Landsmótið 1999, „Spádómsorð Guðs“
1 Rétt áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið hvatti Móse þá til að meta fræðslu Guðs að verðleikum. Hann sagði þeim: „Það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar.“ (5. Mós. 32:45-47) Erum við ekki þakklát fyrir að líf okkar skuli vera svo dýrmætt í augum Jehóva að hann heldur áfram að láta orð sitt leiða okkur? Við bíðum þess vegna í ofvæni eftir landsmótinu „Spádómsorð Guðs,“ sem haldið verður 6.-8. ágúst 1999 í Íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi, og öllu því sem hann hefur látið undirbúa handa okkur.
2 Þú hefur án efa þegar gert ráðstafanir til að vera viðstaddur hvern mótsdag af því að þú trúir að Jehóva vænti þess af þér. Þú getur verið viss um að hann sjái hvað þú leggur á þig og hvaða fórnir þú færir til að sækja mótið. Hann gleymir ekki slíkri viðleitni. (Hebr. 6:10) Með því að sækja mótið hvern dag, allt frá upphafssöng til lokabænar, sýnum við Jehóva að orð hans er okkur mikils virði. (5. Mós. 4:10) Við sýnum líka að við erum þakklát fyrir þá miklu vinnu sem margir bræður leggja í undirbúning mótsins.
3 Það krefst góðrar skipulagningar að safna fólki Guðs saman í hundraðatali á umdæmismót. Sú vitneskja að ráðstafanir hafa verið gerðar til að við getum haldið mót ætti að hvetja okkur til að vera samstarfsfús svo að „allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Kor. 14:40) Eftirfarandi upplýsingar og áminningar eiga að hjálpa þér að búa þig undir að sækja mótið og njóta þar góðs af andlegri fæðu og kristinni samveru.
Fyrir mótið
4 Þurfa biblíunemendur þínir og aðrir áhugasamir aðstoð við að komast á mótið? Það sem þeir sjá þar og heyra gæti hvatt þá til að gerast tilbiðjendur Jehóva. (1. Kor. 14:25) Öldungar ættu að vera vakandi fyrir því hvort einhverjir þurfi aðstoð við að útvega sér gistingu eða far, einkum rosknir safnaðarmenn, og sýna þeim þann kærleika að sjá til þess að þörfum þeirra sé sinnt. (Gal. 6:10) Þeir sem þurfa á gistingu að halda skulu hafa samband við umsjónarmann í forsæti í heimasöfnuði sínum.
5 Þér bjóðast líklega tækifæri til að bera óformlega vitni á leið til og frá mótsstaðnum. Ætlarðu að vera undir það búinn að segja öðrum frá sannleikanum? Við getum öll, þar með talin börnin, reynt að bjóða smárit, meðal annars bensínafgreiðslumönnum, starfsfólki verslana og veitingahúsa og öðrum sem við hittum á ferðum okkar. Eins verða tækifæri til að bjóða áhugasömu fólki blöð, bæklinga eða önnur rit. Vertu reiðubúinn að bera óformlega vitni fyrir fólki sem gæti orðið útundan í hefðbundnu boðunarstarfi.
Á mótinu sjálfu
6 Komið tímanlega á mótið hvern dag. Takið aðeins frá sæti fyrir nánustu ættingja og þá sem eru ykkur samferða til mótsstaðarins. Sum sæti eru aðgengilegri en önnur. Vinsamlegast sýnið þá tillitssemi að láta öldruðum og hreyfihömluðum þau eftir. Gætið þess hvern dag að hafa alla persónulega muni meðferðis af mótsstaðnum.
7 Ákveðinn staður í salnum verður afmarkaður fyrir barnavagna og barnakerrur. Hafið slíkan búnað EKKI annars staðar á áheyrendasvæðinu. Fara skal mjög varlega við akstur slíkra tækja um mótsstaðinn. Börnum er ekki leyfður slíkur akstur. Garðstóla má taka með ef þeirra er raunverulega þörf, en aðeins má staðsetja þá í samráði við salarverði svo að það trufli ekki umferð fólks um salinn. Mörgum hefur fundist gott að taka með sér stólsessur. Þær hafa oft komið í veg fyrir að mótsgestir hafi þurft að fara fram til að rétta úr sér. Samvinna ykkar skiptir máli og er mikils metin.
8 Ætlarðu að láta skírast á mótinu? Á laugardagsmorguninn verða sæti frátekin fremst í salnum fyrir skírnþega. Sé þess nokkur kostur eiga skírnþegar að vera komnir í sætin áður en morgundagskráin hefst. Hafið meðferðis biblíu, söngbók, handklæði og smekkleg sundföt. Bolir með slagorðum, afklipptar gallabuxur og þess háttar klæðnaður er óviðeigandi við virðulega athöfn sem þessa. Öldungar, sem fara yfir skírnarspurningarnar í ritinu Grundvallarkenningar Biblíunnar með væntanlegum skírnþegum, eiga að fullvissa sig um að sérhver skírnþegi skilji hvað átt sé við með smekklegum sundfötum. Þar eð skírnin er tákn um persónulega vígslu til Jehóva Guðs er óviðeigandi að skírnþegar haldist í hendur meðan þeir eru skírðir.
9 Leyfilegt er að nota myndavélar og upptökutæki á mótinu. Ekki má staðsetja þau þannig að þau hamli umferð, skyggi á útsýni annarra eða trufli þá sem fylgjast með dagskránni. Tækin má ekki tengja við raf- eða hljóðkerfi hússins.
10 Ákveðið svæði í mótssalnum er ætlað fólki með skerta heyrn. Með sérstakri tækni er hægt að magna dagskrána upp til að heyrnarskertir njóti góðs af henni. Salarverðir vísa mótsgestum á þetta svæði.
11 Notkun farsíma færist stöðugt í vöxt. Vinsamlegast gættu þess að þeir trufli ekki einbeitingu þína eða annarra umhverfis þig. Láttu ekki heyrast hringingu eða píp í farsíma eða boðtæki meðan þú situr inni í áheyrendasal. Ef nota þarf farsíma meðan á dagskrá stendur skal gera það utan áheyrendasalarins.
12 Til að einfalda hlutina og spara tíma hefur Félagið beðið okkur um að koma með eigið nesti á mótsstað dag hvern. Flestir bræður hafa gert það. Í stað þess að arka út í bæ í leit að mat hafa þeir getað sest strax að snæðingi með fjölskyldum sínum í hádegishléinu, borðað nestið sem þeir hafa haft meðferðis fyrir daginn, notið þess að slaka á og haft tíma til að spjalla við bræður og systur. Til að þetta sé unnt þarf að vera búið að kaupa matvæli og drykkjarföng og setja í ílát eða kælibox sem koma má fyrir undir sætum á mótsstað. Við förum þess á leit við mótsgesti að þeir fylgi þessum leiðbeiningum og komi með nesti og drykkjarföng fyrir sig hvern dag. Áhugasamt fólk, sem er okkur samferða á mótið, getur líka haft með sér nesti. Hafa skal í huga að óleyfilegt er að koma með glerílát eða áfenga drykki á mótsstað.
13 Hefurðu tök á að hjálpa við þrifin eftir dagskrárlok hvern dag? Eða geturðu unnið við einhverja aðra þjónustudeild á mótinu? Ef þú sérð þér það fært skaltu hafa samband við Sjálfboðadeildina og skrá þig á lista sem liggja mun frammi hjá bókadeildinni á mótsstaðnum. Vinnuframlag barna yngri en 16 ára getur líka komið að góðum notum, en þau þurfa að vinna undir umsjón foreldra sinna eða annars fullorðins boðbera. Allir geta auðvitað lagt sitt af mörkum til að halda mótsstaðnum hreinum með því að tína upp rusl og þess háttar sem þeir sjá liggja á gólfinu.
14 Við höfum fengið afbragðsráðleggingar um hvað sé viðeigandi klæðnaður og snyrting á mótum okkar. Við höfum leiðbeiningar um það í viðaukum Ríkisþjónustu okkar, við höfum myndirnar í ritum okkar og það sem mikilvægast er, við höfum það sem Jehóva segir í Biblíunni. (Rómv. 12:2; 1. Tím. 2:9, 10) Fólk veit hver við erum og hvers vegna við fjölmennum í mótsbænum. Þess vegna gefur klæðnaður okkar og snyrting kröftugan vitnisburð. Meirihluti þjóna Jehóva er til fyrirmyndar að þessu leyti. En stundum sjáum við anda heimsins endurspeglast í klæðaburði og hártísku sumra mótsgesta. Þröng, næfurþunn eða flegin föt af hvaða tagi sem er vekja efasemdir um að þarna sé á ferð andlegur einstaklingur. Hreint, látlaust og snyrtilegt útlit er það sem er mest aðlaðandi. Fjölskyldufeður ættu þess vegna að gefa því gaum hverju fjölskyldan hyggst klæðast. Þetta á einnig við utan mótsstaðarins. Með því að hafa barmmerkin á okkur fyrir og eftir dagskrá sýnum við enn frekar að við tilheyrum Jehóva og hreinu fólki hans. — Samanber Markús 8:38.
15 Hinum vitra Salómon konungi var blásið í brjóst að skrifa að ‚fíflska sitji föst í hjarta sveinsins‘ og að ‚agalaus sveinn geri móður sinni skömm.‘ (Orðskv. 22:15; 29:15) Of mikið hefur borið á hlaupum og ólátum barna í dagskrárhléum, bæði inni á mótsstaðnum og á lóðinni fyrir utan. Leggið kapp á að koma í veg fyrir slíkt, bæði með leiðbeiningum áður en komið er á mótsstaðinn og eins með virku eftirliti með börnum ykkar allan þann tíma sem dvalið er þar. Meðan á dagskrá stóð í fyrra sáust hópar unglinga rápa um og safnast saman hjá fatahengjum í búningsklefum og á göngum. Það er greinilegt að þessir unglingar höfðu lítið sem ekkert gagn af andlegu fræðslunni sem hafði verið samin sérstaklega með þá í huga. Foreldrar bera ábyrgð gagnvart Jehóva á hegðun barna sinna. Þeir geta best tryggt að börnin séu prúð og hlusti á leiðbeiningar Jehóva ef þau sitja hjá þeim. Salarverðir munu gefa sig á tal við hvern þann sem veldur truflun, biðja hann um að hætta því og benda honum vingjarnlega á að fylgjast með dagskránni.
16 Þar eð öllum almenningi er boðið að sækja mótin er skynsamlegt að gefa gætur að börnum sínum og eigum. Börnin eru dýrmæt gjöf frá Jehóva. Heimurinn endurspeglar aftur á móti rándýrseðli Satans. Við ættum því að vita hvar börn okkar eru öllum stundum. Skiljið alls ekki verðmæti eða skilríki eftir í yfirhöfnum í fatahengi og ekki heldur í sætum ykkar. Gangið úr skugga um að bíllinn sé læstur og engin verðmæti séu í sjónmáli til að freista innbrotsþjófa.
17 Það er uppörvandi að sjá bræður og systur skrifa hjá sér minnispunkta meðan á dagskrá stendur. Stuttir minnispunktar hjálpa manni að einbeita sér og muna eftir aðalatriðunum. Síðar má rifja efnið upp með fjölskyldunni eða vinum og hugleiða það sem hæst bar á mótinu svo að það falli ekki í gleymsku.
18 Fólk Jehóva hefur alltaf lagt örlátlega fram til guðræðislegra mála. (2. Mós. 36:5-7; 2. Kron. 31:10; Rómv. 15:26, 27) Frjáls framlög ykkar til alþjóðastarfsins eru notuð til að standa undir kostnaði við allt mótshaldið. Þess er vandlega gætt að öll framlög séu í öruggum höndum, skráð niður og rétt notuð. Rausnarleg framlög ykkar á mótinu eru mikils metin.
19 Í Amosi 3:7 segir Jehóva að hann geri „ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ Jehóva er „opinberari leyndra hluta“ og hefur látið skrá hundruð spádóma í Biblíuna sem hafa uppfyllst nákvæmlega og að fullu. (Dan. 2:28, 47) Stórkostleg fyrirheit eiga enn eftir að rætast. Landsmótið 1999, „Spádómsorð Guðs,“ mun styrkja trú þína á fyrirheit hans. Hlustaðu vandlega á það sem orð Jehóva segir þér. Tileinkaðu þér það sem þú færð að sjá og heyra — í boðunarstarfinu, söfnuðinum og einkalífi þínu. Við biðjum þess að Jehóva blessi áform þín um að sækja alla mótsdagana þrjá og njóta góðs af þessari ríkulegu andlegu veislu.
[Innskot á blaðsíðu 3]
Einsettu þér að vera viðstaddur allan föstudaginn, laugardaginn og sunnudaginn!