Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég náð tökum á lífi mínu?
„ÉG GAT bara ekki farið inn,“ sagði Jón. Hann stóð fyrir utan ríkissal votta Jehóva. Sem unglingur hafði hann snúið baki við kristinni trú og lagst í afbrot, fíkniefnaneyslu og siðleysi. En þótt hann hefði lifað þannig um árabil gat hann samt ekki gleymt Biblíunni, þannig að hann lagði leið sína að ríkissalnum — en hafði ekki kjark til að fara inn. „Þú skilur þetta ekki,“ sagði hann við mann sem hvatti hann til að fara inn. „Ég hef gert svo margt rangt. Mér finnst óhugsandi að Jehóva fyrirgefi mér nokkurn tíma það sem ég hef gert.“
Óteljandi unglingar gera uppreisn gegn reglum, trú og siðferði foreldra sinna. Það er sérstaklega sorglegt þegar um er að ræða unglinga sem eru aldir upp af guðhræddum foreldrum. Þótt ófáir hafi farið út á þá braut tekur nagandi tómleiki, sem jafnvel taumlaust líferni getur ekki dulið, að sækja á suma með tímanum. (Orðskviðirnir 14:13) Sumir unglingar, sem hafa brennt sig á þessum illa heimi, vilja ná tökum á lífi sínu og snúa aftur til sannleika Biblíunnar sem þeir lærðu á barnsaldri. En er hægt að gera það?
Uppreisnargjarn sonur fer að heiman
Dæmisaga Jesú um glataða soninn í Lúkasi 15:11-32 varpar skýru ljósi á þessa spurningu. Sagan segir: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ‚Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.‘ Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land.“
Faðir þessa unga manns var greinilega ekki harðneskjulegur, hrottafenginn eða of strangur; uppreisnin varð ekki rakin til þess. Samkvæmt Móselögunum átti sonur tilkall til töluverðs hluta af eignum föður síns, en yfirleitt ekki fyrr en faðirinn dó. (5. Mósebók 21:15-17) Hvílíkt harðlyndi að heimta sinn skerf fyrirfram! En faðirinn varð ástúðlega við bón hans. (Samanber 1. Mósebók 25:5, 6.) Það var því greinilega hugarfar sonarins — ekki föðurins — sem var rangt. Eins og fræðimaðurinn Alfred Edersheim orðar það mislíkaði honum kannski „reglan og aginn á heimilinu“ og hann þráði í eigingirni sinni „frelsi og nautnalíf.“
Eins og grein í síðasta tölublaði viðurkenndi eru ekki allir foreldrar vinsamlegir og hugulsamir.a En þegar foreldri er harðneskjulegt eða ósanngjarnt er varla skásta lausnin að gera uppreisn; það er sjálfskaparvíti. Lítum aftur á dæmisögu Jesú. Eftir að ungi maðurinn var kominn langt að heiman „sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort.“ Það dugði ekki einu sinni til að koma fyrir hann vitinu. Hann var enn sjálfsöruggur og „settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.“
Biblíufræðingurinn Herbert Lockyer segir: „Gyðingana, sem hlýddu á Jesú, hlýtur að hafa hryllt við orðunum ‚gæta svína,‘ því að í augum Gyðings var ekki hægt að sökkva dýpra.“ Eins er það núna að þeir sem yfirgefa sannleika Biblíunnar lenda oft í erfiðum eða jafnvel auðmýkjandi aðstæðum. Kristin stúlka, sem hljópst að heiman, viðurkennir: „Ég fór með alla peningana mína í fíkniefni og átti ekkert eftir til að kaupa neitt annað. Þannig að ég fór að hnupla hverju sem var úr búðum til að fjármagna þetta líferni.“
„Kom hann til sjálfs sín“
En hvernig brást glataði sonurinn við er hann var kominn í þessar ógöngur? Jesús sagði að hann hafi loksins ‚komið til sjálfs sín.‘ Hann hafði með öðrum orðum verið „utan við sig“ í geðveikislegum draumaheimi, blindaður fyrir því hve djúpt hann var raunverulega sokkinn. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:24-26.
Sumir uppreisnargjarnir unglingar nú á tímum hafa líka komið til sjálfs sín með harkalegum hætti. Miskunnarlausar afleiðingar taumlauss lífernis — fangavist, alvarlegar líkamsmeiðingar eða samræðissjúkdómar — geta hrist ærlega upp í mönnum. Þeir finna óþyrmilega fyrir sannleika Orðskviðanna 1:32: „Fráhvarf fávísra drepur þá.“
Elísabet fór að heiman ung að árum og byrjaði að neyta fíkniefna. „Ég gleymdi Jehóva,“ segir hún. Er hún var eitt sinn stödd í New York átti hún leið framhjá aðalstöðvum votta Jehóva. Áhrifin létu ekki á sér standa. „Ég fann sáran sting í hjarta mér og huga,“ segir hún. „Hvað hafði ég gert? Hvernig leyfði ég sjálfri mér að lenda í þessum ógöngum?“
Þegar glataði sonurinn horfðist loksins í augu við sannleikann tók hann ákvörðun sem bar vitni um hugrekki — að snúa aftur heim og ná tökum á lífi sínu! En hvernig myndi faðir hans bregðast við eftir að sonur hans hafði sært hann og svikið? Frásagan segir: „Er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“ Já, áður en ungi maðurinn gat farið með vandlega æfða játningu sína tók faðir hans frumkvæðið og lét í ljós ást sína og fyrirgefningu.
Að útkljá málið við Guð
Glataði sonurinn sagði samt sem áður við föður sinn: „Ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.“ Hvað má læra af því? Ungt fólk, sem fjarlægist vegu Guðs, getur ekki náð tökum á lífi sínu fyrr en það hefur ‚útkljáð málin‘ við Guð sjálfan. (Jesaja 1:18, NW) Við getum verið þakklát að Jehóva skuli bjóða upp á slíkar sættir. Faðirinn í dæmisögu Jesú táknar einmitt Jehóva Guð. Og Guð sýnir sama fyrirgefningaranda með því að segja við iðrunarfulla syndara: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar.“ (Malakí 3:7; samanber Sálm 103:13, 14.) En líkt og iðrunarfullir Gyðingar á biblíutímanum verða þeir að einsetja sér að ‚rannsaka breytni sína og prófa og snúa sér til Jehóva.‘ — Harmljóðin 3:40.
Þetta merkir að líta gagnrýnu auga á syndugt hátterni sitt. Þegar villuráfandi unglingur gerir það ætti hann að finna hjá sér hvöt til að játa syndir sínar fyrir Jehóva Guði. Sálmaritarinn sagði: „Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég . . . Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. . . . Og þú fyrirgafst syndasekt mína.“ — Sálmarnir 32:3-5.
Hvað nú ef ungur maður eða kona hefur gerst sek um mjög alvarlega synd — til dæmis fóstureyðingu, lauslæti, fíkniefnaneyslu eða afbrot? Það er skiljanlegt að finnast maður óverðugur fyrirgefningar. Jóni, sem nefndur var í upphafi greinarinnar, var þannig innanbrjósts. Þess vegna stóð hann stjarfur fyrir utan ríkissalinn uns vingjarnlegur safnaðaröldungur minnti hann á að Manasse konungur í Forn-Ísrael hafi líka gerst sekur um alvarlegar syndir — þeirra á meðal morð! Samt fyrirgaf Jehóva honum. (2. Kroníkubók 33:1-13) „Þessi öldungur bjargaði lífi mínu,“ segir Jón. Nú vissi hann að fyrirgefning var möguleg og það gaf honum hugrekki til að fara inn í ríkissalinn og biðja um hjálp.b
Flest ungmenni í þessari aðstöðu þarfnast einnig hjálpar til að útkljá málin við Guð, og öldungar safnaðarins á staðnum eru boðnir og búnir að veita hana. Þeir geta hlustað með samúð og skilningi er ungmennið ‚játar syndir sínar.‘ Þeir geta líka agað og hjálpað á raunhæfan hátt, til dæmis með því að fá einhvern til að kenna ungmenninu „undirstöðuatriði Guðs orða“ með heimabiblíunámi. Og ef hinn villuráfandi á erfitt með að biðja, þá getur öldungur beðið fyrir hans hönd. Biblían fullvissar okkur um að „trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan.“ — Jakobsbréfið 5:14-16; Hebreabréfið 5:12.
Láttu fætur þína troða beinar brautir
Það er auðvitað bara fyrsta skrefið að útkljá málin við Guð. Villuráfandi unglingar ættu að reyna að sættast við foreldra sína líkt og glataði sonurinn bað föður sinn afsökunar. Einlæg afsökunarbeiðni getur átt drjúgan þátt í að lina þann sársauka sem þeir hafa valdið foreldrum sínum og tryggja stuðning þeirra. Ung stúlka, sem hljópst að heiman og sneri aftur með óskilgetið barn, segir: „Mamma og pabbi sýndu mér gífurlega ást og kærleika.“
Unglingur, sem vill þóknast Guði, þarf að ‚láta fætur sína troða beinar brautir.‘ (Hebreabréfið 12:13) Það getur kostað breytta lífsstefnu, venjur og félagsskap. (Sálmur 25:9; Orðskviðirnir 9:6) Einnig er mikilvægt að venja sig á reglulegt einkanám. Stúlka, sem verið hafði uppreisnargjörn, segir: „Ég les daglega í Biblíunni og les allt hið biblíutengda efni sem vottar Jehóva gefa út. Ég þakka Guði fyrir að gefa mér annað tækifæri.“
Jón segir: „Ég lít um öxl til þess tíma sem ég sóaði. Ég hugsa um það hvernig hlutirnir hefðu getað verið, en það er ekki hægt að breyta því sem búið er.“ Sem betur fer tilbiðjum við miskunnsaman Guð er hvetur þá hlýlega, sem hafa yfirgefið hann, til að snúa aftur. Hví ekki að þiggja boð hans?
[Neðanmáls]
a Sjá „Ungt fólk spyr . . . Af hverju ætti ég að hlýða foreldrum mínum?“ í júlí-september 1995 tölublaði okkar.
b Ef þú varst ekki alinn upp sem kristinn maður en sérð þörfina á að breyta um lífsstefnu er heimsókn í ríkissal votta Jehóva góð byrjun. Biddu um ókeypis biblíunám. Þannig geturðu fengið persónulega aðstoð til að ná tökum á lífi þínu.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Þroskaðir kristnir menn geta hjálpað þér að ná tökum á lífi þínu.