„Við höfum farið margsinnis yfir svæðið okkar!“
1 Finnst þér stundum að það sé farið svo oft yfir svæðið þitt að það geti ekki verið neinir sauðumlíkir menn eftir á því? ‚Ég veit hvernig fólk á eftir að bregðast við,‘ hugsar þú kannski. ‚Af hverju erum við að fara aftur til þeirra sem hafa ekki áhuga?‘ Þótt farið sé oft yfir sum svæði þá ættum við að líta á það sem eitthvað gott en ekki slæmt. Af hverju? Hér fyrir neðan eru gefnar fjórar ástæður fyrir því.
2 Bænum okkar hefur verið svarað: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir,“ sagði Jesús. „Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:2) Í áratugi höfum við beðið Jehóva um meiri hjálp. Víða eru verkamennirnir orðnir nógu margir og við förum oftar yfir svæðið en áður. Ættum við ekki að gleðjast yfir því að Jehóva skuli hafa svarað bænum okkar?
3 Þrautseigja ber góðan ávöxt: Jafnvel þar sem oft er starfað hlustar fólk á boðskapinn um ríkið og kynnist sannleikanum. Við ættum því að fara aftur og aftur yfir svæðið í von um að finna fleiri réttsinnaða menn. (Jes. 6:8-11) Gerðu eins og lærisveinar Jesú á fyrstu öldinni og haltu áfram að fara til fólksins á svæðinu þínu og reyndu að vekja áhuga þess á ríki Guðs. — Matt. 10:6, 7, NW.
4 Í Portúgal finnast enn réttsinnaðir menn þó að sumir söfnuðir fari yfir svæðið í hverri viku. Ein systir hefur sérstaklega jákvætt hugarfar. Hún segir: „Á hverjum morgni áður en ég fer í starfið bið ég Jehóva að hjálpa mér að finna einhvern sem hefur áhuga á að nema Biblíuna.“ Einn daginn var ákveðið að hún héldi biblíunámskeið fyrir starfsfólk hárgreiðslustofu. Aðeins ein kona mætti síðan í námið en hún sagði: „Ég hef áhuga þó að hinir hafi það ekki.“ Tæpum mánuði seinna var hún sjálf farin að stjórna tveimur biblíunámskeiðum. Fljótlega eftir það skírðist hún og seinna varð hún brautryðjandi.
5 Verkið er unnið: Nú er verið að prédika fagnaðarerindið alveg eins og Jesús spáði. (Matt. 24:14) Jafnvel þar sem fólk ‚vill eigi hlýða á okkur‘ er boðunarstarfið leið til að vara það við. Við gerum ráð fyrir að sumir séu ekki móttækilegir eða jafnvel andsnúnir sannleikanum. En það verður samt að vara þá við komandi dómi Jehóva. — Esek. 2:4, 5; 3:7, 8, 19.
6 Starfinu er enn ekki lokið: Það er ekki okkar að ákveða hvenær boðunarstarfinu lýkur. Jehóva veit nákvæmlega hvenær það verður. Hann veit hvort einhverjir á svæðinu okkar eiga enn eftir að taka við fagnaðarerindinu. Sumir segjast kannski ekki hafa áhuga en róttækar breytingar í lífi þeirra, eins og atvinnumissir, alvarleg veikindi eða ástvinamissir, geta seinna gert þá móttækilegri. Margir hafa í rauninni aldrei heyrt boðskap okkar því að þeir hafa of mikla fordóma eða eru of uppteknir til að hlusta á okkur. Endurteknar heimsóknir og vingjarnlegt viðmót fær þá kannski til að gefa okkur gaum og hlusta á okkur.
7 Ungt fólk, sem nýlega hefur stofnað eigið heimili, er farið að hugsa meira um lífið og tilveruna og bera fram spurningar sem aðeins orð Guðs getur svarað. Ung kona, sem bauð vottum inn til sín, sagði til dæmis: „Þegar ég var lítil skildi ég ekki hvers vegna mamma vísaði vottunum á bug og sagðist ekki hafa áhuga þegar þeir vildu bara tala við hana um Biblíuna. Ég ákvað að þegar ég væri orðin fullorðin, gift og ætti eigið heimili ætlaði ég að bjóða vottum Jehóva inn og biðja þá að segja mér frá Biblíunni.“ Vottarnir, sem heimsóttu hana, voru mjög ánægðir með ákvörðun hennar.
8 Geturðu náð betri árangri? Það er ekki alltaf fólkið á svæðinu sem gerir það að verkum að okkur finnst erfitt að fara oft yfir svæðið. Stundum erum það við sjálf. Erum við neikvæð til að byrja með? Það getur haft áhrif á framkomu okkar og líklega á raddblæ okkar og svipbrigði. Vertu jákvæður og vingjarnlegur. Prófaðu nýja aðferð, hafðu kynninguna breytilega og reyndu stöðugt að bæta hana. Þú getur kannski breytt byrjunarspurningunni eða fléttað öðrum ritningarstað inn í samræðurnar. Spyrðu bræður og systur hvað hafi reynst vel hjá þeim þegar þau fara yfir svæðið. Starfaðu með mismunandi boðberum og brautryðjendum og taktu eftir því hvað gerir boðunarstarf þeirra árangursríkt.
9 Boðunarstarfið hefur velþóknun Jehóva og nýtur blessunar hans. Ef við tökum þátt í því sönnum við kærleika okkar til hans og til náungans. (Matt. 22:37-39) Við skulum því fullna verkið og fara aftur og aftur yfir svæðið án þess að þreytast.