Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 3.03 bls. 3-6
  • Kappkostaðu það sem gott er

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kappkostaðu það sem gott er
  • Ríkisþjónusta okkar – 2003
  • Svipað efni
  • ‚Flytjum Guðs orð óskorað‘
    Ríkisþjónusta okkar – 2002
  • Segjum öðrum frá fagnaðarerindinu
    Ríkisþjónusta okkar – 2008
  • Haltu áfram að segja frá dásemdarverkum Jehóva
    Ríkisþjónusta okkar – 2004
  • Verður apríl 2000 besti mánuðurinn til þessa?
    Ríkisþjónusta okkar – 2000
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2003
km 3.03 bls. 3-6

Kappkostaðu það sem gott er

1 Við höfum góðar og gildar ástæður til að ‚kappkosta það sem gott er‘ kringum minningarhátíðina árið 2003. (1. Pét. 3:13) Lausnarfórn Jesú Krists er höfuðástæðan. (Matt. 20:28; Jóh. 3:16) Pétur postuli skrifaði þar um: „Þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, . . . heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.“ (1. Pét. 1:18, 19) Þakklæti fyrir þetta einstæða kærleiksverk knýr okkur til að vera önnum kafin við að gera gott, minnug þess að Jesús „gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“ — Tít. 2:14; 2. Kor. 5:14, 15.

2 Þegar við gerum það sem Guð hefur velþóknun á eigum við gott samband við hann og njótum ástar hans og umhyggju. Pétur heldur áfram: „Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, . . . sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum. Því að augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra.“ (1. Pét. 3:10-12) Það er mikil blessun að Jehóva skuli gæta okkar á þessum hættulegu tímum og sé reiðubúinn að beita sér í okkar þágu og ‚varðveita okkur sem sjáaldur auga síns.‘ — 5. Mós. 32:10; 2. Kron. 16:9.

3 Þrátt fyrir andstreymi var kostgæfni hinna frumkristnu óslökkvandi og þeir boðuðu fagnaðarerindið eins víða og þeir framast gátu. (1. Pét. 1:6; 4:12) Hið sama er að segja um þjóna Guðs nú á dögum. Við lifum á erfiðum tímum en engu að síður erum við kostgæfin að gera vilja Jehóva af því að við erum þakklát fyrir gæsku hans. (2. Tím. 3:1; Sálm. 145:7) Lítum á nokkur af þeim góðu verkum sem við leggjum okkur fram við kringum minningarhátíðina.

4 Bjóddu öðrum að sækja minningarhátíðina: Við getum meðal annars sýnt að við séum þakklát fyrir hina einstæðu lausnarfórn Krists með því að sækja minningarhátíðina um dauða hans sem verður haldin á þessu ári eftir sólsetur miðvikudaginn 16. apríl. (Lúk. 22:19, 20) Á síðasta ári var hún haldin í 94.600 söfnuðum um heim allan að viðstöddum 15.597.746 gestum! Það eru ríflega 220.000 fleiri en árið á undan.

5 Hversu margir skyldu sækja minningarhátíðina í ár? Það er að töluverðu leyti undir því komið hve dugleg við erum að hvetja aðra til að koma. Byrjaðu á því að taka saman lista yfir alla sem þig langar til að bjóða. Fjölskyldan ætti að vera efst á blaði. Ef maki þinn er ekki í trúnni skaltu segja honum hve vænt þér þætti um að hann kæmi. Vantrúaður eiginmaður sagðist hafa sótt minningarhátíðina á síðasta ári vegna þess að hann gerði sér ljóst hve mikils virði það væri fyrir konuna hans. Næst gætirðu skrifað niður ættingja, nágranna, vinnufélaga eða skólafélaga. Gættu þess að bjóða örugglega biblíunemendum þínum.

6 Eftir að hafa tekið saman listann skaltu áætla þér tíma til að bjóða öllum persónulega. Notaðu boðsmiðana sem prentaðir hafa verið fyrir minningarhátíðina. Til að auðvelda fólki að muna hvar og hvenær hátíðin fer fram skaltu skrifa það snyrtilega eða vélrita neðst á boðsmiðann. Þegar 16. apríl nálgast skaltu minna þá sem þú bauðst á minningarhátíðina á að koma, annaðhvort símleiðis eða með því að heimsækja þá. Hjálpum eins mörgum og við getum til að vera viðstaddir þessa helgu hátíð.

7 Aðstoðaðu þá sem koma á minningarhátíðina: Hátíðarkvöldið er alltaf spennandi því að þá höfum við tækifæri til að taka á móti fólki sem sækir ekki samkomur að jafnaði. Komdu tímanlega á staðinn og vertu tilbúinn til að doka við eftir samkomuna eftir því sem tök eru á. Eigðu frumkvæði að því að kynnast nýjum sem sækja samkomuna. Vertu hlýlegur og gestrisinn. — Rómv. 12:13.

8 Er hægt að hjálpa sumum, sem eru viðstaddir hátíðina, með formlegu biblíunámskeiði? Reyndu að fá nöfn og heimilisföng gesta, sem eru ekki heimsóttir að jafnaði, til að geta orðið þeim að frekara liði. Sumir gætu verið orðnir óskírðir boðberar fyrir minningarhátíðina á næsta ári ef þeir fá viðeigandi aðstoð. Þegar þú heimsækir þá sem voru viðstaddir hátíðarsamkomuna skaltu bjóða þeim að hlusta á sérræðuna sem flutt verður 27. apríl.

9 Geturðu verið aðstoðarbrautryðjandi í vor? Kostgæfnir þjónar Jehóva leggja sig sérstaklega fram í boðunarstarfinu á vormánuðum ár hvert þegar sérstakt átak er í gangi. Alls tók 31 boðberi þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi í fyrravor. Söfnuðurinn getur látið gott af sér leiða með sameiginlegu átaki í boðunarstarfinu kringum minningarhátíðina.

10 Söfnuður með 107 boðberum og 9 reglulegum brautryðjendum segir að apríl á síðasta ári hafi verið „ótrúlegur mánuður“ því að alls voru 53 aðstoðarbrautryðjendur þann mánuð, þeirra á meðal allir öldungarnir og safnaðarþjónarnir. Hvernig fóru öldungarnir að því að vekja slíkan áhuga á aðstoðarbrautryðjandastarfinu þann mánuðinn? Þeir byrjuðu með góðum fyrirvara að hvetja sem flesta til að sækja um það. Samkomur fyrir boðunarstarfið voru haldnar á ýmsum tímum dags til að koma til móts við þarfir allra í söfnuðinum. Sérstök áhersla var lögð á boðunarstarf í síma, einkum hjá þeim sem áttu ekki heimangengt sökum heilsuleysis.

11 Áttatíu og sex ára gömul systir, sem er ekki göngufær, skráði sig sem aðstoðarbrautryðjanda. Fyrir hádegi notað hún um tvo tíma til að vitna í síma sitjandi við eldhúsborðið. Hún hvíldi sig síðan í nokkrar klukkustundir og hélt svo símastarfinu áfram. Hún komst í samband við konu sem hafði misst mann sinn og tvo unglingssyni á undangengnum tveim árum. Konunni fannst óskiljanlegt að Guð skyldi leyfa svona áföll. Systirin vitnaði fyrir henni og biblíunámskeiði var komið af stað. Síminn er áhrifarík leið til að ná sambandi við fólk sem býr afskekkt eða í húsum þar sem ekki er hægt að banka upp á. Þetta má gera á kvöldin eða á öðrum tímum dags. Og síminn er heppilegur til að ná sambandi við fólk sem er ekki heima á daginn.

12 Öldungarnir luku greinargerðinni þannig: „Þetta var einstaklega ánægjulegur tími og við erum afar þakklátir að Jehóva skuli hafa gefið hverjum og einum okkar þetta tækifæri og blessað okkur með þessum hætti.“ Ef rétt er á málum haldið getur söfnuðurinn þinn hlotið sambærilega blessun.

13 Stefnið að því að allir taki þátt í boðunarstarfinu: Kærleikurinn til Guðs og náungans er okkur hvöt til að kaupa upp tíma í hverjum mánuði til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. (Matt. 22:37-39) Bóknámsumsjónarmenn og aðstoðarmenn þeirra ættu að leggja sig fram um að hjálpa öllum í hópnum að taka þátt í boðunarstarfinu í hverjum mánuði. Gott er að mæla sér mót fyrir fram við ákveðna boðbera í hópnum til að fara saman í boðunarstarfið. Bíðið ekki fram í endaðan mánuðinn heldur byrjið snemma. Þá gefast fleiri tækifæri til að veita þeim viðeigandi aðstoð.

14 Eru boðberar í hópnum sem eiga erfitt með að taka þátt í boðunarstarfinu vegna aldurs eða heilsubrests? Ef einhverjir búa á dvalarheimilum fyrir aldraða eða eiga ekki heimangengt er skiljanlegt að þeir hafi ekki mörg tækifæri til að vitna. En kannski geta þeir vakið áhuga annarra á sannleikanum ef þeir nota þá takmörkuðu möguleika, sem þeir hafa, til að láta ljós sitt lýsa. (Matt. 5:16) Bóknámsumsjónarmenn ættu að sjá um að þessir boðberar viti að þeir megi skrá starfstímann í 15 mínútna þrepum. Það er einkar ánægjulegt og uppörvandi fyrir þessa tryggu boðbera að geta skilað skýrslu um þann tíma sem þeir nota til að vitna fyrir öðrum, og það stuðlar að því að heildarskýrslan um starf þjóna Guðs sé nákvæm.

15 Börn og unglingar leggja sig fram um að gera gott: Það er einkar ánægjulegt að sjá kristin börn og unglinga nota krafta sína í þjónustu Jehóva. (Orðskv. 20:29) Hvað getur þú gert, ef þú ert barn eða unglingur, til að vera kostgæfinn í þjónustu Jehóva á þessum árstíma þegar gert er sérátak í boðunarstarfinu?

16 Geturðu sett þér það markmið að verða óskírður boðberi ef þú ert það ekki enn þá? Spyrðu þig eftirfarandi spurninga: ‚Þekki ég sannleika Biblíunnar í grundvallaratriðum? Langar mig til að taka þátt í þjónustu Guðsríkis? Er hegðun mín til fyrirmyndar? Er ég fær um að segja öðrum frá fagnaðarerindinu með eigin orðum? Finn ég löngun í hjarta mínu til að gera það?‘ Ef þú getur svarað þessum spurningum játandi skaltu ræða við foreldra þína um að þig langi til að verða boðberi. Foreldrarnir geta síðan talað við einn af öldungunum í starfsnefndinni.

17 Ef þú ert orðinn boðberi fagnaðarerindisins gætirðu kannski notað skólafríin til að taka meiri þátt í boðunarstarfinu en áður. Með góðri skipulagningu og með aðstoð foreldra sinna og annarra hafa margir skírðir unglingar getað starfað sem aðstoðarbrautryðjendur. Ef þú hefur ekki tök á því skaltu einsetja þér að taka meiri þátt í boðunarstarfinu en endranær. Settu þér markmið, ekki aðeins að starfa ákveðinn klukkustundafjölda heldur einnig að gera starfinu betri skil. Kannski geturðu lagt þig fram um að lesa ritningarstað við hverjar dyr, bæta endurheimsóknirnar, hefja biblíunámskeið, bæta við þig boðunarstarfi í síma eða einhverjum öðrum þætti starfsins. Hvað um það markmið að fá með þér nágranna, skólafélaga eða ættingja á minningarhátíðina á þessu ári? Það er mjög gefandi fyrir þig að eiga sem mestan þátt í safnaðarstarfinu og það er án efa hvetjandi fyrir aðra líka. — 1. Þess. 5:11.

18 Hjálpaðu nýjum að taka framförum: Á síðasta þjónustuári voru að meðaltali haldin 164 biblíunámskeið á mánuði á Íslandi. Margir biblíunemendanna vígjast Guði og láta skírast þegar fram líða stundir. En til að þeir nái þessu markmiði þurfum við að hjálpa þeim að verða hæfir til að þjóna sem boðberar fagnaðarerindisins. Það er mikilvægur þáttur í því að kenna nýjum að verða lærisveinar Jesú Krists. (Matt. 9:9; Lúk. 6:40) Ertu með biblíunemanda sem er tilbúinn til að stíga þetta skref?

19 Ef þú ert óviss um hvar nemandinn standi geturðu leitað til bóknámsumsjónarmannsins eða starfshirðisins. Kannski geturðu boðið öðrum hvorum að vera með í námsstund. Þessir bræður búa yfir reynslu sem þeir geta notað til að meta framfarir nemandans og geta kannski komið með ábendingar um hvernig hann geti tekið meiri framförum.

20 Talaðu við umsjónarmann í forsæti þegar nemandinn sýnir áhuga á að verða óskírður boðberi og þú telur hann uppfylla skilyrðin. Hann fær þá tvo öldunga til að funda með þér og nemandanum til að kanna hvort hann sé hæfur til að vera boðberi, og þeir styðjast við efni á bls. 98-9 í bókinni Organized to Accomplish Our Ministry (Sjá Varðturninn 1. júní 1989, bls. 29). Ef nemandinn er samþykktur sem boðberi skaltu byrja að þjálfa hann þegar í stað. Söfnuðinum er svo tilkynnt að nemandinn sé óskírður boðberi þegar hann skilar starfsskýrslu. Vonandi geta þúsundir nýrra boðbera, bæði ungir og aldnir, náð þessum mikilvæga áfanga meðan vorstarf safnaðanna er í hámarki.

21 Góð skipulagning skilar góðum árangri: Með góðri skipulagningu á starf safnaðarins kringum minningarhátíðina eftir að skila góðum árangri. (Orðskv. 21:5) Þar er að mörgu að hyggja fyrir öldungana.

22 Öldungarnir þurfa að halda samkomur fyrir boðunarstarfið á hentugum stöðum og tímum, bæði á virkum dögum og um helgar, til að hjálpa söfnuðinum að áorka sem mestu. Starfshirðirinn ætti að eiga frumkvæðið að því að skipuleggja þetta. Væri hægt að halda samansafnanir aukalega að morgni, að áliðnum degi eða snemma kvölds? Látið söfnuðinn vita af því sem er á dagskrá. Gott gæti verið að hengja áætlunina upp á tilkynningatöflu.

23 Öldungarnir ættu að sjá til þess að allt sé vel skipulagt tímanlega fyrir minningarhátíðina 16. apríl. Meðal annars þarf að ákveða hvernig söfnuðir samnýta ríkissalinn ef þeir eru fleiri en einn, láta þrífa salinn, útvega brauð og vín og velja bræður til að bera það fram. Látið söfnuðinn vita hvar minningarhátíðarsamkoman verði haldin og hvenær, og einnig af breytingum sem kynnu að verða á samkomum í vikunni. Ef vel er hugað að öllu þessu verður hægt að halda hátíðina ‚sómasamlega og með reglu.‘ — 1. Kor. 14:40.

24 Þeir sem veita fjölskyldu forstöðu gætu notað hluta af námsstund fjölskyldunnar til að ræða hvernig fjölskyldan geti gert sérstakt átak kringum minningarhátíðina. Getur öll fjölskyldan tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi? Eða getur fjölskyldan stutt einn eða fleiri úr hópnum til þess? Ef það er ekki gerlegt væri gott að fjölskyldan setti sér ákveðin markmið um aukna þátttöku í boðunarstarfinu. Er barn í fjölskyldunni sem hægt væri að hvetja til að verða óskírður boðberi? Hve mörgum getur fjölskyldan boðið til minningarhátíðarinnar í ár? Góð skipulagning verður fjölskyldunni til blessunar og gleði.

25 Notaðu vel þann tíma sem eftir er: Pétur postuli minnti kristna menn á fyrstu öld á að tíminn væri naumur af því að þjóðskipulag Gyðinga var í þann mund að líða undir lok. (1. Pét. 4:7) Nú bendir allt til þess að heimskerfið í heild sé að renna skeið sitt á enda. Daglegt líf okkar ætti að bera vott um þá sannfæringu. Sem þjónar Jehóva ættum við að einbeita okkur kostgæfilega að boðunarstarfinu sem er svo áríðandi. — Tít. 2:13, 14.

26 Látum hendur standa fram úr ermum! Hugleiddu daglega hvað Jehóva hefur gert fyrir þig, fjölskyldu þína og söfnuðinn. Við getum auðvitað aldrei endurgoldið honum allt sem hann hefur gert fyrir okkur, en við getum þjónað honum af allri sálu. (Sálm. 116:12-14) Hann umbunar okkur ef við leggjum okkur alla fram. (Orðskv. 10:22) ‚Kappkostum það sem gott er‘ á þessu sérstaka starfstímabili þannig að „Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist.“ — 1. Pét. 3:13; 4:11.

[Rammi á blaðsíðu 3]

Aðsókn að minningarhátíðinni um heim allan

1999 14.088.751

2000 14.872.086

2001 15.374.986

2002 15.597.746

[Rammi á blaðsíðu 4]

Hverjum ætlar þú að bjóða á minningarhátíðina?

□ Fjölskyldu og ættingjum

□ Nágrönnum og kunningjum

□ Vinnu- og skólafélögum

□ Áhugasömum og biblíunemendum

[Rammi á blaðsíðu 5]

Aðstoðaðu þá sem sækja minningarhátíðina

□ Bjóddu þá velkomna

□ Heimsæktu þá á eftir

□ Bjóddu þeim biblíunámskeið

□ Bjóddu þeim á sérræðuna

[Rammi á blaðsíðu 6]

Hvaða markmið hefurðu sett þér?

□ Fá einhvern með á minningarhátíðina

□ Verða hæfur sem boðberi fagnaðarerindisins

□ Vera vissan klukkustundafjölda í boðunarstarfinu

□ Bæta mig á einhverju sviði í boðunarstarfinu

□ Vera aðstoðarbrautryðjandi

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila