Hjálpaðu öðrum að sækja samkomur
1 „Allir vinir í nágrenninu . . . sem langar til að sækja samkomur eru hjartanlega velkomnir.“ Síðan þessi tilkynning birtist árið 1880 í nóvemberhefti Varðturns Síonar hafa vottar Jehóva boðið fólki að safnast saman til að fá biblíufræðslu. (Opinb. 22:17) Það er ómissandi hluti sannrar tilbeiðslu.
2 Það er nauðsynlegt að mæta: Það hefur blessun í för með sér að sækja samkomur. Við kynnumst betur Jehóva, hinum einstaka Guði okkar. Söfnuðurinn kemur saman til að fá að læra hjá Jehóva. (Jes. 54:13) Skipulag Guðs heldur uppi óslitinni biblíufræðslu sem dregur okkur nær honum og hjálpar okkur að nota „allt Guðs ráð.“ (Post. 20:27; Lúk. 12:42) Samkomurnar veita persónulega þjálfun í þeirri tækni að kenna orð Guðs. Áminningar úr Ritningunni hjálpa okkur að eiga gott samband við aðra og við Jehóva sjálfan. Það styrkir trú okkar að umgangast þá sem elska Guð. — Rómv. 1:11, 12.
3 Bjóddu þeim skýrt og greinilega: Frá og með fyrstu námsstundinni skaltu bjóða öllum biblíunemendum þínum að koma á samkomur. Gefðu þeim boðsmiða. Vektu áhuga þeirra með því að segja frá því sem þér fannst uppörvandi á síðustu samkomu og nefna sumt af því sem verður farið yfir á næstu samkomu. Lýstu ríkissalnum og gakktu úr skugga um að nemandinn finni hann.
4 Haltu áfram að bjóða nemandanum á samkomur þótt hann byrji ekki að sækja þær þegar í stað. Taktu þér nokkrar mínútur í hverri viku til að sýna honum hvernig skipulagið virkar. Notaðu bæklinginn Sameinaðir í að gera vilja Guðs og myndbandið Jehovah’s Witnesses — The Organization Behind the Name (Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu) til að fræða hann um okkur og samkomurnar. Hafðu aðra boðbera með til að kynna fyrir nemandanum. Þakkaðu Jehóva í bæn fyrir skipulagið og nefndu þörf nemandans á að tengjast því.
5 Hikaðu ekki við að hjálpa áhugasömum að sækja samkomur með okkur. Er þakklæti þeirra eykst finna þeir sig knúna til að fylgja því sem þeir læra og verða hluti af sameinuðu skipulagi Guðs. — 1. Kor. 14:25.