Tökum þeirri áskorun sem starfið hús úr húsi er
1 Sú hugmynd að fara hús úr húsi, knýja dyra hjá ókunnugum, reynist sannkölluð áskorun fyrir marga sem taka upp sanna tilbeiðslu. En óskvikinn kærleikur til Jehóva hjálpar mönnum að taka þessari áskorun og jafnvel þeir sem eru að eðlisfari mjög feimnir hafa náð svo langt að verða prédikarar fagnaðarerindisins í fullu starfi.
2 Ljóst er af Biblíunni að frumkristnir menn útbreiddu fagnaðarboðskapinn um Guðsríki með starfi hús úr húsi. (Post. 5:42; 20:20, 21) Sem kristnir menn núna á 20. öldinni eigum við einnig hlutdeild í þessu starfi. Kærleikur okkar til Guðs og náungans hvetur okkur til að vinna þetta verk, jafnvel þótt við kunnum að mæta tómlæti, gremju, fyrirlitningu eða beinni andstöðu.
3 Hverju það kemur til leiðar að taka áskoruninni: Í hverri heimsókn reynum við að sá svolitlu sannleikssæði vitandi að þegar fram í sækir gætu heildaráhrifin orðið þau að upp spretti ávöxtur Guðsríkis. (Préd. 11:6) Aðstæður manna breytast. Eitthvað gæti gerst sem fær þá til að hugsa um það sem eitthvert okkar sagði við þá og þeir gætu orðið móttækilegri í næsta sinn.
4 Starf okkar hús úr húsi gefur þeim sem hallast að sannleika og réttlæti tækifærið til að læra um Jehóva og fyrirætlanir hans, kemur þeim inn á veginn til eilífs lífs. Þeir sem keppa eftir veraldlegum lystisemdum eru þannig á kærleiksríkan hátt áminntir um að þeir þurfi að breytast til að njóta velþóknunar Jehóva. Þetta starf gerir einnig kunnugt nafn Jehóva og er honum til heiðurs, hvort sem húsráðandinn hlustar eða ekki. — Esek. 3:11.
5 Þegar við vinnum að boðun fagnaðarerindisins hjálpar það okkur að þroska með okkur ávexti andans eins og óeigingjarnan kærleika, gleði, frið og langlyndi. (Gal. 5:22) Það hjálpar okkur að sýna lítillæti og samúð af því að í því fellst að gera öðrum gott. Ef við höldum okkur uppteknum í þjónustu Jehóva verndar það okkur frá heiminum. — 1. Kor. 15:58.
6 Hjálp til að taka áskoruninni: Hinir nýju þurfa að læra hvernig þeir geti átt hlutdeild í þessu spennandi starfi. Þá skortir oft sjálfstraust og þess vegna getur verið að aðeins hugsunin um það að fara hús úr húsi dragi úr þeim kjarkinn. Við getum rætt við þá um algengar mótbárur og hverju við getum svarað þeim. Æfum okkur í að nota tillögur í Rökræðubókinni um viðbrögð við athugasemdum sem stöðvað geta samræður. Væri ekki ráð að bjóðast til að hjálpa þeim að búa sig undir boðunarstarfið? Þeir geta einnig fengið mikla hjálp með því að sækja reglulega samansafnanir og starfa að þeim loknum með reyndari boðberum. Það getur verið mjög styrkjandi að starfa með hópi.
7 Í starfinu hús úr húsi höfum við þau sérréttindi að vera fulltrúar Guðs okkar, Jehóva. Hvaða meiri heiðurs gæti nokkur notið en að vera í raun samstarfsmaður Guðs? (1. Kor. 3:9) Ef við reiðum okkur á hann mun andi hans hjálpa okkur að taka þeirri áskorun sem starfið hús úr húsi er. — 2. Kor. 3:5.