Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 6.97 bls. 3-6
  • Landsmótið 1997 „Trúin á orð Guðs“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Landsmótið 1997 „Trúin á orð Guðs“
  • Ríkisþjónusta okkar – 1997
  • Svipað efni
  • Landsmótið 1998, „Lífsvegur Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Landsmótið 1995 „Glaðir menn sem lofa Guð“
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
  • Landsmótið 1999, „Spádómsorð Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Landsmótið 1994 „Guðsótti“
    Ríkisþjónusta okkar – 1994
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1997
km 6.97 bls. 3-6

Landsmótið 1997 „Trúin á orð Guðs“

1 Páll postuli minnti Tímóteus á að „sérhver ritning er innblásið af Guði.“ (2. Tím. 3:16) Þar sem orð Guðs er innblásin höfum við fulla ástæðu til að iðka trú á það. Stef landsmótsins í ár er „Trúin á orð Guðs.“ Dagskráin mun styrkja trú okkar á Biblíuna hvort sem við höfum þekkt sannleikann í mörg ár eða erum nýlega komin í snertingu við skipulag Jehóva. Við ættum öll að ráðgera að vera viðstödd dagskrána frá upphafi til enda. Það væri sannarlega uppbyggjandi ef þeir sem nýlega hafa fengið áhuga, og þá ekki síst þeir sem eru hjá okkur í biblíunámi, koma á mótið með okkur.

2 Þriggja daga mót: Skipulagt hefur verið þriggja daga mót á þessu ári okkur til uppbyggingar. Í lok landsmótsins í fyrra var tilkynnt að næsta landsmót yrði haldið að ári liðnu á sama stað, í Digranesi í Kópavogi, dagana 8. til 10. ágúst 1997. Þú ættir núna að vera búinn að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vera viðstaddur dagskrána alla þrjá mótsdagana. Hefur þú komið að máli við vinnuveitanda þinn til að fá þig lausan úr vinnu mótsdagana? Dagskráin hefst hvern dag klukkan 9:30 árdegis.

3 Rétt er að gefa gaum að allri dagskránni: Pétur postuli minnti kristna menn fyrstu aldar á að rétt væri af þeim að gefa gaum að hinu spámannlega orði eins og ljósi sem skín á myrkum stað. (2. Pét. 1:19) Sama á við um okkur sem lifum á hinum síðustu dögum þessa heimskerfis. Það er eins og að vera á dimmum stað að búa í þessum gamla heimi sem er undir stjórn Satans. Við erum þakklát fyrir að hafa verið kölluð frá andlegu myrkri. (Kól. 1:13; 1. Pét. 2:9; 1. Jóh. 5:19) Til að halda áfram að vera í ljósinu þurfum við að halda trú okkar sterkri með því að gefa vandlega gaum að innblásnu orði Jehóva. Landsmótið í sumar hjálpar okkur til að gera það.

4 Það kann að krefjast áreynslu að einbeita sér að dagskránni, en ef við gerum það verður það okkur svo sannarlega til blessunar. Við ættum að leitast við að koma til mótsstaðarins vel hvíld til þess að við getum fylgst með dagskránni af fullri athygli. Gefðu þér nægan tíma á hverjum degi til að komast tímanlega á mótsstaðinn til þess að vera kominn í sætið þitt áður en dagskráin hefst. Vertu síðan með í söngnum og bæninni í upphafi dagskrárinnar hvern dag. Fullorðnir ættu að sýna gott fordæmi og foreldrar ættu að venja börnin sín á góða siði í þessum efnum. — Ef. 6:4.

5 Þegar við lítum yfir heiti dagskrárliðanna hvern dag áður en dagskráin hefst getum við reynt að gera okkur í hugarlund hvað fram kemur í hverjum dagskrárlið. Það hjálpar okkur að hlusta með meiri áhuga og eftirtekt. Við getum haft augun opin fyrir atriðum sem hjálpa okkur að segja öðrum frá því hvers vegna við trúum á Guð og áreiðanlegt fyrirheit hans um að umbuna þeim sem leita hans í einlægni. (Hebr. 11:1, 6) Mælt hefur verið með að við skrifum hjá okkur stutta minnispunkta til að hjálpa okkur að muna eftir aðalatriðunum í dagskránni. Ef við skrifum of mikið hjá okkur geta sum meginatriðin farið fram hjá okkur vegna þess að við erum of upptekin við að skrifa.

6 Á síðasta ári var sem fyrr eftir því tekið að margir fullorðnir og börn voru á rápi um mótssvæðið, jafnt inni sem úti, og voru að heilsa upp á aðra á meðan dagskráin stóð yfir í stað þess að hlusta á það sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hafði útbúið okkur til gagns. Jesús lofaði að veita okkur andlega fæðu á réttum tíma. (Matt. 24:45-47) Þess vegna ættum við að vera viðstödd til að hafa gagn af þeirri fæðu í stað þess að sýna að við metum hana ekki sem skyldi. (2. Kor. 6:1) Auk þess lítur út fyrir að þegar sum börn fara að ókyrrast biðji þau oft um að fá að fara á salernið og noti það sem afsökun til að standa upp og rápa um. Viðeigandi þjálfun heima fyrir mun yfirleitt gera tíðar ferðir á salernið óþarfar. Stundum sitja unglingar saman afsíðis, tala, hvísla og skiptast á miðum. Unga fólkið okkar, sem mætir margvíslegu álagi nú á tímum, þarf að einbeita sér að efninu sem fram kemur á mótinu í stað þess að vera að gera eitthvað annað meðan á dagskránni stendur. Forðast skyldi þær æskulanganir sem samræmast ekki frumreglum Biblíunnar. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:22.) Ef bæði fullorðnir og börn hlusta með athygli á dagskrána heiðrar það Jehóva og gleður hann.

7 Ef nauðsynlegt reynist fyrir einhvern mótsvarðanna að veita einhverjum leiðbeiningar í þessu efni ætti að taka við þeim sem kærleiksríkri ráðstöfun frá Jehóva. (Gal. 6:1) Allir þurfa að muna að ástæða þess að við leggjum ýmislegt á okkur til að sækja landsmótið er sú að við viljum ‚hlýða á og læra.‘ (5. Mós. 31:12) Auk þess ‚hlýðir hinn vitri á og eykur lærdóm sinn.‘ (Orðskv. 1:5) Á þeim tíma, sem eftir er fram að mótinu, gætuð þið sem fjölskylda rætt um nauðsyn þess að sitja saman á mótsstaðnum, að halda kyrru fyrir í sætum ykkar meðan á dagskránni stendur og að fylgjast af athygli með henni til þess að dagskráin komi ykkur af fullum notum.

8 Skart sem gleður Jehóva: Fólk Jehóva er öllum heiminum til sýnis. (1. Kor. 4:9) Við erum yfirleitt þekkt fyrir að fylgja háum mælikvarða hvað snertir klæðaburð og snyrtimennsku. Þegar menn hafa tekið að fara efir þeim biblíulegu frumreglum sem er að finna í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10 og í 1. Pétursbréfi 3:3, 4 hefur það valdið miklum breytingum á útliti margra, samanborið við það hvernig þeir litu út áður en þeir fóru að eiga félagsskap við kristna söfnuðinn. Það er gerólíkt hinum síhrakandi mælikvarða á klæðnað og snyrtimennsku sem við sjáum í heiminum. Við viljum vera á varðbergi til þess að við förum ekki að líkjast heiminum í útliti — klæðast sérkennilegum fatnaði og taka upp veraldlega hártísku eða ósiðsamlegan klæðnað. Klæðnaður okkar, hárgreiðsla og snyrting ætti að vera til fyrirmyndar og hjálpa hinum nýju, sem sækja mótið, að sjá hvernig kristnir menn ættu að skrýðast.

9 Þó að umdæmismótin í fyrra hafi í heild gefið mjög jákvæða mynd af fólki Jehóva eru enn nokkrir bræðra okkar og systra sem klæða sig, snyrta sig og farða á veraldlegan hátt. Er við gerum áætlanir okkar um að sækja mótið ættum við að kanna hvernig ástandið er hjá okkur hvað snertir klæðaburð, hártísku, förðun og almenna snyrtingu. Foreldrar, sýnið þá skynsemi að fylgjast með hverju börnin ykkar og unglingar ætla að klæðast. Gætum þess að láta ekki veraldlegan klæðastíl og tísku hafa slæm áhrif á útlit okkar sem kristnir menn.

10 Hegðum okkur vel: Góð hegðun er merki um sanna kristni. (1. Pét. 2:12) Hegðun okkar hvar sem við kunnum að vera stödd — á mótinu, veitingastöðum, gistihúsum eða á ferðalagi — getur gefið góðan vitnisburð og hjálpað öðrum að sjá hvað trúin á Guð og orð hans getur gert fyrir fólk. Það gæti fengið einhverja til að kynnast Jehóva. (Samanber 1. Pétursbréf 3:1, 2.) Við höfum þau sérréttindi að vegsama Guð með hegðun okkar. Stjórnendur hótels í Alabama í Bandaríkjunum sögðu að þeir sem sæktu mótin okkar væru „viðkunnanlegasti hópurinn sem þeir hýstu og sá sem hegðaði sér best.“ Þeir bættu við: „Það væru sérréttindi að fá ykkur aftur seinna.“ Ráðstefnu- og ferðamálaskrifstofa í norðvesturhluta Bandaríkjanna skrifaði: „Ár hvert bíður allt okkar byggðarlag í ofvæni eftir ráðstefnu Varðturnsfélagsins. Það er unun af meðlimunum; þeir sýna hina mestu kurteisi og virðingu. Fyrirtæki okkar og þjónustuaðilar gera sér það ljóst og meta mikils að þessir gestir skuli koma aftur ár hvert.“ Er ekki ánægjulegt að heyra slík ummæli? Engu að síður er nauðsynlegt að halda vöku sinni til þess að við getum varðveitt hið góða mannorð fólks Jehóva.

11 Oft hefur verið minnt á nauðsyn þess að hafa góða stjórn á börnum okkar og láta þau ekki hlaupa um eftirlitslaus, hvorki á mótsstaðnum né á gististöðum, veitingastöðum eða annars staðar þar sem fjölskyldan kemur á meðan hún er að sækja mótið. Þó að mótin veiti okkur tækifæri til að hitta bræður okkar og systur og eiga félagsskap við þau verða foreldrar engu að síður að hafa hugfast að á þeim hvílir sú skylda að hafa umsjón með börnum sínum öllum stundum. Þetta er ábyrgð sem Jehóva leggur sérhverju foreldri á herðar. (Orðskv. 1:8; Ef. 6:4) Séu börnin látin eftirlitslaus getur hegðun þeirra grafið undan hinum góða orðstír sem aðrir vottar Jehóva hafa lagt hart að sér að byggja upp. — Orðskv. 29:15.

12 Staðið undir kostnaði við mótið: Fyrir okkur öll fylgir því einhver kostnaður að sækja landsmótið. En það er annar kostnaður sem við ættum að taka inn í myndina. Það er dýrt að leigja staði undir mót. Auk þess fellur til ýmiss annar kostnaður sem standa þarf undir. Örlát framlög okkar á mótinu eru mikils metin. — Post. 20:35; 2. Kor. 9:7, 11, 13.

13 Sæti: Þær leiðbeiningar, sem hafa verið gefnar um árabil, eru enn í fullu gildi, það er að segja að TAKA MÁ FRÁ SÆTI AÐEINS FYRIR NÁNUSTU ÆTTINGJA OG ÞÁ SEM ERU OKKUR SAMFERÐA TIL MÓTSSTAÐARINS. Gott er að sjá hvernig sífellt fleiri hafa fylgt þessum leiðbeiningum á síðustu árum og það hefur aukið hinn kærleiksríka anda sem mótsgestirnir sýna. Sum sæti eru aðgengilegri en önnur. Vinsamlegast sýnið þá tillitssemi að láta þessi sæti þeim eftir sem þurfa einkum að nota þau aðstæðna sinna vegna. Sitjið ekki við matarborð meðan á dagskránni stendur.

14 Myndavélar og upptökutæki: Leyfilegt er að nota myndavélar og upptökutæki á mótinu. Notkun þeirra má hins vegar ekki ónáða aðra mótsgesti. Við ættum ekki að vera á ferðinni á meðan á dagskránni stendur til að taka myndir vegna þess að það truflar aðra sem eru að reyna að einbeita sér að dagskránni. Ekki má tengja neins konar upptökutæki við hátalarakerfi mótsstaðarins, og ekki ættu slík tæki heldur að hamla umferð um ganga eða skyggja á útsýni einhverra mótsgesta.

15 Matur á mótinu: Sú ráðstöfun að hafa enga matardeild á mótunum hefur orðið til þess að miklu fleiri geta hlýtt á alla mótsdagskrána frá upphafi til enda og einbeitt sér að því að innbyrða alla andlegu fæðuna sem þar er borin fram. Síðan mótshaldið var einfaldað á þennan hátt hafa margir tjáð Félaginu hve mjög þeir kunna að meta þetta nýja fyrirkomulag. Allir ættu að taka með sér einhvern hentugan og hollan mat til að neyta í hádegishléinu, og mætti taka mið af tillögunum í tölugrein 8 á blaðsíðu 3-4 í Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1995. Ekki má fara með nein glerílát eða áfenga drykki inn á mótsstaðinn. Kælibox mega ekki vera stærri en svo að þau komist vel undir stólinn sem þú situr á. Fáeinir hafa sést borða og drekka meðan dagskráin hefur verið í gangi. Það sýnir virðingarleysi. Á sumum mótsstöðum eru litlar sölubúðir innan þeirra eða sölutjöld rétt fyrir utan og hafa sumir bræður farið þangað til að kaupa eitthvað meðan á dagskránni hefur staðið. Slíkt er ekki við hæfi.

16 Við kunnum svo sannarlega að meta þá andlegu veislu sem okkur er boðið að sækja og hið rólega og friðsæla andrúmsloft góðs félagsskapar sem ríkir í stuttu hádegishléunum. Í stað þess að fara í mat á einhverjum öðrum stað í hádeginu ættir þú að taka með þér einhvern matarbita til þess að samlaga þig tilganginum með þessu fyrirkomulagi. Þá hefur þú meiri tíma til að njóta félagsskapar bræðra þinna og systra.

17 Það gleður okkur mikið að landsmótið „Trúin á orð Guðs“ skuli hefjast innan skamms. Við viljum öll fullvissa okkur um að hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að geta verið viðstödd alla dagskrána, frá föstudegi til sunnudags, svo við fáum notið til fulls hinnar ríkulegu, andlegu veislu sem Jehóva hefur búið okkur fyrir milligöngu skipulags síns. Á þann hátt verðum við ‚gerð hæf til sérhvers góðs verks‘ á komandi dögum. — 2. Tím. 3:17.

[Rammi á blaðsíðu 6]

Minnisatriði fyrir landsmótið

Barnavagnar: Ákveðinn staður í salnum verður afmarkaður fyrir barnavagna og barnakerrur. Hafið þá ekki annars staðar á áheyrendasvæðinu. Fara skyldi mjög varlega við akstur slíkra tækja um mótsstaðinn og börnum ekki leyfður slíkur akstur.

Einkennismerki mótsins: Vinsamlega hafið mótsmerkið uppi á mótinu sjálfu og á ferðum til og frá mótsstað. Mótsmerkið skapar oft tækifæri til að gefa góðan vitnisburð, einkum þegar við erum á ferðinni til og frá mótsstaðnum. Mótsmerki og hulstur um þau verða ekki fáanleg á mótsstaðnum og ætti því hver og einn að útvega sér þau í heimasöfnuði sínum. Bíðið ekki með það fram á síðustu stundu að biðja um mótsmerki og skrifa á þau. Munið að bera á ykkur blóðkortið.

Foreldrar: Takið ykkur tíma skömmu fyrir mótið til að rifja upp með börnum ykkar það sem sagt er í þessum viðauka við Ríkisþjónustu okkar um hegðun á mótsstaðnum. Á síðustu árum hefur borið allmikið á hlaupum og ólátum barna bæði inni á mótsstaðnum og á lóðinni fyrir utan. Leggið kapp á að koma í veg fyrir slíkt, bæði með leiðbeiningum áður en komið er til mótsstaðarins og virku eftirliti með börnum ykkar allan þann tíma sem dvalið er á mótsstaðnum.

Gisting: Ef þú þarft á gistingu að halda skaltu hafa samband tímanlega við umsjónarmann í forsæti í þínum söfnuði.

Sjálfboðaþjónusta: Þó að ekki sé lengur boðið upp á veitingar á mótsstaðnum þarf mörgu að sinna, einkum fyrir og eftir mótið. Getur þú lagt fram hjálparhönd? Þjónusta við bræður okkar, þótt ekki sé nema fáeinar klukkustundir, getur komið að miklu gagni og veitt okkur verulega ánægju. Yfirleitt þarf að gera allt klárt á mótsstaðnum á aðeins örfáum klukkustundum áður en dagskráin hefst. Þegar það verk lendir á fáum bræðrum, jafnvel ár eftir ár, getur það verið erfitt og lýjandi, en hins vegar vinna margar hendur létt verk. Þú getur skráð þig á lista sem liggja mun frammi í söfnuði þínum, eða á lista hjá bókadeildinni á mótsstaðnum. Vinnuframlag barna yngri en 16 ára getur líka komið að góðum notum en þau þurfa að vinna undir umsjón foreldra sinna eða annars fullorðins boðbera.

Skírn: Skírnþegar ættu að vera komnir í sæti sín fremst í salnum áður en dagskráin hefst á laugardagsmorgni. Hver sá sem ætlar að láta skírast skyldi taka með sér látlaus sundföt og handklæði. Öldungar, sem fara yfir skírnarspurningar með væntanlegum skírnþegum, ættu að fullvissa sig um að hver og einn skilji hvað átt er við með látlausum sundfötum. Að lokinni skírnarræðunni og bæn fá skírnþegar stuttar leiðbeiningar og síðan er sunginn söngur. Þegar honum lýkur fara skírnþegar til skírnarstaðarins. Skírn sem tákn um vígslu manns er innilegt og persónulegt mál milli viðkomandi einstaklings og Jehóva. Þess vegna er ekki viðeigandi að skírnþegar faðmist eða haldist í hendur á meðan verið er að skíra þá.

Varnaðarorð: Verum vakandi fyrir hugsanlegum vandamálum til þess að geta sneitt hjá ónauðsynlegum erfiðleikum. Göngum vel frá híbýlum okkar án þess að áberandi sé að við séum að heiman. Læsum bifreiðum og skiljum ekki verðmæti eftir í sjónmáli í þeim. Skiljið alls ekki verðmæti eða skilríki eftir í yfirhöfnum í fatahengi. Við getum ekki verið viss um að allir sem koma til mótsins séu kristnir einstaklingar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila