Af hverju ættum við öll að lofa Guð?
HALLELÚJA! Langflest sóknarbörn kristna heimsins þekkja þetta orð. Sum þeirra hrópa það upp við sunnudagsguðsþjónustur. En hversu margir vita hvað orðið raunverulega merkir? Þetta er raunar hebreskt orð sem merkir „lofið Jah!“ Þetta er glaðleg, ómfögur lofgerð um skaparann sem heitir Jehóva.a
Orðið „Hallelúja“ stendur mörgum sinnum í Biblíunni. Hvers vegna? Vegna þess að það eru svo margar ástæður til að lofa Guð. Jah (Jehóva) er skaparinn og það er hann sem viðheldur hinum víðáttumikla alheimi. (Sálmur 147:4, 5; 148:3-6) Hann setti í gang þau vistkerfi sem gera jarðlífið mögulegt. (Sálmur 147:8, 9; 148:7-10) Og hann hefur sérstakan áhuga á mannkyninu. Ef við gerum vilja hans blessar hann okkur og styður í þessu lífi og býður okkur örugga von um enn betra líf í framtíðinni. (Sálmur 148:11-14) Það er Jah (Jehóva) sem innblés orðin: „Hinir réttlátu fá landið [„jörðina,“ NW] til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
Þess vegna er hvatningunni beint til allra: „Hallelúja“ „Lofið Jah, þið lýðir!“ (Sálmur 104:35, Biblían 1981, NW) En því miður langar ekki alla til að taka undir. Fólk þjáist. Fjölmargir eru hungraðir, sjúkir eða kúgaðir. Margir eiga um sárt að binda vegna fíkniefnaneyslu, drykkjuskapar, eigin siðleysis eða uppreisnar. Er einhver ástæða fyrir slíkt fólk til að lofa Guð?
‚Aðeins Jehóva gat veitt mér von‘
Já, það er ástæða til. Jehóva býður öllum undantekningarlaust að kynnast sér, læra að gera vilja sinn, og njóta þeirrar blessunar sem vekur löngun með fólki til að lofa hann. Og margir þiggja boðið. Tökum Adriönu í Gvatemala sem dæmi. Hún missti móður sína sjö ára gömul. Skömmu síðar fór faðir hennar að heiman. Hún fór að vinna fyrir sér tíu ára að aldri. Móðir Adriönu hafði sagt henni að þjóna Guði og kirkjunni, þannig að hún umgekkst ýmsa kaþólska hópa, en þegar hún var 12 ára var hún orðin þeim fráhverf og gekk til liðs við götuklíku. Hún fór að reykja, neyta fíkniefna og stela. Af hverju ætti ung stúlka eins og hún að vilja lofa Guð?
Systir Adriönu fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva en Adriana hló að henni. Svo dó frænka þeirra. Við jarðarför hennar sóttu áleitnar spurningar á Adriönu. Hvar var frænka hennar niðurkomin? Var hún á himnum? Fór hún í logandi víti? Ráðvillt gekk Adriana inn í útfararkapelluna til að biðja um hjálp, og hún notaði nafn Guðs, Jehóva, eins og systir hennar hafði kennt henni.
Innan skamms var hún byrjuð að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og sækja kristnar samkomur þeirra. Við það opnaðist henni algerlega ný lífssýn og hugrökk sleit hún tengslin við götuklíkurnar. Adriana, sem er hálfþrítug núna, segir: „Það var bara kærleikurinn til Jehóva sem kom mér til að snúa baki við svona slæmu líferni. Aðeins Jehóva gat af mikilli miskunn sinni veitt mér von um eilíft líf.“ Þrátt fyrir erfið uppvaxtarár hefur Adriana ærna ástæðu til að lofa Guð.
Lítum á enn óglæsilegri aðstæður. Maður í Úkraínu situr í fangelsi og bíður aftöku. Er hann sokkinn niður í sjálfsvorkunn? Þunglyndi? Nei, þvert á móti. Þegar vottar Jehóva höfðu samband við hann fyrir skömmu og hann hafði aflað sér nokkurrar þekkingar á Jehóva bað hann þá að heimsækja móður sína. Núna skrifar hann þeim af því að hann hefur frétt að þeir hafi gert eins og hann bað um. Hann segir: „Þakka ykkur fyrir að heimsækja móður mína. Það voru ánægjulegustu fréttir sem ég fékk á síðasta ári.“
Hann segir um sjálfan sig og klefafélaga sína sem hann hefur borið vitni fyrir: „Núna trúum við á Guð og reynum að hegða okkur samkvæmt trú okkar.“ Hann lýkur bréfinu svona: „Þakka ykkur fyrir að hjálpa okkur að skilja hvað kærleikur er og eignast trú. Ef ég lifi ætla ég að hjálpa ykkur líka. Guði sé lof að þið skuluð vera til og skuluð hjálpa öðrum að elska Guð og trúa á hann.“ Maðurinn hefur áfrýjað dauðadómnum. En hvort sem hann verður tekinn af lífi eða á eftir að sitja áralangt í fangelsi hefur hann greinilega ástæðu til að lofa Guð.
‚Þótt ég sé blind þá sé ég‘
Hugsum okkur nú fjörlega unglingsstúlku sem missir skyndilega sjónina. Þannig fór fyrir Gloriu sem býr í Argentínu. Hún varð skyndilega blind 19 ára gömul og hefur ekki fengið sjónina aftur. Tuttugu og níu ára gerðist hún hjákona manns nokkurs og varð fljótt ófrísk. Núna fannst henni lífið hafa gildi. En þegar hún missti barnið tóku spurningar að leita á hana: ‚Hvers vegna verð ég fyrir þessu? Hvað hef ég gert? Er Guð raunverulega til?‘
Þegar hér var komið sögu bönkuðu tveir vottar Jehóva hjá henni. Hún fór að kynna sér Biblíuna og komst að raun um að hún lofar því að í nýja heiminum fái blindir aftur sjón. (Jesaja 35:5) Þetta voru stórkostlegar framtíðarhorfur fyrir Gloriu! Hún var mjög hamingjusöm, einkum þegar sambýlismaður hennar féllst á að löggilda sambúðina. En þá varð maðurinn hennar fyrir slysi og var eftir það bundinn við hjólastól sem öryrki. Núna þarf þessi blinda kona að vinna hörðum höndum til að láta enda ná saman. Að auki vinnur hún öll húsverkin og þjónar persónulegum þörfum eiginmanns síns. Samt lofar Gloria Jehóva! Með hjálp kristinna bræðra og systra rannsakar hún Biblíuna á blindraletri, og kristnar samkomur í ríkissalnum eru henni til mikillar uppörvunar. Hún segir: „Það er erfitt að útskýra það, en þótt ég sé blind er eins og ég sjái.“
Stundum er fólk ofsótt fyrir það að lofa Guð. Kona í Króatíu var mjög ánægð þegar hún kynntist Guði, en maðurinn hennar var andsnúinn nýfundinni trú hennar, rak hana á dyr og hélt eins árs dóttur þeirra. Hún var í fyrstu niðurbrotin þar sem hún var á götunni, yfirgefin af eiginmanni sínum, án heimilis, vinnu og barns. En kærleikur hennar til Guðs hélt henni uppi enda þótt hún hafi aðeins getað haft takmarkað samband við dóttur sína uns hún óx úr grasi. Þessi kona hafði fundið ‚dýrmætu perluna‘ og vildi ekki sleppa henni. (Matteus 13:45, 46) Hvernig hélt hún gleði sinni gegnum þessa erfiðleika? Hún svarar: „Gleði er ávöxtur anda Guðs. Það er hægt að rækta hann óháð ytri aðstæðum, alveg eins og hægt er að rækta jurtir í gróðurhúsi óháð veðri utandyra.“
Markus, sem er finnskur, greindist með ólæknandi vöðvasjúkdóm þegar hann var sex ára. Áður en langt um leið var hann kominn í hjólastól. Nokkrum árum síðar fór móðir hans með hann til hvítasunnumanns sem hafði vakið mikla athygli fyrir það að hann kvaðst geta læknað sjúka. En engin kraftaverkalækning átti sér stað. Markus missti því allan áhuga á Guði og lagði stund á vísindanám og önnur veraldleg fræði. En fyrir á að giska fimm árum kom kona í hjólastól ásamt ungum manni að húsinu þar sem Markus bjó. Þau voru vottar Jehóva. Markus var guðleysingi núna en hann hafði ekkert á móti því að ræða um trúmál svo að hann bauð þeim inn.
Síðar komu hjón í heimsókn til hans og biblíunám var hafið. Smám saman breytti máttur Biblíunnar viðhorfum Markusar og hann gerði sér ljóst að þrátt fyrir fötlun sína hefði hann ástæðu til að lofa Guð. Hann segir: „Ég er mjög ánægður að ég skuli hafa fundið sannleikann og skipulagið sem Jehóva notar. Núna hefur líf mitt stefnu og tilgang. Annar týndur sauður er fundinn og vill ekki yfirgefa hjörð Jehóva!“ — Samanber Matteus 10:6.
Allir skulu ‚lofa Jah‘
Þetta eru aðeins fáein dæmi af ótalmörgum sem segja mætti frá, en þau sýna að fólk nú á tímum getur haft ástæðu til að lofa Guð óháð aðstæðum. Páll postuli útskýrði það þannig: „Guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Ef við gerum vilja Guðs efnir hann ‚fyrirheitið fyrir þetta líf.‘ Í þessu heimskerfi læknar hann auðvitað ekki sjúka eða gerir fátæka ríka. En hann gefur anda sinn þeim sem þjóna honum þannig að þeir njóti gleði og lífsfyllingar óháð aðstæðum. Já, jafnvel í ‚þessu lífi‘ geta sjúkir, undirokaðir og fátækir haft ástæðu til að lofa Guð.
En hvað um ‚hið komandi‘ líf? Aðeins tilhugsunin um það ætti að fá okkur til að lofa Guð með miklum eldmóði! Það er hrífandi að hugsa um þann tíma þegar fátækt verður óþekkt, þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur,‘“ og þegar Jehóva Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:3, 4; Sálmur 72:16) Hvernig líturðu á þessi fyrirheit Guðs?
Ungur maður í El Salvador þáði biblíusmárit sem fjallaði um sumt af þessu. Hann sagði vottinum sem gaf honum það: „Kona, það sem stendur í þessu riti er bara of gott til að geta verið satt.“ Þannig eru viðbrögð margra. En þetta eru fyrirheit hans sem skapaði alheiminn og setti náttúruhringrásir jarðarinnar af stað, og það er hann sem hjálpar jafnvel fátækum og sjúkum að vera glaðir. Við getum trúað því sem hann segir. Ungi maðurinn, sem minnst var á hér á undan, kynnti sér Biblíuna með vottum Jehóva og komst að raun um það. Við hvetjum þig til að gera það líka ef þú ert ekki að því nú þegar. Megir þú þá vera á sjónarsviðinu þegar núverandi heimskerfi er horfið og öll sköpunin hrópar einum munni: „Hallelúja“ „Lofið Jah, þið lýðir!“ — Sálmur 112:1; 135:1, Biblían 1981, NW.
[Neðanmáls]
a Í Biblíunni er nafnið „Jehóva“ stundum stytt í „Jah.“
[Mynd á blaðsíðu 5]
Megir þú vera á sjónarsviðinu þegar öll sköpunin hrópar einum munni: „Hallelúja.“