„Þannig lýsi ljós yðar“
1 Heimurinn í kringum okkur er í myrkri bæði siðferðilega og andlega. Ljós sannleikans flettir ofan af „verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af,“ svo hægt sé að forðast þessar lífshættulegu hindranir. Þess vegna hvatti Páll postuli kristna menn til að ‚hegða sér eins og börn ljóssins.‘ — Ef 5:8, 11.
2 „Ávöxtur ljóssins“ er gerólíkur myrkri heimsins. (Ef. 5:9) Til að bera þennan ávöxt verðum við að vera skínandi fordæmi í kristilegu líferni, vera fólk sem Jesús hefur velþóknun á. Við þurfum líka að vera einlæg og áköf í sannleikanum bæði í daglegu lífi og í boðunarstarfinu.
3 Skínið við hvert tækifæri: Jesús sagði lærisveinunum: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna.“ (Matt. 5:16) Við líkjum eftir Jesú og endurspeglum ljós Jehóva þegar við prédikum um ríki hans og tilgang. Við skínum eins og ljósberar þegar við heimsækjum fólk og þegar við útbreiðum sannleikann í vinnu, skóla, meðal nágrannanna eða hvar sem við fáum tækifæri til. — Fil. 2:15.
4 Jesús sagði að sumir myndu hata ljósið. (Jóh. 3:20) Þess vegna missum við ekki kjarkinn þótt meirihlutinn leyfi ekki ‚ljósinu frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists‘ að ná til sín. (2. Kor. 4:4) Jehóva les hjörtu manna og vill ekki að ranglátir menn séu meðal fólks síns.
5 Þegar við fylgjum vegum Jehóva og göngum í andlegu ljósi getum við endurspeglað það til annarra. Ef þeir sjá á hegðun okkar að við ‚höfum ljós lífsins‘ gæti það kveikt löngun þeirra til að gera þær breytingar sem þarf til að verða ljósberar. — Jóh. 8:12.
6 Þegar við látum ljós okkar skína lofum við skapara okkar og hjálpum einlægum mönnum að kynnast honum og öðlast von um eilíft líf. (1. Pét. 2:12) Þar sem við höfum ljósið skulum við nota það til að leiða aðra úr andlegu myrkri og hjálpa þeim að vinna verk ljóssins.