Hafðu enn meiri gleði af boðunarstarfinu
1 Hefur þú ánægju af því að koma fagnaðarboðskapnum á framfæri við aðra? Ef við gætum okkar ekki gæti þessi illi umheimur gert okkur treg til að prédika og það gæti orðið til þess að við misstum gleðina af boðunarstarfinu. Það getur líka verið letjandi að prédika á starfssvæði þar sem fáir sýna áhuga. En hvað getum við gert til að hafa meiri gleði af boðunarstarfinu?
2 Vertu jákvæður: Það er mikil hjálp í því að hafa alltaf jákvætt viðhorf. Ein leið til þess er að hugsa um það einstaka tækifæri sem við höfum til að vera „samverkamenn Guðs.“ (1. Kor. 3:9) Jesús er líka með okkur í þessu starfi. (Matt. 28:20) Og hann styður okkur með hersveitum engla. (Matt. 13:41, 49) Við getum því verið fullviss um að við njótum handleiðslu Guðs. (Opinb. 14:6, 7) Hvernig svo sem menn bregðast við starfi okkar er fögnuðurinn mikill á himni.
3 Undirbúðu þig vel: Góður undirbúningur stuðlar líka að gleði. Það þarf ekki að vera mikil vinna að búa sig undir boðunarstarfið. Það tekur bara nokkrar mínútur að finna umræðuefni í nýjustu blöðunum eða ritatilboði mánaðarins. Veldu kynningu úr rammagreininni „Hvað geturðu sagt um blöðin?“ í Ríkisþjónustu okkar. Flettu upp í viðaukanum fyrir janúar 2002 „Kynningartillögur fyrir boðunarstarfið“ eða leitaðu að áhrifamikilli kynningu í Rökræðubókinni. Ef húsráðendur koma oft með ákveðna mótbáru sem kemur í veg fyrir að þú getir haldið áfram skaltu undirbúa svar sem tekur mið af því sem þeir sögðu og beinir athyglinni að áhugaverðu efni. Rökræðubókin getur hjálpað okkur mikið á þessu sviði. Ef við notum þessi hjálpargögn fáum við það sjálfstraust sem við þurfum til að prédika með gleði.
4 Biddu einlæglega: Bænin er grundvöllur að varanlegri gleði. Þar sem við erum að vinna verk Jehóva verðum við að biðja einlæglega um anda hans, og gleði er einn ávöxtur andans. (Gal. 5:22) Jehóva gefur okkur styrk til að halda áfram að prédika. (Fil. 4:13) Ef við tölum um boðunarstarfið í bænum okkar hjálpar það okkur að hafa rétt viðhorf þegar við verðum fyrir erfiðri reynslu. (Post. 13:52; 1. Pét. 4:13, 14) Ef við finnum fyrir kjarkleysi getur bænin hjálpað okkur að sýna þrautseigju með gleði og djörfung. — Post. 4:31.
5 Skapaðu þér tækifæri: Boðunarstarfið er auðvitað ánægjulegra þegar við hittum fólk og getum vitnað fyrir því. Þú sérð kannski meiri árangur ef þú breytir til og ferð á öðrum tímum í boðunarstarfið hús úr húsi, til dæmis síðla dags eða snemma kvölds. Þú hittir fólk í hvert sinn sem þú gengur niður götuna, ferð að versla, röltir um í almenningsgarðinum eða ferð í strætó. Þú gætir búið þig undir að koma af stað samræðum og síðan tekið frumkvæðið og farið að tala við þá sem virðast vera vingjarnlegir. Kannski vinnur þú á veraldlegum vinnustað eða ert í skóla og talar því við aðra á hverjum degi. Þú gætir fengið tækifæri til að vitna með því að hefja máls á biblíulegu umræðuefni sem vekur áhuga. Góðar tillögur er að finna á forsíðu Ríkisþjónustu okkar fyrir janúar 2002. Þetta gæti hjálpað okkur að hafa enn meiri gleði af boðunarstarfinu.
6 Það er alveg nauðsynlegt að halda áfram að vera glöð því að gleðin hjálpar okkur að vera þolgóð. Ef við gerum það uppskerum við mikil laun þegar þessu einstæða starfi lýkur. Sú von getur líka gert boðunarstarfið enn gleðilegra. — Matt. 25:21.