‚Gefðu þig allan‘ að boðuninni
1 Páll postuli vann að tjaldgerð meðan hann bjó í Korintu og ætla mætti að það hafi takmarkað hvað hann gat prédikað mikið. Postulasagan 18:5 segir hins vegar að ‚hann hafi gefið sig allan að boðun orðsins og vitnað fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur.‘ Hvers vegna var Páll svona önnum kafinn við boðunina? Vegna þess að Drottinn hafði staðfest að enn væru fjölmargir tilvonandi lærisveinar í Korintu þótt margir borgarbúar væru búnir að taka trú. (Post. 18:8-11) Við höfum einnig ríka ástæðu til að gefa okkur alla að boðuninni því að enn er hægt að hafa upp á mörgum og kenna þeim sannleikann.
2 Notaðu meiri tíma til boðunarstarfsins í apríl: Þú hefur trúlega einsett þér að vera önnum kafinn við boðun fagnaðarerindisins í hverjum mánuði. En vissir mánuðir eru sérlega hentugir til að ‚gefa sig allan‘ að boðunarstarfinu, til dæmis minningarhátíðarmánuðurinn apríl. Hefurðu getað skapað þér svigrúm núna í vor til að gerast aðstoðarbrautryðjandi eða auka boðunarstarfið? Margir boðberar hafa gert það og hlotið mikla blessun fyrir vikið. (2. Kor. 9:6) Sértu að gera allt sem þú getur skaltu muna að Jehóva er ánægður með heilshugar þjónustu þína. (Lúk. 21:2-4) Hvernig sem aðstæður þínar eru skaltu einsetja þér að ‚gefa þig allan‘ að boðuninni í apríl. Og gleymdu ekki að skila starfsskýrslu í mánaðarlok svo að hægt sé að telja starfsframlag þitt með framlagi annarra þjóna Jehóva.
3 Heimsæktu nýja sem sóttu minningarhátíðina: Í fyrra sóttu 518 minningarhátíðina hér á landi og verður spennandi að sjá hvort við bætum um betur í ár. Skýrslur sýna að góðar horfur eru á enn meiri „uppskeru.“ (Matt. 9:37, 38) Gerðu því ráðstafanir til að heimsækja áhugasama minningarhátíðargesti eins fljótt og auðið er til að hjálpa þeim andlega. Ef við bíðum of lengi gæti ‚hinn vondi komið og rænt orðinu um ríkið sem sáð var í hjarta þeirra.‘ (Matt. 13:19) Tímanleg heimsókn sýnir að þú ‚gefur þig allan‘ að boðuninni.
4 Haltu áfram að aðstoða óvirka: Í febrúar hófst sérstakt átak til að hjálpa óvirkum. Ef ekki hefur tekist að heimsækja alla enn þá ættu öldungarnir að gera sér far um það snemma í apríl. Þeir reyna að komast að því hvert vandamálið sé og hvernig best sé að hjálpa hinum óvirka til að þjóna Jehóva á ný. Þessi kærleiksríka hjálp sýnir að öldungarnir taka alvarlega þá ábyrgð sína að vera ‚hirðar hjarðar Guðs.‘ (1. Pét. 5:2; Post. 20:28) Í Varðturninum á ensku 15. september 1993, bls. 22-23, eru framúrskarandi tillögur um hvernig öldungar geta tekið á fimm dæmigerðum vandamálum hjá óvirkum. Vonandi tekst að virkja suma þeirra á ný í boðunarstarfinu í apríl.
5 Hjálpaðu fleirum að gerast óskírðir boðberar: Eru börn þín hæf til að gerast boðberar fagnaðarerindisins? Hvað um aðra biblíunemendur þína? Aprílmánuður væri kjörinn til að byrja í boðunarstarfinu, að fengnu samþykki öldunganna. Ef nemandinn tekur framförum og hefur lokið námi í Kröfubæklingnum og Þekkingarbókinni má halda náminu áfram í Tilbeiðslubókinni. Markmiðið er að hjálpa honum að fá dýpri skilning á sannleikanum, verða hæfur til að gerast óskírður boðberi og verða síðan vígður og skírður vottur Jehóva. — Ef. 3:17-19; 1. Tím. 1:12; 1. Pét. 3:21.
6 Staðfesta þín og einlægur áhugi á biblíunemandanum getur um síðir hjálpað honum að tileinka sér sannleikann. Vottur nokkur hitti roskin hjón sem þáðu fúslega biblíunámskeið en frestuðu náminu síðan þrjár vikur í röð. Um síðir tókst að koma því af stað en þá afboðuðu þau næstum aðra hverja viku. En að lokum varð eiginkonan hæf til að láta skírast. „Eftir skírnina táraðist hún af gleði,“ segir bróðirinn, „og við hjónin táruðumst líka.“ Já, því fylgir mikil gleði að ‚gefa sig allan‘ að boðuninni.
7 Spádómar Biblíunnar og framvinda heimsmálanna sýnir að langt er liðið á endalokatímann. Núna þarf hver einasti þjónn Guðs að ‚gefa sig allan‘ að því að koma fagnaðarerindinu á framfæri við aðra. Páll postuli fullvissar okkur um að slíkt erfiði sé alls „ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Kor. 15:58.