði sína vegna Jerúsalem eftir 70 ára ánauð Júda?

16 Þegar Guð refsaði Júdamönnum með því að leyfa að þeir væru hnepptir í ánauð í Babýlon var gert gys að þeim. (Sálmur 137:3) Með afbrýðishatri hjálpuðu jafnvel Edómítar Babýloníumönnum að leiða ógæfu yfir fólk Jehóva og hann veitti því athygli. (Esekíel 35:11; 36:15) Þeir sem lifðu af iðruðust í ánauðinni og eftir 70 ár skilaði Jehóva þeim aftur heim í land sitt.

17 Í fyrstu virtist aðstaða Júdamanna vonlaus. Jerúsalemborg og musteri hennar voru rústir einar. Og grannþjóðirnar stóðu gegn öllum tilraunum til að endurreisa musterið. (Esrabók 4:4, 23, 24) Hvað fannst Jehóva um ástandið? Hin innblásna frásaga segir: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Ég brenn af mikilli vandlæting [„afbrýði,“ NW] vegna Jerúsalem og Síonar og ég er stórreiður hinum andvaralausu heiðingjum, sem juku á bölið, þá er ég var lítið eitt reiður. Fyrir því segir [Jehóva] svo: Ég sný mér aftur að Jerúsalem með miskunnsemi. Hús mitt skal verða endurreist í henni — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Sakaría 1:14-16) Þessi spádómur rættist og musterið og Jerúsalemborg voru farsællega endurreist.

18. Hvað upplifðu sannkristnir menn í fyrri heimsstyrjöldinni?

18 Sannkristni söfnuðurinn varð fyrir svipaðri reynslu á 20. öldinni. Meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð agaði Jehóva fólk sitt af því að það hafði ekki verið fullkomlega hlutlaust í þessum heimsátökum. (Jóhannes 17:16) Guð leyfði stjórnmálaöflunum að kúga það og klerkar kristna heimsins fögnuðu yfir ógæfu þess. Klerkar voru reyndar fremstir í flokki að fá stjórnmálaöflin til að banna starf Biblíunemendanna eins og vottar Jehóva voru kallaðir þá. — Opinberunarbókin 11:7, 10.

19. Hvernig hefur Jehóva sýnt afbrýði vegna tilbeiðslu sinnar frá 1919?

19 En Jehóva var afbrýðisamur vegna tilbeiðslu sinnar og veitti iðrunarfullu fólki sínu hylli á ný árið 1919, eftir að stríðinu lauk. (Opinberunarbókin 11:11, 12) Fyrir vikið hefur þeim sem lofa Jehóva fjölgað úr innan við 4000 árið 1918 í liðlega 5 milljónir núna. (Jesaja 60:22) Bráðlega mun afbrýði Jehóva vegna hreinnar tilbeiðslu sinnar birtast á enn áhrifameiri hátt.

Afbrýðisverk Guðs í framtíðinni

20. Hvernig mun Guð bráðlega sýna afbrýði sína vegna hreinnar tilbeiðslu?

20 Kirkjur kristna heimsins hafa um aldaraðir fylgt sömu stefnu og fráhverfir Gyðingar sem vöktu afbrýði Jehóva. (Esekíel 8:3, 17, 18) Bráðlega mun Jehóva Guð láta til sín taka með því að koma róttækri hugmynd inn hjá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, með þeim afleiðingum að þessi stjórnmálaöfl eyða kristna heiminum og öllum öðrum falstrúarbrögðum. (Opinberunarbókin 17:16, 17) Sannir guðsdýrkendur munu lifa af þessa ógurlegu dómsfullnægingu Guðs. Þeir munu svara orðum himneskra vera sem segja: „Hallelúja! . . . Hann [Jehóva] hefur dæmt skækjuna miklu [falstrúarbrögðin], sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum [falskenningum og stuðningi við spillt stjórnmál], og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.“ — Opinberunarbókin 19:1, 2.

21. (a) Hvað munu Satan og kerfi hans gera eftir eyðingu falstrúarbragðanna? (b) Hvernig bregst Guð við?

21 Hvað gerist eftir að heimsveldi falskra trúarbragða hefur verið eytt? Satan mun egna stjórnmálaöflin til að skipuleggja árás á fólk Jehóva um heim allan. Hvernig mun hinn sanni Guð bregðast við þessari tilraun Satans til að afmá sanna tilbeiðslu af jörðinni? Esekíel 38:19-23 segir okkur: „Í ákefð minni [eða afbrýði], í minni brennandi heift, tala ég [Jehóva] það: . . . Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru. Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — Sjá einnig Sefanía 1:18; 3:8.

22. Hvernig getum við sýnt afbrýði okkar vegna hreinnar tilbeiðslu á Jehóva?

22 Það er mjög hughreystandi að vita að drottinvaldur alheimsins skuli annast sanna dýrkendur sína með afbrýði! Djúpt þakklæti fyrir óverðskuldaða góðvild hans ætti að koma okkur til að vera afbrýðisöm eða vandlát vegna hreinnar tilbeiðslu á Jehóva Guði. Megum við halda kostgæfin áfram að prédika fagnaðarerindið og bíða full trúartrausts hins stórfenglega dags er Jehóva upphefur og helgar sitt mikla nafn. — Matteus 24:14.

Til íhugunar

◻ Hvað merkir það að vera afbrýðisamur vegna Jehóva?

◻ Hvað getum við lært af dæmi Ísraelsmanna til forna?

◻ Hvernig getum við forðast að vekja afbrýði Jehóva?

◻ Hvernig hafa Guð og Kristur sýnt afbrýði vegna hreinnar tilbeiðslu?

[Rammi á blaðsíðu 13]

Kærleikurinn er ekki afbrýðisamur

Á SÍÐUSTU öld sagði biblíufræðingurinn Albert Barnes um öfundina: „Hún er einhver algengasta mynd vonskunnar og sýnir greinilega hve djúp siðspilling mannsins er.“ Hann sagði einnig: „Sá sem gæti rakið öll stríð og deilur og veraldleg áform til uppruna síns — allt ráðabrugg og ráðagerðir jafnvel þeirra sem játa kristna trú, sem spillir svo trú þeirra og gerir þá veraldlega sinnaða — myndi undrast hve mikið má rekja til öfundar. Það kvelur okkur að aðrir skuli vera efnaðri en við; við þráum að eiga það sem aðrir eiga þótt við eigum engan rétt á því, og það leiðir til þess að við beitum ýmsum saknæmum aðferðum í því skyni að draga úr því að þeir fái notið þess eða til að komast yfir það sjálf, eða til að sýna fram á að þeir eigi ekki jafnmikið og flestir halda. . . . því að þannig svölum við öfundarandanum í brjósti okkar.“ — Rómverjabréfið 1:29; Jakobsbréfið 4:5, NW.

Barnes kom síðan með athyglisverða ábendingu um kærleikann sem „er ekki afbrýðisamur.“ (1. Korintubréf 13:4, NW) Hann skrifaði: „Kærleikurinn öfundar ekki aðra af hamingju þeirra; hann hefur yndi af velferð þeirra, og þegar hamingja þeirra vex . . . vilja þeir sem eru undir áhrifum kærleikans . . . ekki skerða hana; þeir vilja ekki láta þá blygðast sín sig fyrir hana; þeir vilja ekki spilla fyrir hamingju þeirra; þeir vilja ekki mögla yfir eða una því illa að þeir skuli ekki njóta sömu blessunar. . . . Ef við elskuðum aðra — ef við gleddumst yfir hamingju þeirra, þá myndum við ekki öfunda þá.“

[Mynd á blaðsíðu 10]

Píneahas var vandlátur eða afbrýðisamur vegna hreinnar tilbeiðslu á Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila