Landsmótið 1995 „Glaðir menn sem lofa Guð“
1 Hversu margar ástæður höfum við til að vera glöð? Líklega hafa fá okkar reynt að telja þær en víst eru þær margar þrátt fyrir að margt sé erfitt í heiminum sem við búum í. Hið uppörvandi stef landsmóts okkar, sem haldið verður 11. til 13. ágúst 1995, er: „Glaðir menn sem lofa Guð.“
2 Við lofum Jehóva vegna þess að hann kenndi okkur sannleikann. (Jes. 54:13; Jóh. 8:32) Sjálf deilum við glöð sannleikanum með öllum sem leita öryggis og hamingju. (Esek. 9:4; Post. 20:35) Kristið bræðralag okkar færir okkur líka gleði. Kærleiksrík andleg fjölskylda veitir ánægju og hamingju. Þetta eru aðeins nokkrar af ástæðunum fyrir gleði okkar sem knýr okkur til að lofa Jehóva. Ræðurnar og sýnikennslurnar á mótinu munu draga athygli okkar að fleiri biblíulegum gleðigjöfum á þessum örðugu, síðustu dögum.
3 Þriggja daga mót: Hefur þú samið við vinnuveitanda þinn um að fá frí til þess að geta verið viðstaddur alla þrjá daga mótsins? Dagskráin hefst föstudaginn 11. ágúst klukkan 9:40 og lýkur sunnudaginn 14. ágúst klukkan um það bil 15:50. Á laugardag og sunnudag hefst dagskráin klukkan 9:30.
4 Verður þú viðstaddur?: Við erum hvött til að sækja mótið alla þrjá dagana. Af hverju? Jehóva vill að við séum þar. Trú okkar og andleg heilsa verður nú á tímum fyrir mikilli skothríð. Páll kom með ráðleggingar um að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomur okkar‘ á þeim tíma er kristnir menn í Júdeu voru undir miklu álagi. (Hebr. 3:12, 13; 10:25) Filippímenn bjuggu „meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar.“ Samt ‚skinu þeir eins og ljós í heiminum.‘ (Fil. 2:15) Hvers vegna skáru þessir kristnu menn á fyrstu öldinni sig úr fjöldanum? Vegna þess að þeir fylgdu í hlýðni leiðsögn heilags anda sem beindi þeim inn á þá braut að koma saman til að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ — Hebr. 10:24.
5 Heimurinn myndi hafa önnur áhrif á okkur, veikja löngun okkar til að koma saman með bræðum okkar og lofa Jehóva. Í sumar er okkur boðið að leiðast af áhrifum anda Jehóva og njóta þess að vera á mótinu alla þrjá dagana. Erum við staðráðin í að vera viðstödd með alla fjölskylduna? Við þurfum reglulega að styrkja kærleika okkar og trú. Jehóva hefur séð okkur fyrir árlegum landsmótum til þess að hjálpa okkur í því efni.
6 Taktu fjársjóð með þér heim: Hvernig getur þú látið landsmótið koma þér að sem mestum notum? Svarið við því snýst í kringum eitt orð: „Einbeitingu.“ Það er ekki svo auðvelt að einbeita sér í háspenntu og hröðu samfélagi nútímans. Atorkusömum ungmennum kann að finnast það erfitt, en það er áskorun sem við öll mætum þegar við sækjum landsmót. Ef við skipuleggjum málin fyrirfram reynist okkur auðveldara að einbeita okkur. Spyrðu sjálfan þig: ‚Hvert er stef mótsins?‘ Ígrundaðu það! ‚Hvers vegna fer ég á mótið og hvað geri ég þessa þrjá daga? Mun ég nota allar kvöldstundirnar til skemmtunar eða hef ég ætlað mér nægilegan tíma til hvíldar og til að yfirfara aðalatriðin á mótsdagskránni?‘
7 Greinin „Einbeitir þú þér eða lætur þú hugann reika?“ í Varðturninum á ensku frá 1. febrúar 1984 kom með allnokkrar tillögur um hvernig hafa mætti sem mest gagn af samkomunum og dró síðan þessa ályktun: „Ef til vill er þýðingarmesti þátturinn sá að aga hugann.“ Þegar ræðumaður byrjar að tala hlustum við yfirleitt með athygli en þegar nokkuð er liðið á ræðuna látum við kannski hugann „hrökkva úr gír.“ Hvernig getum við komið í veg fyrir að það gerist?
8 Vert er að endurtaka tillögur sem gefnar hafa verið fyrr vegna þess að þær virka vel. Ef þess er nokkur kostur skaltu reyna að fá nægilega hvíld hverja nótt. Það er ekki alltaf auðvelt, einkum fyrir þá sem þurfa að aka langa leið eða sofa ekki heima hjá sér. Góð skipulagning mun þó yfirleitt gera þér kleift að fá nauðsynlega hvíld.
9 Að skrifa niður fáein og stutt minnisatriði hefur reynst ýta undir einbeitingu. Ef þú reynir að skrifa niður of mikið gætir þú misst alveg af nokkrum þýðingarmiklum atriðum. Við leggjum til að þú skrifir hjá þér minnisatriði með það markmið í huga að segja biblíunemanda eða einhverjum sem ekki á heimangengt frá dagskránni í stórum dráttum. Þótt þú hafir ekki ákveðinn mann í huga gefur þetta þér ástæðu til að skrifa hjá þér minnispunkta og að mótinu loknu gefst þér kannski tækifæri til að segja frá því helsta sem fram kom á dagskránni þegar þú ert að bera vitni fyrir ættingja sem ekki er í trúnni. Með því að skrifa hjá þér minnispunkta og segja öðrum frá því sem þú heyrðir gleymir þú því ekki svo fljótt. Það festir efni betur í minni að þurfa að segja öðrum frá því.
10 Þó að ekki verði lengur boðið upp á veitingar á mótunum fylgja þeim samt veruleg útgjöld vegna leigu á húsnæði og ýmsum áhöldum. Hvernig er staðið undir þessum útgjöldum? Með frjálsum framlögum okkar. Þetta er í samræmi við Sálm 96:8 og 2. Kroníkubók 31:12.
11 Glaðir menn, sem lofa Guð, heiðra Jehóva með góðri hegðun: Síðastliðið ár var hegðun langflestra mótsgesta lofsverð og gaf góðan vitnisburð. Þó er enn ýmislegt sem betur má fara. Vandamál, sem hefur verið viðvarandi í mörg ár, er hversu mikið er um óþarft ráp meðan á dagskránni stendur. Á göngum og í snyrtiherbergjum má oft heyra háværar samræður. Í framlagabauk á einum mótstað í fyrra fannst miði frá biblíunemanda sem á stóð: „Mér hefur ekki áður blöskrað jafnmikið eða fundist nokkuð eins yfirgengilegt og að sjá og heyra hávaðann, umganginn, skvaldrið og lætin á göngunum meðan á ræðunum stóð . . . Ég er ekki vottur enn þá, er aðeins að nema og læra að sýna guðsótta og virðingu.“ Vissulega vill enginn okkar hegða sér þannig að ætla mætti að hann kynni ekki að meta það sem Jehóva ber á borð fyrir okkur.
12 Við skyldum ávallt spyrja okkur sjálf: ‚Fulltrúi hvers er ég og hvers vegna sæki ég þetta mót?‘ Andlegur þroski okkar og guðhræðsla endurspeglast í tali okkar og hegðun, og í því hversu mikils við metum andlega fæðu. (Jak. 3:13; 1. Pét. 2:2, 3, 12) Menn hafa veitt því athygli að bræður, sem hafa búið árum saman við hömlur eða bönn á starfinu, sýna mótsdagskránni miklu meiri eftirtekt og virðingu en almennt gerist. Þeir standa ekki upp úr sætum sínum heldur drekka í sig ræðurnar og sýnikennslurnar.
13 Klæðnaður þinn og snyrting sendir frá sér boð: Í 1. Samúelsbók 16:7 erum við minnt á að „mennirnir líta á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ Þess vegna dæmir fólk okkur oft eftir útliti okkar. Klæðnaður okkar og snyrting fer ekki fram hjá fólki, ekki síst þegar við sækjum mót þar sem fram fer tilbeiðsla og fræðsla um kristilegt líferni. Ef þú ert ungmenni í skóla eða þarft í vinnu þinni að umgangast fólk sem fylgir veraldlegum klæðastíl getur það verið áskorun fyrir þig að halda þér við kristinn mælikvarða hvað snertir sómasamlegan klæðaburð.
14 Það er mjög breytilegt frá einum heimshluta til annars hvað telst viðeigandi klæðaburður og snyrting. Þess er vænst að kristnir menn séu sómasamlega til fara. Hver ætti að dæma um það? Foreldrar ættu að gæta þess að börn þeirra á unglingsaldri klæði sig ekki eins og veraldlegir unglingar í skóla. Uppbyggjandi leiðbeiningar hafa verið gefnar til að hjálpa okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir á þessu viðkvæma sviði. Gott væri að líta yfir greinina í Vaknið! (á ensku) frá 8. febrúar 1987 sem ber heitið „Hvaða þýðingu hafa föt fyrir þig?“ Á síðasta ári mátti víða sjá á umdæmismótunum að bræðurnir og systurnar höfðu tekið framförum í þessum málum. Þó var eitthvað um að klæðnaður væri það lítt siðsamlegur að hann ylli hneykslun.
15 Meirihluti bræðra okkar og systra klæðist sæmandi og virðulegum fötum á mótunum. En samt er ástæða til að minna á að í ferðum til og frá mótsstað, svo og á gisti- og veitingastöðum í mótsborginni, erum við líka þátttakendur í kristilegu móti. Nokkrir hafa klæðst ótilhlýðilegum fatnaði við slík tækifæri og jafnvel verið enn með mótsmerkið á sér. Ef öldungarnir verða varir við að sumir hafi tilhneigingu til að klæða sig þannig væri við hæfi að koma með vingjarnlegar en ákveðnar leiðbeiningar. Við förum þess vinsamlega á leit við ykkur að þið færið ofannefndar leiðbeiningar um hegðun og klæðaburð á tal við biblíunemendur sem sækja munu mótið.
16 Sæti og upptökutæki: Eins og fyrr má ekki taka frá sæti nema fyrir nánustu ættingja og þá sem eru okkur samferða til mótsstaðarins. Við notkun upptökutækja skyldi þess gætt að sýna tillitssemi og trufla ekki aðra.
17 Ert þú undir það búinn að njóta ánægjulegs félagsskapar og andlegra krása alla þrjá dagana á landsmótinu 1995 „Glaðir menn sem lofa Guð“? Það er einlæg bæn okkar að Jehóva blessi viðleitni þína til að sækja landsmótið í ágúst með bræðrum þínum og systrum þar sem við munum hugleiða vandlega hvernig við getum verið glaðir menn sem lofa Jehóva.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Minnisatriði fyrir landsmótið
Barnavagnar: Ákveðinn staður í salnum verður afmarkaður fyrir barnavagna og barnakerrur. Fara skyldi mjög varlega við akstur slíkra tækja um mótsstaðinn og alls ekki aka þeim um salinn. Einkum skyldi komið í veg fyrir gáleysislegan kerruakstur barna.
Einkennismerki mótsins: Vinsamlega hafið mótsmerkið uppi á mótinu sjálfu og á ferðum til og frá mótsstað. Oft er hægt að gefa góðan vitnisburð með þeim hætti, einkum þegar við erum á ferðinni til og frá mótsstaðnum.
Gisting: Þeir sem þurfa á gistingu að halda eru beðnir um að hafa tímanlega samband við öldung í forsæti í söfnuði sínum.
Sjálfboðaþjónusta: Getur þú lagt fram hjálparhönd, þótt ekki væri nema nokkra klukkutíma, við störf sem þarf að vinna einkum fyrir og eftir mótið? Þá ert þú vinsamlegast beðinn um að skrá þig á lista sem söfnuðinum verður sendur. Börn yngri en 16 ára þurfa að vinna með foreldrum sínum eða öðrum fullorðnum boðbera.
Skírn: Skírnþegar ættu að vera komnir í sæti sín fremst í salnum áður en dagskráin hefst á laugardagsmorgni. Hver sá sem ætlar að láta skírast skyldi taka með sér látlaus sundföt og handklæði.
Varnaðarorð: Göngum vel frá híbýlum okkar og bifreiðum og skiljum engin verðmæti eftir í sjónmáli í bifreiðinni. Skiljið ekki verðmæti eftir í yfirhöfnum í fatahengi. Við getum ekki verið viss um að allir sem koma til mótsins séu kristnir einstaklingar.