Hjálpum nýjum að taka framförum
1 Hinn 17. apríl 1992 söfnuðust nærri 11,5 milljónir manna saman um víða veröld til að halda minningarhátíðina um dauða Krists. Það var meira en tvisvar og hálfum sinnum heildarfjöldi boðberanna í söfnuðum votta Jehóva. Þvílíkt ánægjuefni að sjá slíkan skara flykkjast „upp á fjall Jehóva“! (Míka 4:2) Sem stendur eru eitthvað um sjö milljónir manna sem sýna að vissu marki áhuga á sannri tilbeiðslu og eru ekki enn þá farnar að lofa Jehóva opinberlega. Ekki fer á milli mála að orð Jesú, „uppskeran er mikil,“ hafa aldrei verið eins þýðingarmikil. — Matt. 9:37, 38.
2 Í aprílmánuði munum við gera sérstakt átak til að hjálpa öllum sem hæfir eru til að taka þátt í boðunarstarfinu. Bóknámsstjórinn mun hér gegna lykilhlutverki og aðrir duglegir boðberar og brautryðjendur í hópnum hans vera honum til aðstoðar. Þríþætt takmark okkar er að (1) koma í kring heimabiblíunámi með nýju fólki sem sækir sérræðuna og minningarhátíðina á þessu ári; (2) hvetja þá sem eru að nema til að verða hæfir til að vera óskírðir boðberar og (3) auka þátttöku okkar hvers og eins í boðunarstarfinu á akrinum.
3 Allir ættu að leggja sig í líma við að bjóða velkomna þá nýju sem koma á samkomurnar og leitast við að kynnast þeim. Hvað getum við gert til að hvetja fleira af þessu áhugasama fólki til að hafa reglulegt heimabiblíunám?
4 Að meðaltali voru haldin 173 heimabiblíunám á Íslandi í hverjum mánuði þjónustuárið 1992. Boðberar gætu boðið bóknámsstjóranum sínum að koma með þeim í biblíunám til þess að hann nái að kynnast nemendunum. Sumir þessara biblíunema eru ef til vill þegar farnir að sækja samkomur og eru kannski hæfir til þátttöku í starfinu hús úr húsi. Eru hinir nýju farnir að bera nokkuð reglulega vitni óformlega? Uppfylla þeir skilyrðin til að verða óskírðir boðberar eins og þau eru sett fram í Þjónustubókinni á bls. 97-9? Sé svo, útskýrið þá fyrir þeim hvernig þeir geta byrjað að fara í starfið hús úr húsi eftir að hafa verið samþykktir sem óskírðir boðberar.
5 Okkur má ekki yfirsjást að uppörva hvert annað innan okkar kristna bræðrafélags. (Hebr. 10:24, 25) Hafi einhver hægt á sér í þjónustunni ættu bóknámsstjórarnir að gera ákveðnar ráðstafanir til að veitt sé hjálp og uppörvun. Stundum þarf ekki meira til en að bjóða viðkomandi hlýlega að koma með okkur út í starfið.
6 Við þurfum öll að vinna vel saman til að gera apríl að sérstökum starfsmánuði. Það getur gert gæfumuninn ef bóknámsstjórinn tekur af eldmóði forystuna og hjálpar sérhverjum meðlimi í bóknámshópnum að eiga fulla hlutdeild í boðunarstarfinu. Bæta má við fleiri samansöfnunum ef henta þykir. Öldruðum má veita sérstaka athygli og hjálpa má ungmennum á raunhæfan hátt. Foreldrar ættu að sjá svo um að allir meðlimir fjölskyldunnar taki þátt í boðunarstarfinu í apríl. Ef við öll gerum okkar besta í þjónustu Jehóva núna á þessum uppskerutíma þá mun ríkuleg blessun hans veitast okkur.