Hjálpaðu öðrum að kynnast kröfum Guðs
„Skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ — 1. KORINTUBRÉF 9:16.
1, 2. (a) Hvaða tvíþættu starfi krefst Jehóva að við tökum þátt í? (b) Hvað verða hjartahreinir menn að læra til að verða þegnar Guðsríkis?
JEHÓVA hefur góðar fréttir að færa mannkyni. Hann hefur sett á stofn ríki og vill að fólk hvarvetna heyri um það. Þegar við höfum kynnst þessu fagnaðarerindi ætlast Guð til að við segjum öðrum frá því. Starfið er tvíþætt. Í fyrsta lagi verðum við að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Jesús sagði í spádómi sínum um ‚endalok veraldar‘: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:3, 14.
2 Hinn þáttur þessa starfs er fólginn í því að kenna þeim sem taka vel á móti boðskap Guðsríkis. Eftir upprisu sína sagði Jesús fjölmennum lærisveinahópi: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) ‚Það sem Kristur hefur boðið‘ er ekki frá honum sjálfum komið, heldur kenndi hann öðrum að halda boðorð eða kröfur Guðs. (Jóhannes 14:23, 24; 15:10) Að kenna öðrum að ‚halda það sem Kristur hefur boðið‘ felur því í sér að kenna þeim kröfur Guðs. Hjartahreint fólk þarf að uppfylla kröfur Guðs til að verða þegnar ríkis hans.
3. Hvað er Guðsríki og hverju kemur það til leiðar sem gerir boðskapinn um það að slíku fagnaðarerindi?
3 Hvað er ríki Guðs og hverju kemur það til leiðar sem gerir boðskapinn um það að slíku fagnaðarerindi? Ríki Guðs er himnesk stjórn. Það er Jehóva mjög hjartfólgið vegna þess að með því helgar hann nafn sitt og hreinsar af öllu ámæli. Guðsríki er verkfærið sem Jehóva notar til að láta gera vilja sinn á jörð eins og á himni. Þess vegna kenndi Jesús okkur að biðja um komu Guðsríkis og hvatti okkur til að setja það fremst í lífi okkar. (Matteus 6:9, 10, 33) Skilurðu hvers vegna það er svona þýðingarmikið fyrir Jehóva að við segjum öðrum frá ríki hans?
Áskorun en ekki byrði
4. Hvernig má sýna fram á að sú skylda okkar að prédika fagnaðarerindið er engin byrði?
4 Er það byrði að prédika þetta fagnaðarerindi? Alls ekki. Skýrum það með dæmi: Föður er skylt að sjá fjölskyldu sinni farborða. Geri hann það ekki jafngildir það því að hafna kristinni trú. Páll postuli skrifaði: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) En er þessi skyldukvöð byrði fyrir kristinn mann? Ekki ef hann elskar fjölskyldu sína því að þá langar hann til að sjá fyrir henni.
5. Hvers vegna ættum við að njóta þess að prédika og gera menn að lærisveinum, enda þótt það sé raunar skyldukvöð að taka þátt í því?
5 Á sama hátt er það skylda okkar að prédika og gera menn að lærisveinum, krafa sem við eigum líf okkar undir. Páll orðaði það þannig: „Skyldukvöð hvílir á mér. Vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ (1. Korintubréf 9:16; samanber Esekíel 33:7-9.) En hvöt okkar til að prédika er kærleikur, ekki bara skyldutilfinning. Fyrst og fremst elskum við Guð, en við elskum líka náunga okkar og vitum hve mikilvægt það er fyrir þá að heyra fagnaðarerindið. (Matteus 22:37-39) Það veitir þeim framtíðarvon. Guðsríki ræður bráðlega bót á öllu óréttlæti, stöðvar alla kúgun og kemur á friði og einingu — sem allt er til eilífrar blessunar fyrir þá sem lúta réttlátri stjórn þess. Erum við ekki glöð, já, himinlifandi að geta sagt öðrum slík fagnaðartíðindi? — Sálmur 110:3.
6. Hvers vegna er ekki hlaupið að því að prédika og gera menn að lærisveinum?
6 En það er ekki hlaupið að því að prédika og gera menn að lærisveinum. Menn eru ólíkir og áhugamál og hæfni misjöfn. Sumir eru vel menntaðir en aðrir hafa litla menntun hlotið. Áður var lestur ein helsta dægrastytting manna en nú líta margir á lestur sem leiðindaverk. Margir hafa harla lítinn áhuga á lestri þótt þeir séu læsir, og það er vaxandi vandamál jafnvel í þeim löndum þar sem læsi á að vera með mesta móti. Hvernig getum við þá hjálpað fólki með svona ólík áhugamál og uppruna að kynnast kröfum Guðs? — Samanber 1. Korintubréf 9:20-23.
Vel útbúin til að hjálpa öðrum
7. Hvernig hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ búið okkur út til að hjálpa öðrum að kynnast kröfum Guðs?
7 Rétt verkfæri auðveldar okkur að vinna erfitt og vandasamt verk. Vel valið verkfæri hentar kannski vel til ákveðins verks núna, en á morgun þarf að breyta því eða verða sér úti um nýtt þegar þarfirnar breytast. Eins er það með boðun fagnaðarerindisins. Með árunum hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ látið okkur í té nákvæmlega réttu verkfærin, það er að segja rit sem hafa verið sérstaklega gerð til heimabiblíunáms. (Matteus 24:45) Þannig höfum við verið útbúin til að hjálpa fólki af öllum „kynkvíslum og lýðum og tungum“ að kynnast kröfum Guðs. (Opinberunarbókin 7:9) Af og til hafa ný verkfæri verið látin í té til að koma til móts við breyttar þarfir á heimsakrinum. Tökum fáein dæmi.
8. (a) Hvaða hlutverki gegndi bókin „Guð skal reynast sannorður“ í biblíufræðslunni? (b) Hvaða biblíunámsrit var látið í té árið 1968 og í hvaða tilgangi? (c) Hvernig reyndist Sannleiksbókin til að gera menn að lærisveinum?
8 Frá 1946 til 1968 var bókin „Guð skal reynast sannorður“ notuð sem öflugt biblíukennslugagn, og um 19.250.000 eintök voru prentuð á 54 tungumálum. Bókin Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs kom út árið 1968 og var notuð um árabil sem áhrifaríkt hjálpargagn til að fræða áhugasama um Biblíuna. Áður var algengt að fólk væri í námi hjá vottum Jehóva ár eftir ár án þess að láta skírast. En þetta námsrit var til þess gert að ýta við nemandanum og hvetja hann til að fara eftir því sem hann lærði. Og árangurinn? Bókin Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs segir: „Á þrem þjónustuárum frá 1. september 1968 til 31. ágúst 1971 létu alls 434.906 skírast — meira en helmingi fleiri en síðustu þrjú þjónustuár þar á undan!“ Sannleiksbókin náði ótrúlegri útbreiðslu — meira en 107.000.000 eintaka á 117 tungumálum.
9. Hvað einkennir Lifað að eilífu bókina og hvaða áhrif hafði hún á boðberafjölda Guðsríkis?
9 Árið 1982 varð bókin Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð aðalkennslubókin við biblíunám. Bókin er prýdd meira en 150 myndum ásamt vel orðuðum myndatextum sem koma hnitmiðað til skila því sem myndin á að kenna. Í október 1982 sagði Ríkisþjónusta okkar (ensk útgáfa): „Á þeim tveim áratugum, sem bókin ‚Guð skal reynast sannorður‘ var aðalnámsbók okkar (frá 1946 fram á miðjan sjöunda áratuginn), bættist meira en 1.000.000 nýrra boðbera Guðsríkis við í hópinn. Síðan bættist önnur milljón boðbera við þegar bókin Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs varð aðalnámsbók okkar eftir að hún kom út árið 1968. Eigum við eftir að sjá boðberum Guðsríkis fjölga jafnmikið með hjálp nýju námsbókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð? Svo sannarlega, ef það er vilji Jehóva.“ Ljóst er að það var vilji Jehóva því að meira en 2.700.000 bættust í boðberahóp Guðsríkis frá 1982 til 1995!
10. Hvaða nýtt verkfæri var látið í té árið 1995 og hvers vegna ætti það að gera biblíunemendum kleift að taka nokkuð hröðum andlegum framförum?
10 „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir,“ sagði Jesús. (Matteus 9:37) Uppskeran er sannarlega mikil og enn er mikið starf óunnið. Í sumum löndum er fólk á biðlista til að fá biblíunámskeið. Þess vegna lét hinn „trúi og hyggni þjónn“ í té nýtt verkfæri árið 1995 til að útbreiða þekkinguna á Guði enn hraðar. Það var 192 blaðsíðna bók sem heitir Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Þetta góða námsrit er ekki langort um falskenningar. Það kemur sannleika Biblíunnar á framfæri á jákvæðan hátt. Vonandi gerir hún biblíunemendum kleift að taka nokkuð hröðum andlegum framförum. Þekkingarbókin hefur þegar haft sín áhrif á heimsakurinn því að búið er að prenta 45.500.000 eintök á 125 tungumálum og verið er að þýða hana á 21 tungumál í viðbót.
11. Hvaða áhrifaríkt verkfæri var látið í té til að hjálpa ólæsum eða treglæsum, og hvernig hefur það sett mark sitt á kennslustarf okkar um heim allan?
11 Endrum og eins hefur ‚hinn trúi þjónn‘ látið í té verkfæri ætluð sérstökum eða afmörkuðum hópi. Hvað um þá, til dæmis, sem þarfnast sérstakrar hjálpar vegna menningar- eða trúaruppruna? Hvernig getum við hjálpað þeim að kynnast kröfum Guðs? Árið 1982 fengum við slíkt verkfæri — 32 blaðsíðna bækling sem heitir Þú getur öðlast eilíft líf á jörðinni! Þessi bæklingur er ríkulega myndskreyttur og hefur reynst öflugt verkfæri til að kenna treglæsum eða ólæsum. Hann kemur undirstöðukenningum Biblíunnar á framfæri á mjög einfaldan og auðskilinn hátt. Þessi bæklingur hefur sett mark sitt á kennslustarf okkar um heim allan síðan hann kom út. Meira en 99.860.000 hafa verið prentuð á 227 tungumálum. Ekkert rit Varðturnsfélagsins hefur verið þýtt á fleiri tungumál enn sem komið er!
12, 13. (a) Hvaða nýja leið hefur ‚hinn trúi þjónn‘ farið frá árinu 1990 til að ná til margra? (b) Hvernig getum við notað myndbönd Félagsins í boðunarstarfinu? (c) Hvaða nýtt verkfæri fengum við fyrir skemmstu til að auðvelda okkur að gera menn að lærisveinum?
12 Auk þess að gefa út rit hefur ‚hinn trúi þjónn‘ séð okkur fyrir nýjum kennslugögnum frá árinu 1990. Það eru myndbönd sem eru góð leið til að ná til margra. Í október það ár kom út 55 mínútna myndband, Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu — fyrsta myndbandið sem Varðturnsfélagið hefur gefið út. Þetta fallega og fræðandi myndband er nú fáanlegt á 35 tungumálum, og það sýnir hvernig heimsskipulag vígðra þjóna Jehóva framfylgir þeim fyrirmælum Jesú að boða fagnaðarerindið um alla jörðina. Myndbandið er sérstaklega til þess gert að aðstoða okkur við að gera menn að lærisveinum. Boðberar Guðsríkis biðu ekki boðanna að nota þetta nýja kennslugagn í prédikunarstarfinu. Sumir höfðu það meðferðis í starfstöskunni, tilbúinir að sýna það áhugasömum eða lána það. Skömmu eftir að það kom út skrifaði farandumsjónarmaður: „Myndbönd eru orðin aðferð 21. aldarinnar til að ná til huga og hjartna milljóna manna, þannig að við vonum að þetta myndband verði aðeins það fyrsta af mörgum sem Félagið notar til að efla starf Guðsríkis um heim allan.“ Og fleiri myndbönd hafa verið gerð, þeirra á meðal þrískiptur flokkur undir heitinu Biblían — bók staðreynda og spádóma og Vottar Jehóva standa einarðir gegn árásum nasista. Hefur þú notfært þér þessi myndbönd eins og kostur er í boðunarstarfinu?a
13 Fyrir stuttu kom út á prenti nýtt hjálpargagn til að aðstoða okkur við að gera menn að lærisveinum, bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? Hvers vegna var það gefið út? Hvernig er hægt að nota það?
Nýja verkfærið skoðað
14, 15. Handa hverjum er bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? gerður og hvað inniheldur hann?
14 Nýi bæklingurinn, Hvers krefst Guð af okkur?, er gerður handa fólki sem trúir á Guð og virðir Biblíuna. Farandumsjónarmenn og Gíleaðtrúboðar með áralanga reynslu að baki í þróunarlöndunum aðstoðuðu við gerð þessa bæklings. Hann er gerður sem alhliða námsrit og fer yfir aðalkenningar Biblíunnar. Efnismeðferðin er hlýleg, einföld og afdráttarlaus. Efnið er þó ekki einfaldað um of. Bæklingurinn inniheldur ekki aðeins „mjólk“ heldur einnig ‚fasta fæðu‘ úr orði Guðs sem er sett fram á auðskilinn hátt. — Hebreabréfið 5:12-14.
15 Boðberar Guðsríkis í ýmsum löndum hafa óskað eftir slíku riti á síðustu árum. Til dæmis sagði í bréfi frá útibúi Varðturnsfélagins á Papúa Nýju-Gíneu: „Mótsagnakenndar trúarkenningar rugla fólk í ríminu. Það þarf að fá sannleikann á hnitmiðuðu máli, studdan allmörgum ritningargreinum sem það getur flett upp í sinni eigin biblíu. Það þarf sjá skýrum stöfum hvers Guð krefst af kristnum mönnum og hvaða siði og venjur hann sættir sig ekki við.“ Bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? er einmitt það sem við þörfnumst til að hjálpa slíku fólki að kynnast kröfum Guðs.
16. (a) Hverjir ættu sérstaklega að hafa gagn af einföldum útskýringum þessa nýja bæklings? (b) Hvernig gæti fólk á starfssvæði þínu haft gagn af bæklingnum?
16 Hvernig er hægt að nota þetta nýja verkfæri? Í fyrsta lagi má nota það til að kenna fólki sem á erfitt með lestur eða er ekki gefið fyrir lestur. Slíkt fólk getur haft gagn af einföldum útskýringum bæklingsins. Útibú Varðturnsfélagsins í ýmsum löndum fengu að skoða bæklinginn áður en hann kom út á prenti. Eftirfarandi umsagnir bárust: „Bæklingurinn á eftir að reynast mjög gagnlegur víða hér á landi þar sem fólk er ekki gefið fyrir mikinn lestur.“ (Brasilía) „Hér er talsverður fjöldi innflytjenda sem les ekki heimamál sitt og á enn erfitt með að lesa frönsku. Hægt er að nota þennan bækling til að kenna slíku fólki.“ (Frakkland) Detta þér einhverjir í hug á starfssvæði þínu sem gætu haft gagn af bæklingnum?
17. Á hvaða hátt ætti nýi bæklingurinn að koma að gagni víða um lönd og hvers vegna?
17 Í öðru lagi getur bæklingurinn komið að gagni víða um lönd til að hefja biblíunámskeið með guðhræddu fólki óháð menntun þess. Vitanlega ætti að reyna að koma í gang námskeiði með bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs. En í sumum tilvikum er kannski auðveldara að hefja biblíunámskeið með bæklingi, og þegar vel stendur á ætti að færa það yfir í Þekkingarbókina sem er aðalnámsbók okkar og sú sem æskilegt er að nema. Útibú Varðturnsfélagsins sögðu eftirfarandi um þessa notkun bæklingsins Hvers krefst Guð af okkur?: „Það er erfitt að hefja biblíunámskeið og líkurnar á því virðast betri þegar boðberar nota bækling í byrjun.“ (Þýskaland) „Bæklingur af þessu tagi kemur að mjög góðum notum við að hefja ný biblíunámskeið sem síðan er hægt að halda áfram í Þekkingarbókinni.“ (Ítalía) „Enda þótt Japanir séu vel menntaðir hafa flestir mjög takmarkaða þekkingu á Biblíunni og undirstöðukenningum hennar. Bæklingurinn ætti að vera góður stökkpallur að Þekkingarbókinni.“ — Japan.
18. Hvað ættum við að muna í sambandi við það að uppfylla kröfur Guðs?
18 Útibú Félagsins um allan heim báðu um að þessi bæklingur yrði gerður, og leyfi hefur verið veitt til að þýða hann á 221 tungumál. Megi þetta nýja rit koma að góðum notum til að hjálpa öðrum að læra hvers Jehóva Guð krefst af þeim. Við skulum muna að við höfum einstakt tækifæri til að sýna Jehóva hve heitt við elskum hann með því að standast kröfur hans, meðal annars þá að prédika og gera menn að lærisveinum. Já, það sem Guð krefst af okkur er engin byrði. Það er besta leiðin til að lifa lífinu! — Sálmur 19:8-12.
[Neðanmáls]
a Bókin Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs segir: „Myndbönd eru alls ekki komin í stað prentaðs máls eða persónulegs vitnisburðar. Rit Félagsins halda áfram að gegna veigamiklu hlutverki í útbreiðslu fagnaðarerindisins. Boðunarstarf votta Jehóva hús úr húsi á sér traustar biblíulegar forsendur. En myndbönd eru viðbót þar við og reynast góð hjálp til að rækta trú á dýrmæt fyrirheit Jehóva og örva þakklætiskennd fyrir það sem hann er að láta gera á jörðinni á okkar dögum.“
Geturðu svarað?
◻ Hvaða tvíþættu starfi krefst Jehóva að þjónar hans taki þátt í?
◻ Hvers vegna er sú skyldukvöð að prédika og gera menn að lærisveinum engin byrði fyrir okkur?
◻ Hvaða verkfæri hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ látið okkur í té til að prédika og gera menn að lærisveinum?
◻ Handa hverjum er bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? gerður og hvernig getum við notað hann í boðunarstarfinu?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Prédikunar- og kennslustarf okkar er engin byrði.
[Mynd á blaðsíðu 31]
„Guð skal reynast sannorður“ (1946): 19.250.000 á 54 tungumálum (ensk útgáfa sýnd).
„Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs“ (1968): 107.000.000 á 117 tungumálum (frönsk útgáfa sýnd).
„Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð“ (1982): 80.900.000 á 130 tungumálum (rússnesk útgáfa sýnd).
„Þekking sem leiðir til eilífs lífs“ (1995): 45.500.000 á 125 tungumálum (þýsk útgáfa sýnd).