Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w11 15.2. bls. 3-5
  • Kenndu börnum þínum að sýna öðrum virðingu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kenndu börnum þínum að sýna öðrum virðingu
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Mannasiðir kenndir með góðu fordæmi
  • Notum frásögur úr Biblíunni í kennslunni
  • „Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Þjónar Guðs eiga að sýna góða mannasiði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Foreldrar — setjið börnum ykkar gott fordæmi
    Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Ræktaðu góða, kristna mannasiði í ruddalegum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
w11 15.2. bls. 3-5

Kenndu börnum þínum að sýna öðrum virðingu

ÞÝSKT máltæki hljómar eitthvað á þessa leið: „Með hatt í hönd ferðast menn um lönd.“ Í mörgum menningarsamfélögum taldist það almenn kurteisi að karlmenn tækju ofan hattinn þegar þeir heilsuðu fólki og þegar þeim var boðið inn á heimili fólks. Máltækið, sem vitnað var í hér að ofan, merkir að fólk sé almennt vingjarnlegra og jákvæðara gagnvart þeim sem kunna góða mannasiði.

Ungt fólk, sem kemur vel fram, er öllum til ánægju. Farandhirðir í Hondúras fer í boðunarstarfið hús úr húsi með boðberum á öllum aldri. Hann segir: „Ég hef oft tekið eftir því að vel uppalið og kurteist barn hefur meiri áhrif á húsráðandann en orð mín.“

Nú þegar virðingarleysi verður æ algengara er bæði gott og gagnlegt að vita hvernig á að koma fram við aðra. Þar að auki segir í Biblíunni: „Hegðið ykkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist.“ (Fil. 1:27; 2. Tím. 3:1-5) Það er mjög mikilvægt að kenna börnunum að sýna öðrum virðingu. Hvernig er hægt að kenna þeim að vera ekki bara kurteis heldur líka tillitssöm og vingjarnleg?a

Mannasiðir kenndir með góðu fordæmi

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Foreldrar venja börn sín á kurteisi fyrst og fremst með því að temja sér sjálfir góða mannasiði. (5. Mós. 6:6, 7) Það er mikilvægt að útskýra fyrir barninu hvers vegna það eigi að vera kurteist en það þarf meira til. Auk þess að leggja áherslu á góða mannasiði er gott fordæmi alveg nauðsynlegt.

Við skulum líta á dæmi. Paulab ólst upp á kristnu heimili hjá einstæðri móður. Henni varð eðlislægt að sýna öllum kurteisi. Hvers vegna? Hún svarar því á þessa leið: „Mamma gekk á undan með góðu fordæmi, svo að okkur krökkunum fannst bara eðlilegt að vera kurteis.“ Vottur, sem heitir Walter, kenndi sonum sínum að virða móður þeirra sem var ekki vottur. Hann segir: „Ég reyndi með góðu fordæmi að kenna sonum mínum að virða móður sína og sagði aldrei neitt niðrandi um hana.“ Walter uppfræddi drengina ávallt frá orði Guðs og bað Jehóva í bæn um að hjálpa sér. Annar þeirra þjónar nú á deildarskrifstofu Votta Jehóva en hinn er brautryðjandi. Þeir elska og virða báða foreldra sína.

Í Biblíunni segir: „Guð er Guð friðar, ekki truflunar.“ (1. Kor. 14:33) Jehóva er reglufastur og skipulagður í öllu sem hann gerir. Kristnir menn ættu að leitast við að líkja eftir þessum eiginleikum Guðs og hafa allt hreint og snyrtilegt á heimilinu. Sumir foreldrar hafa kennt börnunum að búa um rúmið sitt á hverjum morgni áður en þau fara í skólann, ganga frá fötunum sínum og hjálpa til við húsverkin. Ef börnin sjá að heimilið er hreint og allt í röð og reglu er líklegra að þau haldi sínu herbergi snyrtilegu.

Hvernig líta börnin þín á það sem þau læra í skólanum? Þakka þau fyrir það sem kennararnir gera fyrir þau? Sýnir þú þakklæti sem foreldri? Börn hafa tilhneigingu til að hafa sama viðhorf og foreldrarnir til námsins og kennaranna. Hvernig væri að hvetja þau til að gera það að venju að þakka kennurunum? Að þakka fyrir veitta þjónustu er frábær leið til að sýna fólki kurteisi, hvort sem um er að ræða kennara, lækna, afgreiðslufólk eða aðra. (Lúk. 17:15, 16) Ungt kristið fólk, sem ber af skólafélögum sínum sökum kurteisi og góðrar hegðunar, á hrós skilið.

Þeir sem tilheyra kristna söfnuðinum ættu að vera öðrum til fyrirmyndar í framkomu. Það er gaman að sjá þegar ungt fólk í söfnuðinum temur sér góða mannasiði og þakkar kurteislega fyrir sig. Þegar fullorðnir sýna Jehóva þá virðingu að fylgjast vel með kennslunni á samkomum líkja börnin eftir þeim. Börn geta lært að sýna tillitssemi af góðri framkomu annarra í ríkissalnum. Andrew, sem er fjögurra ára, hefur til dæmis lært að segja „afsakið“ þegar hann þarf að komast fram hjá fullorðnum.

Geta foreldrar gert eitthvað fleira til að hjálpa börnunum að tileinka sér góða framkomu? Foreldrar ættu að taka sér tíma til að sýna börnunum hvaða lærdóm megi draga af fjölmörgum frásögum í orði Guðs. — Rómv. 15:4.

Notum frásögur úr Biblíunni í kennslunni

Móðir Samúels hefur að öllum líkindum kennt syni sínum að hneigja sig fyrir Elí æðstapresti. Samúel hefur sennilega ekki verið nema þriggja eða fjögurra ára gamall þegar hún fór með hann í tjaldbúðina. (1. Sam. 1:28) Gætir þú látið barnið þitt æfa sig í að heilsa kurteislega? Samúel litli var „þekkur bæði Guði og mönnum“ og það geta börnin þín líka verið. — 1. Sam. 2:26.

Hvernig væri að nota frásögur úr Biblíunni til að draga fram muninn á kurteisi og ókurteisi? Þegar ótrúi konungurinn Ahasía vildi hitta Elía spámann sendi hann „höfuðsmann yfir fimmtíu manna herflokki“ til að boða Elía á fund sinn. Höfuðsmaðurinn skipaði spámanninum að koma með sér. Það var í hæsta máta óviðeigandi að tala þannig til manns sem var fulltrúi Guðs. Hvernig svaraði Elía? Hann sagði: „Sé ég guðsmaður skal eldur koma af himni og gleypa þig og flokk þinn.“ Og það var nákvæmlega það sem gerðist. „Þegar í stað kom eldur af himni og gleypti höfuðsmanninn og flokk hans.“ — 2. Kon. 1:9, 10.

Annar höfuðsmaður yfir fimmtíu manna herflokki var sendur til að sækja Elía. Hann reyndi líka að skipa Elía að koma með sér. Aftur kom eldur af himni ofan. Síðan kom þriðji höfuðsmaðurinn yfir fimmtíu manna herflokki til Elía. Þessi maður sýndi virðingu. Í stað þess að skipa Elía fyrir þá féll hann á kné og bað hann og sagði: „Guðsmaður, met þú líf mitt og líf þessara fimmtíu þræla þinna einhvers. Nú hefur eldur komið af himni og gleypt báða fyrri höfuðsmennina og fimmtíu manna lið þeirra. Megi nú líf mitt vera þér einhvers virði.“ Myndi spámaður Guðs kalla eld yfir mann sem talaði af slíkri virðingu þótt hann hafi sennilega verið hræddur? Það var óhugsandi. Þess í stað sagði engill Jehóva Elía að fara með þessum höfuðsmanni. (2. Kon. 1:11-15) Sýnir þetta ekki fram á hvað það er mikilvægt að sýna öðrum virðingu?

Þegar rómverskir hermenn tóku Pál postula fastan í musterinu gekk hann ekki að því gefnu að hann mætti taka til máls. Páll spurði hersveitarforingjann kurteislega: „Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?“ Árangurinn varð sá að Páll fékk að verja mál sitt sjálfur. — Post. 21:37-40.

Þegar Jesús var yfirheyrður var hann löðrungaður. Hann vissi hins vegar hvernig réttast væri að andmæla: „Hafi ég illa mælt þá sanna þú að svo hafi verið en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“ Enginn gat fundið neitt að orðum Jesú. — Jóh. 18:22, 23.

Orð Guðs hefur líka að geyma dæmi um það hvernig við getum svarað alvarlegum ávítum og játað á kurteislegan hátt ranga hegðun eða vanrækslu. (1. Mós. 41:9-13; Post. 8:20-24) Abígail baðst til dæmis afsökunar á því hve Nabal, eiginmaður hennar, kom illa fram við Davíð. Hún bætti rausnarlegum matargjöfum við afsökunarbeiðni sína. Davíð þótti svo mikið til um það sem Abígail gerði að eftir dauða Nabals valdi Davíð hana sér fyrir eiginkonu. — 1. Sam. 25:23-41.

Kennum börnunum að vera kurteis og sýna öðrum virðingu, hvort sem um er að ræða háttvísi við erfiðar aðstæður eða bara almenna mannasiði. Ef við látum ,ljós okkar lýsa þannig meðal mannanna‘ verður það til þess að þeir ,vegsama föður okkar sem er á himnum‘. — Matt. 5:16.

[Neðanmáls]

a Foreldrar þurfa að sjálfsögðu að hjálpa börnunum að gera greinarmun á því að sýna fullorðnum kurteisi og að láta undan vilja einhvers sem gæti haft illt í hyggju. Sjá Vaknið! október - desember 2007, bls. 3-11.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila