Hvers vegna að óttast hinn sanna Guð núna?
„Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — PRÉDIKARINN 12:13.
1, 2. Af hverju er rétt og viðeigandi að óttast Guð?
HEILNÆMUR og lotningarfullur ótti við Guð er manninum hollur. Já, þótt margur ótti manna sé tilfinningalega þungbær, jafnvel skaðlegur heill þeirra og velferð, er hollt fyrir okkur að óttast Jehóva Guð. — Sálmur 112:1; Prédikarinn 8:12.
2 Skaparinn veit það og vegna kærleika til sköpunarverksins fyrirskipar hann öllum að óttast sig og tilbiðja. Við lesum: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð, og sagði hárri röddu: ‚Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.‘“ — Opinberunarbókin 14:6, 7.
3. Hvað gerði skaparinn fyrir fyrstu foreldra okkar?
3 Við ættum vissulega ekki að hunsa skapara allra hluta og uppsprettu lífsins því að hann á okkur og þessa reikistjörnu. (Sálmur 24:1) Jehóva tjáði sinn mikla kærleika með því að gefa jarðneskum börnum sínum líf og sjá þeim fyrir undursamlegum stað — fagurri paradís — til að búa á. Þessi dásamlega gjöf var þó skilyrðum háð. Segja má að hún hafi verið falin þeim til umsjónar. Fyrstu foreldrar okkar áttu að annast paradísarheimili sitt og stækka það uns þeir hefðu byggt alla jörðina og gert sér hana undirgefna. Þeim voru líka fengin sérréttindi og ábyrgð gagnvart dýrunum, fuglunum og fiskum hafsins — yfir öllum öðrum lifandi verum sem áttu að deila jörðinni með þeim og afkomendum þeirra. Maðurinn þurfti að svara fyrir hvernig hann sinnti þessu mikla trúnaðarstarfi.
4. Hvernig hafa mennirnir farið með sköpunarverk Guðs?
4 Þetta var dásamleg byrjun. En sjáðu hvað maðurinn hefur gert til að spilla þessu fallega, jarðneska heimili! Menn hafa útatað jörðina og lítilsvirt Guð sem eiganda þessarar gersemar. Slík er mengunin að hún ógnar jafnvel tilveru heilla tegunda dýra, fugla og fiska. Hinn réttvísi og kærleiksríki Guð okkar getur ekki umborið þetta endalaust. Eyðilegging jarðar hrópar á uppgjör sem margir hafa ástæðu til að óttast. En fyrir þá sem virða Guð og treysta honum er hughreystandi að vita hvað á eftir að gerast. Jehóva mun kalla á uppgjör og jörðin verður endurreist. Það eru sannarlega gleðitíðindi fyrir alla réttsinnaða menn á jörðinni.
5, 6. Hvernig bregst Jehóva við því sem maðurinn hefur gert sköpunarverki hans?
5 Hvernig fullnægir Guð dómi sínum? Til þess notar hann Jesú Krist sem er núna krýndur konungur hins himneska ríkis Guðs. Fyrir atbeina þessa himneska sonar ætlar Jehóva að binda enda á hið núverandi óhreina og uppreisnargjarna heimskerfi. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9; Opinberunarbókin 19:11) Þannig veitir hann lausn þeim sem óttast hann og um leið bjargar hann jarðnesku heimili okkar og varðveitir það.
6 Hvernig gerist það? Biblían talar um mikla, væntanlega þrengingu sem nær hámarki í stríðinu við Harmagedón. (Opinberunarbókin 7:14; 16:16) Þannig verður dómi Guðs fullnægt á þessu mengaða heimskerfi og þeim sem menga það. Komast einhverjir menn lífs af? Já, en ekki þeir sem hafa sjúklegan, óheilbrigðan ótta af Guði heldur þeir sem bera lotningarfullan ótta og virðingu fyrir honum. Þeir verða frelsaðir. — Orðskviðirnir 2:21, 22.
Ótrúlegt máttarverk
7. Af hverju lét Guð til sín taka í þágu Ísraels á dögum Móse?
7 Þetta tilkomumikla verk Jehóva Guðs á sér fyrirmynd í máttarverki sem hann vann í þágu tilbiðjenda sinna um 1500 árum fyrir okkar tímatal. Herveldið mikla, Egyptaland, hafði hneppt aðflutt vinnuafl sitt, Ísraelsmenn, í þrælkun og jafnvel reynt að fremja þjóðarmorð þegar valdhafinn, Faraó, fyrirskipaði að öll nýfædd sveinbörn Ísraelsmanna skyldu drepin. Sigur Guðs yfir Egyptum veitti Ísrael frelsi undan þessu grimma og þjakandi stjórnmálakerfi, já, frelsi undan þjóð sem var andlega menguð af tilbeiðslu margra guða.
8, 9. Hvernig brugðust Móse og Ísraelsmenn við íhlutun Guðs?
8 Fimmtándi kafli 2. Mósebókar greinir frá viðbrögðum Ísraels við frelsuninni frá Egyptalandi. Ef við brjótum þessa frásögu til mergjar skiljum við betur hvernig hægt er að frelsa kristna menn frá hinu andlega og efnislega mengaða heimskerfi okkar tíma. Athugum 15. kafla 2. Mósebókar og skoðum sérstaklega nokkur valin vers til að sjá hvers vegna við ættum að kjósa að óttast Jehóva, hinn sanna Guð. Byrjum á versi 1 og 2:
9 „Þá söng Móse og Ísraelsmenn [Jehóva] þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja [Jehóva], því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið. [Jah] er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði.“
10. Hver var aðdragandi þess að Guð eyddi her Egypta?
10 Sagan af því hvernig Jehóva frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi er þekkt um heim allan. Hann lét plágur koma yfir þetta volduga heimsveldi uns Faraó leyfði Ísraelsmönnum loks að fara. En þá elti her Faraós varnarlaust fólkið og virtist hafa króað það af á strönd Rauðahafsins. Ísraelsmenn virtust vera að missa nýfengið frelsi sitt en Jehóva hafði annað í huga. Með kraftaverki opnaði hann braut gegnum hafið og leiddi þjóð sína óhulta yfir um. Þegar Egyptar eltu lét hann Rauðahafið steypast yfir þá og drekkti Faraó og hersveitum hans. — 2. Mósebók 14:1-31.
11. Hvaða afleiðingar höfðu aðgerðir Guðs gegn Egyptum?
11 Eyðing hersveita Egypta upphóf Jehóva í augum dýrkenda sinna og gerði nafn hans víðkunnugt. (Jósúabók 2:9, 10; 4:23, 24) Já, nafn hans var upphafið yfir alla hina máttlausu falsguði Egypta sem reyndust ófærir um að bjarga dýrkendum sínum. Traust Egypta á guðdómum sínum, dauðlegum mönnum og hernaðarmætti varð þeim til sárra vonbrigða. (Sálmur 146:3) Það er engin furða að Ísraelsmenn skyldu finna sig tilknúna að syngja lofsöng sem endurómaði heilbrigðan ótta þeirra við hinn lifandi Guð sem frelsar fólk sitt máttugri hendi!
12, 13. Hvað ættum við að læra af sigri Guðs við Rauðahafið?
12 Á sama hátt ættum við að gera okkur grein fyrir því að engir falsguðir okkar tíma og ekkert risaveldi, jafnvel búið kjarnavopnum, á nokkurn möguleika gegn mætti Jehóva. Hann getur og mun frelsa fólk sitt. „Hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ‚Hvað gjörir þú?‘“ (Daníel 4:35) Þegar við skiljum þessi orð til fulls finnum við okkur líka knúin til að syngja honum glaðlega lof.
13 Sigursöngurinn við Rauðahafið heldur áfram: „[Jehóva] er stríðshetja, [Jehóva] er hans nafn.“ Þessi ósigrandi stríðskappi er því ekki einhver nafnlaus ímyndun mannsins. Hann hefur nafn! Hann er ‚sá sem lætur verða,‘ hinn mikli skapari sem „heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (2. Mósebók 3:14; 15:3-5; Sálmur 83:19) Ertu ekki sammála því að það hefði verið viturlegt af þessum Egyptum til forna að virða og óttast hinn alvalda í stað þess að bjóða honum byrginn?
14. Hvernig sýndi það sig við Rauðahafið að guðsótti er mikils virði?
14 Sem hönnuður jarðarinnar hefur skapari sjávarins fulla stjórn á öllum hafsjó hennar. (2. Mósebók 15:8) Hann stjórnaði líka vindinum til að gera það sem virtist ógerlegt. Hann klauf sjávardjúpið á vissum stað og ýtti sjónum frá í gagnstæðar áttir til að búa til gangveg handa fólki sínu með vatnsveggjum á báðar hliðar! Sjáðu þetta fyrir þér: Milljónir tonna af sjó hlaðast upp í háa, samsíða veggi og mynda verndaða undankomuleið handa Ísrael. Já, þeir hlutu vernd Guðs sem stóð heilnæmur ótti af honum. Síðan sleppti Jehóva sjónum lausum og leyfði honum að steypast yfir hersveitir Faraós og allan herbúnað þeirra. Hvílík sýning á mætti Guðs yfir einskis verðum guðum og hernaðarmætti manna! Mönnum ber svo sannarlega að óttast Jehóva, er það ekki? — 2. Mósebók 14:21, 22, 28; 15:8.
Sýnum í verki að við óttumst Guð
15. Hvernig ættum við að bregðast við máttugum björgunarverkum Guðs?
15 Hefðum við staðið óhult með Móse hefðum við áreiðanlega fundið hjá okkur hvöt til að syngja: „Hver er sem þú, [Jehóva], meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?“ (2. Mósebók 15:11) Slíkar tilfinningar hafa endurómað um allar aldir sem síðan eru liðnar. Í síðustu bók Biblíunnar lýsir Jóhannes postuli hópi trúfastra, smurðra þjóna Guðs: „Þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins.“ Hver er þessi mikli söngur? „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur.“ — Opinberunarbókin 15:2-4.
16, 17. Hvaða stórkostlega framvindu sjáum við nú á tímum?
16 Nú á dögum eru þess vegna líka til frelsaðir guðsdýrkendur sem kunna að meta bæði handaverk Guðs og tilskipanir. Fólk af öllum þjóðum hefur verið frelsað andlega, aðgreint frá þessum mengaða heimi vegna þess að það viðurkennir réttlátar tilskipanir Guðs og fer eftir þeim. Árlega sleppa hundruð þúsundir manna frá þessum spillta heimi til að búa í hreinu, heiðvirðu skipulagi dýrkenda Jehóva. Bráðlega, eftir að brennandi dómi Guðs hefur verið fullnægt á falstrúarbrögðunum og þessu illa heimskerfi í heild, fá þeir eilíft líf í réttlátum nýjum heimi.
17 Í samræmi við Opinberunarbókina 14:6, 7 heyrir mannkynið votta Jehóva boða dómsviðvörun undir leiðsögn engla. Árið 1995 boðuðu yfir 5 milljónir votta fagnaðarerindið um Guðsríki og komandi dómsstund hans í meira en 230 löndum. Til að fræða aðra menn til björgunar heimsóttu vottarnir fólk reglulega og hjálpuðu því endurgjaldslaust að kynnast Biblíunni. Þannig læra hundruð þúsundir manna á hverju ári nóg til að óttast hinn sanna Guð af skynsemd, vígja honum líf sitt og láta skírast. Það gleður okkur mjög að þeir skuli hafa slegist í lið með okkur í því að óttast hinn sanna Guð! — Lúkas 1:49-51; Postulasagan 9:31; samanber Hebreabréfið 11:7.
18. Hvað sýnir að englarnir taka þátt í prédikunarstarfi okkar?
18 Taka englar þátt í þessu prédikunarstarfi? Já, það er nokkuð ljóst að englar hafa oft leitt votta Jehóva heim til þjakaðra mæddra manna sem þráðu eða jafnvel báðu til Guðs um andlega hjálp! Til dæmis voru tveir vottar Jehóva ásamt litlum dreng að útbreiða fagnaðarerindið á eyju í Karíbahafi. Um hádegisbil ákváðu konurnar tvær að nóg væri gert þann daginn. En drengurinn var óvenjuákáfur að fara í næsta hús. Þegar hann sá að fullorðna fólkið langaði alls ekki til þess fór hann sjálfur að næsta húsi og bankaði. Ung kona kom til dyra. Þegar konurnar tvær sáu það fóru þær til hennar og töluðu við hana. Hún bauð þeim inn og sagði þeim að þegar hún heyrði bankað hefði hún verið að biðja til Guðs að senda vottana til sín til að kenna sér Biblíuna. Gerðar voru ráðstafanir til að hefja biblíunám.
19. Hvaða gagn af því að óttast Guð getum við bent á?
19 Þegar við flytjum dómsboðskap Guðs með trúfesti kennum við líka réttlátar tilskipanir hans. Fólk hefur bæði líkamlega og andlega blessun af því að fara eftir þeim. Biblían er til dæmis mjög afdráttarlaus þegar hún fordæmir hvers konar kynferðislegt siðleysi. (Rómverjabréfið 1:26, 27, 32) Heimurinn nú á dögum hunsar almennt staðla Guðs. Hver er afleiðingin? Hjónabönd leysast upp. Barna- og unglingaafbrot fara vaxandi. Bæklandi samræðissjúkdómar, sem eru orðnir að farsótt núna á 20. öldinni, breiðast út. Hið ógnvekjandi alnæmi breiðist að miklu leyti út vegna kynferðislegs siðleysis. En hefur ekki virðing fyrir Guði og ótti við hann reynst sönnum tilbiðjendum hans mikil vernd? — 2. Korintubréf 7:1; Filippíbréfið 2:12; sjá einnig Postulasöguna 15:28, 29.
Afleiðingin af því að óttast Guð núna
20. Hvað sýnir að öðrum er kunnugt um það orð sem fer af vottum Jehóva?
20 Blessun þeirra sem óttast Guð og fylgja tilskipunum hans er ríkuleg. Líttu á atvik sem sýnir að menn eru í vaxandi mæli að viðurkenna votta Jehóva sem lifandi dæmi um friðsamt bræðralag heiðvirðra kristinna manna. Hópur votta, sem voru gestir á alþjóðamóti í Suður-Ameríku, gisti á hóteli nokkru. Kvöld eitt var haldinn fundur þar fyrir annan hóp manna sem forseti landsins átti að ávarpa. Þegar öryggisverðir fylgdu forsetanum í flýti inn í lyftu á leið til fundarins, smeygði vottur, sem vissi ekki hverjir voru í lyftunni, sér inn um dyrnar — öryggisvörðunum til mikillar undrunar! Þegar votturinn, sem var kona, áttaði sig á hvað hún hafði gert, afsakaði hún sig fyrir átroðninginn. Hún sýndi mótsmerkið til að staðfesta að hún væri vottur og sagði að forsetanum stafaði engin hætta af sér. Einn af öryggisvörðurinn brosti og sagði: „Ef allir væru eins og vottar Jehóva þyrftum við ekki svona öryggisgæslu.“ — Jesaja 2:2-4.
21. Hvaða valkosti eiga menn nú á tímum?
21 Það er svona fólk sem Jehóva er að safna saman núna og búa undir að ‚komast úr þrengingunni miklu‘ er bindur enda á þetta heimskerfi. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14) Slík björgun verður ekki tilviljun háð. Til að bjargast er nauðsynlegt að óttast Jehóva, viðurkenna hann sem réttmætan alvald og vígjast honum. Sannleikurinn er hins vegar sá að fæstir munu rækta með sér slíkan ótta að þeir verðskuldi vernd. (Sálmur 2:1-6) Samkvæmt öllum fyrirliggjandi gögnum hefur útvalinn valdhafi Jehóva, Jesús Kristur, gegnt embætti sem konungur frá tímamótaárinu 1914. Það merkir að tíminn, sem eftir er til að þroska með sér og sýna heilnæman ótta við Jehóva, er óðfluga að renna út. En skapari okkar leyfir mönnum, jafnvel hátt settum, að bregðast rétt við hvatningunni: „Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu. Þjónið [Jehóva] með ótta og fagnið með lotningu. Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu, því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.“ — Sálmur 2:7-13.
22. Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þá sem óttast Guð núna?
22 Megum við vera meðal þeirra sem lofa skaparann fyrir að bjarga okkur. En til þess þurfum við að óttast hinn sanna Guð núna! (Samanber Sálm 2:11; Hebreabréfið 12:28; 1. Pétursbréf 1:17.) Við verðum að halda áfram að læra réttlátar tilskipanir hans og hlýða þeim. Söngur Móse og lambsins, sem er að finna í Opinberunarbókinni 15:3, 4, nær fullum styrk þegar Jehóva afmáir alla illsku af jörðinni og byrjar að lækna manninn og heimili hans, jörðina, af mengandi áhrifum syndarinnar. Þá munum við syngja af öllu hjarta: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt?“
Manstu?
◻ Af hverju verðskuldar Jehóva heilbrigðan ótta okkar?
◻ Hvað sýndu afrek Guðs við Rauðahafið?
◻ Hvaða gagn höfum við af því að óttast og virða Jehóva?
◻ Hvaða framtíð bíður þeirra sem óttast hinn sanna Guð núna?