Jehóva yfirgefur ekki trúa þjóna sína
„[Jehóva] yfirgefur eigi sína trúuðu. Þeir verða að eilífu varðveittir.“ — SÁLM. 37:28.
1, 2. (a) Hvaða atburðir áttu sér stað á tíundu öld f.Kr. sem reyndu á hollustu þjóna Guðs? (b) Við hvaða þrenns konar aðstæður verndaði Jehóva trúa þjóna sína?
ÞETTA er á tíundu öld f.Kr. og þjónar Jehóva þurfa að taka afstöðu. Borgarastríði hefur með naumindum verið afstýrt með því að veita óstýrilátum ættkvíslum, sem búa í norðurhluta Ísraels, visst sjálfstæði. Jeróbóam, nýskipaður konungur þeirra, er fljótur til að treysta völd sín með því að koma á nýrri ríkistrú. Hann heimtar algera hollustu af þegnum sínum. Hvað gera trúir þjónar Jehóva við þessar aðstæður? Ætla þeir að vera trúir þeim Guði sem þeir dýrka? Þúsundir manna eru ráðvandar Jehóva og hann gætir þeirra. — 1. Kon. 12:1-33; 2. Kron. 11:13, 14.
2 Það reynir líka á hollustu þjóna Guðs á okkar tímum. „Verið algáð, vakið,“ segir í Biblíunni. „Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ Getum við ‚staðið gegn honum stöðug í trúnni‘? (1. Pét. 5:8, 9) Við skulum kynna okkur vissa atburði frá þeim tíma þegar Jeróbóam tók við völdum árið 997 f.Kr. og kanna hvað má læra af þeim. Þetta voru erfiðir tímar og trúir þjónar Jehóva sættu kúgun. Þeir þurftu einnig að standast áhrif fráhvarfsmanna og höfðu krefjandi verkefni að vinna. Jehóva yfirgaf ekki trúa þjóna sína við þessar aðstæður og hann gerir það ekki heldur á okkar tímum. — Sálm. 37:28.
Þegar þeir sæta kúgun
3. Af hverju var ekki þjakandi að búa undir stjórn Davíðs?
3 Kynnum okkur fyrst við hvaða aðstæður Jeróbóam var skipaður konungur. Í Orðskviðunum 29:2 segir: „Þegar ranglátir drottna stynur þjóðin.“ Þjóðin stundi ekki undir stjórn Davíðs konungs í Ísrael. Davíð var ekki fullkominn en hann var hins vegar trúr Guði og treysti á hann. Davíð stjórnaði ekki með hörku. Jehóva gerði sáttmála við hann og sagði: „Ætt þín og konungdæmi skulu ævinlega standa fyrir augliti mínu. Hásæti þitt skal að eilífu stöðugt standa.“ — 2. Sam. 7:16.
4. Hverju var blessunin háð sem Salómon og þegnar hans bjuggu við?
4 Friðurinn og velsældin undir stjórn Salómons, sonar Davíðs, var í upphafi slík að hún getur með réttu fyrirmyndað þúsund ára stjórn Jesú Krists sem er í vændum. (Sálm. 72:1, 17) Engin af 12 ættkvíslum Ísraels hafði ástæðu til að gera uppreisn. En blessunin, sem Salómon og þegnar hans bjuggu við, var skilyrðum háð. Jehóva hafði sagt Salómon: „Ef þú breytir eftir boðum mínum, ferð að lögum mínum, hlýðir öllum skipunum mínum og lifir samkvæmt þeim mun ég efna við þig heitið sem ég vann Davíð, föður þínum, og búa meðal Ísraelsmanna. Ég mun þá ekki yfirgefa þjóð mína, Ísrael.“ — 1. Kon. 6:11-13.
5, 6. Hvaða áhrif hafði ótrúmennska Salómons við Jehóva?
5 Á gamals aldri gerðist Salómon ótrúr Jehóva og fór að taka þátt í falsguðadýrkun. (1. Kon. 11:4-6) Smám saman hætti hann að fylgja lögum Jehóva og fór að kúga þegna sína. Slík varð kúgunin að þjóðin kvartaði undan henni eftir að hann dó og bað Rehabeam, son hans og arftaka, að létta okið. (1. Kon. 12:4) Hvernig brást Jehóva við ótrúmennsku Salómons?
6 Í Biblíunni segir: „Drottinn reiddist Salómon vegna þess að hann hafði gerst fráhverfur . . . Guði Ísraels, sem hafði birst honum tvisvar.“ Jehóva sagði Salómon: „Fyrst þú . . . hefur hvorki haldið sáttmála minn né þau fyrirmæli sem ég hef gefið þér mun ég hrifsa af þér konungsríkið og fá það þjóni þínum.“ — 1. Kon. 11:9-11.
7. Hvernig annaðist Jehóva trúa þjóna sína þó að hann hafnaði Salómon?
7 Jehóva sendi síðan Ahía spámann til að smyrja þann sem átti að létta kúguninni af þjóðinni. Það var Jeróbóam, dugandi maður sem var í þjónustu Salómons. Jehóva lagði blessun sína yfir það að ættkvíslirnar 12 skiptust í tvö ríki en hélt engu að síður sáttmálann um ríkið sem hann hafði gert við Davíð. Jeróbóam átti að fá tíu ættkvíslir en tvær yrðu áfram undir stjórn konunga af ætt Davíðs. Rehabeam var einn þeirra. (1. Kon. 11:29-37; 12:16, 17, 21) Jehóva sagði við Jeróbóam: „Ef þú hlýðir öllu sem ég býð þér, lifir samkvæmt fyrirmælum mínum, ástundar það sem rétt er í augum mínum og heldur ákvæði mín og lög eins og Davíð, þjónn minn, gerði, þá mun ég vera með þér. Ég mun gera ætt þína að konungsætt, treysta hana í sessi eins og ég gerði fyrir hús Davíðs og ég mun fá þér Ísrael.“ (1. Kon. 11:38) Jehóva lét til sín taka og gerði ráðstafanir til að aflétta kúguninni.
8. Hvað þurfa þjónar Guðs nú á tímum að þola?
8 Nóg er um kúgun og ranglæti á okkar tímum. „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu,“ segir í Prédikaranum 8:9. Ágjörn viðskiptaöfl og spillt stjórnvöld valda stundum efnahagsþrengingum. Leiðtogar stjórnmála, viðskipta og trúmála gera sig oft seka um alls konar siðleysi. Trúum þjónum Guðs er því stundum innanbrjósts eins og hinum réttláta Lot sem „mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu“. (2. Pét. 2:7) Og oft erum við ofsótt af hrokafullum valdhöfum þó að við reynum að lifa kyrrlátu lífi og fylgja siðferðisreglum Guðs. — 2. Tím. 3:1-5, 12.
9. (a) Hvað er Jehóva búinn að gera nú þegar til að frelsa þjóna sína? (b) Af hverju getum við treyst að Jesús verði alltaf trúr Guði?
9 Við getum þó treyst þeim grundvallarsannleika að Jehóva yfirgefur ekki trúa þjóna sína. Hugleiddu eitt andartak hvað hann er búinn að gera nú þegar til að víkja spilltum valdhöfum heims úr vegi. Messíasarríki hans í höndum Jesú Krists er nú þegar stofnsett. Kristur hefur setið við völd á himnum í næstum heila öld. Innan skamms veitir hann öllum sem óttast nafn Guðs fullkomna lausn undan oki og kúgun. (Lestu Opinberunarbókina 11:15-18.) Jesús reyndist Guði trúr allt til dauða. Hann mun aldrei bregðast þegnum sínum eins og Salómon gerði. — Hebr. 7:26; 1. Pét. 2:6.
10. (a) Hvernig getum við sýnt að ríki Guðs sé okkur kært? (b) Hverju getum við treyst þegar við verðum fyrir prófraunum?
10 Ríki Guðs er raunverulegt og á eftir að binda enda á alla kúgun. Jehóva á óskipta hollustu okkar. Við treystum óhikað á ríki hans, höfnum guðleysi heimsins og kappkostum að gera það sem gott er. (Tít. 2:12-14) Við gerum allt sem við getum til að vera óflekkuð af heiminum. (2. Pét. 3:14) Óháð því hvers konar prófraunum við lendum í getum við verið örugg um að Jehóva verndi okkur þegar trú okkar sætir árásum. (Lestu Sálm 97:10.) Og í Sálmi 116:15 segir: „Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.“ Þjónar Jehóva eru svo dýrmætir í augum hans að hann leyfir ekki að þeir fyrirfarist sem hópur eða heild.
Andspænis fráhvarfi
11. Hvernig brá Jeróbóam trúnaði við Jehóva?
11 Jeróbóam konungur hefði getað létt eitthvað á okinu sem hvíldi á þjónum Guðs. En það fór á annan veg því að sú stefna, sem hann tók, reyndi enn meira á hollustu þeirra við Guð. Hann gerði sig ekki ánægðan með þann heiður að vera skipaður konungur heldur leitaði leiða til að festa sig í sessi. Hann hugsaði með sér: „Ef fólkið fer héðan upp eftir til að færa sláturfórnir í musteri Drottins í Jerúsalem, þá mun það snúast til fylgis við Rehabeam Júdakonung að nýju. Það mun drepa mig og ganga Rehabeam konungi Júda aftur á hönd.“ Jeróbóam kom því á fót nýrri trú þar sem tveir gullkálfar gegndu aðalhlutverki. „Hann kom öðrum kálfinum fyrir í Betel en hinn flutti hann til Dan. Þetta varð Ísrael tilefni til syndar. En fólkið fór fyrir öðrum kálfinum til Dan. Jeróbóam byggði einnig hof á fórnarhæðunum og skipaði presta af öllum stéttum þjóðarinnar, jafnvel þá sem ekki voru af ætt Leví.“ Jeróbóam ákvað meira að segja „hátíðisdag fyrir Ísraelsmenn“ og „gekk . . . upp að altarinu til þess að færa reykelsisfórn“. — 1. Kon. 12:26-33.
12. Hvað gerðu trúir þjónar Guðs í Norðurríkinu þegar Jeróbóam kom á fót kálfadýrkun þar?
12 Hvað var nú til ráða hjá trúum þjónum Guðs í Norðurríkinu? Levítarnir, sem bjuggu þar, brugðust tafarlaust við líkt og trúir forfeður þeirra höfðu gert. (2. Mós. 32:26-28; 4. Mós. 35:6-8; 5. Mós. 33:8, 9) Þeir yfirgáfu arfleifð sína í borgunum, sem þeim höfðu verið gefnar, og fluttust ásamt fjölskyldum sínum suður til Júda þar sem þeir gátu haldið áfram að tilbiðja Jehóva án truflunar. (2. Kron. 11:13, 14) Margir Ísraelsmenn, sem höfðu búið um stundar sakir í Júda, kusu að búa þar áfram í stað þess að snúa aftur heim í Norðurríkið. (2. Kron. 10:17) Jehóva sá til þess að Ísraelsmenn af síðari kynslóðum gætu snúið baki við kálfadýrkun Norðurríkisins, flust til Júda og tekið upp sanna tilbeiðslu. — 2. Kron. 15:9-15.
13. Hvernig hafa fráhvarfsáhrif verið prófraun fyrir þjóna Guðs?
13 Þjónum Guðs nú á dögum stafar einnig hætta af fráhvarfsmönnum og þeim áhrifum sem þeir hafa. Ýmsir valdhafar hafa reynt að setja á fót einhvers konar ríkistrú og þvinga þegna sína til að játast undir hana. Prestar kristna heimsins og fleiri hafa með ósvífni gert kröfu til þess að kallast „konunglegur prestdómur“. Andasmurða einstaklinga, sem mynda þennan ‚konunglega prestdóm‘, er hins vegar aðeins að finna meðal sannkristinna manna. — 1. Pét. 2:9; Opinb. 14:1-5.
14. Hvernig ættum við að bregðast við fráhvarfshugmyndum?
14 Trúir þjónar Guðs á okkar tímum láta ekki blekkjast af fráhvarfshugmyndum frekar en trúfastir levítar á tíundu öld f.Kr. Andasmurðir kristnir menn og félagar þeirra forðast fráhvarfshugmyndir og vísa þeim tafarlaust á bug. (Lestu Rómverjabréfið 16:17.) Við hlýðum yfirvöldum fúslega í veraldlegum málum og erum hlutlaus gagnvart deilumálum heimsins en hollusta okkar tilheyrir ríki Guðs. (Jóh. 18:36; Rómv. 13:1-8) Við hlustum ekki á þá sem fullyrða ranglega að þeir þjóni Guði en smána hann með hegðun sinni. — Tít. 1:16.
15. Af hverju verðskuldar hinn „trúi og hyggni þjónn“ hollustu okkar?
15 Hafðu líka hugfast að Jehóva hefur gert hjartahreinu fólki kleift að yfirgefa illan heim í táknrænum skilningi og ganga inn í andlegu paradísina sem hann hefur skapað. (2. Kor. 12:1-4) Við erum honum innilega þakklát og fylgjum dyggilega hinum ‚trúa og hyggna þjóni sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma‘. Kristur hefur sett þennan þjón „yfir allar eigur sínar“. (Matt. 24:45-47) Þess vegna höfum við enga ástæðu til að hafna hinum trúa þjóni eða snúa aftur út í heim Satans, þó að við skiljum ekki til fullnustu ákveðna afstöðu sem þjónninn tekur. Við sýnum þess í stað hollustu og auðmýkt og bíðum þess að Jehóva varpi skýrara ljósi á málið.
Þegar þeir sinna verkefnum sínum
16. Hvaða verkefni fékk spámaður í Júda?
16 Jehóva fordæmdi Jeróbóam fyrir fráhvarfið. Hann fól spámanni í Júda það verkefni að fara norður til Betel og ganga til fundar við Jeróbóam meðan hann þjónaði við altarið. Spámaðurinn átti að flytja Jeróbóam harðan dómsboðskap. Þetta hefur ekki verið auðvelt verkefni. — 1. Kon. 13:1-3.
17. Hvernig verndaði Jehóva sendiboða sinn?
17 Jeróbóam reiddist heiftarlega þegar hann heyrði dóm Jehóva. Hann rétti út hönd sína móti sendimanni Guðs og hrópaði til nærstaddra manna: „Grípið hann.“ En áður en nokkur gat hreyft legg eða lið visnaði „höndin, sem hann rétti út gegn guðsmanninum . . . svo að hann gat ekki dregið hana að sér aftur. Altarið klofnaði og fituaskan á altarinu sáldraðist niður.“ Jeróbóam neyddist til að biðja spámanninn um að milda reiði Jehóva og biðja þess að höndin yrði heil að nýju. Spámaðurinn gerði það og visnuð höndin læknaðist. Þannig verndaði Jehóva sendiboða sinn. — 1. Kon. 13:4-6.
18. Hvernig verndar Jehóva okkur þegar við þjónum honum óttalaust?
18 Þegar við boðum fagnaðarerindið og gerum fólk að lærisveinum mætum við stundum óvild eða jafnvel fjandskap. (Matt. 24:14; 28:19, 20) En við megum aldrei láta óttann við höfnun draga úr kostgæfni okkar í boðunarstarfinu. Okkur veitist sá heiður að þjóna Jehóva óttalaust í heilagleik líkt og hinn ónafngreindi spámaður á dögum Jeróbóams.a (Lúk. 1:74, 75) Við búumst ekki við að Jehóva skerist í leikinn með kraftaverki nú á dögum en vitum samt að hann verndar og styður votta sína fyrir atbeina heilags anda og englanna. (Lestu Jóhannes 14:15-17 og Opinberunarbókina 14:6.) Guð yfirgefur aldrei þá sem halda áfram að tala orð hans óttalaust. — Fil. 1:14, 28.
Jehóva gætir trúfastra þjóna sinna
19, 20. (a) Af hverju getum við treyst að Jehóva yfirgefi okkur aldrei? (b) Um hvaða spurningar er fjallað í næstu grein?
19 Jehóva er trúfastur Guð. (Opinb. 15:4; 16:5) Hann er „miskunnsamur [„trúfastur“, NW] í öllum verkum sínum“. (Sálm. 145:17) Og í Biblíunni er því lofað að ‚hann varðveiti veg sinna réttsýnu [„trúföstu“, NW]‘. (Orðskv. 2:8) Trúfastir þjónar Guðs geta treyst á leiðsögn hans og stuðning þegar prófraunir eða fráhvarfshugmyndir verða á vegi þeirra eða þegar þeir takast á við krefjandi verkefni í þjónustu hans.
20 En við þurfum hvert og eitt að hugleiða eftirfarandi: Hvað getur hjálpað mér að vera Jehóva trúr óháð þeim prófraunum eða freistingum sem kunna að verða á vegi mínum? Með öðrum orðum, hvað get ég gert til að styrkja hollustu mína við Guð?
[Neðanmáls]
a Í næstu grein er fjallað um það hvort spámaðurinn hafi haldið áfram að hlýða Jehóva og sagt frá því hvað varð um hann.
Hvert er svarið?
• Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann yfirgefur ekki trúa þjóna sína þegar þeir sæta kúgun?
• Hvernig ættum við að bregðast við fráhvarfsmönnum og hugmyndum þeirra?
• Hvernig verndar Jehóva trúa þjóna sína þegar þeir boða fagnaðarerindið?
[Kort/mynd á blaðsíðu 5]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
NORÐURRÍKIÐ (Jeróbóam)
Dan
SÍKEM
Betel
SUÐURRÍKIÐ (Rehabeam)
JERÚSALEM
[Mynd]
Jehóva yfirgaf ekki trúa þjóna sína þegar Jeróbóam kom á kálfadýrkun.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Blessunin, sem Salómon og þegnar hans bjuggu við, var skilyrðum háð.