Heimsókn sem getur verið til blessunar
1 Sakkeus tók glaður á móti Jesú á heimili sínu og heimsóknin reyndist mikil blessun. — Lúk. 19:2-9.
2 Jesús Kristur er núna höfuð safnaðarins og fyrirskipar öldungunum að ‚vera hirðar hjarðar Guðs.‘ (1. Pét. 5:2, 3; Jóh. 21:15-17) Auk þess að kenna á samkomum og taka forystuna í boðunarstarfinu veita umsjónarmennirnir safnaðarfólki kærleiksríka og persónulega aðstoð. Þess vegna geturðu af og til búist við persónulegri athygli frá öldungunum, ýmist heima, í ríkissalnum, í boðunarstarfinu með þeim eða við önnur tækifæri. Ættirðu að bera kvíðboga fyrir heimsóknum öldunganna? Alls ekki. Að þeir heimsæki þig þýðir ekki að þú hafir brotið af þér á einhvern hátt. Hver er þá tilgangur hirðisheimsóknar?
3 Páll sagðist vilja heimsækja bræðurna til að ‚sjá hvernig þeim liði.‘ (Post. 15:36) Öldungarnir eru kærleiksríkir hirðar og þeim er mjög umhugað um líðan þína. Þeir vilja veita andlega hjálp sem getur orðið þér til gagns og uppbyggingar. Ástríkur hirðir okkar, Jehóva, vill að sérhvert okkar fái slíka persónulega umönnun. — Esek. 34:11.
4 Bregstu vel við heimsóknum öldunganna: Markmið Páls með því að heimsækja trúbræður sína var að ‚veita þeim hlutdeild í andlegri náðargjöf til að þeir styrktust og til að hann og þeir gætu uppörvast saman.‘ (Rómv. 1:11, 12) Við þurfum öll á andlegri uppörvun að halda á þessum erfiðu síðustu dögum og við þurfum hjálp til að halda áfram sterk í trúnni. Ef þú bregst vel við hirðisheimsókn getur það örugglega stuðlað að gagnkvæmri uppörvun.
5 Gerðu þér grein fyrir hve margvíslegt gagn má hafa af hirðastarfi öldunganna. Mundu að öldungarnir eru í söfnuðinum til að hjálpa þér ef þú vilt spyrja einhvers eða hefur áhyggjur af einhverju. Hikaðu ekki við að ræða við þá um hvaðeina sem snertir andlega vellíðan þína. Vertu þakklátur fyrir þessa kærleiksríku ráðstöfun Jehóva og gleðstu yfir blessuninni sem slíkri heimsókn getur fylgt.