„Hús Davíðs“ — Sannsögulegt eða skáldskapur?
DAVÍÐ — ungi fjárhirðirinn sem varð tónlistarmaður, ljóðskáld, hermaður, spámaður og konungur — er mjög áberandi í Biblíunni. Nafn hans er nefnt 1138 sinnum; orðin ‚hús Davíðs‘ — oft notuð um konungsætt Davíðs — koma 25 sinnum fyrir. (1. Samúelsbók 20:16) Voru Davíð konungur og ætt hans aðeins skáldskapur? Hvað segir fornleifafræðin? Markverður fundur, sem átti sér stað við fornleifauppgröft í Tel Dan í Norður-Galíleu nýverið, er sagður styðja tilvist Davíðs og konungsættar hans.
Sumarið 1993 hreinsaði hópur fornleifafræðinga undir stjórn prófessors Avrahams Birans svæði utan við ytra hliðið í hinni fornu Dan. Hellulagt torg kom í ljós. Svartur basaltsteinn, sem stóð upp úr jörðinni, losnaði auðveldlega. Þegar steininum var snúið lýsti síðdegissólin stafina upp. „Guð minn góður, það er áletrun á honum!“ hrópaði prófessor Biran.
Prófessor Biran og starfsbróðir hans, prófessor Joseph Naveh við Hebreska háskólann í Jerúsalem, sömdu þegar í stað skýrslu um áletrunina. Tímaritið Biblical Archaeology Review frá mars/apríl 1994 segir um skýrsluna: „Það er ekki oft sem fornleifafundur kemst á forsíðu dagblaðsins New York Times (að ekki sé nú minnst á tímaritið Time). En það gerðist síðastliðið sumar vegna fundar í Tel Dan sem er fallegur haugur í Norður-Galíleu við rætur Hermonfjalls, rétt við ein af upptökum Jórdanar.
Þar fundu Avraham Biran og vinnuhópur hans merkilega áletrun frá níundu öld f.o.t. sem minnist bæði á ‚hús Davíðs‘ og ‚konung Ísraels.‘ Þetta er í fyrsta sinn sem nafnið Davíð finnst í fornri áletrun utan Biblíunnar. Enn merkilegra er að áletrunin skuli ekki aðeins nefna ‚Davíð‘ heldur hús Davíðs, konungsætt hins mikla Ísraelskonungs.
Orðin ‚konungur Ísraels‘ koma oft fyrir í Biblíunni, einkum í Konungabókunum. En þetta kann að vera elsta tilvísun til Ísraels utan Biblíunnar, skrifuð með semísku letri. Ef þessi áletrun sannar eitthvað sýnir hún fram á að bæði Ísrael og Júda voru mikilvæg ríki á þeim tíma, hvað sem sumir biblíugagnrýnendur segja.“
Aldursgreiningin er byggð á leturgerðinni, rannsóknum á leirmunum sem fundust nálægt steinbrotinu og á efni áletrunarinnar. Allar aðferðirnar þrjár benda á sama tímabil, níundu öld f.o.t., eitthvað ríflega hundrað árum eftir daga Davíðs konungs. Fræðimenn telja að áletrunin sé hluti af sigurminnismerki sem arameískur óvinur bæði „konungs Ísraels“ og „[konungsins af] húsi Davíðs“ hafi reist. Aramear bjuggu í austri og tilbáðu vinsælan stormguð sem kallaðist Hadad.
Sumarið 1994 fundust tvö önnur brot úr þessum minnisvarða. Prófessor Biran segir: „Á þessum tveim brotum stendur nafn arameíska guðsins Hadads og eins er vísað til bardaga milli Ísraelsmanna og Aramea.“
Á stærsta brotinu, sem fannst árið 1993, mátti greina hluta af 13 línum með fornhebresku letri. Á þeim tíma voru notaðir punktar til að marka orðaskil í texta. En „hús Davíðs“ er skrifað í einu orði með stöfunum „bytdvd“ (umritað á rómverskt letur) en ekki „byt“ (hús), punktur og svo „dvd“ (Davíðs). Eins og skiljanlegt er hafa ýmsar spurningar vaknað um túlkun orðsins „bytdvd.“
Prófessor Anson Rainey, sem er málvísindamaður, segir: „Joseph Naveh og Avraham Biran útskýrðu áletrunina ekki í smáatriðum, kannski vegna þess að þeir töldu víst að lesendur vissu að orðaskiptimerki er oft sleppt milli orða í slíkri samsetningu, einkum ef samsetningin er þekkt sérnafn. ‚Hús Davíðs‘ var vissulega slíkt pólitískt og landfræðilegt sérnafn um miðbik níundu aldar f.o.t.“
Annar vitnisburður fornleifafræðinnar
Eftir þennan fund skýrði prófessor André Lemaire, sem er sérfróður um Mesa-minnisvarðann (einnig kallaður Móabítasteinninn), frá því að þar sé einnig minnst á „hús Davíðs.“a Mesa-minnisvarðinn fannst árið 1868 og á margt sameiginlegt með Tel Dan minnisvarðanum. Báðir eru frá níundu öld f.o.t., gerðir úr sama efni, eru álíka stórir og áletraðir með nánast sams konar semísku letri.
Prófessor Lemaire segir um endurgerð skemmdrar línu á Mesa-minnisvarðanum: „Ég komst að þeirri niðurstöðu næstum tveim árum áður en Tel Dan brotið fannst, að minnst væri á ‚hús Davíðs‘ á Mesa-minnisvarðanum. . . . Ástæðan fyrir því að þessi tilvísun til ‚húss Davíðs‘ hefur aldrei fyrr vakið athygli kann að vera sú að aldrei hefur verið til editio princeps [fyrsta útgáfa] af þýðingu áletrunarinnar á Mesa-minnisvarðanum. Ég er nú að vinna að henni 125 árum eftir að Mesa-minnisvarðinn fannst.“
Slíkar uppgötvanir fornleifafræðinnar eru áhugaverðar af því að engill, Jesús sjálfur, lærisveinar hans og almenningur bar vitni um að Davíð væri sannsöguleg persóna. (Matteus 1:1; 12:3; 21:9; Lúkas 1:32; Postulasagan 2:29) Fornleifafundir styðja greinilega að hann og konungsætt hans, „hús Davíðs,“ sé sannsöguleg, ekki skáldskapur.
[Neðanmáls]
a Þeir sem lesa rit Varðturnsfélagsins þekkja til Mesa-minnisvarðans. (Sjá Varðturninn, enska útgáfu, 15. apríl 1990, bls. 30-1.) Hann er til sýnis í Louvre-safninuni í París.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Tel Dan brotið* sem fannst árið 1993 við borgina Dan í Norður-Galíleu.
* Teikning byggð á ljósmynd sem birtist í tímaritinu Israel Exploration Journal.