Vertu óhultur í skipulagi Guðs
„Nafn [Jehóva] er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 18:10.
1. Hvaða erfiðri aðstöðu eru kristnir menn í samkvæmt bæn Jesú?
SKÖMMU fyrir dauða sinn bað Jesús fyrir fylgjendum sínum til föðurins á himnum. Orð hans enduróma ást og umhyggju: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jóhannes 17:14, 15) Jesús vissi að heimurinn yrði kristnum mönnum hættulegur. Hann myndi sýna hatur sitt á þeim með því að ljúga um þá og ofsækja þá. (Matteus 5:11, 12; 10:16, 17) Hann yrði líka spilltur. — 2. Tímóteusarbréf 4:10; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.
2. Hvar geta kristnir menn fundið andlegt athvarf?
2 Heimurinn, sem myndi hata kristna menn, er heimur manna sem eru fjarlægir Guði og eru undir stjórn Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þessi heimur er miklu stærri en kristni söfnuðurinn og Satan sjálfur er langtum öflugri en nokkur maður. Þess vegna er hatur heimsins veruleg ógnun. Hvar geta fylgjendur Jesú fundið andlegt öruggi? Varðturninn ýjaði að því hinn 1. desember 1922: „Við erum uppi á hinum vonda degi. Baráttan stendur milli skipulags Satans og skipulags Guðs. Þetta er barátta upp á líf og dauða.“ Í þessum átökum er skipulag Guðs andlegt athvarf. Orðið „skipulag“ fyrirfinnst ekki í Biblíunni í þessari merkingu, og á þriðja áratugnum var ‚skipulag Guðs‘ nýtt hugtak. Hvað er þá þetta skipulag og hvernig getum við leitað verndar í því?
Skipulag Jehóva
3, 4. (a) Hvað er skipulag? (b) Í hvaða skilningi getur alþjóðasamfélag votta Jehóva kallast skipulag?
3 Með orðinu skipulag er átt við skipulega heild eða hóp. Með hliðsjón af því er rétt að tala um „bræðrafélagið“ sem skipulag af því að postularnir röðuðu kristnum mönnum á fyrstu öld niður í söfnuði undir umsjón stjórnandi ráðs í Jerúsalem. (1. Pétursbréf 2:17) Vottar Jehóva nú á tímum hafa sams konar skipulag. „Gjafir í mönnum,“ eins og „hirðar og kennarar,“ styrktu einingu þessa skipulags á fyrstu öld. Sumir þeirra ferðuðust milli safnaða en aðrir þjónuðu sem öldungar í heimasöfnuðum sínum. (Efesusbréfið 4:8, 11, 12, NW; Postulasagan 20:28) Áþekkar „gjafir“ efla einingu votta Jehóva nú á dögum.
4 Varðturninn sagði um orðið „skipulag“ hinn 1. nóvember 1922: „Skipulag er samtök fólks um framkvæmd ákveðinnar áætlunar.“ Varðturninn benti síðan á að þótt vottar Jehóva væru kallaðir skipulag væru þeir ekki „sértrúarflokkur í venjulegum skilningi þess orðs heldur merkti það einungis að Biblíunemendurnir [vottar Jehóva] leituðust við að framkvæma tilgang Guðs og gera það eins og Drottinn gerir allt, það er að segja með skipulegum hætti.“ (1. Korintubréf 14:33) Páll postuli benti á að kristnir samtíðarmenn sínir hafi einnig starfað með skipulegum hætti. Hann líkti samfélagi smurðra kristinna manna við mannslíkamann sem hefur marga limi er hver um sig gegnir ákveðnu hlutverki til að líkaminn starfi rétt. (1. Korintubréf 12:12-26) Þetta er ágætis líking til að lýsa skipulagi. Til hvers voru kristnir menn skipulagðir? Til að þjóna ‚tilgangi Guðs,‘ til að gera vilja hans.
5. Hvað er sýnilegt skipulag Guðs?
5 Biblían sagði fyrir að sannkristnir menn nú á tímum yrðu sameinaðir sem ein „þjóð“ í einu ‚landi‘ og ‚skinu þar eins og ljós í heiminum.‘ (Jesaja 66:8; Filippíbréfið 2:15) Í þessari skipulögðu „þjóð“ eru nú rösklega fimm og hálf milljón manna. (Jesaja 60:8-10, 22) En skipulag Guðs er meira en þetta. Í því eru einnig englar.
6. Hverjir mynda skipulag Guðs í víðasta skilningi?
6 Þess eru mörg dæmi að englar hafi unnið með mennskum þjónum Guðs. (1. Mósebók 28:12; Daníel 10:12-14; 12:1; Hebreabréfið 1:13, 14; Opinberunarbókin 14:14-16) Varðturninn sagði því hinn 15. maí 1925: „Allir helgir englar tilheyra skipulagi Guðs.“ Blaðið sagði einnig: „Efst í skipulagi Guðs situr Drottinn Jesús Kristur sem fer með allt vald.“ (Matteus 28:18) Í víðasta skilningi er skipulag Guðs því allir á himni og jörð sem vinna saman að því að gera vilja hans. (Sjá rammagrein.) Það eru mikil sérréttindi að vera hluti af því, og mjög gleðilegt að horfa fram til þess tíma þegar allar lifandi verur, himneskar og jarðneskar, verða sameinaðar í að lofa Jehóva Guð! (Opinberunarbókin 5:13, 14) En hvaða vernd veitir skipulag Guðs nú á dögum?
Vernd í skipulagi Guðs — hvernig?
7. Hvernig verndar skipulag Guðs okkur?
7 Skipulag Guðs getur hjálpað okkur að verjast Satan og vélabrögðum hans. (Efesusbréfið 6:11) Satan hefur aðeins eitt markmið með því að þrýsta á tilbiðjendur Jehóva, ofsækja þá og freista þeirra, og það er að leiða þá út af ‚veginum sem þeir eiga að ganga.‘ (Jesaja 48:17; samanber Matteus 4:1-11.) Við getum aldrei umflúið þessar árásir með öllu í þessu heimskerfi. Náið samband okkar við Guð og skipulag hans styrkir okkur hins vegar og verndar, og hjálpar okkur þannig að halda okkur á ‚veginum.‘ Þar af leiðandi förum við ekki á mis við vonina sem við höfum.
8. Hvernig styður ósýnilegt skipulag Jehóva jarðneska þjóna hans?
8 Hvernig veitir skipulag Guðs þessa vernd? Í fyrsta lagi höfum við óbrigðulan stuðning andaþjóna Jehóva. Þegar Jesús var undir gríðarlegu álagi kom engill og þjónaði honum. (Lúkas 22:43) Engill bjargaði Pétri með kraftaverki þegar hann var í lífshættu. (Postulasagan 12:6-11) Og þótt slík kraftaverk eigi sér ekki stað nú á dögum er fólki Jehóva heitið því að englar styðji prédikunarstarf þess. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Það býr oft yfir óvenjulegum styrk við erfiðar aðstæður. (2. Korintubréf 4:7) Og það veit að „engill [Jehóva] setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.“ — Sálmur 34:8.
9, 10. Hvernig má segja að ‚nafn Jehóva sé sterkur turn‘ og hvernig á þessi meginregla við skipulag hans í heild?
9 Sýnilegt skipulag Jehóva veitir líka vernd. Hvernig? Við lesum í Orðskviðunum 18:10: „Nafn [Jehóva] er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ Hér er ekki átt við að það sé einhver vernd fólgin í því að segja nafn Guðs. Að leita hælis í nafni Guðs merkir að treysta á Jehóva sjálfan. (Sálmur 20:2; 122:4) Það merkir að styðja drottinvald hans, halda lög hans og meginreglur og trúa á fyrirheit hans. (Sálmur 8:2-10; Jesaja 50:10; Hebreabréfið 11:6) Það felur í sér að sýna Jehóva óskipta hollustu. Þeir einir sem tilbiðja hann á þann hátt geta tekið undir með sálmaritaranum: „Yfir [Jehóva] fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.“ — Sálmur 33:21; 124:8.
10 Allir innan sýnilegs skipulags Guðs taka undir orð Míka: „Vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ (Míka 4:5) Nútímaskipulagið safnast kringum „Ísrael Guðs“ sem Biblían kallar ‚lýð er ber nafn hans.‘ (Galatabréfið 6:16; Postulasagan 15:14; Jesaja 43:6, 7; 1. Pétursbréf 2:17) Að tilheyra skipulagi Jehóva merkir því að tilheyra hópi manna sem leitar verndar í nafni hans og fær hana.
11. Á hvaða sérstaka vegu verndar skipulag Jehóva þá sem tilheyra því?
11 Auk þess er sýnilegt skipulag Guðs trúarsamfélag, samfélag trúbræðra sem uppbyggja og hvetja hver annan. (Orðskviðirnir 13:20; Rómverjabréfið 1:12) Það er staður þar sem kristnir hirðar gæta sauðanna, uppörva sjúka og niðurdregna og reyna að reisa við þá sem fallið hafa. (Jesaja 32:1, 2; 1. Pétursbréf 5:2-4) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ gefur „mat á réttum tíma“ fyrir atbeina skipulagsins. (Matteus 24:45) ‚Þjónninn,‘ það er að segja smurðir kristnir menn, lætur í té albestu andlegu gæði sem völ er á — nákvæma biblíuþekkingu sem getur leitt til eilífs lífs. (Jóhannes 17:3) Svo er leiðsögn ‚þjónsins‘ fyrir að þakka að kristnir menn geta viðhaldið góðu siðferði og verið „kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur“ í því hættulega umhverfi sem þeir búa í. (Matteus 10:16) Og þeim er alltaf hjálpað að vera „síauðugir í verki Drottins“ sem er í sjálfu sér mikil vernd. — 1. Korintubréf 15:58.
Hverjir tilheyra skipulagi Guðs?
12. Hverjir tilheyra himnesku skipulagi Guðs?
12 Hverjir teljast til skipulags Guðs fyrst þessi vernd stendur þeim til boða sem tilheyra því? Svarið við þessari spurningu liggur ljóst fyrir í sambandi við hið himneska skipulag. Satan og illir andar hans eru ekki lengur á himni. Hins vegar eru trúfastir englar þar enn á „hátíðarsamkomu.“ Jóhannes postuli sá að á síðustu dögum yrðu ‚lambið,‘ kerúbarnir (‚verurnar fjórar‘) og ‚margir englar‘ nálægt hásæti Guðs. Með þeim yrðu öldungarnir 24 en þeir tákna þá smurðu kristnu menn sem hafa þegar hlotið dýrlega arfleifð sína á himnum. (Hebreabréfið 12:22, 23; Opinberunarbókin 5:6, 11; 12:7-12) Allir tilheyra greinilega skipulagi Guðs. En meðal manna er málið ekki svona einfalt.
13. Hvernig benti Jesús á hverjir tilheyrðu skipulagi Guðs og hverjir ekki?
13 Jesús sagði um suma er segðust fylgja honum: „Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?‘ Þá mun ég votta þetta: ‚Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.‘“ (Matteus 7:22, 23) Illgerðamaður tilheyrir alls ekki skipulagi Guðs, hvað sem hann segir og hvert sem hann fer til tilbeiðslu. Jesús benti líka á hvernig þekkja mætti fólk sem tilheyrir skipulagi Guðs í alvöru. Hann sagði: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — Matteus 7:21.
14. Hvað er þeim sem tilheyra skipulagi Guðs skylt að gera í sambandi við vilja hans?
14 Þess vegna verðum við að gera vilja Guðs til að tilheyra skipulagi hans þar sem „himnaríki“ gegnir aðalhlutverki. Hver er vilji hans? Páll benti á mikilvægan þátt hans er hann sagði: „[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til [nákvæmrar] þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Ef maður sækist í raun og veru eftir nákvæmri biblíuþekkingu, vill fara eftir henni og útbreiða hana til ‚allra manna,‘ þá er hann að gera vilja Guðs. (Matteus 28:19, 20; Rómverjabréfið 10:13-15) Það er líka vilji Guðs að sauðir hans séu fóðraðir og þeirra sé gætt. (Jóhannes 21:15-17) Kristnar samkomur gegna þýðingarmiklu hlutverki í því. Sá sem hefur tök á að sækja slíkar samkomur en vanrækir það kann ekki að meta að hann skuli tilheyra skipulagi Guðs. — Hebreabréfið 10:23-25.
Vinátta við heiminn
15. Hvaða viðvörun gaf Jakob söfnuðunum á sínum tíma?
15 Um 30 árum eftir dauða Jesú benti Jakob hálfbróðir hans á sumt af því sem getur stofnað stöðu manns í skipulagi Guðs í hættu. Hann skrifaði: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ (Jakobsbréfið 4:4) Óvinur Guðs tilheyrir auðvitað ekki skipulagi hans. Hvað er þá vinátta við heiminn? Bent hefur verið á að hún geti birst í ýmsum myndum, svo sem slæmum félagsskap. En Jakob einbeitti sér að mjög sérstöku sviði — röngu hugarfari sem leiðir til rangrar breytni.
16. Í hvaða samhengi varar Jakob við því að vinátta við heiminn sé fjandskapur gegn Guði?
16 Við lesum í Jakobsbréfinu 4:1-3: „Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar? Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki. Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!“ Það var eftir þessi orð sem Jakob varaði við vináttu við heiminn.
17. Í hvaða skilningi voru „stríð“ og „sennur“ í kristna söfnuðinum á fyrstu öld?
17 Öldum eftir dauða Jakobs háðu falskristnir menn stríð og myrtu hver annan bókstaflega. En Jakob var að skrifa fólki af „Ísrael Guðs“ á fyrstu öld sem var væntanlegir ‚prestar og konungar‘ á himnum. (Opinberunarbókin 20:6) Það myrti ekki hvert annað eða drap í bókstaflegu stríði. Af hverju talar Jakob þá um slíkt meðal kristinna manna? Jóhannes postuli sagði að hver sem hataði bróður sinn væri manndrápari. Og Páll talaði um árekstra og illdeilur innan safnaðanna sem „stælur“ og „átök.“ (Títusarbréfið 3:9, NW; 2. Tímóteusarbréf 2:14; 1. Jóhannesarbréf 3:15-17) Jakob virðist hafa haft í huga að menn elskuðu ekki trúbræður sína. Sín á meðal hegðuðu kristnir menn sér líkt og fólk í heiminum kemur oft fram hvert við annað.
18. Hvað getur leitt til kærleikslausra verka og tilfinninga meðal kristinna manna?
18 Hvers vegna gerðist þetta í kristna söfnuðinum? Vegna rangra viðhorfa svo sem girndar og löngunar ‚í munað.‘ Stolt, öfund og metnaðargirni geta líka spillt ástríku, kristnu samfélagi safnaðar. (Jakobsbréfið 3:6, 14) Slík viðhorf gera menn að vinum heimsins og þar með að óvini Guðs. Enginn getur vænst þess að tilheyra skipulagi Guðs áfram ef hann elur með sér þess konar hugarfar.
19. (a) Hverjum er það fyrst og fremst að kenna ef rangur hugsunarháttur er að festa rætur í hjarta kristins manns? (b) Hvernig getur kristinn maður sigrast á röngum hugsunarhætti?
19 Hverjum getum við kennt um ef við uppgötvum að rangt hugarfar er að taka sér bólfestu í hjarta okkar? Satan? Já, að vissu marki. Hann er ‚valdhafinn í loftinu‘ í þessum heimi þar sem slík viðhorf eru útbreidd. (Efesusbréfið 2:1, 2; Títusarbréfið 2:12) En yfirleitt liggja rætur rangrar hugsunar í ófullkomnu holdi sjálfra okkar. Jakob skrifar eftir að hafa varað við vináttu við heiminn: „Haldið þið að það sé til einskis að Ritningin segir: ‚Með öfundartilhneigingu þráir andinn sem hefur tekið sér bólfestu í okkur‘?“ (Jakobsbréfið 4:5, NW) Við höfum öll meðfædda tilhneigingu til að gera það sem rangt er. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 7:18-20) En við getum barist gegn þessari tilhneigingu ef við viðurkennum veikleika okkar og reiðum okkur á hjálp Jehóva til að sigrast á þeim. Jakob segir: „Því meiri [en meðfædd öfundartilhneiging okkar] er náðin, sem [Guð] gefur.“ (Jakobsbréfið 4:6) Trúfastir kristnir menn láta ekki veikleika holdsins vinna bug á sér, enda njóta þeir hjálpar heilags anda Guðs, stuðnings trúfastra kristinna bræðra og lausnarfórnar Jesú. (Rómverjabréfið 7:24, 25) Þeir eru óhultir í skipulagi Guðs og eru vinir hans en ekki heimsins.
20. Hvaða ríkulegrar blessunar njóta þeir sem tilheyra skipulagi Guðs?
20 Biblían lofar: „[Jehóva] veitir lýð sínum styrkleik, [Jehóva] blessar lýð sinn með friði.“ (Sálmur 29:11) Ef við tilheyrum „þjóð“ Jehóva, sýnilegu skipulagi hans nú á tímum, fáum við hlutdeild í þeim styrk sem hann gefur og njótum þess friðar sem hann blessar fólk sitt með. Heimur Satans er að vísu miklu stærri en sýnilegt skipulag Jehóva og Satan er miklu sterkari en við. En Jehóva er hinn alvaldi. Starfskraftur hans er ósigrandi. Máttugir englar hans eru líka sameinaðir okkur í að þjóna Guði. Við getum því verið staðfastir þrátt fyrir hatrið sem við mætum. Líkt og Jesús getum við sigrað heiminn. — Jóhannes 16:33; 1. Jóhannesarbréf 4:4.
Geturðu svarað?
◻ Hvað er sýnilegt skipulag Guðs?
◻ Á hvaða vegu veitir skipulag Guðs vernd?
◻ Hverjir tilheyra skipulagi Guðs?
◻ Hvernig getum við forðast vináttu við heiminn?
[Rammagrein á blaðsíðu 9]
Hvað er skipulag Guðs?
Hugtakið „skipulag Guðs“ er notað með þrennum hætti í ritum votta Jehóva.
1 Ósýnilegt himneskt skipulag Jehóva með trúföstum andaverum. Í Biblíunni er það kallað „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ — Galatabréfið 4:26.
2 Sýnilegt og mennskt skipulag Jehóva. Nú á dögum eru það leifar hinna smurðu ásamt múginum mikla.
3 Alheimsskipulag Jehóva. Nú á dögum er það hið himneska skipulag Jehóva ásamt smurðum kjörsonum hans á jörðinni sem hafa andlega von. Síðar verða einnig í því menn á jörðinni sem öðlast hafa fullkomleika.
[Mynd on page 10]
Skipulag Jehóva lætur í té andlega úrvalsfæðu.