Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.11. bls. 8-13
  • ‚Jehóva, miskunnsamur og líknsamur Guð‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Jehóva, miskunnsamur og líknsamur Guð‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Uppreisnargjarn sonur fer að heiman
  • Örvænting í fjarlægu landi
  • Glataði sonurinn kemur til sjálfs sín
  • Hlýjar móttökur
  • Líktu eftir miskunn Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Glataði sonurinn
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
  • Hvernig get ég náð tökum á lífi mínu?
    Vaknið! – 1995
  • Hvernig geturðu hjálpað ‚týndu‘ barni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.11. bls. 8-13

‚Jehóva, miskunnsamur og líknsamur Guð‘

„[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ — 2. MÓSEBÓK 34:6.

1. (a) Hvernig hughreystir Biblían þá sem hafa séð ástvini villast frá hreinni guðsdýrkun? (b) Hvernig lítur Jehóva á þá sem villast af leið?

„DÓTTIR mín sagði mér að hún vildi ekki tilheyra kristna söfnuðinum lengur,“ segir kristinn faðir. „Svo dögum, vikum og jafnvel mánuðum skipti fann ég fyrir nagandi sársauka. Hann var verri en dauðinn.“ Það er mjög sorglegt að sjá ástvin villast út af braut hreinnar tilbeiðslu. Hefur þú orðið fyrir því? Þá er það hughreystandi fyrir þig að vita að Jehóva finnur til með þér. (2. Mósebók 3:7; Jesaja 63:9) En hvernig lítur hann á þá sem villast af braut? Í Biblíunni kemur fram að Jehóva er miskunnsamur og býður þeim að öðlast hylli sína á ný. Hann sárbændi uppreisnargjarna Gyðinga á dögum Malakís: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar.“ — Malakí 3:7.

2. Hvernig sýnir Biblían að miskunn er eðlislægur þáttur í persónuleika Jehóva?

2 Móse var bent á miskunn Guðs á Sínaífjalli. Þar opinberaði Jehóva sig sem ‚miskunnsaman og líknsaman Guð, þolinmóðan, gæskuríkan og harla trúfastan.‘ (2. Mósebók 34:6) Þessi yfirlýsing leggur áherslu á að miskunnsemi sé eðlislægur þáttur í persónuleika Jehóva. Hann vill „að allir komist til iðrunar,“ skrifaði Pétur postuli. (2. Pétursbréf 3:9) Miskunn Guðs er auðvitað ekki takmarkalaus. Hann „lætur [afbrota] eigi með öllu óhegnt,“ var Móse sagt. (2. Mósebók 34:7; 2. Pétursbréf 2:9) En „Guð er kærleikur“ engu að síður og miskunn er veigamikill þáttur kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8; Jakobsbréfið 3:17) Jehóva ‚heldur ekki fast við reiði sína eilíflega‘ og „hefir unun af að vera miskunnsamur.“ — Míka 7:18, 19.

3. Hvernig var afstaða Jesú til miskunnar ólík afstöðu fræðimanna og farísea?

3 Jesús var fullkomin spegilmynd föður síns á himnum. (Jóhannes 5:19) Með miskunn sinni við syndara var hann ekki að horfa fram hjá syndum þeirra heldur að sýna sömu umhyggjuna og hann sýndi þeim sem áttu við líkamleg veikindi að stríða. (Samanber Markús 1:40, 41.) Já, Jesús sagði að miskunn væri meðal þess ‚mikilvægasta‘ í lögmáli Guðs. (Matteus 23:23) Lítum til samanburðar á fræðimennina og faríseana sem lögðu svo mikið upp úr lagabókstafnum að réttvísi þeirra bauð yfirleitt ekki upp á neina miskunn. Þegar þeir sáu Jesú eiga samskipti við syndara kvörtuðu þeir: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“ (Lúkas 15:1, 2) Jesús svaraði ákærendum sínum með þrem líkingum sem undirstrika miskunn Guðs.

4. Hvaða tvær líkingar sagði Jesús og hver var kjarninn í þeim?

4 Fyrst sagði Jesús frá manni sem skildi eftir 99 sauði til að leita að einum týndum. Hvað var hann að benda á? „Þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.“ Því næst sagði hann sögu af konu sem leitaði að týndri drökmu og fagnaði þegar hún fann hana. Hvernig heimfærði hann þessa sögu? „Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ Þriðja líkingin var dæmisaga.a Margir telja hana fegurstu smásögu sem sögð hefur verið. Með því að skoða þessa dæmisögu fáum við glögga mynd af miskunn Guðs og getum líkt eftir henni. — Lúkas 15:3-10.

Uppreisnargjarn sonur fer að heiman

5, 6. Hvernig sýndi yngri sonurinn í þriðju líkingu Jesú yfirgengilegt vanþakklæti?

5 „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ‚Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.‘ Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.“ — Lúkas 15:11-13.b

6 Yngri sonurinn var yfirgengilega vanþakklátur. Fyrst heimtaði hann arfinn sinn og síðan sóaði hann honum „í óhófsömum lifnaði.“ Orðin ‚óhófsamur lifnaður‘ eru þýðing á grísku orði sem merkir „taumlaust líferni.“ Fræðimaður segir að orðið „lýsi algerlega taumlausri manngerð.“ Ungi maðurinn í dæmisögu Jesú lagðist í gegndarlaust óhóf og sukk og er oft kallaður glataði sonurinn.

7. Hverjir líkjast glataða syninum og af hverju sækjast margir þeirra eftir sjálfstæði í ‚fjarlægu landi‘?

7 Líkjast einhverjir nú á tímum þessum glataða syni? Já, því miður hafa fáeinir yfirgefið öruggt „heimili“ okkar himneska föður, Jehóva. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Sumum þeirra finnst sér of þröngar skorður settar á heimili Guðs, að vökult auga hans sé þeim meira til hindrunar en verndar. (Samanber Sálm 32:8.) Tökum sem dæmi kristna konu sem var alin upp samkvæmt meginreglum Biblíunnar en tók síðar að neyta fíkniefna og misnota áfengi. Þegar hún lítur um öxl yfir þennan myrka kafla í lífi sínu segir hún: „Ég vildi sanna að ég gæti spjarað mig betur upp á eigin spýtur. Ég vildi fá að ráða sjálf hvað ég gerði og ekki láta segja mér fyrir verkum.“ Líkt og glataði sonurinn var þessi unga kona að sækjast eftir sjálfstæði. Því miður þurfti að víkja henni úr kristna söfnuðinum vegna óbiblíulegs lífernis hennar. — 1. Korintubréf 5:11-13.

8. (a) Hvaða aðstoð er hægt að veita þeim sem vilja lifa í andstöðu við lög Guðs? (b) Af hverju ættum við að hugsa alvarlega um það hvað við veljum að gera í sambandi við tilbeiðslu?

8 Það er ákaflega sorglegt þegar trúsystkin okkar langar til að lifa í andstöðu við lög Guðs. (Filippíbréfið 3:18) Þegar það gerist reyna öldungar og aðrir, sem hafa andlega hæfileika til, að leiðrétta hinn villuráfandi. (Galatabréfið 6:1) En enginn er neyddur til að taka á sig það ok að vera kristinn lærisveinn. (Matteus 11:28-30; 16:24) Unglingar verða að ákveða sjálfir hvað þeir vilja gera í sambandi við tilbeiðslu þegar þeir verða lögráða. Við höfum öll frjálsan vilja og þurfum að standa Guði reikning fyrir sjálf okkur. (Rómverjabréfið 14:12) Að sjálfsögðu munum við líka ‚uppskera það sem við sáum‘ — en það er lexía sem glataði sonurinn í dæmisögu Jesú átti fljótlega eftir að læra. — Galatabréfið 6:7, 8.

Örvænting í fjarlægu landi

9, 10. (a) Hvernig breyttust aðstæður glataða sonarins og hvernig brást hann við því? (b) Lýstu með dæmi hvernig sumir, sem yfirgefa sanna tilbeiðslu, gætu lent í sams konar neyð og glataði sonurinn.

9 „En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.“ — Lúkas 15:14-16.

10 Þótt glataði sonurinn væri blásnauður velti hann enn ekki fyrir sér þeim möguleika að snúa heim. Hann hitti mann sem réði hann til að gæta svína. Móselögin kváðu á um að svín væru óhrein dýr þannig að Gyðingi hefur trúlega þótt ósæmandi að koma nálægt slíku. (3. Mósebók 11:7, 8) En hafi samviskan sagt til sín hjá glataða syninum hefur hann þurft að þagga niður í henni. Þegar allt kom til alls gat hann ekki reiknað með að vinnuveitandi hans, sem var þarlendur maður, gerði sér áhyggjur af tilfinningum útlends utangarðsmanns. Glataði sonurinn var að mörgu leyti líkt á vegi staddur og margir sem yfirgefa hina beinu braut hreinnar tilbeiðslu nú á dögum. Oft leggja þeir sig niður við verk sem þeir hefðu áður talið niðurlægjandi. Til dæmis gerði 17 ára piltur uppreisn gegn kristnum lífsreglum sem honum höfðu verið innrættar. „Siðleysi og fíkniefni gerðu margra ára biblíukennslu að engu,“ viðurkennir hann. Áður en langt um leið var þessi ungi maður kominn í fangelsi fyrir vopnað rán og morð. Þótt hann næði sér aftur á strik andlega þurfti hann að gjalda „skammvinns unaðar af syndinni“ dýru verði! — Hebreabréfið 11:24-26.

11. Hvað gerði illt verra fyrir glataða soninn og hvernig hafa sumir komist að raun um að freistingar heimsins eru ‚hégómavilla‘?

11 Það gerði illt verra fyrir glataða soninn að „enginn gaf honum“ neitt. Hvar voru nýfundnir vinir hans? Nú þótti þeim hann „hvimleiður“ af því að hann var staurblankur. (Orðskviðirnir 14:20) Margir sem villast frá trúnni uppgötva að freistingar og sjónarmið þessa heims eru hrein ‚hégómavilla.‘ (Kólossubréfið 2:8) „Það olli mér miklum sársauka og hugarangri að vera án leiðsagnar Jehóva,“ segir ung kona sem yfirgaf skipulag Guðs um hríð. „Ég reyndi að samlagast heiminum en mér var hafnað af því að ég var ekki í alvöru eins og hinir. Mér leið eins og vegvilltu barni sem þarfnaðist föður til að leiðbeina sér. Þá rann það upp fyrir mér að ég þarfnaðist Jehóva. Ég vildi aldrei lifa óháð honum framar.“ Glataði sonurinn í dæmisögu Jesú komst að svipaðri niðurstöðu.

Glataði sonurinn kemur til sjálfs sín

12, 13. Hvað hefur hjálpað sumum að koma til sjálfra sín? (Sjá rammagrein.)

12 „En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ‚Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.‘ Og hann tók sig upp og fór til föður síns.“ — Lúkas 15:17-20.

13 Glataði sonurinn ‚kom til sjálfs sín.‘ Um hríð hafði hann verið á kafi í nautnalífi, rétt eins og hann lifði í draumaheimi. En nú fann hann sárlega til þess hvernig hann var raunverulega á vegi staddur andlega. Já, jafnvel þótt þessi ungi maður hefði fallið var enn von um hann. Það var eitthvað gott í honum. (Orðskviðirnir 24:16; samanber 2. Kroníkubók 19:2, 3.) Hvað um þá sem yfirgefa hjörð Guðs nú á dögum? Er rökrétt að reikna með að það sé algerlega úti um þá, að uppreisn þeirra sé í öllum tilvikum sönnun þess að þeir hafi syndgað gegn heilögum anda Guðs? (Matteus 12:31, 32) Svo þarf ekki að vera. Mörgum líður mjög illa vegna rangrar lífsstefnu sinnar, og með tímanum koma margir þeirra til sjálfra sín. „Ég gleymdi Jehóva ekki einn einasta dag,“ segir systir nokkur þegar hún lítur um öxl til þess tíma sem hún var fjarri skipulagi Guðs. „Ég bað þess alltaf að hann myndi einhvern veginn og einhvern tíma taka aftur við mér til sannleikans.“ — Sálmur 119:176.

14. Hvað afréð glataði sonurinn og hvernig bar það vott um auðmýkt?

14 En hvað geta þeir sem hafa villst frá gert í málinu? Í dæmisögu Jesú afréð glataði sonurinn að snúa aftur heim og sárbæna föður sinn um fyrirgefningu. „Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum,“ ætlaði hann að segja. Hægt var að segja daglaunamanni upp með dags fyrirvara. Hann var enn lægra settur en þræll sem var í vissum skilningi eins og einn úr fjölskyldunni. Glataði sonurinn ætlaði sér því ekki að fara fram á að endurheimta fyrri stöðu sína sem sonur. Hann var meira en fús til að þiggja lægstu stöðu til að sanna hollustu sína við föður sinn dag frá degi. En móttökurnar voru aðrar en hann bjóst við.

Hlýjar móttökur

15-17. (a) Hvernig brást faðirinn við þegar hann sá son sinn? (b) Hvað er gefið til kynna með skikkjunni, hringnum og skónum sem faðirinn lét son sinn fá? (c) Hvað má ráða af því að faðirinn hélt syninum veislu?

15 „En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: ‚Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.‘ Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ‚Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.‘ Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.“ — Lúkas 15:20-24.

16 Sérhver ástríkur faðir þráir að barn sitt nái sér andlega. Við getum því rétt ímyndað okkur hvernig faðir glataða sonarins hefur einblínt daglega á stíginn að húsi sínu og vonast til að sonurinn kæmi heim. Nú kemur hann auga á son sinn koma eftir stígnum! Drengurinn er eflaust breyttur í útliti. Engu að síður þekkir faðirinn hann meðan hann er „enn langt í burtu.“ Hann lætur sem hann sjái ekki tötraleg föt sonarins og dapurlegan svip; hann sér son sinn og hleypur til móts við hann!

17 Þegar faðirinn mætir syni sínum fellur hann um háls honum og kyssir hann blíðlega. Síðan fyrirskipar hann þjónum sínum að fá syninum skikkju, hring og skó. Skikkjan er ekki einhver hversdagsleg flík heldur ‚besta skikkja‘ — kannski fagurlega útsaumuð skikkja af því tagi sem búast mátti við að virtum gesti væri fengin. Þar eð þrælar báru yfirleitt ekki hringa né gengu í skóm er faðirinn að sýna svo ekki verður um villst að syninum sé tekið opnum örmum sem einum úr fjölskyldunni. En faðirinn gerir meira en þetta. Hann fyrirskipar að haldin skuli veisla til að fagna endurkomu sonar síns. Ljóst er að hann fyrirgaf syninum ekki með ólund eða tilneyddur fyrst sonurinn kom til hans heldur vildi fyrirgefa. Það gladdi hann.

18, 19. (a) Hvað lærirðu um Jehóva af dæmisögunni um glataða soninn? (b) Hvernig ‚bíður Jehóva þess‘ að syndari snúi aftur, eins og sjá má af samskiptum hans við Júda og Jerúsalem?

18 Hvað hefur dæmisagan um glataða soninn kennt okkur fram að þessu um þann Guð sem við fáum að tilbiðja? Í fyrsta lagi að Jehóva er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6) Miskunn er greinilega einn af höfuðeiginleikum Guðs. Það eru eðlileg viðbrögð hans gagnvart bágstöddum. Dæmisaga Jesú kennir okkur einnig að Jehóva er „fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5) Það er eins og hann sé vakandi fyrir hverri þeirri hugarfarsbreytingu syndugra manna sem gæti gefið honum tilefni til að miskunna þeim. — 2. Kroníkubók 12:12; 16:9.

19 Hugsaðu til dæmis um samskipti Guðs við Ísrael. Jehóva innblés spámanninum Jesaja að lýsa Júda og Jerúsalem svo, að ‚ekkert væri heilt frá hvirfli til ilja.‘ Þó sagði hann: „[Jehóva] bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður.“ (Jesaja 1:5, 6; 30:18; 55:7; Esekíel 33:11) Jehóva ‚fylgist með gangstígnum‘ ef svo má segja eins og faðirinn í dæmisögu Jesú. Hann bíður þess vonglaður að einhverjir snúi aftur sem yfirgefið hafa hús hans. Gerum við ekki ráð fyrir að ástríkur faðir hafi þess konar afstöðu? — Sálmur 103:13.

20, 21. (a) Hvernig dregur miskunn Jehóva marga til hans? (b) Hvað er rætt í greininni á eftir?

20 Ár hvert koma margir til sjálfra sín og snúa aftur til sannrar tilbeiðslu vegna miskunnar Jehóva. Það er ástvinum þeirra mikið gleðiefni. Tökum sem dæmi kristna föðurinn sem nefndur var í upphafi greinarinnar. Sem betur fer náði dóttir hans sér andlega og er núna boðberi í fullu starfi. „Ég er eins hamingjusamur og hægt er að vera í þessu gamla heimskerfi,“ segir hann. „Sorgartárin hafa breyst í gleðitár.“ Jehóva fagnar auðvitað líka. — Orðskviðirnir 27:11.

21 En dæmisagan um glataða soninn er ekki öll sögð. Jesús hélt sögunni áfram til að benda á muninn á miskunn Jehóva og hinni ströngu dómhörku sem algeng var meðal fræðimanna og farísea. Greinin á eftir fjallar um það hvernig hann gerði það og hvað það þýðir fyrir okkur.

[Neðanmáls]

a Dæmisögur og aðrar líkingar í Biblíunni eru ekki alltaf byggðar á raunverulegum atburðum. Og þar eð þessum sögum er ætlað að flytja ákveðinn siðaboðskap þarf ekki að leita að táknrænni merkingu í hverju smáatriði.

b Fjallað er um spádómlega þýðingu þessarar dæmisögu í 86. kafla bókarinnar Mesta mikilmenni sem lifað hefur, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Til upprifjunar

◻ Hvernig var afstaða Jesú til miskunnar ólík afstöðu faríseanna?

◻ Hverjir líkjast glataða syninum og hvernig?

◻ Hvað varð þess valdandi að glataði sonurinn kom til sjálfs sín?

◻ Hvernig miskunnaði faðirinn iðrunarfullum syni sínum?

[Rammi á blaðsíðu 11]

ÞAU KOMU TIL SJÁLFRA SÍN

Hvernig hafa sumir, sem var vikið úr kristna söfnuðinum, komið til sjálfra sín? Eftirfarandi frásögur varpa ljósi á það.

„Ég vissi enn í hjarta mér hvar sannleikann var að finna. Áralangt biblíunám og samkomusókn hafði haft sterk áhrif á mig. Hvernig gat ég hunsað Jehóva áfram? Hann hafði ekki snúið baki við mér heldur ég við honum. Að síðustu viðurkenndi ég hve rangt ég hafði haft fyrir mér og hve þrjósk ég hafði verið og að orð Jehóva hafði alla tíð verið rétt — ‚maður uppsker það sem maður sáir.‘“ — C. W.

„Litla telpan mín byrjaði að tala og það snart hjarta mitt því að mig langaði til að kenna henni hver Jehóva væri og hvernig ætti að biðja til hans. Ég gat ekki sofið og seint um nótt keyrði ég út í almenningsgarð og grét. Ég grét og bað til Jehóva í fyrsta sinn í langan tíma. Ég vissi það eitt að ég þarfnaðist Jehóva aftur í lífi mínu og ég vonaði að hann gæti fyrirgefið mér.“ — G. H.

„Þegar trúmál komu til umræðu sagði ég fólki að ef ég ætti að velja þá trú sem kenndi sannleikann myndi ég velja trú votta Jehóva. Síðan sagðist ég hafa verið vottur en ekki getað lifað samkvæmt trúnni þannig að ég hefði hætt í söfnuðinum. Ég fann oft til sektarkenndar og var vansæl á eftir. Loks viðurkenndi ég fyrir sjálfri mér að mér liði bölvanlega og að ég yrði að gera róttækar breytingar.“ — C. N.

„Okkur hjónunum var vikið úr söfnuðinum fyrir 35 árum. Árið 1991 urðum við þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að tveir öldungar heimsóttu okkur og sögðu okkur að það væri hægt að snúa aftur til Jehóva. Hálfu ári seinna vorum við tekin aftur inn í söfnuðinn. Maðurinn minn er 79 ára og ég 63 ára.“ — C. A.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila