Landsmótin eru gleðihátíð
1 Mót votta Jehóva eru miklar gleðihátíðir. Í meira en öld hafa þau stuðlað drjúgum að vexti skipulagsins. Byrjunin var smá í sniðum en við höfum séð Jehóva blessa alþjóðastarf okkar ríkulega. Fyrsta stórmótið í nútímasögu okkar var haldið í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum árið 1893. Þar voru 360 viðstaddir og 70 létu skírast til tákns um vígslu sína til Jehóva. Samanlögð aðsókn að landsmótaröðinni „Gerendur orðsins“ á síðasta ári var 9.454.055, og 129.367 létu skírast. Þetta er mjög gleðilegt.
2 Allt frá biblíutímanum hefur Jehóva Guð kallað fólk sitt saman til að kenna því. Á dögum Esra og Nehemía hlýddi fólkið á upplestur úr lögmálinu „frá birtingu til hádegis.“ (Neh. 8:2, 3) Og gleggri skilningur á lögmálinu varð tilefni ‚mikillar gleðihátíðar‘ á þeim tíma. (Neh. 8:8, 12) Við gleðjumst líka yfir þeirri góðu fræðslu, sem mótin bjóða upp á, og yfir andlegu fæðunni sem Jehóva lætur hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ bera fram „á réttum tíma.“ (Matt. 24:45) Jesús sagði að maðurinn lifði „á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ Mótin eru þess vegna mikilvægur þáttur í andlegri velferð okkar. — Matt. 4:4.
3 Það er mikið á sig leggjandi til að sækja mót! Við ættum öll að setja okkur það markmið að vera viðstödd landsmótið „Kennarar orðsins“ frá upphafi til enda. Gerum ráðstafanir til að koma tímanlega á mótsstað alla dagana og vera þar uns við segjum „amen“ á eftir lokabæninni. Þetta getur kostað svolitla skipulagningu. Við þurfum að leggja drög að því að fá frí úr vinnu til að sækja mótið, svo að það er gott að eiga inni einhverja orlofsdaga til þessara nota ef hægt er. Við megum ekki láta hendingu ráða hvort við náum að sækja allt mótið. Ef okkur vantar gistingu eða far á mótið skulum við undirbúa það tímanlega. Það er mikið á sig leggjandi til að vera viðstaddur allt mótið.
4 Þjónar Jehóva sjá ekki eftir þeim peningum sem það kostar að sækja mót. Sumir lögðu til dæmis mikið á sig til að sækja alþjóðamótið „Vilji Guðs“ í New York árið 1958. Bróðir nokkur, sem var byggingarverktaki, lagði niður starfsemi í hálfan mánuð svo að hann gæti boðið fram aðstoð sína og sótt mótið. Bróðir á Meyjaeyjum seldi tvo hektara lands til að öll fjölskyldan, sex manns, gæti sótt mótið. Ung hjón seldu vélbát, sem þau áttu, svo að þau gætu verið viðstödd mótið ásamt þrem börnum sínum sem voru á aldrinum tveggja mánaða til sjö ára. Þrem blóðbræðrum í Kaliforníu var sagt að það væri þýðingarlaust fyrir þá að mæta aftur til vinnu ef þeir tækju sér frí. En þeir létu það ekki aftra sér frá því að sækja þetta ógleymanlega mót.
5 Jehóva launar okkur fyrir einlæga viðleitni: Jehóva tekur eftir viðleitni þjóna sinna og blessar þá fyrir. (Hebr. 6:10) Þeir sem voru viðstaddir mótið „Vöxtur guðræðisins“ árið 1950 heyrðu tímamótaræðuna „Ný heimskerfi.“ Bróðir Frederick Franz vakti óskiptan áhuga og athygli allra er hann spurði: „Myndi það ekki gleðja gesti þessa alþjóðamóts að heyra að margir af tilvonandi höfðingjum nýju jarðarinnar eru á meðal okkar hér í kvöld?“ Við gleðjumst enn, 50 árum síðar, yfir þessum bætta skilningi á Sálmi 45:17.
6 Þakklátur fjölskyldufaðir skrifaði eftir umdæmismótið á síðasta ári: „Bræður, þið gerið ykkur líklega ekki í hugarlund hvílíkur lífgjafi þetta mót hefur verið. Við fjölskyldan fluttumst í borgina vegna atvinnu en þá tók að halla undan fæti hjá okkur andlega. . . . Við vanræktum kristnar skyldur okkar og hættum jafnvel að sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. . . . Þetta mót hefur gefið okkur nýjan kraft og við erum farin að setja okkur andleg markmið á nýjan leik og skipuleggja okkur til að ná þeim.“
7 Jehóva veitir okkur þá andlegu fæðu sem við þörfnumst. Mótin eru eins og andlegar veislur. Við ættum að meta þau svo mikils að við getum tekið undir með Kornelíusi sem sagði þegar Pétur postuli heimsótti hann: „Nú erum vér hér allir fyrir augsýn Guðs til að heyra allt, sem [Jehóva] hefur boðið þér.“ (Postulasagan 10:33) Setjum okkur það markmið að vera „fyrir augsýn Guðs“ alla dagskrána á landsmótinu „Kennarar orðsins“ á þessu ári og njóta þessarar gleðihátíðar.